11.11.1980
Sameinað þing: 17. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 629 í B-deild Alþingistíðinda. (473)

10. mál, samgöngur um Hvalfjörð

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil taka undir þá till. sem hér er flutt á þskj. 11, till. til þál. um samgöngur um Hvalfjörð. Ég tek undir þann stórhug sem kemur fram í grg. En það, sem kemur mér til að standa upp hér og nú, er nokkuð af því sem kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni, 1. þm. Vesturl., um vegagerð almennt.

Ég hef á tilfinningunni að áætlunargerðir, sem gætu hugsanlega komið frá Vegagerðinni núna, væru að verulegum hluta bundnar við þá hefð í vegagerð sem skapast hefur hjá þeirri stofnun. En vegna þess að ég er sammála síðasta ræðumanni um að vegagerð sé, eitt af stærri málum þjóðarinnar og þurfi að hrinda af stað stórhuga framkvæmdum á því sviði vil ég láta koma hér fram það, sem ég hef að vísu áður sagt úr þessum ágæta ræðustól, að ég held að sá stórhugur, sem lýsir sér í tali þm., komi ekki fram í framkvæmdum fyrr en að vegagerð verður staðið á sama hátt og að rafvæðingu landsins, að við vegvæðum landið og stöndum eins að vegvæðingunni og rafvæðingunni. Þá á ég við að gerð verði verklýsing á landinu öllu á þann myndarlega hátt, að almennt útboð á heimsmarkaði gæti farið fram um framkvæmdir og íslenskir verktakar yrðu þá undirverktakar og verkið boðið út eftir að fjármagn hefði verið tryggt með stórláni erlendis til langs tíma. Á þann eina hátt miðar okkur verulega áfram. Ég er ekki að segja að hægt sé að ráða það stóran verktaka að hann geti tekið allt landið undir í einu. En ef eins er staðið að vegvæðingu landsins og rafvæðingu, undirbúningur og öll hönnun verði unnin af Vegagerðinni og síðan fari fram útboð á alþjóðlegum vinnumarkaði, þannig að 4, 5, 6 stórir verktakar gætu unnið samtímis í öllum kjördæmum landsins, þá held ég að við kæmumst eitthvað áfram í þessum málum og hættum að sóa fé í uppbyggingu á sömu vegunum ár eftir ár um land allt. — Ég vildi láta þetta koma fram.

Það getur verið að margur hugsi sem svo: Þetta er of stórt átak. En ég held ekki. Ég held að erlend lántaka til að gera verulegt átak á þennan hátt í vegvæðingu landsins yrði að miðast við að þær tekjur, sem við höfum nú af innflutningi bifreiða, og aðrar tekjur sem nú renna í Vegasjóð, nægi til að standa undir því erlenda láni sem við tækjum til þessa verkefnis, og við yrðum þá að miða lánstímann við þá tekjuliði sem við höfum. Ég held að það ætti ekki að vera íþyngjandi því að allt viðhald og allt það, sem nú fer má segja til einskis í uppbyggingu ár eftir ár eða holufyllingar, kæmi til með að standa undir hinni erlendu lántöku.

En það skemmtilega við vegagerð á Íslandi er að ef Alþingi Íslendinga tekur ekki einhverja ákvörðun í átt við það sem ég hef verið að lýsa hér, þá er ég hræddur um að þegar Alþ. vaknar einn daginn vakni það við þá staðreynd, að Vegagerðin verður búin að leggja varanlega slitfleti langleiðina hringinn í kringum landið undir því yfirskini að hún sé að vinna að tilraunaköflum. Þeir eru orðnir svo margir tilraunakaflarnir að það fer hvað líður að vera nóg að tengja þá saman án þess að Alþingi Íslendinga hafi nokkurn tíma tekið ákvörðun um að ljúka þessum köflum. Þannig fara þeir á skemmtilegan hátt á bak við okkur, embættismennirnir. Þeir eru að ljúka verki fyrir okkur — verki sem við eigum að vinna.

Ég vil taka undir þessa till. Ef fjármagn finnst til að gera verulegt átak í vegagerð á Íslandi og að henni verður staðið á sama hátt, — ég endurtek það, — á sama hátt og við erum að rafvæða landið, þá er sá stórhugur, sem kemur fram í þessari till. og þá sérstaklega grg., sem liggur frammi á þskj. 11, engir draumórar.

Ég verð að segja alveg eins og er, að eftir að hafa ferðast meira um landið á s.l. sumri en ég geri yfirleitt á sumrum er mér betur ljóst en nokkurn tíma áður að vegagerð er eitt af því sem þarfast er í verklegum framkvæmdum á Íslandi. Það þarf einmitt að búa þannig að fólki úti á landi að það geti komist skammlaust á góðum farartækjum á milli bæja.