15.05.1981
Sameinað þing: 83. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4439 í B-deild Alþingistíðinda. (4487)

108. mál, samkeppnisstaða íslendinga

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég þakka hv. 4. þm. Suðurl. fyrir þau svör sem hann gaf mér við spurningu minni, sérstaklega að hann skuli staðfesta að hér ríki einokun á útflutningi á íslenskum afurðum. (GS: Ekki er það nú alveg rétt hjá þér.) Ég tel sem sagt að sú einokun standi í vegi fyrir eðlilegri markaðsöflun á afurðum okkar Íslendinga. Vandamálið er heima fyrir, en alls ekki annars staðar. Ég vil líka benda á að það kemur í veg fyrir að ungir og áhugasamir menn fái að starfa að útflutningi, að öflun nýrra markaða. Ef nýir markaðir verða fundnir verða gjaldeyristekjur okkar ekki eins háðar sveiflum á þeim fáu mörkuðum sem við höfum nú.

Ég minntist á það í ræðu áður, að tiltölulega lítill vöxtur verðbólgu í Bandaríkjunum s. 1 ár varð til þess, að sala á afurðum okkar þar minnkaði mjög mikið því að laun eru ekki bundin vísitölu þar og fiskafurðir okkar í dýrara lagi, eftir því sem mér var sagt þar.

Ég held að það sé okkur ekki síður nauðsynlegt en öðrum þjóðum, og það stærri þjóðum en við erum, að markaðsöflun á útflutningsafurðum okkar sé jafnfrjáls frá landinu og markaðsöflun stórvelda og yfirleitt allra þjóða er frjáls hér á landi. Við sjáum að yfirleitt öll þau ríki, sem hafa stjórnmálasamband við Ísland, hafa hér verslunarfulltrúa, fyrst og fremst umboðsmenn til að selja sínar framleiðsluvörur til að tryggja velmegun, tryggja atvinnu í heimalandinu. Þó að íslensku markaðurinn sé ekki stór munar um hverja gjaldeyrisviðbót.

Því, sem kom fram hjá hv. frsm. um innflutning og gróðahyggju og fleira, hirði ég ekki um að svara. Það tilheyrir ekki umr. um þetta mál. En mér finnst eins og lífsskoðanir stangist á. Oft er það svo, að ef einstaklingur bjargar sér í einhverjum viðurkenndum atvinnuvegi þjóðarinnar og þjóðanna og hefur sæmilegar tekjur, kannske heldur meira en launþegi, en veitir þó öðrum töluverða atvinnu, er hann allt í einu orðinn vondur maður, óalandi og óferjandi. Allt á að vera á vegum hins opinbera. Ég hirði ekki um að svara slíku. Þar stangast á lífsskoðanir og er ekki á dagskrá í umr. um þetta mál að ræða um þær.

Ég vil sem sagt þakka frsm. fyrir að staðfesta það hér á hv. Alþingi að átt hefur sér stað, eins og þar kom fram, að íslenskir útflytjendur hafa selt Norðmönnum íslenskar afurðir til þess að þeir gætu fyllt upp sölukvóta sinn til annarra viðskiptalanda Íslands og orðið þar með til þess að t. d. skreiðarmarkaðurinn í Nígeríu hefur liðið fyrir það. Þetta er alveg ótækt.