20.11.1980
Sameinað þing: 22. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 815 í B-deild Alþingistíðinda. (706)

106. mál, efnahagsráðstafanir

Forsrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Það er spurt um hvort fulltrúar 53 þús. launþega, sem mæta til Alþýðusambandsþings 24. nóv., muni fá skýrðar fyrirhugaðar ráðstafanir ríkisstj. sem boðað var í stefnuræðu forsrh. að fylgja mundu í kjölfar myntbreytingarinnar. Þessari fsp. hefur verið svarað að nokkru leyti í sambandi við fsp. á þskj. 102 sem rædd var hér áðan. Eins og ég tók þá fram er svo tekið til orða í stefnuræðunni, sem hv. fyrirspyrjandi vitnaði til, að margháttaðar efnahagsaðgerðir séu fyrirhugaðar af hálfu ríkisstj. í sambandi við myntbreytinguna. Það er, eins og ég tók fram áðan, í gangi rækileg könnun og þá að sjálfsögðu, eins og vera ber, m.a. á vegum Þjóðhagsstofnunar. Það er í gangi rækileg könnun á hugmyndum og tillögum um aðgerðir í efnahagsmálum, og til þess þarf að gera margvíslega útreikninga og áætlanir. Þessum undirbúningi verður ekki lokið á þeim tíma sem þing ASÍ stendur yfir og því ekki unnt að verða við þeim óskum sem fram koma í fsp. hv. þm. Hins vegar vil ég undirstrika það, sem segir í stefnuræðunni um þetta mál í samræmi við stjórnarsáttmálann, að um þessi mál verður haft samráð við þau samtök, sem hlut eiga að máli, og þá að sjálfsögðu ekki síst Alþýðusamband Íslands.