20.11.1980
Sameinað þing: 22. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 807 í B-deild Alþingistíðinda. (691)

92. mál, efnahagsráðstafanir ríkisstjórnarinnar

Fyrirspyrjandi (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Hæstv. forsrh. hefur loksins fengist til þess að gefa eina tímasetningu hér. Hann talar um að tilteknum aðgerðum verði frestað í eitt eða tvö misseri. Honum hefur farið fram þessar síðustu mínútur. En ég verð að hryggja hann með því, að við efumst um að þau orð standi. Hæstv. ríkisstj. hefur ekki komið sér saman um neitt í efnahagsmálum. Hún hefur látið reka á reiðanum. Hún er nýbúin að semja við launamenn í frjálsum samningum án þess að til verkfalls kæmi. Það kallar hæstv. viðskrh. að hlaða byssuna, á sama tíma og fyrir liggur að verðbólgan er á hraðri uppleið. Á meðan þessar hækkanir fara inn í verðlagið: 10% hækkun eða 11% um mánaðamótin ágúst–sept. og hækkunin núna 1. des., segir hæstv. forsrh. að hún sé á niðurleið. Það mætti kannske spyrja hæstv. forsrh. öðruvísi: Getur hann lofað okkur því, að verðbólgan verði ekki nema 42% núna til 1. febr. frá 1. nóv. eins og hún var í fyrra? Getur hann sagt já við því, að við megum treysta því? Hann er að tala um að hann standi sig betur en kratastjórnin. Fáum við þetta litla orð: já, hæstv. forsrh.? Treystir hann sér á þessari stundu til að játa því, að verðbólgan verði ekki meiri frá 1. nóv. núna til 1. febr. heldur en á sama tíma í fyrra. (Gripið fram í: Hann fer létt með það.) Ekki eitt einasta orð. Samt er hann að hrósa sér af því hér alltaf af og til hvað honum hafi tekist betur en hv. þm. Benedikt Gröndal. Hann var líka að tala um það hér á þriðjudaginn, að á fyrsta árinu hjá ríkisstj. hv. þm. Geirs Hallgrímssonar hefði verðbólgan orðið 55%. Þorir hæstv. forsrh. að lofa því á þessu augnabliki, að verðbólgan frá 8. febr. 1980 til 8. febr. 1981 verði minni? Enn kemur ekkert einasta orð.