20.11.1980
Sameinað þing: 22. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 825 í B-deild Alþingistíðinda. (722)

106. mál, efnahagsráðstafanir

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Hæstv. félmrh. tók það fram, sem rétt er, að grundvöllur þessarar stjórnarsamvinnu væri samráð og samvinna við launþegasamtökin, enda segir svo á 1. blaðsíðu í stjórnarsáttmála, með leyfi hæstv, forseta: „Ríkisstj. leggur höfuðáherslu á að leysa þau mál með samstarfi og í samráði“ — þ.e. launamálin. Þá vitum við það. En fyrir fulltrúaþing launþegasamtakanna í landinu, sem kemur saman fjórða hvert ár hefur hæstv. forsrh. lýst því yfir að ekki muni verða lögð þau úrræði sem hæstv. ráðh. segja að muni sjá dagsins ljós, sem þeir hyggjast framkvæma í efnahagsmálum. En það er fleira sem ASÍ-þingfulltrúar þurfa að aðgæta, því að á bls. 2, í 4. lið, er tekið fram að ríkisstj. leggi áherslu á samvinnu við samtök launafólks um átak í atvinnumálum, eins og frá er greint í öðrum liðum málefnasamningsins. Ég held að þeir ASÍ-fulltrúar þyrftu að spyrja eftir þessu líka.

Hér kemur hæstv. félmrh. upp og lýsir því yfir, að reynt hafi verið að spilla fyrir þeim samningum sem tókust á vinnumarkaðinum núna. Ég krefst þess að fá að vita með hvaða hætti það var gert og af hverjum. Ég þekki hins vegar vinnubrögðin í gegnum áratugina af hálfu Þjóðviljans og þessa manns, hæstv. ráðh. Við þekkjum þau frá 1977, hvernig var beitt áróðri af hans hálfu og hans blaðs og ólöglegum verkföllum til þess að hrinda fram verðbólguskriðu, magnaðri en nokkru sinni fyrr, fyrir utan þá sem við höfum nú fyrir augunum. Hann verður að nefna dæmi þess, hverjir unnu að því að spilla fyrir samningagerð hjá launþegasamtökunum nú. Annars er þetta markleysa og út í hött.

En það er fleira sem þyrfti að spyrja um. Hér eru stjórnlagafræðingar, þeir geta kannske sagt okkur hvað sú ríkisstj. á að gera samkv. þingræðisreglum sem fær ekki neinu áorkað í höfuðstefnumiðum sínum. Og Framsóknarráðh., hæstv. utanrrh., þyrfti að svara því, hvað hann eigi að gera, því að þeir hafa sjálfir lýst yfir að ekki er byrjað á þeirri niðurtalningu, ekki byrjað á ráðstöfunum í verðlagsmálum sem eru höfuðatriði og stefnumið þessa sáttmála.

Við í stjórnarandstöðunni vitum hvað okkur ber skylda til innan tíðar. Það er að bera fram vantraust á slíka ríkisstj.

En á hverju eigum við von þegar hæstv. Framsóknarráðh., viðskrh. og samgrh., formaður Framsfl., vara við hinu gífurlega hættuástandi, þegar það er nefnt annað tveggja af hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni, formanni þingflokks Alþb.: þvaður eða í hinn stað að ekki sé mark takandi á þeim mönnum sem með þessi aðvörunarorð fara?