11.11.1980
Sameinað þing: 17. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 624 í B-deild Alþingistíðinda. (470)

10. mál, samgöngur um Hvalfjörð

Skúli Alexandersson:

Herra forseti. Hér er til umr. svohljóðandi þáltill.:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að hlutast til um að gerð verði athugun á hagkvæmustu samgönguleiðum um Hvalfjörð.“

Svo sem fram kemur í grg. með till. var starfandi nefnd fyrir um áratug til að athuga þetta mál, og ítarlegt álit þeirrar nefndar birtist í allmikilli bók í sept. 1972. Niðurstaða nefndarinnar varð nánast sú, að samgöngum fyrir Hvalfjörð til og frá Akranesi skyldi haga á þann hátt, sem gert hefur verið á undanförnum árum og nú er gert, og framkvæmdum í vegamálum hagað samkv. því með uppbyggingu góðs vegar í kringum Hvalfjörð.

Því er ekki að neita, að þó að horfið hafi verið að því ráði að halda uppi ferðum með fullkomnari skipakosti en áður milli Akraness og Reykjavíkur og fyrirheit þá gefið um endurbyggingu vegarins fyrir Hvalfjörð voru þó uppi raddir um að leysa hefði átt málið á annan hátt og þá nefnd til brú yfir fjörðinn eða ferjur á annarri leið en á milti Akraness og Reykjavíkur.

Forsendur mála geta breyst og hafa sjálfsagt breyst í þessu máli. Vegna hækkunar orkuverðs hefur arðsemi allra framkvæmda til að stytta leiðina aukist mjög á þessu tímabili. Athugun á þeim þætti einum mundi sjálfsagt kalla á athugun annarra þátta. Við erum með endurskoðun vegáætlunar á tveggja ára fresti, og það verður því varla kölluð nein ofrausn þótt sérstök athugun á leiðinni fyrir Hvalfjörð sé gerð á 10–15 ára fresti.

Einum mikilsverðum þætti samgangna virðast áætlunarmeistarar vegagerðar næstum gleyma, en það er tenging milli byggða innbyrðis í hverjum landshluta. Hjá okkur á Vesturlandi hefur þessi þáttur gleymst svo algerlega í sambandi við samgöngur á milli byggðarlaganna á norðanverðu Snæfellsnesi að í vegamálum hefur bókstaflega ekkert verið gert til nýbygginga frá Fossá við Ólafsvík um Grundarfjörð að vegamótum Stykkishólmsvegar við Skjöld í áraraðir, jafnvel áratugi. (Gripið fram í: Stutt er síðan þar varð bílfært.) Og mjög stutt síðan þar varð bílfært. Guðmundur man að þegar hann var frambjóðandi Sósíalistaflokksins á Vesturlandi var illt að komast þar á milli byggða og alls ekki hægt að komast fyrir Ólafsvíkurenni né fyrir Búlandshöfða.

Mér finnst að í áðurnefndu nál. um samgöngur um Hvalfjörð sé þeim þætti gleymt, að Akranes sé hluti af Vesturlandi og samgöngur um Hvalfjörð eigi að taka mið af því. Mér finnst að grundvallarsjónarmiðið við athugun á þessum samgöngum þurfi fyrst og fremst að vera bættar samgöngur Vesturlands við Akranes með styttri leið en nú er og samtengingu við samgönguleið Akurnesinga við Reykjavík, sem þá tengdist lausn á bættum samgöngum milli Akraness og Reykjavíkur. Það má fara mörgum orðum um nauðsyn þess fyrir byggðir Vesturlands að tengjast Akranesi betur en nú er, ekki aðeins nágrannabyggðir Akraness, heldur allt kjördæmið, en Vestfirðir og Strandir einnig og Norðurland vestra.

Haustið 1971 flutti ég till. hér á hv. Alþ. um endurskipulagningu sérleyfisferða. Í því sambandi ræddi ég um samgöngur við Akranes og sagði þá m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Næststærsti kaupstaður landsins utan Reykjanessvæðisins og Vestmannaeyja, Akranes, er skilinn eftir eins og eyja í úthafi án nokkurra samgangna við það svæði, sem kaupstaðurinn ætti og þyrfti að vera í samgöngutengslum við. Á Akranesi er fullkomið sjúkrahús og mjög góð heilbrigðisþjónusta. Þar er margs konar iðnaður. Akranes býður upp á fjölbreytta verslun, fjölbreyttari en á nokkrum öðrum stað á Vesturlandi. Með bættum samgöngum og þar með stækkuðu viðskiptasvæði gæti verslun, orðið fjölbreyttari og söluumsetningin aukist. Sama er að segja um iðnað o.fl. Slík þróun er mjög æskileg og hagstæð fyrir íbúa Akraness og alla Vestlendinga.“

Þetta, sem ég sagði þá, fyrir um áratug, er allt eins enn, en auk þeirra atriða, sem ég taldi upp þá, er nú kominn fjölbrautaskóli sem þjóna á öllu Vesturlandi, en samgöngur frá Vesturlandi til Akraness hafa heldur versnað á þessu tímabili en þar hafi einhver framþróun orðið.

Ég tel að fyrri nefnd í þessu máli hafi gefið leiðinni yfir eða undir Hvalfjörð frá Innra-Hólmi að Saurbæ innan við Hnausasker eða þar nálægt allt of lítinn gaum. Ég tel að um þá leið eða í nágrenni hennar þurfi framtíðarvegur um Hvalfjörð að vera ef einhverjar breytingar eiga að eiga sér stað frá núverandi samgöngukerfi. Þá um leið yrði Vesturlandsvegur lagður yfir Leirvog hjá Súlunesi, fyrir framan Akrafjall, um Akranes að ferju- eða brúarstað eða gangastað í aðeins 8 km fjarlægð frá Akranesi. Ferjustaður eða leið yfir Hvalfjörð innar með firðinum breytir litlu í þá átt að tengja byggðir Vesturlands saman, mundi jafnvel gera Akranes enn einangraðra miðað við samgöngur við Vesturland en það nú er. Þessari skoðun minni breytir engu það að einhver hafnarmannvirki séu komin að Grundartanga. Ég tel að staðsetning ferju á því svæði sé til lítilla bóta fyrir okkur Vestlendinga og til enn þá minni bóta fyrir samgöngutengingu við Akranes og Reykjavík.

Leið yfir Hvalfjörð á öðrum stað en ég hef hér lagt áherslu á kæmi til með að koma okkur á Vesturlandi til góða að einhverju leyti, og sjálfsagt er hægt að reikna þar á ýmsum stöðum þetta og þetta mikla arðsemi umfram það sem hægt væri að reikna þá teið sem færi yfir Hvalfjörð það utarlega sem tæknilegar og veðurfarslegar aðstæður frekast leyfðu. Því utar við fjörðinn, því hagstæðari yrði þó leiðin jafnan fyrir meginhluta Vesturlands og alla umferð norður og vestur. Það er reyndar ekki um mikinn mun að ræða, en nokkurn þó. Ég tel að þótt horfið verði að því ráði að byggja upp samgönguleið yfir Hvalfjörð með ferjum verði eftir sem áður að byggja góðan veg inn fyrir fjörðinn. Mætti sá vegur vera lengra á veg kominn en nú er, en það er annar kapítuli í umræðum um samgöngumál.

Ég taldi rétt að þessi skoðun mín kæmi fram á hv. Alþ. við þessa umr. um þá till. sem hér er til umr. Sjálfsagt eru skoðanir skiptar milli okkar þm. Vesturl., sem flytjum þessa till., um hvaða leiðir skuli velja, og jafnvel getur sú skoðun verið uppi, að í óbreytta stefnu skuli halda. Við erum þó sammála um að óska þess, að enn verði gerð athugun á þessu máli.

Ég vil taka fram, að þar sem sagt er í tillgr. að gerð verði athugun á hagkvæmustu samgönguleiðum um Hvalfjörð, lít ég svo á, að orðið „hagkvæmustu“ sé breiðrar merkingar og taki til félagslegrar hagkvæmni eigi síður og jafnvel frekar en fjármálalegrar hagkvæmni eða arðsemi.