22.05.1981
Neðri deild: 107. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4905 í B-deild Alþingistíðinda. (5243)

301. mál, umferðarlög

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Þetta frv. eða það mál, sem hér er til umr., er ekki alveg nýtt af nálinni hér í þingsölum. Það hefur áður verið rætt um að lögleiða bílbeltanotkun í landinu. Að því er þetta frv. varðar er það raunar einvörðungu tvennt sem þarna er um að ræða. Það er 1. gr., að 2. mgr. 60. gr. umferðarlaganna orðist svo:

„Heimilt er að aka á reiðhjóli og leiða reiðhjól á gangstígum og gangstéttum, ef það er ekki til hættu eða óþæginda fyrir aðra vegfarendur.“

Hverjum dettur í hug að sé hjólað á gangstéttum sé það ekki til óþæginda eða jafnvel hættu fyrir gangandi fólk á hinni sömu gangstétt? Það er auðvitað sýnilegt að verði þetta leyft — og mér sýnist það nú þegar vera komið í framkvæmd hér á gangstéttum höfuðborgarinnar a. m. k. — veldur það a. m. k. stórkostlegum óþægindum og jafnvel hættu fyrir gangandi vegfarendur á þessum sömu gangstéttum, þannig að það er í mínum huga raunar algert píp að vera að tala um þessa hluti í þessum dúr. Ég er því algerlega mótfallinn að slíkt verði leyft. Það væri nær að fylgja því fram, sem er nú þegar bannað, en ekki hefur verið haft eftirlit með af hálfu löggæslu og yfirvalda, að ekki sé hjólað á gangstéttum. Og það er raunar svo með fleiri þætti og marga löggjöf í voru landi, að þau eru ótrúlega mörg tilvikin þar sem ekki er framfylgt þeirri löggjöf sem verið er að setja, og kannske-eins og mér sýnist í þessu tilfelli — ekki ætlast til að henni verði framfylgt, það eigi bara ekki að framfylgja henni. Svo fáránlegt sýnist mér þetta vera.

Varðandi bílbeltin vil ég segja það strax, að ég er andvígur lögleiðingu á bílbeltum og ég mun greiða atkv. gegn því. Mér er ljóst að um þetta eru mjög skiptar skoðanir, bæði hér á Alþingi og úti í þjóðfélaginu. En þó held ég — án þess að ég hafi neitt sérstakt fyrir mér í því — að almennt sé fólk andvígt því að lögleiða slíkt. Því er haldið fram, og fræðslan er raunar einvörðungu í því fólgin og áróðurinn, að það sé til mikilla bóta gegn slysatíðni að lögleiða bílbelti. Ég skal ekkert um það segja. Menn vitna hér í erlendar rannsóknir. Ég hef sagt það áður hér á Alþingi, að þó að gott sé að hyggja að ýmsum niðurstöðum úr könnunum erlendis, sem við gætum haft hliðsjón af, fer því víðs fjarri að við búum við sambærilegt ástand og þar ríkir t. d. varðandi vegi og umferð.

Það var hv. 1. landsk. þm. sem sagði hér áðan að niðurstöður rannsókna erlendis sýndu að slysum mundi fækka um 30% vegna þessa. Vel má vera að þetta sé rétt. En hitt er eigi að síður staðreynd, því er haldið fram og það virðist vera óyggjandi staðreynd að notkun bílbelta getur líka verið lífshættuleg undir vissum kringumstæðum. Það eru dæmi þess og þó nokkuð mörg hér hjá okkur á fjallvegum t. d., í útafkeyrslum og slíku, að hefði viðkomandi einstaklingur verið rígbundinn í bílbelti hefði ekki frekar þurft að spyrja um hans framtíð. Með lögleiðingu á slíku erum við því í mínum huga að dæma tiltekna prósentu þeirra, sem í slysum lenda, til glötunar, eins og hv. þm. Sigurlaug Bjarnadóttir orðaði það áðan. Meðan við viðurkennum að það er staðreynd, að þetta getur gerst, erum við með lögleiðingu á slíku að dæma tiltekinn fjölda einstaklinga, sem verða fyrir bílslysum, til glötunar og því er ég andvígur. Ég hef síður en svo á móti því, að hafður sé uppi áróður fyrir öryggisatriðum í umferðinni. Og vissulega er ekkert við því að segja, ef taldar eru yfirgnæfandi líkur á því, að bílbeltanotkun geti komið í veg fyrir svo og svo mörg slys, að hafður sé uppi áróður fyrir því. En eins og ástandið er í dag er rangt að mínu mati að lögleiða það.

Það vakna auðvitað ótal spurningar við það að lesa þetta frv. eins og það kemur fram. Það er furðulegt að heyra það af munni aðdáenda bílbeltanotkunar, að þeir telja t. d. enga þörf á því, að leigubílstjórar séu í slíkum beltum. Af hverju mega þeir vera dæmdir til glötunar frekar en aðrir bílstjórar í landinu? Ég sé ekki að það sé neitt sem sýni fram á að það sé ekki jafnmikil þörf fyrir leigubílstjóra að nota bílbelti og einhvern annan bílstjóra, ef ágæti þessa öryggistækis, sem menn kalla, er slíkt sem menn vilja vera láta. Mér sýnist að aðdáendur þessa tækis séu ekki sannfærðir um árangurinn þegar það liggur jafnframt ljóst fyrir, að hér á að lögfesta að bílbelti skuli notuð, en jafnframt á að lögfesta að engin refsing skuli við liggja þó að allt saman sé brotið. Er það nú líklegt til árangurs, er það sæmandi löggjafarsamkomunni að lögfesta það sem hún ætlar sér ekki að framfylgja með betri hætti en það með hliðsjón af reynslunni, að engin refsing á að koma fyrir þó að löggjöfin sé margfaldlega brotin? (SigurlB: Þetta er rangt.) Þetta er rétt, hv. þm., þú hefur þá ekki lesið frv. (Gripið fram í.) Ég hef mín þskj. þar um. Ég geri ráð fyrir að það sé það sama prentað á mín þskj. eins og hjá hv. þm. Sigurlaugu Bjarnadóttur. Mér finnst það ekki nægilega traustvekjandi að lögfesta með þeim hætti, sem hér er gert ráð fyrir, notkun bílbelta við þær aðstæður sem við búum við hér í umferðarmálum.

Ég get vel fallist á að það kynni að vera mjög mikil bót að notkun bílbelta t. d. hér á þéttbýlissvæðinu. Það getur vel hugsast að að því yrði mikil bót. En við eigum þá að vinna að því máli með öðrum hætti en þeim að lögleiða og skylda fólk til þess með þeim hætti sem hér er gert ráð fyrir. Við eigum að vinna að því í gegnum fjölmiðlana og með fyrirbyggjandi ráðstöfunum að koma í veg fyrir að slys eigi sér stað. Ég hef ekki trú á því, að almenningur í landinu, ef hann á annað borð — sem hefur sýnt sig — er ekki sannfærður um ágæti þessa öryggistækis, hlaupi frekar upp til handa og fóta að nota bílbelti þó þetta frv. verði lögleitt. En þá er líka alveg tilgangslaust að vera að gera það. Og það er nú einu sinni svo og ekki að ósekju, að fólki fer í raun og veru að blöskra hversu víðtækt löggjafarvaldið er orðið í raun og veru. Það fer að nálgast það, að við förum að búa í lögregluríki, ef svo heldur fram sem horfir. Það er bókstaflega allt tínt til sem nauðsyn er talin á að lögfesta, og ég tel að við kringumstæður eins og þær eru í dag sé þetta eitt af því sem fólk telur að ekki sé orðið tímabært að lögbinda. Ég hef enga trú á því, eins og ég hef áður sagt, að það breytist að neinu verulegu leyti eða aukist notkun á bílbeltum enda þótt þetta verði gert. Ef á annað borð er full vissa þeirra, sem vilja lögleiða þetta, og það verður gert, þá á auðvitað að búa svo um hnúta að því verði framfylgt, ekki setja lög sem ekki á að framfylgja. En ég sé ekki að neitt bendi til þess, að það sé ætlunin. Þvert á móti eru opnaðar allar gáttir til þess að lögin geti verið brotin, og það á að gera fyrir fram hér á Alþingi. Ég er andvígur því og ég er einnig andvígur og mun greiða atkv. gegn frv. eins og það nú liggur fyrir.