26.11.1980
Efri deild: 18. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 958 í B-deild Alþingistíðinda. (857)

120. mál, kosningar til Alþingis

Flm. (Salome Þorkelsdóttir):

Herra forseti. Vegna orða hv. 3. þm. Vesturl. varðandi 1. gr. vil ég ítreka það sem ég sagði áðan, að ég hafði samband við Hagstofu Íslands, sem sér um að útbúa kjörskrár, og fékk þar þær upplýsingar að þetta atriði væri framkvæmt að mestu leyti. Það er kannske meiri hætta á að það sé einhver misbrestur á að það gangi jafnt yfir vegna þess að þetta er ekki í lögum, en þetta er framkvæmt í samkomulagi við alla stjórnmálaflokkana. Ég tel því eðlilegt að lögbinda það.

Varðandi að frekar ætti að taka alla löggjöfina til heildarskoðunar get ég verið sammála því út af fyrir sig og það verður væntanlega gert, en mér hefur sýnst að við megum bíða æðilengi eftir því, að stjórnarskráin og þá um leið kosningalöggjöfin verði afgreidd í heild. Þau atriði, sem ég hef tekið hér út úr, eru meira „praktísk“ atriði, sem menn hafa reynslu af og þarf að bæta, og ég held að það væri mjög gott og eðlilegt að þessi atriði, sem liggja á borðinu, verði tekin út úr, því að það mundi þá væntanlega stuðla að betri nýtingu atkvæðisréttarins þegar gengið verður til kosninga t.d. um stjórnarskrána þegar þar að kemur.