09.12.1981
Efri deild: 19. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1357 í B-deild Alþingistíðinda. (1110)

134. mál, Flutningsráð ríkisstofnana

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég get raunar gert orð hæstv. utanrrh. að mínum, að ég á ekki ýkjalangt erindi í ræðustól við umfjöllun þessa lagafrv. Var það þó hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson sem gaf mér efnið til þess að taka hér öðrum fremur til máls.

Ég skildi til hlítar yfirlýsingu hv. 1. flm. Helga Seljans um það, að þeir flm. bitu sig ekki endilega fast í stofnun flutningsráðs, eins og það er nefnt í þessu frv., og leituðu liðsinnis allshn. að finna — ef finnanleg væru — einhver önnur ráð betri sem líkleg væru til þess að alþm. sameinuðust um þau til þess að koma fram meginefni þessa frv., sem er í fyrsta lagi valddreifing, dreifing á þjónustu út um landið með eðlilegum hætti, og í öðru lagi að sporna við vaxandi miðstýringu og þeirri áráttu, sem embættismenn virðast nú hafa til þess að flytjast hingað suður með skrifstofurnar sínar á hlýja svæðið við Faxaflóa. Ég tek undir með hv. þm. Eyjólfi Konráð Jónssyni, að ég má ekki til þess hugsa að Framkvæmdastofnun ríkisins verði falið þetta mjög þýðingarmikla hlutverk. Ég er hræddur um að viðfangsefnin muni deyja með þeirri stofnun og ég er þess mjög fýsandi — ef slíkt er leyfilegt, þegar talað er um stofnun sem óhæfilegt væri um menn — ég er þess fýsandi að flýtt verði fyrir andláti hennar.

Ég tel þarflaust að rifja upp í ítarlegu máli með hvaða hætti áætlanadeild Framkvæmdastofnunar hefur unnið að sínum viðfangsefnum og til hvers störf áætlunardeildar hafa leitt. Við getum minnt á byggðaáætlun fyrir Norður-Þingeyjarsýslu sem ákveðið var að setja í vinnslu áætlunardeildar í mjög svo frómum tilgangi og með háleitu og skynsamlegu markmiði. Það, sem ekki vantaði, var hið skrifaða mál, hið ritaða mál. Meginniðurstaðan raunar af öllu því starfi varð sú, að rétt væri að sleppa út úr áætluninni — í þessu öflugasta sauðfjárræktarhéraði landsins — öllu því sem lyti þar að landbúnaði. Meginmarkmiðinu með eflingu byggðar á Þórshöfn var lýst svo, að mælikvarðinn, hvort náðst hefði, væri sá, að þar settist að rakari og komið yrði upp skemmtanamiðstöð. Ég vil rétt aðeins minna á það með hvaða hætti þessi sama áætlunardeild varði verulegum tíma og þar að auki allmiklum peningum í að reikna Austfirði út í mannkílómetrum. Jafnvel þótt við ætluðum Framkvæmdastofnun ríkisins — sem ég ítreka að ég ætla ekki, — langra lífdaga, þá vildi ég ekki að þetta starf yrði unnið þar. Við verðum að leita annarra ráða.

Við vitum það fullvel, að tregðan er ærin fyrir hendi af hálfu embættismanna, þar sem við erum raunverulega að véla um kannske ekki búsetu þeirra sem slíkra, heldur völd þeirra og verksvið. Hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson kvað fast að orði og ég hygg að hann geti staðið við þau orð. Ég hef rökstuddan grun um það, með hvaða hætti embættismenn brjóti skýr og óvefengjanleg landslög sem varða staðsetningu ríkisstofnana. Við munum ekki koma í veg fyrir það með lagasetningu að embættismenn haldi áfram að þráast við framkvæmd laga og jafnvel brjóta þau. Ein af mörgum tilvitnunum í sjálfan Konfúsíus, sem kunnugir kalla Kung-fú-tse, sem maður hefur hvað víðast lesið, var á þessa lund: „Aldrei mun keisari miðríkisins setja svo viturleg lög, að mandarínunum takist eigi að brjóta þau.“ Og verulegur hluti af okkar laganýsmíð hér á Alþingi stendur í nánum tengslum við þessa hugsun Konfúsíusar. Af því þurfum við að semja svo mörg lög, að skálkarnir brjóta svo mikið af þeim.

Ég vildi fá ítarleg ákvæði um það, með hvaða hætti hin fámenna deild — og ég tek undir með hæstv. utanrrh. um það, að ég vil að til verði kvaddir fáir menn, en þeim mun duglegri og gáfaðri — til þess að leggja á ráðin um það, með hvaða hætti við getum beitt því valdi sem hér er um að tala, á þann hátt að embættismennirnir, mandarínarnir, fái ekki komið í veg fyrir framkvæmd laganna. Ég vildi að kveðið væri á um það með ljósum orðum, hvert valdsvið þessara aðila, sem eru í forsrn., verði, og skiptir þá litlu máli hvort þessari fámennu nefnd yrði valið nafnið flutningsráð ríkisstofnana eða gefið eitthvert annað kannske yfirlætisminna heiti. Ég er efalaus um það, að viðgangur byggðanna í hinum einstöku landshlutum er undir því kominn reyndar, að við eflum sjálfræði þeirra í mjög mörgum málum og þá ekki síst fjárhagslegt sjálfræði þeirra og fjárhagslega ábyrgð náttúrlega þá um leið. Það er ég viss um. Og kynnu ýmsar hurðir að falla fyrirhafnarminna að stöfum hjá okkur ef við hefðum sinnt því efni fyrr, en hér er um að ræða anga af Parkinsonslögmálinu, þar sem aðalskrifstofur, sem að eðlilegum hætti eru staðsettar í Reykjavík, hafa tilhneigingu til þess að draga sér umboð og vald frá fólki sem álítur miklu þægilegra hér innandyra syðra heldur en að senda fulltrúa með umboð út til fólksins og starfa á meðal þess. (EKJ: Getur ræðumaður svarað því hvað mannkílómetrinn muni vera langur?) Hann er hlutfall af íbúafjölda. Sé íbúum Austurlands skipað niður á þann hátt sem áætlunardeildinni þótti skynsamlegast til þess að koma á samræmdum vegalengdum á milli einstakra Austfirðinga, þ. e. hv. þm. deilir íbúafjöldanum, ungum sem öldnum, í sennilega í senn ferkílómetrafjölda og lengdarkílómetra milli hinna fjarlægustu staða.