26.11.1980
Efri deild: 18. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 948 í B-deild Alþingistíðinda. (843)

109. mál, aflatryggingasjóður grásleppuveiðimanna

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég vona að forseti leyfi mér að mæla í einu lagi fyrir tveimur málum, þau eru svo náskyld, 1. og 2. máli á dagskrá þessa fundar, þ.e. frv. til l. um útflutningsgjald af grásleppuafurðum og frv. til l. um aflatryggingasjóð grásleppuveiðimanna.

Bæði þessi frv. eru flutt að ósk Samtaka grásleppuhrognaframleiðenda, skammstafað S.G.H.F. Þau eru samin í sjútvrn. að höfðu samráði við framkvæmdastjóra og stjórn samtakanna. Það er forsendan fyrir því, að fyrra frv., á þskj. 123, verði að lögum, að hið síðara, á þskj. 124, verði einnig lögfest eða m.ö.o.: þau fylgjast að. Greinargerðir fyrir frv. þessum eru allrækilegar og get ég að mestu vísað til þeirra, en vil þó drepa á nokkur höfuðatriði.

Þótt útflutningsgjald hafi verið lagt á grásleppuafurðir síðan 1966 og það hafi fyrst og fremst framan af runnið til hins almenna sjóðakerfis sjávarútvegsins hafa grásleppuveiðimenn ekki notið greiðslna úr því kerfi, svo sem bóta vegna aflabrests, fæðispeninga, greiðslu iðgjalds úr Tryggingasjóði fiskiskipa o.s.frv. Þótt gert hafi verið ráð fyrir því í reglugerðum Fiskveiðasjóðs um lánaflokka, að sjóðurinn lánaði fé til smíði fiskiskipa undir 12 brúttórúmlestum, sem ein fá leyfi til grásleppuveiða, telja grásleppuveiðimenn og það með réttu að mikill misbrestur hafi verið á því að þeir fengju slík lán.

Síðan lögin nr. 48 1972, um Sölustofnun lagmetisiðnaðarins, voru sett hefur útflutningsgjald af grásleppuhrognum runnið til lagmetisiðnaðarins að öðru leyti en því, að síðan þeim lögum var breytt með lögum nr. 25 1978 hefur þó 1/3 hluti gjaldsins runnið til samtaka þeirra sem ég nefndi áðan og stofnuð voru árið áður, nánar til tekið 13. nóv. 1977. Áður höfðu grásleppuveiðimenn ekki með sér samtök sem gátu haft áhrif á álagningu útflutningsgjalds né hvernig því skyldi varið. Óhætt er að segja að allar ákvarðanir um þetta efni hafi verið teknar að þeim forspurðum, nema um þann hluta gjaldsins sem til þeirra rann 1978 og síðar. Þessi staðreynd mun mjög hafa ýtt undir stofnun umræddra samtaka.

Síðan Samtök grásleppuveiðimanna voru stofnuð í nóv. 1977 hefur meðlimum fjölgað óðfluga, en mest á þessu ári, eins og fram kemur í grg. Í grg. segir að meðlimir séu orðnir 298 sem eigi 186 báta, en síðan grg. var samin hefur bátunum fjölgað í 210 og er unnið að enn frekari eflingu samtakanna að þessu leyti.

Telja verður rétt, sem forsvarsmenn samtakanna fullyrða, að hér sé fyrst og fremst um að ræða menn og bátaeigendur sem stunda grásleppuveiðar sem atvinnugrein, en ekki sem ígripavinnu, og mun því liggja ljóst fyrir að mjög mikill meiri hluti þeirra, sem þannig stunda grásleppuveiðar, eru orðnir meðlimir í þessum samtökum. Á aðalfundi samtakanna 18. nóv. 1979 var samþykkt að fela stjórn félagsins að óska þess, að sjútvrh. beitti sér fyrir setningu laga um útflutningsgjald af grásleppuafurðum og sjóðakerfi tengt því. Gerði stjórnin þetta með bréfi dagsettu 13. des. 1979. Árangurinn er svo lagafrv. þau sem hér eru nú flutt.

Frv. þessi eru ekki nýmæli í sjávarútvegi þótt þau séu nýmæli varðandi grásleppuútveginn. Við samningu þeirra hefur mjög verið stuðst við gildandi lög nr. 5 1976, um útflutningsgjald af sjávarafurðum, og lög nr. 80 1971, um Aflatryggingasjóð sjávarútvegsins. Auðveldaði það mjög samningu frv.

Söltun grásleppuhrogna til útflutnings á sér þó nokkra sögu. Hún mun að vísu hafa byrjað í mjög smáum stíl 1927 og aftur 1931 í smáum stíl eitthvað næstu árin. 1940 og 1941 var um að ræða smávegis hrognasöltun og síðan ekki aftur fyrr en 1945. Frá þeim tíma og til 1950 nam söltun á útflutningi langt innan við 1000 tunnur, og það er fyrst 1953 að framleiðslan fer yfir 2400 tunnur. Fór hún síðan vaxandi til 1961, að hún nam 5350 tunnum. Árið 1965 verða veruleg umskipti er framleiðslan komst í 8650 tunnur og þótt hún héldist undir þeim mörkum til 1969, er hún náði rúmlega 10 000 tunnum, var öll árin um talsverða framleiðstu að ræða. Eins og fram kemur í grg. fyrir frv. má segja að grásleppuhrognasöltun hafi verið stöðugur atvinnuvegur síðan þótt sveiflur í magni hafi verið talsverðar. Minnst var framleiðslan á síðari árum, 1974, þá 9311 útfluttar tunnur, en mest 1976, 21 429 tunnur, en á þessu ári um 16 765 tunnur. Meðalútflutningur á 11 ára tímabilinu 1970–1980, að báðum árum meðtöldum, nam 14 144 tunnum. Þá má geta þess, að hin seinustu ár mun hafa verið unnið hér heima í kavíar um 10-12% af ársframleiðslunni.

Af þessu má sjá að hér er um að ræða atvinnuveg sem ekki verður litið fram hjá, ekki síst vegna þess að grásleppuhrogn eru mjög verðmikil framleiðsla. Ef litið er á verð þessa árs miðað við dollaragengið 550 ísl. kr. í dollaranum hefur fob-verðmæti hverrar útfluttrar tunnu numið um 165 þús. kr. og þá ársútflutningur tæplega 2.8 milljörðum kr.

Fram til ársins 1976 var ekkert eftirlit með grásleppuveiðum. Þá var fyrst reynt að hafa hemil á því er ákveðið var að veiðar báta 8 rúmlesta og stærri skyldu háðar leyfum sjútvrn. Síðan hefur verið leitast við að ná æ sterkari tökum á þessum veiðum til að tryggja viðgang stofnsins, eins og fram kemur m.a. í upphafi almennrar athugasemdar við útflutningsgjaldafrv. Nú er svo komið að leyfi eru aðeins veitt eigendum báta 12 brúttólestir og minni. Meðalstærð grásleppubátanna mun liggja á bilinu 5–6 brúttórúmlestir.

Rannsóknir á grásleppustofninum hafa verið efldar á undanförnum árum, eins og fram kemur í því sem ég hef fengið frá Vilhjálmi Þorsteinssyni fiskifræðingi og vil leyfa mér, með leyfi forseta, að lesa:

„Rannsóknir á hrognkelsastofninum beinast aðallega að stofn-, stærðar- og veiðiþolsathugunum. Rannsóknir á hrognkelsum eru tiltölulega nýbyrjaðar ef miðað er við rannsóknir á flestum öðrum nytjafiskum. Sigfús Schopka stundaði þær 1971–1973 að Vilhjálmur Þorsteinsson tók við þeim 1974 og hefur annast þær síðan. Fram til 1977 voru rannsóknir þessar aukastarf, en 1978, 1979 og 1980 hefur Vilhjálmur Þorsteinsson haft þær sem aðatstarf.

Bráðabirgðaniðurstöður hafa verið notaðar árlega til að skýra hagsmunaaðilum og forstjóra Hafrannsóknastofnunar frá ástandi og horfum. Í árslok 1981 er áætlað að birtar verði nákvæmar niðurstöður athugana á aldurssamsetningu hrognkelsastofnsins og á veiðiskýrslum frá 1976 og 1981 sem verða þá notaðar við útreikninga á stofnstærð og veiðiþoli. Hér er um mjög mikilvægan áfanga að ræða og brýnt að þetta verkefni fái áframhaldandi fjárveitingu, en fjárskortur hefur háð því mjög undanfarin ár. Hvað varðar ástand þessa stofns hefur það verið nokkuð gott 1978 og 1980 og er útlitið svipað fyrir 1981. Þótt ástand sé sæmilegt á hrognkelsastofninum sem stendur hefur það ekki ávallt verið þannig og er nauðsynlegt að fylgjast vel með árlegum breytingum sem verða í framtíðinni.

Rannsóknirnar hafa leitt í ljós að hrognkelsi er 5–6 ára þegar það kemur fyrst til hrygningar og að 6, 7, og 8 ára grásleppa er yfirleitt undirstaða veiðanna. Hrognkelsin sækja að öllum líkindum á sömu svæði til hrygningar og þau ólust upp á fyrsta árið. Af þessu leiðir að ástand getur verið nokkuð mismunandi á hinum ýmsu veiðisvæðum eftir veiðiálagi og afkomu seiða. Gagnasöfnun verður af þessum ástæðum að vera mjög víðtæk og vel skipulögð og heildarúttekt eða spá gildir varla fyrir öll veiðisvæðin.

Sú reglugerð, sem nú er í gildi varðandi hrognkelsaveiðar, hefur ýmsa kosti til hagkvæmrar nýtingar hrognkelsastofnsins. Lágmarksmöskvastærð fyrir grásleppunet, 10.5 tommur, veldur því, að tiltölulega lítið veiðist af smærri grásleppu sem er að koma til hrygningar í fyrsta skipti. Veiðitímatakmörk valda því, að ávallt kemst töluvert af grásleppu til hrygningar, jafnvel á þéttsetnustu veiðisvæðunum. Æskilegt væri að dreifa sókninni meira en nú er því þótt sum veiðisvæði séu ofsetin veiðarfærum eru önnur þar sem engin sókn er þrátt fyrir grásleppugengd, en þessi svæði koma ekki þeim fyrrnefndu nema lítið til góða vegna ofangreindra ástæðna.

Einnig væri ástæða til að koma í veg fyrir niðurskurð grásleppu á miðunum, því að auk þess sem hér er verið að kasta verðmætu hráefni er verið að kasta hræjum á hrygningarsvæðin og uppeldissvæði seiðanna. Þar sem mikið af hrognkelsi er á sumum veiðisvæðum getur þetta valdið smitandi sjúkdómi og má segja að þar sé bókstaflega um sýklahernað að ræða.“ — Svo mörg voru orð fiskifræðingsins Vilhjálms Þorsteinssonar.

Ég vil endurtaka það, sem ég hef áður sagt, að framleiðendur grásleppuhrogna hafa til skamms tíma ekki getað haft áhrif á innheimtu útflutningsgjaldsins af framleiðslu sinni né ráðstöfun þess. Þetta má rekja til þess, að þeir höfðu engin samtök með sér. Nú þegar þeir hafa bætt úr því verður ekki fram hjá þeim gengið. Ég tel eðlilegt að samtök þeirra ráði því, hvort útflutningsgjald skuli lagt á afurðir þeirra og ef það er gert að því sé þá varið í þágu atvinnuvegarins sjálfs og þeirra sem við hann vinna á sama hátt og á sér stað um hið almenna útflutningsgjald af sjávarafurðum samkv. lögum nr. 5/1976, sbr. lög nr. 2/1980.

Í frv. er gert ráð fyrir að lagt verði útflutningsgjald á allar grásleppuafurðir, ekki aðeins grásteppuhrogn. Eru þá m.a. hafðar í huga hugmyndir um að nýta haus og búk grásleppunnar og innvols annað en hrognin sjálf, t.d. í fóðurmeltu.

Í 2. gr. frv. er gert ráð fyrir 4.5% útflutningsgjaldi sem skiptist þannig samkv. 3. gr.:

Í fyrsta lagi 30% til greiðslu á líf-, slysa- og örorkutryggingum þeirra sem grásleppuveiðar stunda. Fiskimenn hafa slíkar tryggingar hjá hinu opinbera tryggingakerfi samkv. ákvæðum í sjómannalögum. Jafnframt hafa samtök þeirra gert sérsamninga við samtök útvegsmanna um enn frekari tryggingar af þessu tagi. Grásleppukarlar eru ekki aðilar að þeim samningum og ekki er um að ræða formlega kjarasamninga milli annars vegar eigenda grásteppubáta og sjómanna sem á þeim stunda veiðar og þá ekki heldur um umræddar tryggingar, enda eru ekki á þeim vettvangi samtök hliðstæð samtökum sjómanna og útvegsmanna almennt. Hins vegar er eðlilegt að grásleppumenn sitji við sama borð og aðrir fiskimenn að þessu leyti. Eins og fram kemur í grg. mun auðvelt í framkvæmd að kaupa slíka tryggingu fyrir slíkan hóp manna. Talið er fara best á því, að samtökin annist þetta verkefni fyrir allan hópinn, m.a. vegna þess, hversu rekstrareiningar eru margar og smáar.

Í öðru lagi er lagt til að 19% teknanna renni til sérstaks aflatryggingasjóðs grásleppuveiðimanna sem síðar verður að vikið.

Í þriðja lagi er lagt til að 18% teknanna renni til Fiskveiðasjóðs Íslands. Er það sama hlutfallstala og um ræðir í lögum nr. 2/1980, sbr. lög nr. 5/1976, um hið almenna útflutningsgjald af sjávarafurðum. Með þessari ráðstöfun verður það væntanlega tryggt að menn, sem hyggja á smíði eða endurbætur báta undir 12 brúttórúmlestum, fái hjá Fiskveiðasjóði eins og aðrir þá fyrirgreiðslu sem nú er mælt fyrir um í 3. lið 2. gr. reglugerðar nr. 278 frá 1. júlí 1979 fyrir Fiskveiðasjóð Íslands um lánaflokka. Stjórn sjóðsins virðist hafa leitt hjá sér slíkar lánveitingar.

Í fjórða lagi ber þess að geta, sem fram kemur í grg. fyrir frv. á þskj. 124 og raunar óbeint í b-lið 4. töluliðar 3. gr., að samtökin hyggjast koma sér upp í Reykjavík eða nágrenni birgðastöð. Er að því stefnt að safna saman grásleppuhrognum víðs vegar að af landinu í því skyni að ná hagstæðari farmgjöldum og til að skoða vöruna og stuðla þannig að því, að verkun, vigt og umbúnaður sé sem best. Er þetta m.a. gert vegna þess að söltunaraðilar eru margir og dreifðir og söltun hjá þeim flestum tiltölulega fáar tunnur. Kostnaðarsamt er því að láta skip, sem vöruna flytur út, safna framleiðslunni í fjölda hafna. Með því að safna sem mestu af hrognunum saman á einum stað er vafalaust hægt að komast að hagstæðari farmsamningum, auk þeirrar tryggingar á vöruvöndun sem í þessu felst.

Í þessum lið greinarinnar er gert ráð fyrir að 10% renni til rekstrar birgðastöðvarinnar, sem að öðru leyti er ætlast til að standi að mestu eða öllu leyti undir sér.

Einnig er samkv. 4. tölulið 3. gr. gert ráð fyrir að 20% útflutningsgjaldsins renni til samtakanna sjálfra til félagsmálastarfsemi. Þessi 20% gefa nokkru lægri tekjur en sá 1/3 hluti sem rennur til samtakanna nú og áður er drepið á. Með fjölgun meðlima aukast tekjur af félagsgjöldum, og ef tekjuafgangur verður er það á valdi aðalfundar að ráðstafa honum, t.d. til Fiskveiðasjóðs, Aflatryggingasjóðs, smíði eða kaupa eða jafnvel rekstrar birgðastöðvar eða verðbóta á framleiðslu hvers árs.

Í fimmta lagi telja samtökin rétt að 3% gangi samkv. 5. lið til sölustofnunar lagmetis þar sem þau hafa þar húsnæðisaðstöðu, aðgang að telexi og þess háttar.

Önnur ákvæði skýra sig sjálf, eru langflest tekin óbreytt úr lögum nr. 5/1976 með breytingum og fjalla um meðferð útflutningsskjala sem fer eftir þeim reglum sem almennt gilda í svona viðskiptum. Á sama hátt er ákveðið að ríkissjóður annist innheimtu útflutningsgjalds og skiptingu þess eftir gögnum ríkisbókhalds. Loks skal á það bent, að í niðurlagi frv. í þskj. 124 er ákvæði til bráðabirgða um að frá 1. apríl 1981 til 1. maí 1982 skuli auk 4.5% gjaldsins, sem um getur í 2. gr. frv., innheimta 1% gjald er renni til þróunarsjóðs lagmetisiðnaðarins. Stjórn Samtaka grásteppuhrognaframleiðenda féllst á þetta sem sárabætur fyrir það, að lagmetisiðnaðurinn missir, ef frv. verður samþ., af tekjum af grásleppuhrognum sem hann hefur notið allt frá 1972, en tekið skal fram að átti ekki að standa nema til bráðabirgða.

Eins og ég hef áður getið er á þskj. 123 flutt frv. um aflatryggingasjóð grásleppuveiðimanna. Grásleppumenn hafa ekki átt rétt á bótum úr Aflatryggingasjóði sjávarútvegsins. Í frv. til l. um útflutningsgjald er gert ráð fyrir að 19% útflutningsgjaldsins renni í þennan sjóð, eins og áður er rakið. Ákvæði um greiðslur til grásleppumanna, bæði í frv., ef að lögum verður og reglugerð, sem sett yrði á grundvelli þeirra, eru og verða miklu einfaldari í sniðum en þau sem gilda um Aflatryggingasjóð sjávarútvegsins. Stafar það fyrst og fremst af því, að hér er aðeins um eina tegund af veiðiskap að ræða og einn stærðarflokk báta svo og sama verðmæti vörunnar, þ.e. hverrar útfluttrar tunnu. Að öðru leyti er hlutverkið hið sama.

Í reglugerð yrðu sett ákvæði um bótasvæði sem væntanlega yrðu með allt öðrum hætti en gilda um fiskiskipaflotann. Það þarf frekari könnunar við, eins og fram kemur í grg. Bótareglurnar eru teknar óbreyttar úr lögum nr. 80/1971, um Aflatryggingasjóð, og þótt þeim reglum kunni að verða breytt vegna fiskiskipaflotans bendir allt til þess, að þær geti gilt óbreyttar fyrir grásteppuveiðarnar þar sem, eins og áður segir, allt er þar einfaldara í sniðum.

Gert er ráð fyrir að hinn nýi sjóður, ef stofnaður verður, hafi sérstaka stjórn skipaða tveimur mönnum tilnefndum af grásleppuveiðimönnum sjálfum og einum tilnefndum af Fiskifélagi Íslands sem jafnframt yrði formaður sjóðsstjórnar. Er þess að vænta að Fiskifélagið tilnefni mann sem hefur langa reynslu og þekkingu af starfsemi Aflatryggingasjóðs sjávarútvegsins. Þá er og á að líta að Fiskifélagið safnar öllum gögnum um grásleppuveiðar og hrognasöltun og hefur auk þess í höndum margvísleg gögn sem að gagni geta komið í starfsemi sjóðsins. Fiskifélaginu er enda í 8. gr. gert að skyldu að láta sjóðstjórn í té allar nauðsynlegar upplýsingar sem hún þarfnast vegna ákvörðunar bóta.

Þeirri hugmynd hefur verið hreyft, að Aflatryggingasjóður grásleppuveiðimanna yrði í Aflatryggingasjóði sjávarútvegsins eða deild í honum og undir sömu stjórn. Samtök grásleppuveiðimanna eru þessu alfarið andvíg og benda m.a. á að þeir, sem þá stjórn skipa, hafi fæstir þekkingu á grásleppuveiðum og hagsmunamálum grásleppuveiðimanna, enda munu reglur um t.d. kvótasvæði verða allt aðrar en gilda fyrir fiskiskipaflotann. Þeir telja og, sem von er að þeir búi sjálfir yfir þeirri þekkingu sem til þarf til að stjórn sjóðsins fari sem best úr hendi með góðri aðstoð reynds manns sem er tilnefndur í stjórnina af Fiskifélagi Íslands. Undir þessi sjónarmið leyfi ég mér að taka.

Að öðru leyti eru ákvæði frv., eftir því sem við á, í samræmi við ákvæði laga nr. 80/1971 um Aflatryggingasjóð sjávarútvegsins, og tel ég ekki ástæðu til að ræða þau sérstaklega.

Að lokum vil ég vekja athygli á því, að gildistökuákvæði beggja frv. er 1. apríl 1981. Það er í samræmi við að þá falla úr gildi ákvæði laga nr. 25/1978 um svokallað fullvinnslugjald af grásleppuhrognum. Ef það er vilji hins háa Alþingis að frv. þessi verði að lögum er því æskilegt að það geti orðið fyrir þessi tímamörk.

Herra forseti. Að svo mæltu legg ég til að frv. báðum verði vísað til hv. sjútvn. að lokinni þessari umr.