21.05.1981
Neðri deild: 103. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4821 í B-deild Alþingistíðinda. (5090)

213. mál, dýralæknar

Frsm. meiri hl. (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Fyrir landbn. Nd. lágu tvö frv. um breyt. á lögum um dýralækna. Annað þessara frv. var komið frá Ed., en hitt frv. er flutt af hv. þm. Halldóri Blöndal og Árna Gunnarssyni. Þegar var rætt um þetta mál í Nd. tilkynnti minni hl., að hann mundi flytja brtt. við frv. það sem kom frá Ed., þ. e. leggja til að frv., sem var lagt fyrir Nd., kæmi sem brtt. við það frv.

Landbn. sendi frv. hv. þm. Halldórs Blöndals til umsagnar til yfirdýralæknis og til búnaðarsambandanna í Suður- og Norður-Þingeyjarsýslu. Umsagnir þeirra voru á þá leið, að það væri nauðsynlegt að skipta þessu umdæmi í tvennt. Hins vegar kom fram að það eru allskiptar skoðanir um hvernig eigi að skipta þessu. Norður-Þingeyingar telja að skiptin að austan eigi að vera um Jökulsá á Fjöllum, en Suður-Þingeyingar telja eðlilegt að Öxarfjarðarhreppur tilheyri Austur-Þingeyjarþingsumdæmi. Enn fremur telur Búnaðarsamband Suður-Þingeyinga að eðlilegt sé að taka Hálshrepp undan Austur-Eyjafjarðarumdæmi og setja hann við Vestur-Þingeyjarumdæmi. Þar kemur líka fram að það leggur til, ef verður stofnað nýtt umdæmi með sérstökum dýralækni, að þá sé eðlilegt að hann sé búsettur annaðhvort á Stóru-Tjörnum eða Laugum.

Yfirdýralæknir leggur aftur til að að norðan verði þetta eins og það er, þ. e. um Jökulsá á Fjöllum, en að Hálshreppur verði tekinn undan Austur-Eyjafjarðarumdæmi og settur við hið nýja umdæmi. Enn fremur segir hann að þeir muni vera eitthvað skrýtnir í landafræði, hv. þm. Halldór Blöndal og Árni Gunnarsson, því að þar stendur: Aðaldælahreppur norðan Hafralækjarskóla og vestan Fljótsheiðar, en yfirdýralæknir telur að þeir muni meina að þetta eigi að vera sunnan Hafralækjarskóla. (HBl: Hvað meinar þm.?) Nú veit ég ekki í raun og veru, það kann vel að vera að hv. þm. Halldór Blöndal vilji hafa norðurhlutann af Aðaldal í sambandi við Vestur-Þingeyjarumdæmi. En ég hygg að hann sé ekki betri í landafræðinni en það, að hann muni vilja hafa áframhald af Reykjadal og norður að Hafralæk, en ekki að það sé komið þannig fyrir honum að hann sé búinn að missa áttir þarna fyrir norðan eins og mér virtist hann vera búinn í þingsölum í gærkvöldi.

Ég hef enn fremur rætt við formann Búnaðarsambands Suðurlands um þá breytingu, að lagt er til að þar sé sett upp nýtt umdæmi og það séu aðeins tveir hreppar í því nýja umdæmi. Ég mátti hafa það eftir formanni Búnaðarsambandsins, að hann teldi þessa skiptingu ákaflega vafasama. Það mundi ekkert sláturhús koma með þessu umdæmi, væri bæði með Selfossumdæmi og hinu umdæminu, en ekki með þessu nýja Flúðaumdæmi. Hann taldi mjög vafasamt með þessari skiptingu að nokkur dýralæknir fengist til þess að þjóna þessu umdæmi.

Mér hefur einnig borist til eyrna og nefndinni að það mundu vera skiptar skoðanir líka um skiptin á Austurlandi, þeir í Reyðarfirði teldu það dálítið skrýtna ráðstöfun að setja sig með Norðfjarðarumdæmi og taka sig undan Egilsstaðaumdæmi.

Hæstv. landbrh. kom á fund með nefndinni og skýrði frá því, að það væri víðar sem væru uppi óskir og rökstuddar kröfur um að það þyrfti að fjölga dýralæknum og breyta þessari umdæmaskipan og hann hefði nú ákveðið að skipa nefnd til að gera tillögur um breytingar á dýralæknalögunum og á umdæmaskiptingunni í landinu og væri stefnt að því, að þessi endurskoðun yrði búin og nýtt frv. liggi fyrir tilbúið í þingbyrjun í haust.

Ég hafði samband við oddvitann í Hálshreppi um þetta mál. Hann tjáði mér að að sínu mati kæmi ekki til greina að breyta um ef dýralæknirinn ætti að sitja á Laugum eða Húsavík. Hins vegar væri dálítið annað mál ef hann ætti að sitja á Stóru-Tjörnum. Hann sagðist ekki hafa haft neina ástæðu til þess að ræða þetta í Búnaðarfélaginu og taldi þar af leiðandi að það þyrfti að athuga þetta mál betur.

Ég hafði einnig samband við oddvitann í Öxarfjarðarhreppi. Hann sagði að stjórn Búnaðarfélags Norður-Þingeyinga hefði lagt til að þetta yrði óbreytt. Hins vegar væri bæði beint símasamband og betra við Húsavík og allar samgöngur. En þetta mál þyrfti að gerast upp í Búnaðarfélaginu þar. Þó að það væri persónuleg skoðun sin, að það væri eðlilegra og betra að það yrði með Húsavik. Hins vegar væri dálítið annað mál ef hann ætti að ákveða það öðruvísi en að hafa samráð.

Þegar búið er að athuga þetta frá öllum hliðum sýnist meiri hl. einsýnt að leggja til að þessum frv. báðum sé vísað til ríkisstj. í trausti þess, að þessari endurskoðun verði flýtt og það verði hægt að lögfesta nýtt frv. fyrir árslok, því að það liggur ljóst fyrir að breytinga er þörf, bæði fyrir norðan og austan og sjálfsagt í Arnessýslu líka, þó að ég þekki það ekki eins vel. En formaður Búnaðarsambandsins sagði að það lægi ekki svo mikið á þessu máli að það væri ástæða til að hrapa að neinu í þessu efni. (HBl: Formaður Búnaðarfélags hvar?) Búnaðarsambands Suðurlands.