18.11.1980
Sameinað þing: 20. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 734 í B-deild Alþingistíðinda. (605)

46. mál, breytt verðgildi íslensks gjaldmiðils

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það eru örfá orð út af ummælum hæstv. viðskrh. Ég verð þó að segja fyrst að hæstv. ráðh. má eiga það, að hann hefur kjark til þess að koma hér í ræðustól og tala. (GJG: Það hefur þú líka.) Það vissi Guðmundur J. Guðmundsson fyrir. Það eru engin ný sannindi.

Ég held að það hafi mátt skilja ummæli hæstv. viðskrh. í ræðu hans áðan á þann veg, að þau væru að hluta til svar við þeirri fsp. sem hér var borin fram í umr. fyrir um hálfum mánuði, þ.e. spurningunni um hvað þýddu boðuð orð hæstv. viðskrh. um efnahagsráðstafanir í kjölfar kjarasamninga. Hæstv. ráðh. nefndi nokkur atriði, sem hann taldi að þyrfti að gera undir samheitinu „samræmdar aðgerðir“, og þar á meðal verðbótaþátt launa, fiskverð o.fl. Skertur verðbótaþáttur launa einn og sér þýðir kjaraskerðingu og breytingu á samningum launþega sem gerðir voru í haust. Þar með skil ég orð hæstv. viðskrh. á þann veg, að hann sé hér að boða breytingu á þeim kjarasamningum sem gerðir voru 27. okt. s.l. Verði undir heitinu „samræmdum aðgerðum“ tekinn þessi kostur og breytt því sem um hefur verið samið er verið að breyta gildandi kjarasamningum.

Hæstv. ráðh. segir að ég sé að snúa út úr. Látum það liggja milli hluta. En málgagnið Tíminn, blað hæstv. viðskrh., segir á forsíðu 7. nóv. s.l., með leyfi hæstv. forseta:

„Verðstöðvun og engar verðbætur 1. des.? „Og hafin verði raunhæf niðurtalning með gjaldmiðilsbreytingunni,“ sagði Tómas Árnason á Alþingi í gær“, þ.e. 6. nóv.

Einhver hafði þau orð um þessi ummæli blaðamannsins að hann hlyti að hafa verið hálfsofandi. Ég vil nú spyrja hæstv. viðskrh. hvort málgagn hans, Tíminn frá 7. nóv. s.l., fari hér með staðlausa stafi. Ef svo er ber hæstv. ráðh. auðvitað skilyrðislaust að leiðrétta þetta málgagn og þá um leið að vara almenning við því að trúa a.m.k. öllu sem þetta málgagn Framsfl. og ríkisstj. segir um vissa þætti þessara mála.

Ég ítreka sem sagt að ég skildi ummæli hæstv. viðskrh. áðan á þann veg, að það sé í bígerð, kannske búið að ákveða í innsta hring hæstv. ríkisstj. skerðingu á þeim samningum sem gerðir voru af aðilum vinnumarkaðarins 27. okt. Í ljósi þess hlýtur komandi Alþýðusambandsþing að krefjast skýrra svara frá hæstv. ríkisstj. um hvað annað fylgi með í þeim pakka sem nú er verið að búa til.