21.05.1981
Sameinað þing: 88. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4808 í B-deild Alþingistíðinda. (5065)

260. mál, veðurfregnir

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Ég vil fyrir hönd okkar flm. þessarar þáltill. lýsa ánægju yfir því, að n. skyldi afgreiða þessa till. svo fljótt og vel, og jafnframt stuðningi við þá brtt. sem n. hefur gert um tillgr. sjálfa.

Eins og allir vita er Veðurstofan eitt þýðingarmesta öryggistæki sem til er í okkar landi á margan hátt. Þessi þáltill. er fyrst og fremst stuðningur við hið mikilvæga starf Veðurstofunnar og starfsmanna hennar og um leið hvatning til þingmanna að taka höndum saman um að veita meira fjármagn til Veðurstofunnar til tækjakaupa og nýjunga á þessu sviði. Þessi tækni breytist mjög ört, og það þarf vissulega að standa vörð um að íslenska veðurstofan búi yfir þeim besta tækjakosti sem völ er á í heiminum hverju sinni.