20.05.1981
Neðri deild: 102. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4761 í B-deild Alþingistíðinda. (4988)

38. mál, kjarasamningar Bandalags starfsmanna ríkis og bæja

Karvel Pálmason:

Herra forseti. E. t. v. hefði verið nóg svar við ræðu hæstv. fjmrh. það bréf sem hv. þm. Guðrún Helgadóttir las upp sem álit BSRB-forustunnar á því athæfi hæstv. fjmrh., eins og þar segir, að rifta samningum sem báðir aðilar voru sammála um á sínum tíma. Ekki eru þetta fullyrðingar mínar einar og sér. Allir virðast hafa skilið lagafrvgr. eins og hún liggur hér fyrir og frá henni var gengið í samningunum á þann hátt sem BSRB hefur nú lýst. (Fjmrh.: Allir?) Allir. Meira að segja hæstv. fjmrh., því að hefði hann ekki skilið hana svo strax hefði ekki þurft að fylgja það bréf sem nú var verið að lesa upp af hans hálfu.

Það væri þokkalegt eða hitt þó heldur til afspurnar fyrir löggjafarsamkomu þjóðarinnar ef hverri einustu lagagrein í frv., sem er verið að samþ. á Alþingi, þyrfti að fylgja sérstakt bréf með túlkun á hverri grein út af fyrir sig. Það væri þokkalegt til afspurnar. En það virðist vera siður sem hæstv. núv. ríkisstj. og ekki síst hæstv. fjmrh. er að innleiða á Alþingi, að það þurfi sérstakar yfirlýsingar við hverja einustu frvgr. eða lagagrein sem hér á að samþykkja, hvernig hana beri að skilja. Það er ekki amalegt!

Hæstv. fjmrh. sagði að það hafi ekki verið meining ríkisstj. að hlutast til um deiluefni eða landamæradeilur, eins og menn hafa orðað það, BSRB annars vegar og ASÍ hins vegar. Það var einmitt um það samið af hálfu hæstv. fjmrh. við BSRB-forustuna að auka valdsvið hennar á kostnað Alþýðusambandsins. Ég held að það liggi ljóst fyrir.

Hæstv. fjmrh. sagði: Okkar meining var óbreytt ástand í þessum efnum frá því sem var. — Það var meiri hluti fyrir því í fjh.- og viðskn. að halda óbreyttu ástandi, og það var vilji til þess, það ég best veit, hjá forustumönnum Alþýðusambandsins að það væri status quo. Um það var í raun og veru komin till., lögð fram í fjh.- og viðskn. Það var till. um viðbót við þessa grein, sem hafði það efni að hér væri um óbreytt ástand að ræða. Þá sagði hæstv. fjmrh.: Það gátum við ekki gert. Við gátum ekki fallist á slíka till. (HÁ: Hann sagði ekkert um það.) Hv. þm. Halldór Ásgrímsson hefði átt að vera hér inni meðan hæstv. fjmrh. talaði, en ekki að vera að fullyrða út í bláinn. En það er títt um framsóknarmenn — ekki síst síðari tíma. (HBl: Þeir fara ekki batnandi.) Nei, síður en svo þótt ungir séu sumir hverjir. Þetta gat hæstv. fjmrh. ekki fallist á, sagði hann, að það yrði breytt í þá túlkun í lagagr. sjálfri, að um væri að ræða óbreytt ástand. Hann sagði orðrétt: Kannske hefði það ekki breyst efnislega. —Ekki var nú sterkara að orði kveðið. En formlega hefði það breyst, sagði hann. Hæstv. fjmrh. er yfirleitt ekki þekktur að því að fara hjá sér þó hann fari með ósannindi, og kippir sér enginn upp við það, en það var augljóst og auðheyrt á hans tali, látbragði öllu og útliti, að hann var í afskaplega miklum vandræðum með að verja þessar sínar síðustu og verstu gjörðir í sambandi við samninga bæði BSRB og Alþýðusambandsins. Það er alveg augljóst mál, að verði 1. gr. frv., sem hér um ræðir, samþykkt eins og hún er, þá er hér verið að lögfesta upplausnarástand innan Alþýðusambandsins. Það er augljóst mál að þetta bitnar t. d. harkalega á starfsmannafélaginu Sókn. Það kæmi mér ekki á óvart, ef þetta verður að lögum eins og nú er lagt til, að það félag liðaðist í sundur og raunar fleiri. Hér er því verið að leggja til af hálfu hæstv. ríkisstj. með hæstv. fjmrh. í broddi fylkingar, ef að lögum verður eins og hér er lagt til, upplausnarástand innan Alþýðusambandsins.

Ég spyr hv. þm. Guðmund J. Guðmundsson í þessu sambandi, af því að það eina sem sá hv. þm. hefur gert upp á síðkastið er að hrista höfuðið við öllum ræðum. (Gripið fram í: Og taka í nefið.) Já, það er honum frjálst og þó meira væri. Ég spyr hv. þm. hvort hann lítur ekki svo á, að þessi frvgr. — við skulum segja frvgr. enn sem komið er — útvíkki valdsvið BSRB frá því, sem það nú er, og seilst sé inn á verksvið Alþýðusambandsins — eða telur hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson að það væri óhætt að samþykkja þessa frvgr. óbreytta og menn ættu ekki á hættu frekari yfirgang af hálfu BSRB með stoð og tilvitnun í þessa lagagr.? Ég er hræddur um að svarið hjá Guðmundi J. Guðmundssyni, sé hann sjálfum sér samkvæmur, sem ég hygg að hann verði, það verði að verið sé að útvíkka valdsvið BSRB ef af þessu verður. Ég vil upplýsa það hér, að þetta var til umræðu á miðstjórnarfundi ASÍ ekki alls fyrir löngu og menn voru alveg sammála um að frvgr., eins og hún nú er og lagt er til að hún verði samþ., kæmi ekki til mála. Það kæmi ekki til mála að Alþýðusambandið féllist með nokkrum hætti á þessa lagagr. vegna þess að hér væri verið að ganga inn á verksvið og valdsvið Alþýðusambandsins meira en hefði verið gert af hálfu BSRB.

Það er engum blöðum um það að fletta, og það vænti ég að hv. alþm. sé öllum ljóst, að hvað sem líður yfirlýsingum, hvort sem hæstv. fjmrh. eða einhver annar hæstv. ráðh. undirritar þær, þá verður það lagagr. sem blífur, en ekki yfirlýsingin, og það er það sem máli skiptir.

Hæstv. fjmrh. sagði: Málið er afskaplega einfalt. — Það er nú ekki einfaldara en svo, að það er búið að þvælast fyrir stjórnarliðunum alveg frá því í haust að komast frá málinu. Það er núna á síðustu dögum þingsins sem sá botn fæst í það að gefa út þriðju yfirlýsinguna. Það var ekki einfaldara en svo.

Ég hef enga trú á því, þó að ég þekki ekki mjög persónulega forustumenn BSRB, að þeir hafi verið svo skilningssljóir að þeir hafi ekki vitað hvað var um að ræða og hvað um var samið við hæstv. fjmrh. Það dettur mér ekki í hug að halda. En kannske hefur hæstv. fjmrh. litið svo á, að hann gæti vafið þeim með þessum hætti um fingur sér og fengið þá til að sættast á þetta. Það virðist ekki vera. Það er ljóst þó það megi nú þykja undarlegt.

Hv. þm. Halldór Ásgrímsson er farinn úr salnum aftur. Þeir tolla lítt við hina síðustu og verstu tíma stjórnarliðar. Hann er formaður fjh.- og viðskn. Það er leitt til þess að vita að hann skuli ekki einu sinni hafa afhent nm. í fjh.- og viðskn. bréf BSRB, sem er stílað beinlínis á nefndina, en þar er það fullyrt, samkvæmt því sem hv. þm. Guðrún Helgadóttir las upp áðan, að BSRB lítur á það sem samningsrof verði túlkun þriðju yfirlýsingar fjmrh. látin gilda.

Ég ítreka að ég skal ekki, herra forseti, hafa um þetta öllu fleiri orð, en ég held að það sé augljóst mál, að hér er um það eitt að ræða að annaðhvort taka menn sér stöðu með Alþýðusambandinu í þessu máli eða með BSRB. Það mál er ekki svo einfalt að menn geti tekið afstöðu með báðum í þessu máli. Það yrðu hörmuleg afdrif ef þetta frv., — þá er ég að tala um 1. gr., um aðrar greinar er ekki ágreiningur í þessu máli, — yrði samþykkt hér eins og lagt er til og 1. gr. framfylgt. Það yrði til að skapa upplausnarástand í Alþýðusambandinu, aðildarfélögum þess. Ég efast mjög um að nokkur af þeim aðilum, sem um þetta orðalag sömdu, hafi ætlast til þess.

Að lokum: Það eru mörg dæmi þess, hv. þm. Guðrún Helgadóttir, að forustumenn BSRB ásælast ærið illþyrmislega og ásækja aðildarfélög og einstaklinga með aðild að ASÍ. Þeir hafa seilst með óþyrmilegum hætti inn á samningssvið og verksvið ASÍ, sem vafasamt er að þeir hafi nokkra stoð í veruleikanum til þess að gera.