14.05.1981
Efri deild: 100. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4360 í B-deild Alþingistíðinda. (4433)

288. mál, Landakaupasjóður kaupstaða og kauptúna

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég andmæli því mjög sterklega að þessi brtt. lúti að málvöndun eða málbótum. Tæpast mundi hvarfla að nokkrum þm. að breyta heiti á hugsanlegum skipakaupasjóði yfir í skipkaupasjóð. Hér er um að ræða eðlilega orðmyndun þar sem til þess er slægst að hafa sérhljóða í milli í samsettum orðum. Ég hlýt að líta svo á, að þessi brtt. um heiti stafi af ótta hv. nm. við það, að í vitund almennings verði þessu máli með einum eða öðrum hætti ruglað saman við nýlegt sakamál sem upp hefur komist um á suðvestanverðu landinu, og er nú fremur þeirrar skoðunar að við ættum að ætla fólki okkar þá greind að geta skilið þar á milli.