22.05.1981
Neðri deild: 107. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4898 í B-deild Alþingistíðinda. (5235)

335. mál, framkvæmdasjóður aldraðra

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það er ánægjulegt að heyra þá yfirlýsingu hæstv. fjmrh., að hann ætli að styðja tillögu, sem væntanlega kemur hér til atkv. á eftir, um það, að félög komi inn í þetta dæmi líka. Vissulega held ég að þingheimur hljóti að bíða eftir því að sjá hvort ekki verður af því, að hæstv. ráðh. greiði götu þeirrar tillögu. Það er út af fyrir sig rétt hjá hæstv. ráðh., að það skiptir raunar ekki sköpum varðandi fjármögnunina í þetta fyrirtæki væntanlega, hvort á fyrirtækin yrði lagður 100 kr. skattur eða ekki. Ef menn vilja endilega fara þessa leið með svona nefskatti, þá er ekki nauðsynlegt að það sé endilega sama upphæð á félag og einstakling. Það er vissulega hægt að hugsa sér talsvert hærri upphæð á félögin heldur en einstaklingana, nema þá því aðeins að menn séu alveg sannfærðir um það — og það virðist vera svo um suma núna — að það eigi að sleppa félögunum algerlega við þetta gjald, það sé einvörðungu hægt að skattleggja einstaklinginn áfram, hvorki ríkissjóður né félög eða fyrirtæki í landinu geti látið neitt af höndum rakna til þess verkefnis sem þarna bíður.

Út af því, sem hv. þm. Alexander Stefánsson sagði áðan varðandi lífeyrissjóðina, þá er það rétt og mér vitanlega hefur ekkert verið því til fyrirstöðu, að ýmsir lífeyrissjóðir vildu gegna þarna hlutverki til hjálpar. En stjórnvöld með hæstv. viðskrh., framsóknarþm. Tómas Árnason, í broddi fylkingar hafa staðið gegn því að, lífeyrissjóðirnir fengju reglugerðum sínum breytt til að geta veitt þessu máli stuðning. Hv. þm. Alexander Stefánsson ætti því að byrja á að vinna fylgi viðskrh. til þess að lífeyrissjóðirnir gætu sinnt þessu hlutverki. Þar hefur þröskuldurinn verið og þar er hann enn. Það hefur verið sótt um það í viðskrn. og í fjmrn. að fá breytt reglugerðum lífeyrissjóða til þess að þeir gætu sinnt þessu hlutverki. Þeir geta það ekki með núverandi ákvæðum og því hefur ekki verið sinnt. Svo koma hv. þm. Framsfl. hér í ræðustól á Alþingi og telja lífeyrissjóðina ekkert of góða til að sinna þessu hlutverki og láta í veðri vaka að þeir hafi í raun og veru ekki viljað sinna því. Það er rangt. Það hefur verið fullur vilji og skilningur á þessu verkefni hjá lífeyrissjóðum, en þeir aðilar, sem þarna er um að ræða, hafa brugðið fæti fyrir það að hægt væri að sinna því.

Ég skal ekki, herra forseti, hafa öllu fleiri orð um þetta. En mér fannst kveða við nokkuð annan tón í ræðu hæstv. núv. fjmrh. hér áðan heldur en oft áður á þingi og utan þings að því er varðaði skattlagningu fyrirtækja. Það er auðvitað alveg augljóst, að hefði hæstv. ráðh. viljað eða haft áhuga á því að félög og fyrirtæki yrðu látin greiða þarna eins og einstaklingar, þá hefði hæstv. ráðh. orðið ágengt með það. Hann hefði komið því í framkvæmd, hefði mikill hugur verið í hæstv. ráðh. að svo yrði gert. En það er í þessu tilfelli eins og oft áður að þegar einstaklingar eru komnir í valdaaðstöðuna, þá fer oft öðruvísi um framkvæmdir heldur en þeir sjálfir hafa haft uppi orð um og talað hvað mest um þegar þeir hafa ekki verið í valdaaðstöðunni. Og það virðist ætla að sannast á hæstv. fjmrh. og Alþb. í heild að það hefur ekki fylgt því mikill þungi eða sannfæring að það ætti að skattleggja fyrirtækin meira en raun ber vitni.