15.12.1981
Sameinað þing: 36. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1542 í B-deild Alþingistíðinda. (1280)

1. mál, fjárlög 1982

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég vil í lok þessarar umr., 2. umr. um fjárlög, þakka hv. fjvn. fyrir vel unnin störf og afgreiðslu hennar á fjárlagafrv. til 2. umr. Ég held að fullyrða megi að nú við 2. umr. málsins sé meira verk unnið af hálfu fjvn. en oftast áður við 2. umr. og að tiltölulega færri atriði séu nú óútkljáð og verði að koma til athugunar fyrir 3. umr. en oft hefur áður verið. Hitt er svo annað mál, að fáir dagar eru til stefnu og stefnt hefur verið að því að ljúka fjárlagaafgreiðslunni fyrir næstu helgi.

Í máli stjórnarandstæðinga hafa komið fram ýmsar ábendingar og ýmis gagnrýni. En ég held að ég geti líka leyft mér að fullyrða að þar kom ekkert það nýtt fram sem ekki hefur áður verið svarað. Og þar sem um það er samið, að umr. ljúki nú, og margt er annað á dagskrá og vegna þess að ég vil ekki fara að vekja hér frekari umr. um málið, þá sé ég ekki ástæðu til að svara því sem fram hefur komið í máli stjórnarandstæðinga þótt vissulega mætti þar gera margar aths. við. En ég held að allar þær aths. hafi þegar komið fram áður.

Hv. þm. Friðrik Sophusson lagði allnokkrar spurningar fyrir mig í ræðu sinni í nótt. Ég vil svara þessum spurningum í eins fáum orðum og hægt er að komast af með.

Hann spurði í fyrsta lagi hvað liði framkvæmd 20. gr. laga nr. 63 frá 1970, um skipan opinberra framkvæmda, en 20. gr. fjallar um skilamat. Í greininni segir:

„Að lokinni verklegri framkvæmd og úttekt skal fara fram skilamat. Í matinu skal gerð grein fyrir því, hvernig framkvæmd hefur tekist miðað við áætlun. Enn fremur skal þar gerður samanburður við hliðstæðar framkvæmdir sem þegar hafa verið metnar. — Ríkisendurskoðandi eða ríkisendurskoðun setur nánari reglur um fyrirkomulag skilamats og sér um það að greinargerðir um skilamat séu lagðar fyrir fjvn. Alþingis, samstarfsnefnd um opinberar framkvæmdir og eignaraðila.“

Þótt nú séu 11 ár síðan þessi lög voru sett hér á Alþingi hefur þessi grein laganna ekki komist til framkvæmda og eru vafalaust ýmsar skýringar á því sem hér skulu ekki tíundaðar. En þetta er staðreynd málsins.

Hv. þm. vitnaði til yfirlýsinga sem gefnar hefðu verið um að skilamat hæfist í byrjun þessa árs og vinna við það. Ég missti af því hverjir hefðu gefið þessar yfirlýsingar. Ég held að þessi yfirlýsing hafi alls ekki verið gefin af mér. En ég tek undir það með hv. þm., að það er afskaplega brýnt og auðvitað löngu tímabært að farið sé að framkvæma þessa lagagrein og það hefur verið til umræðu í fjmrn. Það er m. a. til umræðu þessa dagana hvernig þetta skuli skipulagt, og ég vænti þess fastlega, að skriður komist á framkvæmd málsins. Ég get hins vegar ekki nákvæmlega fullyrt hvenær framkvæmd þessa lagaákvæðis verður komin í fullkomið lag, en það er fullur vilji til þess hjá ríkisendurskoðun, fjárlaga- og hagsýslustofnun og framkvæmdadeild Innkaupastofnunar, en það eru þeir þrír aðilar sem hér koma við sögu, að koma þessu í framkvæmd. Það hafa farið fram viðræður um þetta mál og skipulagningu þess svo að ég vænti þess, að framkvæmd þess sé á fullum skrið.

Hv. þm. spurði að því í öðru lagi, hvort unnið hefði verið að undirbúningi þess að ríkisendurskoðun yrði sett undir stjórn Alþingis, en fram hafa komið hugmyndir og tillögur um að ríkisendurskoðun heyri beinlínis undir Alþingi og verði undir stjórn sérstakrar þingkjörinnar stjórnar. Um þetta mál get ég aðeins sagt það, að þetta er eitt af því sem rætt hefur verið um á fundum sem hafa verið haldnir nokkrir með forustumönnum fjmrn., fjárlaga- og hagsýslustofnunar og ríkisendurskoðunar, þar sem rætt hefur verið um hugsanlega endurskipulagningu á starfsemi þessara stofnana. M. a. hefur á þessum fundum verið rætt um hagsýslustarfsemi sem nú fer fram bæði á vegum fjárlaga- og hagsýslustofnunar og á vegum ríkisendurskoðunar. Það hefur verið rætt um skipulag endurlánareiknings og starfsemi ríkisábyrgðasjóðs og hefur þá verið drepið á að hugmyndum hafi verið varpað fram í þessa veru. Ég held að ljóst sé að þessi endurskipulagning hafi bæði kosti og galla. Alþingi hefur vissulega mikil afskipti af ríkisendurskoðun þar sem það kýs yfirskoðunarmenn ríkisreiknings og yfirskoðunarmenn hafa náið samstarf við ríkisendurskoðun. En hvort gagn sé að því að sérstök þingkjörin stjórn sé yfir þessari stofnun skal ég láta ósagt. Það eru áreiðanlega bæði kostir og gallar á því. Málið hefur sem sagt verið til umræðu en engin ákveðin stefna verið mörkuð til breytinga á þessu atriði.

Hv. þm. spurði hvort ekki yrði um að ræða frekari niðurfellingu á aðflutningsgjöldum af aðföngum iðnaðarins. Í þessu sambandi er rétt að rifja það upp, að um s. l. áramót voru teknar ákvarðanir um útgáfu reglugerðar um niðurfellingu á aðflutningsgjöldum af ýmsum aðföngum iðnaðarins sem ekki hafa áður verið felldir niður tollar og aðflutningsgjöld af, en sem kunnugt er eru felld niður aðflutningsgjöld af mestöllum aðföngum iðnaðar. Þarna var þó um að ræða allmarga vöruflokka sem ekki hafði verið tekin ákvörðun um að skyldu vera innan ramma þeirra vörutegunda sem tollur er felldur niður af, og deilt hafði verið um það um margra ára skeið, hvort þessar vörur ættu að falla í þann flokk.

Auðvitað segir það sig sjálft, að ávallt er erfitt að draga skýr mörk þegar um er að ræða að flokka vörur í aðföng eða rekstrarvörur og fjárfestingarvörur. Í mörgum tilvikum getur verið um að ræða óskýr skil á milli. Í þessu tilviki var gengið til móts við kröfur iðnaðarins og felld niður gjöld og aðflutningsgjöld í allstórum stíl, svo að tekjutap ríkissjóðs á árinu 1980 mun hafa numið 10 millj. kr. eða 1 milljarði gkr. Það eru ekki uppi áform nú um frekari niðurfellingu á aðflutningsgjöldum í þessu sambandi á næstu vikum eða mánuðum. Hins vegar er ljóst að þegar kemur að endurskoðun tollskrárinnar, sem gæti orðið á þessu ári, annaðhvort síðar í vetur eða á næsta hausti, þá er þetta eitt af þeim atriðum sem fjallað verður um. Endurskoðun tollskrárinnar er í fullum gangi. Nefnd hefur unnið að henni ásamt allmörgum starfsmönnum og embættismönnum og ég tel að vænta megi niðurstöðu af því starfi innan tíðar.

Hv. þm. spurði, hvað líði undirbúningi að upptöku svonefndrar tollkrítar, og vitnaði til þess, að áform hefðu verið uppi um að leggja frv. um tollkrít fram hér í þinginu á þessum vetri. Ég vil skýra frá því hér, að nefnd, sem skipuð var til að fjalla um þetta mál, hefur lokið störfum og skilað ítarlegu áliti um málið. Á grundvelli þess nefndarálits og í samvinnu við nefndina var samið allítarlegt frv. um þetta efni. Frv. hefur verið til umræðu og athugunar í ríkisstj. og meðal samstarfsaðila ríkisstj.

Hv. þm. spurði um launaskatt og hvort fyrirhugaðar væru breytingar á honum. Eins og kunnugt er er hann í því fólginn að lagður er 3.5% skattur á allar launagreiðslur sem fram fara hér á landi. Ég vil svara þessu þannig, að þó að fram hafi komið hugmyndir í þessa átt er samt ekki í undirbúningi nein breyting á ákvæðum um launaskatt.

Hv. þm. spurði hvort áformaðar væru breytingar á skatti á skrifstofu- og verslunarhúsnæði. Eins og kunnugt er hefur skattur á skrifstofu- og verslunarhúsnæði verið lagður á til eins árs í senn og núgildandi lög renna út um næstu áramót. Ríkisstj. hefur lagt fram frv. hér á Alþingi um framlengingu á þessum skatti. Vitað er að fram hafa komið óskir um endurskoðun á þessum skatti og umræður um það mál standa nú yfir. g geri ráð fyrir að það verði þá fyrst og fremst til meðferðar, þegar þetta frv. kemur til afgreiðslu hér í þinginu, hvort einhverjar breytingar verða gerðar á þessum skatti. Ég vil ekki útiloka það. En um það hafa engar ákvarðanir verið teknar.

Herra forseti. Ég tel mig hafa svarað spurningum hv. þm. og sé því ekki ástæðu til að hafa þessi orð fleiri.