23.05.1981
Efri deild: 122. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4950 í B-deild Alþingistíðinda. (5304)

320. mál, raforkuver

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um raforkuver, en það er komið frá Nd. og liggur fyrir á þskj. 1043 eins og það var samþykkt af hv. Nd. Ég mun gefa örstutt yfirlit um þær breytingar helstar sem gerðar voru á frv., en vil áður en ég vík að því fara um það örfáum orðum.

Með frv. þessu til l. um raforkuver er óskað heimilda Alþingis til að ríkisstj. sé heimilt að semja við tiltekin orkuöflunarfyrirtæki um að þau reisi og reki tilteknar vatnsaflsvirkjanir eða þeim verði heimilað það. Eins og frv. var lagt fyrir Alþingi var gert ráð fyrir að samtals væri um að ræða heimildir sem næmu 720 mw. í vatnsaflsvirkjunum, en nú eru virkjuð um 540 mw. af vatnsafli í landinu.

Þessum heimildum, sem óskað er eftir, er skipt í tvo þætti: annars vegar heimildir, sem ríkisstj. megi veita Landsvirkjun til framkvæmda við virkjanir, og hins vegar heimildir, sem leitað verði samninga eftir við Landsvirkjun um að hún reisi og reki. En sú breyting var á gerð í hv. Nd. um þetta atriði, að í stað þess, að ákveðið væri gert ráð fyrir Rafmagnsveitum ríkisins sem virkjunaraðila, er gert ráð fyrir því, eins og frv. liggur hér fyrir, að uns þeir samningar hafi tekist hafi Rafmagnsveitur ríkisins með höndum rannsóknir, hönnun og undirbúningsframkvæmdir í nánu samráði við Landsvirkjun.

Þá er í frv. þessu óbreytt, eins og það er komið frá hv. Nd., gert ráð fyrir heimild fyrir orkuöflunarfyrirtæki að virkja jarðvarma allt að 50 mw., enda fullnægi þeir aðilar, sem slíkar heimildir yrðu veittar, ákveðnum skilyrðum sem tryggi hagkvæman heildarrekstur raforkukerfisins.

Þá er í frv. þessu gert ráð fyrir heimildum til að gera nauðsynlegar ráðstafanir á vatna- og háhitasvæðum þeirra virkjana, sem lögin taka til, og að tryggður verði rekstur orkuveranna gegn truflunum og til að ná fram áætlaðri vinnslugetu, heimildir um að reisa og reka orkuveitur og tengja þau orkuver við landskerfið og að styrkja landskerfið svo sem nauðsynlegt er til að flytja orkuna til afhendingarstaða út frá landskerfinu.

Einnig er gert ráð fyrir heimild fyrir allt að 50 mw. í varaafli á næstu 10 árum til helstu orkuframleiðsluaðila í landinu: Rafmagnsveitna ríkisins, Landsvirkjunar og Orkubús Vestfjarða, til þess að tryggt verði viðunandi öryggi notenda gagnvart bilunum.

Þessi ákvæði er að finna í 1. gr. frv. Í meðferð Nd. á frv. voru, eins og ég gat um, gerðar nokkrar breytingar á þessari grein, þ. á m. var bætt við heimildum til að setja upp aukið afl á núverandi Landsvirkjunarsvæði sem nemur 120 mw., þ. e. að bæta við heimild fyrir fjórðu aflvél í Hrauneyjafossvirkjun og Sigölduvirkjun, en slíkar aðgerðir geta talist nauðsynlegar eftir að aukið hefur verið miðlunarrými í Þórisvatni svo sem áformað er og heimilda er leitað fyrir með ákvæðum í þessari 1. gr., þar sem rætt er um að tryggja rekstur orkuveranna á Þjórsársvæðinu og koma vinnslugetu þeirra í eðlilegt horf með tilteknum aðgerðum.

Það liggja fyrir verkfræðilegar áætlanir um þessar veitur. Að vísu eru þar eftir nokkrar rannsóknir eins og fram kemur í fskj. með frv., en á bls. 72–73 er sérstaklega fjallað um svonefnda Kvíslaveitu og þar kemur fram að æskilegt er talið að gera ráð fyrir auknu afli í umræddum vatnsaflsstöðvum: Hrauneyjafossvirkjun og Sigölduvirkjun, eftir að Þórisvatnsmiðlun hefur verið aukin mjög verulega. Ég tel að þessi breyting, sem gerð var á frv. í hv. Nd., sé fullkomlega eðlileg og í samræmi við þær áætlanir sem fyrir liggja, þó að auðvitað sé álitamál hversu langt skuli gengið hverju sinni í að afla heimilda fyrir slíkum framkvæmdum.

Það liggur fyrir að með þessum heimildum, sem hér er leitað eftir, er um að ræða viðbót sem nemur, að mér telst til, 290 mw. í afli á núverandi Landsvirkjunarsvæði, orkuveitusvæði Landsvirkjunar á Suðurlandi, og um 530 mw. afli í virkjunum utan Suðurlands. Samtals er því um að ræða um 840 mw. í vatnsafli eins og frv. nú liggur fyrir, og að auki er um að ræða heimildir vegna jarðvarmavirkjana upp á 50 mw. og varaaflsstöðvar upp á 50 mw. Samtals eru milli 900 og 1000 mw. sem hér er leitað eftir heimildum fyrir.

Ég vil geta þess í sambandi við þessar heimildir, sem leitað er eftir varðandi vatnsaflsvirkjanir, að þær eru vel undirbúnar, óvenjuvel undirbúnar miðað við það sem gerst hefur þegar slík mál hafa verið lögð fyrir Alþingi. Rannsóknir á þeim virkjunarkostum, sem heimilda er leitað fyrir, eru vel á veg komnar og það eru ekki mörg óvissuatriði sem óleyst eru. Er óhætt að segja að það séu engin verktæknileg óvissuatriði sem eigi að hindra að unnt sé að ráðast í viðkomandi mannvirki eftir því sem greinargerðir, sem birtar eru sem fskj., bera vott um. Slíkur undirbúningur mála er að mínu mati mjög þýðingarmikill í sambandi við stórmál af þessu tagi. Vissulega er það svo, að ekki hafa allir endar verið hnýttir í sambandi við þessar fyrirhuguðu virkjunarframkvæmdir. Það á m. a. við um samningagerð við rétthafa, svo sem við Blönduvirkjun, og á fleiri stöðum hefur ekki verið fyllilega frá þeim þáttum gengið. En að þeim málum verður unnið eftir að Alþingi hefur væntanlega veitt heimildir til þessara virkjana, og ég vænti að það verði hægt að ganga frá þeim þáttum eða fá skorið úr um þessa óvissuþætti á komandi mánuðum og helst fyrir lok þessa árs. Ríkisstj. mun beita sér fyrir lausn þessara mála eftir því sem frekast er kostur, og er tekið fram í grg. með þessu frv. að reynt verði til hins ýtrasta að ná samkomulagi um þessi efni, þó að samkv. 5. gr. frv. sé heimild til þess að taka eignarnámi tiltekin réttindi ef metið verður af stjórnvöldum að það sé nauðsynlegt og réttlætanlegt að nýta slíkar heimildir.

Varðandi 2. gr. frv., þá felur hún í sér heimildir til að ljúka undirbúningi mála. Hún kveður á um það, hvernig mál verði lögð á einstökum stigum fyrir Alþingi til samþykktar. Hún felur í sér ábyrgðarheimildir fyrir ríkissjóð til þess að taka lán sem nema um helmingi af áætluðum framkvæmdakostnaði við umræddar vatnsaflsvirkjanir eða tæplega það kannske, en þó þannig að umrædd 2000 millj. kr. ábyrgðarheimild er meira en svarar til heildarkostnaðar við dýrustu og stærstu framkvæmdina sem hér er leitað heimildar fyrir, Fljótsdalsvirkjun.

Þá er gert ráð fyrir því samkvæmt ákvæðum í þessari grein, að ríkisstj. sé á árinu 1981 heimilt að ábyrgjast lán eða taka lán og endurlána virkjunaraðila, allt að 50 millj. kr., til undirbúnings þeirra virkjana sem um er rætt í 1. gr. Er auðvitað mjög mikilsvert atriði að ekki vanti heimildir og fjármagn til þess að halda áfram undirbúningi þessara mála af krafti. Ég tel að umrædd heimild veiti nauðsynlegt svigrúm í þessu efni, og auðvitað er ekki markmið að verja meira fjármagni í þessu skyni en nauðsynlegt er og skynsamlegt hverju sinni. En rannsóknir og undirbúningur mála kosta fjármagn, það þekkja menn, og svo mikill áhugi sem er á orkumálum er ég viss um að ekki mun standa á að slíkar heimildir verði veittar. Í hv. Nd. voru gerðar vissar breytingar á 2. gr. frv. í sambandi við það, hvernig mál skuli lögð fyrir Alþingi, en um það segir á þskj. 1043:

„Tillögur um framkvæmdir við nýjar vatnsaflsvirkjanir og virkjunaráfanga, þ. á m. um framkvæmdaróð, skulu lagðar fyrir Alþingi til samþykktar.“

Ég geri ráð fyrir að á næstu mánuðum verði slíkar till. undirbúnar og gerðar áætlanir eins og greint er frá að áformað sé í grg. með frv., gerðar áætlanir um bæði undirbúning og framkvæmdir við þær virkjanir sem áformað er og till. verða gerðar um að ráðast í, þannig að þessi mál geti legið fyrir heildstætt áður en langt um líður.

Þá var aukið við 2. gr. frv. ákvæði um það, að áður en slíkar till. verði lagðar fyrir skuli liggja fyrir greinargerðir frá tilteknum aðilum sem að orkumálum vinna, svo sem Landsvirkjun, Orkustofnun, Rafmagnsveitum ríkisins og öðrum þeim sem ríkisstj. kveður til, um þjóðhagslega hagkvæmni virkjunarleiða og þýðingu þeirra fyrir raforkukerfi landsins. Þetta atriði var í grg. með frv., en hefur til frekari áherslu verið tekið inn í frumvarpstextann sjálfan. Ég tel mjög eðlilegt að slíkar greinargerðir liggi fyrir áður en mál verða lögð fyrir til endanlegrar samþykktar Alþingis. Er það raunar vinnuregla sem höfð hefur verið við undirbúning þessara mála fram að þessu og hv. alþm. hafa fengið ekki alls fyrir löngu greinargóðar skýrslur um þessi efni. Að vísu byggðu þær ekki á allra nýjustu upplýsingum. Upplýsingar hafa verið að bætast við allt fram undir þetta og fleiri eiga eftir að koma til viðbótar þannig að reynt verður að hafa þessar upplýsingar eins greinargóðar og hægt er þegar mál verða lögð fyrir innan tíðar.

Þá er gert ráð fyrir að ríkisstj. leggi fram greinargerð um þá möguleika sem fyrir liggja um nýtingu orkunnar til orkufreks iðnaðar og sparnaðar á innfluttu eldsneyti. Um það efni má segja að að því er unnið og hv. alþm. hafa fengið ýmsar upplýsingar og þær hafa verið kynntar í fjölmiðlum að undanförnu varðandi stöðu þeirra mála, orkunýtingarþáttinn. En öllum er að sjálfsögðu ljóst að með þeim áformum um virkjanir og virkjunarhraða, sem greint er frá í grg. með þessu frv., liggur fyrir að stjórnvöld ætla að beita sér fyrir verulegri orkunýtingu á komandi árum, næstu 10–15 árum sem frv. þetta tekur til, að því er varðar greinargerð og þær áherslur sem þar eru fram settar um framkvæmdahraða í þessum efnum. Um það er vart ágreiningur að þeir nýtingarkostir, sem um verður að ræða, þurfa að vera vandlega undirbúnir og haldast verði í hendur orkuöflun og orkumarkaður. Um þau efni hefur verið nokkuð rætt og nokkuð deilt á hv. Alþingi á liðnum vetri og síðustu dögum raunar einnig. Ég ætla ekki að víkja að þeim atriðum hér sérstaklega þegar ég mæli fyrir þessu frv. Ég vænti þess, að um þessi mál geti náðst breið samstaða, það er mjög þýðingarmikið í stórmálum sem þessum, og ég mun fyrir mitt leyti leitast við að stuðla að því, að svo geti orðið og tryggja að menn fái upplýsingar um undirbúning mála.

Herra forseti. Ég tel ekki ástæðu til að fara miklu fleiri orðum um þetta frv. hér í framsögu. Um það hefur verið fjallað mikið í hv. Nd. þannig að efni þess er eflaust hv. þdm. vel kunnugt og þær breytingar sem gerðar hafa verið. Ég vil að endingu aðeins víkja að því, að með framlagningu þessa frv. og þeirra heimilda, sem þar er óskað eftir, er dreginn upp skýr rammi um þau framkvæmdaáform í sambandi við raforkuöflun í landinu sem ríkisstj. ætlar að beita sér fyrir, og eins og ég gat um eru þessar framkvæmdir verktæknilega betur undirbúnar en áður hefur verið þegar óskað hefur verið hliðstæðra heimilda frá hv. Alþingi, þó að ekki sé búið að ganga þar frá öllum þáttum mála. Nú er í fyrsta sinn leitað eftir heimildum um stórar virkjanir á okkar mælikvarða utan Suður- og Suðvesturlands, og er það auðvitað verulegt nýmæli. Hér er mörkuð sú stefna að dreifa stórum virkjunum um landið, og það er unnt að stíga slíkt skref í framhaldi og jafnhliða þeirri uppbyggingu öflugra stofnlína sem unnið hefur verið að á undanförnum sex árum og varið til miklu fé, áfram er unnið að á þessu ári og verður væntanlega áfram á næstu árum. Er það ákveðin forsenda fyrir því, að hægt sé að byggja upp stórar virkjanir hvar sem er á landinu og líta á landið allt sem eitt markaðssvæði.

Þetta gerir jafnframt kleift að reisa iðnað í krafti þessara orkulinda víða á landinu, og í grg. með frv. koma fram einmitt áherslur í þá átt að iðjuverum, sem nýti orku, verði dreift á landshluta ekki síður en orkuverum, þó að það liggi hins vegar fyrir að hægt er að koma upp myndarlegum iðnaði fjarri virkjunum þegar stofnlínukerfi er orðið öflugt. En það er eðlileg áhersla í atvinnustefnu að byggja upp iðnað sem víðast um landið og einnig meiri háttar iðnað sem hagnýtir þá orku sem hér er stefnt að að afla. Hv. þdm. vita um einstök áform í þessum efnum, áform sem ekki eru frágengin og ekki liggja fyrir hér til neinnar samþykktar, en kynnt hafa verið hvernig þau standa varðandi undirbúning. Þar eru m. a. iðjuver sem nýta munu innlendar hráefnalindir væntanlega, eins og magnesíumvinnsla. Þar er um að ræða iðjuver sem nýta munu ekki aðeins raforku, heldur einnig jarðvarma í ríkum mæli, eins og pappírsverksmiðja. Og þar er um að ræða iðjuver eins og kísilmálmverksmiðju sem getur boðið upp á mjög æskileg tengsl við hugsanlega eldsneytisframleiðslu, eins og fram hafa komið upplýsingar um og rætt hefur verið um að staðsetja á Austurlandi. Þessi iðjuver nefni ég hér aðeins sem dæmi af mörgum sem til athugunar eru því að hafa þarf augun opin í athugun slíkra mála. Það er engin vissa fyrir því, fyrr en búið er að gera nákvæmar áætlanir og athuga allar forsendur, hvort hægt er að ráðast í slík fyrirtæki, og ber ekki að leggja slík atriði fram til ákvörðunar fyrr en undirbúningi slíkra mála er lokið.

Um stefnu ríkisstj. í þessum efnum, varðandi uppbyggingu meiri háttar iðnaðar í krafti okkar orkulinda, þarf ég ekki að fjölyrða. Hún er vel kunn. Þar er gert ráð fyrir fyrirtækjum á vegum landsmanna sjálfra. Þar er lögð áhersla á íslenskt forræði í sambandi við þennan þátt atvinnulífs eins og aðra atvinnuuppbyggingu í okkar landi.

Herra forseti. Ég treysti því, að hv. þd. taki á þessu máli velviljað eins og gert hefur verið af þinginu hvað snertir hraða við afgreiðslu málsins. Vissulega get ég tekið undir það, að æskilegt hefði verið að unnt hefði reynst að leggja svo stórt mál fyrir þingið fyrr en raun varð á. En ýmsir þættir, er vörðuðu undirbúning þessara mála, lágu ekki eins skýrt fyrir og æskilegt var talið að mínu mati fyrr en í aprílmánuði og þá var mál þetta tekið fyrir til meðferðar og afgreiðslu í ríkisstj. Nú er stutt til þingloka. Ég treysti á góða samvinnu hv. þdm. við að koma þessu máli fram fyrir þinglok og legg til að því verði vísað til 2. umr. og hv. iðnn.