22.05.1981
Efri deild: 119. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4868 í B-deild Alþingistíðinda. (5167)

56. mál, Framleiðsluráð landbúnaðarins

Frsm. minni hl. (Egill Jónsson):

Herra forseti. Tilgreind hefur verið sem ein aðalforsenda brbl. frá 23. júní s. l. sú þróun sem orðið hefur í landbúnaði nú á hinum síðari árum, og af þeirri ástæðu verður ekki komist hjá því að minnast á þá þróun þótt í stuttu máli sé.

Þessir framleiðsluerfiðleikar eða framleiðsluvandamál í landbúnaði, eins og tíðast er talað um, upphófust árið 1976 þegar á vantaði um hálfan milljarð kr. á verðlagi þess árs til þess að unnt væri að bæta upp allar útfluttar landbúnaðarvörur. Þessi tala hækkaði ár frá ári og komst í hámark á s. l. ári þegar hún nam 5.3 milljörðum gkr. og hafði þá 10–11-faldast á þessu fjögurra ára tímabili. Þessar tölur ern miðaðar við verðlag hvers árs fyrir sig og segja þannig ekki nákvæmlega til um hina raunverulegu stöðu þessara mála. Ef þær eru hins vegar færðar til sama verðlags er niðurstaðan sú, að útflutningsbótaþörfin umfram verðtryggingu 4–5-faldaðist á þessu árabili. Ef við berum þessar tölur svo aftur saman við framleiðsluaukningu í landbúnaði skýtur þar ærið skökku við því að á þessum sömu árum, frá árinu 1976 til ársins 1978, jókst framleiðsla í landbúnaði aðeins um 3–4%. Þessi framleiðsluvandi, ef menn vilja nefna hann því nafni, er þess vegna ekki til kominn vegna þess að framleiðsla í landbúnaði hafi gengið úr hófi fram.

Hins vegar er vert að minnast á það, sem þó allir vita hér, að á þessu sama árabili hækkaði verðlag í landinu um 100%. Það er einmitt sú þróun sem hefur keyrt landbúnaðarframleiðsluna úr skorðum og snert hefur ákaflega margar aðrar framleiðslugreinar í þessu þjóðfélagi.

Þess er getið í sambandi við þær forsendur sem gefnar voru út með brbl., að þeim væri ætlað að koma á jafnvægi í búvöruframleiðslunni. Sannleikurinn er hins vegar sá, að þessu jafnvægi var búið að ná 6 mánuðum áður en brbl. voru gefin út. Það liggur alveg ljóst fyrir að miðað við þessi sömu viðmiðunarár sem ég hef hér sérstaklega getið hafði mjólkurkúastofninn dregist saman um ca. 7.3%, og miðað við sömu afkastagetu þess stofns var alveg augljóst að framleiðsla og markaðsþörf hér innanlands á s. l. ári mundi í meginatriðum standast á. Það er alveg augljóst mál að þegar brbl. voru gefin út hefur gleymst að taka þetta dæmi til uppgjörs.

Þess er líka getið í forsendum fyrir útgáfu brbl., að þeim sé ætlað að tryggja innlenda fóðurframleiðslu og þannig að mæta þeim niðurgreiðslum sem hafa verið á innfluttu kjarnfóðri frá nágranna- og viðskiptalöndum okkar. Að þessu leyti hafa brbl. einnig reynst óþörf. Verðlag á kjarnfóðri erlendis hefur á þessu tímabili hækkað um 44.5% og þær niðurgreiðslur, sem sérstaklega eru tilgreindar sem forsenda fyrir útgáfu brbl., hafa verið felldar niður. Á þessu sama tímabili, þ. e. 11 mánaða tímabili, hefur verð á innfluttu kjarnfóðri hér á markaði hækkað um 100% án þess kjarnfóðurgjalds sem nú hvílir á því, en 140–150% að því meðtöldu, og ef borinn er saman framleiðslukostnaður á heyi allan þennan síðasta áratug miðað við kjarnfóðurverðið núna, þá hefur staða innlenda fóðuriðnaðarins aldrei verið neitt í námunda eins hagstæð og nú er. Framleiðslukostnaður á heyi er núna um það bil 50% af kostnaði við innflutt kjarnfóður, en hefur lengst af síðasta áratug numið um 70–80%. Einnig þær forsendur eru brostnar.

Hér hef ég vikið að þeim meginröksemdum, sem hafa verið færðar fram. En í þessu sambandi er að fleiru að hyggja. Vil ég þá sérstaklega víkja að því sem kom fram hér hjá hv. frsm. meiri hl., þar sem hann sagði að þessar breytingar hefðu verið nauðsynlegar. Ég athugaði það ekki í þessu sambandi reyndar að alveg eins og vera ber er fulltrúi Alþfl. í landbn. Ed. á skjön við okkur. Er það að sjálfsögðu í fullu samræmi við stefnu Alþfl. í landbúnaðarmálum. En það hefur verið látið að því liggja að líka hefði verið þörf breytinga á þessari löggjöf til þess að unnt væri að gera ýmsar undantekningar varðandi réttindi bænda vegna fyrirhugaðs kvótakerfis.

Nú er þess að geta alveg sérstaklega í þessu sambandi, að kvótakerfið sem slíkt er enn ekki orðið virkt og að því leyti sem áformað er að beita því tekur það einvörðungu til mjólkurframleiðslunnar og það eru innan við 2% af mjólkurframleiðslunni, verðmætum hennar, sem áformað hefur verið að deila út á grundvelli kvótakerfisins, þannig að jafnvel þó að þörf hefði verið á að beita því, þá lá ekki á að gera um það sérstök brbl. Hins vegar fer því víðs fjarri að með því hafi verið veittar rýmri heimildir eða sérstaklega gengið til móts við þá sem hafa haft minni bústofn eða meiri fjármagnskostnað. Ég hef hér samanburð á þremur mjög mikilvægum skjölum í þeim efnum, þ. e. löggjöfinni eins og hún var ákveðin veturinn 1979, reglugerðinni, sem við þau lög var sett, og brbl. eins og þau voru gefin út. Og það er alveg sérstaklega vert að undirstrika það hér, að ef brbl. sem slíkum væri fylgt nákvæmlega væri ákveðinn hópur frumbýlinga sem alls ekki væri hægt að taka tillit til í sambandi við endurmat á búvörukvótanum. Í raun hafa brbl. þannig þrengt kosti Framleiðsluráðs til þess að meta þær ýmsu aðstæður sem fyrir hendi eru í landbúnaði þegar meta á framleiðslurétt bænda út frá hinu svokallaða kvótakerfi.

Þetta, sem ég hef nú tilgreint, sýnir glögglega að útgáfa brbl. var í raun fljótfærnisleg ákvörðun, og túlkaði ég það reyndar í allrækilegu máli við fyrri umr. málsins. Það er alveg augljóst að að henni var staðið án þess að menn hefðu tileinkað sér ýmsa þætti í sambandi við þróun landbúnaðarmálanna. Af þeirri ástæðu var hér um mistök að ræða, alveg sérstaklega þegar á það er lítið að hér var bókstaflega reitt til höggs. Bændurnir höfðu ekki aðstöðu til þess að aðlaga framleiðslu sína innan þessa kerfis og þegar á það er lítið, hvað landbúnaðurinn er gróinn og formfastur atvinnuvegur og hversu bændurnir hafa fastmótuð vinnubrögð, þrátt fyrir það að með mörgum hætti er hægt að sanna að þeir eru tilbúnir að aðlaga sína framleiðslu hinum ýmsu ytri aðstæðum, þá kom þetta sér einkar illa vegna þess að til þeirra hluta fengu bændurnir í landinu ekkert svigrúm.

Í framhaldi af þessu og með tilvísan til þess, hvernig mál voru hér við fyrri umr., þá fellur þessi lagagerð með engum hætti að stefnu Sjálfstfl. í landbúnaðarmálum og er því að sjálfsögðu alveg sjálfgefið að Sjálfstfl. er andvígur útgáfu þessara brbl. og andvígur löggildingu þeirra hér á Alþingi. Á grundvelli þess höfum við þrír fulltrúar Sjálfstfl. í landbn. Ed. Alþingis skilað séráliti og leggjum til að þetta frv. verði fellt.

Það hefur verið skýrt af hv. frsm. meiri hl. hverjir standa að meirihlutaáliti, og í rauninni skýrir það þessi mál miklu betur en margar langar og ítarlegar ræður. Það er öllum mönnum ljóst að þótt Alþfl. og Sjálfstfl. eigi sem betur fer samleið í mörgum málaflokkum, eins og m. a. hefur komið fram í samstarfi þessara flokka og manna úr þessum flokkum í vetur, þá hafa þessir flokkar ekki átt samleið í landbúnaðarmálum. Nú hefur Alþfl. hins vegar fundið sér félaga og það er hann sem hefur haldið stefnu sinni. Afstaða Alþfl. er alveg á réttum stað. Hann styður þessi brbl. sem eru í fullu samræmi við afstöðu Alþfl. til málefna í íslenskum landbúnaði fyrr og síðar.