13.05.1981
Efri deild: 98. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4286 í B-deild Alþingistíðinda. (4404)

283. mál, lagning sjálfvirks síma

Salome Þorkelsdóttir:

Herra forseti. Það er ánægjulegt að fram kemur hér að skilningur hv. þm. á 2. gr. og gildistöku hennar er sá, að það fari saman við gildistöku laganna, þ. e. að hún taki þegar gildi á þessu ári. Komið hefur hér fram að það hafa verið mikil vonbrigði úti á landsbyggðinni hvað seint hefur gengið að koma sjálfvirkum síma á úti í dreifbýlinu og ekki síst þar sem loforð um framkvæmdir hafa verið svikin hvað eftir annað. Heimamenn hafa verið tíðir gestir hjá póst- og símamálastjóra og starfsmönnum hans. Þeir koma þar næstum daglega, bjóða jafnvel fram lánsfjármagn, en ekkert gengur. Það eru ekki nema nokkrar vikur síðan ég gerði fsp. hjá hæstv. samgrh. um framkvæmdir sjálfvirka símans í Kjósarhreppi sem hér er efstur á blaði samkv. frv. Hann hafði lofað framkvæmdum á þessu ári, hafði gefið þau fyrirheit í apríl 1980, upplýsti svo nú að ekkert yrði af vegna þessa niðurskurðar sem hefði orðið á árinu 1980. Nú verður að vænta þess, að óhætt sé að treysta því að það fari að sjá fyrir endann á þessum málum og að þetta frv., þegar að lögum er orðið, verði þá framkvæmt eins og gert er ráð fyrir, það verði staðið við þessar áætlanir.