10.12.1981
Sameinað þing: 33. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1429 í B-deild Alþingistíðinda. (1186)

9. mál, aðild Íslands að Alþjóðaorkustofnuninni

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil undirstrika eitt atriði í framhaldi af minni fyrri ræðu um þetta mál. Ég las upp úr grg. um grundvöll Alþjóðaorkustofnunarinnar, sem er samningur um alþjóðaorkuáætlun og greinist í tíu meginþætti. Ef úr samningum hefði orðið við þann fulltrúa sem bauð samstarf milli Íslands og olíuframleiðslulanda, þá hefði Ísland fullnægt öllum þeim skilyrðum sem eru takmarkið með Alþjóðaorkustofnuninni. Ég vil að þetta komi hér fram.

Hæstv. viðskrh., okkar olíumálaráðherra, veitti þær upplýsingar, sem eru ekki nýjar, að olíuviðskipti eru stór þáttur í okkar utanríkisviðskiptum. Að sjálfsögðu vita það allir þingmenn. En einmitt vegna þess, hve stór þáttur olíuviðskiptin eru, er þeim mun meira atriði að við náum sem hagkvæmustum og bestum samskiptum beint við þá aðila sem framleiða hráefnið ef tækifæri gefst til að skipta við þá milliliðalaust. En það er því miður staðreynd, að embættismenn eru bundnir við hefð í makindum og allt nýtt er óþægileg viðbót og raskar ró þeirra daglegu „rútínu“ ef ég má nota það orð.

Og það get ég sagt, að svo langt á eftir tímanum getur enginn verið, hvorki ráðh. né alþm., að halda að framsæknir viðskiptaaðilar, sem eru störfum hlaðnir og tími þeirra dýr, fari að ganga í sendiráð Íslands erlendis og tala þar við viðskiptafulltrúa, sem hefur bréfasamband og gefur skýrslu til utanrrn. sem sendir skýrsluna til viðskrn. um væntanleg viðskipti. Þessi hugsunarháttur og þessi starfsaðferð er aftan úr forneskju. Þessir menn koma hingað af vinskap við mig persónulega. Þeir koma, þeir skoða það sem við höfum að bjóða, þeir spyrja nokkurra spurninga: hvað kostar þetta? kynna sér gæðin, taka ákvörðun og fara. Og annaðhvort skipta þeir við okkur eða tala aldrei við okkur aftur. Það er hraði í viðskiptum í dag sem leyfir okkur ekki þau vinnubrögð sem viðhöfð eru í okkar þjóðfélagi yfirleitt.

Ég staðhæfi ekki að það sé hægt að lækka olíuverð með því sem ég gat um áðan. Ég staðhæfi það ekki. En ég staðhæfi hér og nú að það er hægt að lækka olíuverð bara með því að lækka innlendan kostnað, þó ekki væri neitt annað, með útboðum, eins og ég gat um að ég hef persónulega reynslu af fyrir það skipafélag sem er undir minni stjórn, og með því að setja olíuframleiðendum og olíusöluaðilum, sem við skiptum við, kosti um að þeir eigi birgðir hér sjálfir á sinn kostnað eins og aðrir aðilar eiga í öðrum vörutegundum í tollvörugeymslu, vegna þess að fjármagnskostnaðurinn einn, vextir af því fé, sem olíufélögin þurfa að draga á viðskiptabankana, eru 54%.

Það er hægt að spara þann fjármagnskostnað ef verulegur kraftur er í þeim, sem ráða þessum málum, að setja skilyrði fyrir að olíufélögin hafi hér aðgang að íslenskum sölumarkaði. Þó ekki væri nema vegna fjármagnskostnaðarins eins væri hagkvæmt að íslenskir dreifiaðilar gætu keypt hér af erlendum birgðum, sem eru staðsettar á Íslandi, en ekki af birgðum sem staðsettar eru úti í heimi. Það þyrfti ekki að bæta við neinum tönkum eða geymslurými, þeir eru til fyrir.

Hæstv. ráðh. gaf góð ráð, að menn skyldu tala varlega um málin vegna þess að óvissuþættir, sem koma þar inn í, eru margir. Þetta er á diplómatísku máli að segja: Skiptið ykkur ekkert af þessu máli, ykkur kemur það hreinlega ekkert við. — Ráðherra hlær. Ég er búinn að vera konsúll í 15 ár og meira, ég er ekki að hlusta á diplómatískt tal í fyrsta sinn. Það er hægt að segja ýmislegt á margan hátt: Talið þið varlega um málin vegna óvissuþátta sem koma þar inn i. Sem sagt, skiptið ykkur ekkert af þessu, ykkur kemur þetta ekkert við. — Ég vara við slíkum hugsunarhætti.

Hvað mundu íslenskir aðilar hugsa ef erlendir menn tækju á móti íslenskum sölumönnum sem vildu selja fisk eða kjöt eða niðursuðuvörur, með þeirri tortryggni að það þyrfti að kynna sér sérstaklega hjá ráðherrum annarra landa hvort mennirnir eru í raun þeir sem þeir segjast vera eða hvort þeir hafi umboð til að bjóða það sem þeir eru að bjóða. Við mundum ekki taka því vel. Hér var viðkomandi ekki umboðsmaður. Hæstv. ráðherra getur ekki kallað þann aðila það sem kom hingað og bauð að koma á viðræðum. Hann bauð ekki olíu. Hann gat um möguleika, sem væru fyrir hendi, og bað um að íslenskir aðilar rituðu viðkomandi stjórnvöldum bréf þar sem íslenskir aðilar lýstu sig reiðubúna til að taka upp viðræður. Og hann gat um að viðkomandi aðilar væru reiðubúnir að veita ákveðið magn, ákveðinn kvóta. Hann var ekki hér til að semja um eitt eða neitt. Hann var hér til að bjóða íslenskum aðilum, ríkisstjórninni, að taka upp viðræður við ríkisstjórn annars lands. Ég vil leiðrétta hér það sem rangt er, að kalla þennan mann umboðsmann eins eða neins, að öðru leyti en því, að hann var umboðsmaður ríkis sem óskaði eftir að Ísland tæki upp viðræður um viðskipti.

Hæstv. viðskrh. talaði við ráðherra Dana til að fá hjá honum upplýsingar um viðskipti umboðsmanna og fékk að sjálfsögðu ráðleggingar um að skipta ekki við neina umboðsmenn, hafa enga milliliði, heldur ræða beint við ríkisstjórn Saudi-Arabíu. Erum við ekki komnir undan pilsfaldi gömlu dönsku mömmu? Þarf ríkisstjórnin eða ráðherra í ríkisstjórn Íslands að leita til ráðherra í ríkisstjórn Danmerkur til að fá ráð hjá honum hvort rétt sé að taka upp viðskiptasamband við önnur lönd eða þá hvort rétt sé að nota sem millilið aðila sem kemur hingað í heimsókn eða hvort eigi að fara beint? Íslenska ríkisstjórnin hefur tekið við góðum ráðum hjá ráðherra Dana og ekki haft samband við ríkisstjórn Saudi-Arabíu eftir það boð sem barst í gegnum þann aðila sem heimsótti Ísland eftir krókaleiðum, en hefur nú tekið upp stjórnmálasamband við Saudi-Arabíu. Ég vona að það sé þá árangur af þessari heimsókn og þeim bréfaskiptum og staðfestingu sem rn. hefur fengið um vilja olíuframleiðslulandanna til að skipta beint við Ísland. Þá er að vísu vissum árangri náð af heimsókn þess aðila sem hingað kom.

Ég vil ekki taka undir það, að núv. hæstv. viðskrh. hafi ekki verið ágætur viðskrh., því hann hefur verið það og hefur haft gott samband við þá íslensku aðila sem við hann þurfa að hafa samband. En ég vil biðja hæstv. viðskrh. að nota ekki oftar þau rök, að kannað hafi verið hvort rétt væri að reisa hér olíuhreinsunarstöð og að komið hafi í ljós, þegar sú könnun fór fram, að tvímælalaust væri það ekki rétt, það hafi verið neikvæð niðurstaða sem fékkst. Ég vil biðja hann að blanda ekki saman könnun sem fór fram um það hvort reisa ætti olíuhreinsunarstöð fyrir íslenska markaðinn, fyrir innanlandsnotkun: Sú könnun sýndi, eftir því sem ég hef heyrt hæstv. ráðh. segja áður og áðan, ekki þá niðurstöðu að hér bæri að reisa olíuhreinsunarstöð á þeim tíma. En það var fyrir íslenskar þarfir, það var fyrir innanlandsmarkað. Ég er hins vegar að tala um orkuver sem er mörgum sinnum stærra en við þurfum líklega nokkurn tíma að nota. Ég er að tala hér um olíuhreinsunarstöð sem kom til greina samkv. þeim viðræðum sem fóru fram, að olíuframleiðsluríki reistu hér í staðinn fyrir þau gömlu orkuver eða olíuhreinsunarstöðvar sem nú eru á meginlandi Evrópu og ekki er rými fyrir lengur, eru orðnar úreltar og þeir fá ekki að endurbyggja eða endurskipuleggja.

Ísland er talið nokkuð hlutlaust ríki, utan við átök stórveldanna, þrátt fyrir þátttöku okkar í Atlantshafsbandalaginu. Og Ísland er þannig staðsett líka, að talið var í þessum umræðum að staðsetning hér væri æskileg til þess að dreifa frá á markaði bæði í Evrópu og í Bandaríkjunum. Olíuhreinsunarstöð, sem athugun var gerð á hér, og sú olíuhreinsunarstöð, sem ég er að tala um, eru því alls ekki sambærileg fyrirtæki og niðurstaða af þeirri könnun, sem var gerð á sínum tíma, á ekkert erindi inn í umræður um þessi mál nú. Það að einhver olíuhreinsunarstöð á Nýfundnalandi hafi farið á hausinn, eins og ráðh. tók til orða, skiptir hér engu máli. (Viðskrh.: Hún átti eftir að gera það.) Það skiptir ekki nokkru máli — og jafnvel ekki hvort sú stöð, sem hér yrði byggð ef samið yrði við þessa aðila, færi á hausinn eða hausinn ekki, vegna þess að íslensks fjármagns, íslenskrar þátttöku er ekki sérstaklega óskað. Það veltur bara á trú íslenskra aðila á fyrirtækið hvort þátttaka Íslendinga verður einhver, lítil eða mikil. Ísland þarf því ekki að taka neina áhættu þar miðað við þau samtöl sem fram fóru.

Ég ætla ekki að hafa þetta miklu lengri ræðu, virðulegi forseti. En það gleður mig að heyra hæstv. viðskrh. undirstrika að viðskrn. muni ekki leggja stein í götu þeirra sem vilja ná hagkvæmum kjörum við aðra aðila. Er ég þá sérstaklega með í huga einn aðila úti í bæ sem fagnar þessum ummælum hæstv. ráðh. Ég veit ekki betur en hún, þessi aðili, hafi haft talsverð sambönd bæði við Portúgal og annað Evrópuríki án þess að ná nokkru samkomulagi við viðskrn.