17.12.1981
Efri deild: 26. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1677 í B-deild Alþingistíðinda. (1365)

55. mál, lánsfjárlög 1982

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Herra forseti. Við höfum nú hlýtt á mjög ítarlegar og ég vil segja nærri því frábærar ræður, framsöguræður manna. Ég kalla þá báða frsm. minni hl., þó að annar sé það að forminu til, og ég vil segja það, að það yfirlit, sem þeir hafa gefið um stöðu mála, er með afbrigðum gott og skýrt. Ég harma að sjálfsögðu að þeir, sem mesta þörf hefðu fyrir að fræðast um þessi mál, þ. e. hæstv. ráðherrar, skyldu ekki geta nema endrum og eins setið hér inni, því að ljóst er að þeir gera sér sáralitla grein fyrir því, í hve alvarlegt efni er stefnt í fjármálum, efnahags- og atvinnumálum þjóðarinnar, og virðast ætla að sigla þjóðarskútunni á sama strikinu — og það strik er víst norður og niður, ef lengi er þannig siglt.

Ég vil í upphafi aðeins lítillega ræða um málsmeðferð. Ég held að öllum sé hollt að hugleiða örlítið hvernig framgangi málsins er unnt að haga og hvaða vinnubrögð séu heppilegust. Það hefur því miður verið sáralítill tími til að fjalla um þetta mál í fjh.- og viðsk.-nefndunum. Málið er í rauninni fyrst fyrir tekið fimmtudaginn 10. des. eða fyrir réttri viku. Þá hafði enginn fundur verið haldinn í fjh.- og viðskn. Ed. frá 30. nóv. eða í 10 daga þótt þetta sé mesti annatími þingsins einmitt á sviði fjárlagagerðar og lánsfjáráætlun sé ekkert annað en hluti fjárlaga. Það er sem sagt ekkert í nefndinni unnið í 10 daga. Á þessu eru auðvitað meðfram þær skýringar, að tveir nm., hæstv. forsrh. og hv. formaður nefndarinnar, voru eitthvað af þessum tíma erlendis, annar víst allan tímann eða svo til, og þess vegna var enginn meiri hl. stjórnarsinna í þessari nefnd. Það kann að hafa valdið einhverju um að ekki voru boðaðir þar fundir. Hitt hygg ég þó að sé sanni nær, að ríkisstj. hafi ekki haft minnstu hugmynd um hvað hún vildi í þessu máli, hvort hún yfirleitt hafi ætlað að láta það ganga fram, og ef hún ættaði að láta það ganga fram, þá með hverjum hætti, hvernig að því skyldi staðið, hvað lántökur ættu að vera miklar, hvernig þeim skyldi vera háttað og hvort þær skyldu vera innlendar eða erlendar, hvaða möguleikar væru á þessum lánum og hvernig peningunum skyldi verja. Ég held að þetta hafi kannske allt farið saman.

En svo gerist það s. l. fimmtudag, að fundur er boðaður, sameiginlegur fundur, held ég þá strax, fjh.- og viðsk.-nefndanna. Þar er formaður fjh.- og viðskn. Ed. að því spurður, hvort það sé hugmynd ríkisstj. að þetta mál nái fram að ganga. Hann getur ekki gefið um það upplýsingar en segist munu reyna að afla þeirra. Síðan gerist hvorki meira né minna en það, að sá nm., sem yfirleitt sést aldrei á nefndarfundum, sjálfur hæstv. forsrh., mætir á fundi á föstudagsmorgni 11. des. og tjáir okkur þá að það sé meiningin að málið nái fram að ganga, eða sér mundi a. m. k. þykja það mjög æskilegt. Og það vil ég segja hv. formanni fjh.- og viðskn. Ed. til hróss, að hann setti þá allt í gang — ég mun nota það orðalag — til þess að reyna að hjálpa okkur við að afla upplýsinga og fá skýringar á ýmsum þáttum málsins. Og áfram er unnið á laugardegi og þar mætir meira að segja hæstv. forsrh. í annað sinn á nefndarfundi og situr með okkur lengi dags. Þá er sem sagt unnið verulegt starf.

Við buðumst til þess, nm. stjórnarandstöðunnar, að vinna allan sunnudaginn, en því boði var ekki tekið, hvort sem menn hafa talið að það væri þýðingarlítið að vinna þá eða þeir hafi haft öðrum hnöppum að hneppa. Síðan má segja að unnið hafi verið myrkranna á milli, en því miður ekki með þeim árangri sem æskilegast hefði verið, vegna þess að bæði er málið flókið og þar að auki er engin yfirstjórn í sambandi við upplýsingaöflun og samræmingu þeirra mörgu talna og þeirra mörgu sjónarmiða sem fram koma að sjálfsögðu í lánsfjáráætlun. Mér er tjáð að áður, t. d. í fyrra, hafi Þjóðhagsstofnun verið falið að hafa yfirstjórn með því að safna þessum upplýsingum saman og stýra vinnunni, að sjálfsögðu í samráði við fjh.- og viðskn. Ekkert slíkt átti sér stað núna. Þjóðhagsstofnun kom ekkert meira nálægt þessu máli en aðrar stofnanir. Þar voru Framkvæmdasjóður, Framkvæmdastofnun, Seðlabanki, fjmrn., Þjóðhagsstofnun o. s. frv., en allar eiginlega sitt í hverri áttinni. Það var varla á nokkurs færi að samræma þessi vinnubrögð, og ég er ekki í því efni að ásaka okkar formann. Hann reyndi að koma fyrirspurnum okkar á framfæri. Hitt er svo annað mál, að það gafst sáralítill tími til að ræða allar þær greinargerðir sem við fengum. Þær eru hér í 30–40 skjölum komnar í möppu, sem við að sjálfsögðu getum lesið, en það vakna enn þá fleiri spurningar við að lesa slíkt mál heldur en svarað er. Það vakna kannske spurningar sem þyrfti að fá svarað með því að hafa munnlegar viðræður við alla þessa fjölmörgu menn.

Einhver kynni nú að halda að ein vika í stríði og starfi kynni að nægja til þess að gera sér grein fyrir þessu máli. En þess er þó fyrst að gæta, að það er rétt sem hér hefur komið fram, að kannske er afgreiðsla lánsfjáráætlunar enn þá mikilvægari en sjálfra fjárlaganna, því að hún er stefnumarkandi í fjármálapólitík ríkisins. Fjárlög eru í nokkuð föstum skorðum og kannske fastari en stundum áður. Menn vita nokkurn veginn hvernig þau muni breytast þó að viðmiðunartölur o. s. frv. séu náttúrlega stundum út í bláinn. Í raun réttri ætti lánsfjáráætlunin að vera hluti fjárlaga. Þannig hygg ég að gert sé upp meðal annarra þjóða. Og þá er þetta kannske mikilvægasti þáttur fjárlaganna, ekki síst erlendu lántökurnar, því að þrátt fyrir allt höfum við Íslendingar lengst af reynt að haga okkar erlendu lántökum þannig, að við værum nokkuð öruggir um að geta í venjulegu árferði staðið við skuldbindingar okkar og gætt þess mjög rækilega, að heimildir til erlendrar lántöku væru einungis fyrir hendi ef Alþingi samþykkti. Það er kannske eitt af því tiltölulega fáa sem hefur verið nokkuð fast og öruggt í okkar stjórnskipun og löggjöf.

En ef þetta væri nú svo, að lánsfjáráætlun væri felld inn í fjárlög, eins og vera ætti, þá er ljóst í fyrsta lagi að ríkissjóður er rekinn með gífurlegum halla, eitthvað yfir 20%. Þannig mundi vera talið meðal annarra þjóða. T. d. voru menn mjög undrandi á því þegar það upplýstist að sænsku fjárlögin væru með 30% hækka. En þess ber að gæta, að þá voru þau gerð upp þannig að allar tölur, sem ríkisfjármálin varða, eru teknar þar inn, þ. á m. það sem við köllum lánsfjáráætlun. En þetta er kannske önnur hlið málsins.

Hitt er öllu alvarlegra, að einnig erlendar lántökur eru orðnar meira en 1/5 hluti af hinum raunverulegu fjárlögum. Á það hefur verið bent af mörgum hér, m. a. frsm. meiri hl. og gladdi mig að heyra hann segja að hann væri farinn að óttast miklar erlendar lántökur, ég veit að hann gerir það, við gerum það allir — og einnig af okkur stjórnarandstæðingunum, að þegar farið er að reka ríkissjóðinn í raun réttri að kannske 1/5–1/4 hluta með erlendum lántökum, þá er náttúrlega orðið um gífurlega eyðslu að ræða, þá er verið að afla fjár til daglegrar neyslu en ekki til fjárfestingar einvörðungu, sem er auðvitað réttlætanlegt þegar sú fjárfesting er skynsamleg.

En það fór svo, að mig minnir s. l. mánudag á sameiginlegum fundi fjh.- og viðskn.-nefndanna, að á það var bent, að umræður í nefndunum gætu ekki orðið mjög ítarlegar þar sem tími væri skammur og hægt væri að færa þær inn í deildir og hafa þessar umræður og upplýsingasöfnun hér í Ed. fyrst og fremst og þá í Nd. sjálfsagt líka. Þess vegna hlýtur svo að fara að ræður okkar verði lengri en ella hefði orðið og fyrirspurnir verði töluvert margar sem við hljótum að beina til hæstv. ráðh., ýmist þá þegar þeir heiðra okkur með nærveru sinni eða þá að þeim verður komið á framfæri með öðrum hætti milli 2. og 3. umr., af því að væntanlega hugsa menn sér að reyna að láta 3. umr. fara hér fram á morgun. Þess vegna er ljóst að það verður að vinna mikið í dag og fram eftir kvöldi og í nótt og þá í fyrramálið til þess að leita eftir svörum og leitast við að greiða fram úr þeim flækjum sem hér eru óteljandi margar á ferðinni, eins og allir vita sem tekið hafa þátt í þessum störfum. Það hefði auðvitað verið æskilegt og ég vona nú að svo fari, að fljótlega muni einhver ráðh. koma hér í ræðustól og svara einhverjum af þeim fjölmörgu spurningum, sem beint og óbeint hafa þegar verið bornar fram til þeirra af þeim hv. ræðumönnum sem þegar hafa talað, reynt að greiða í sundur þær flækjur sem ég áðan var um að tala. Og raunar hafa þeir skýrt þessi mál betur en áður hefur verið gert, enda hafa ekki síst þeir tveir lagt mjög mikla vinnu í þetta mál. Kannske verður tal manna að einhverju leyti sundurlausara fyrir það, að ekki skuli hafa verið neitt skipulag á þeirri vinnu, sem unnin hefur verið, og málið allt í brotum þegar það hingað kemur. T. d. hefur ekki unnist tími til að skoða þau 20–30 erindi, sem okkur bárust, og greinargerðir.

Nú er að vísu sagt að það eigi að draga strik yfir það allt saman og halda sig nokkurn veginn við lánsfjáráætlunina eins og hún var fram lögð, en þó hefur í hina röndina verið látið í það skina, að það yrði að leysa eitt og annað með öðrum hætti eftir á. En við vitum að í ráðherrastólunum eru dugandi menn og drengir góðir, eins og sagt hefur verið, og þeir vinna þá væntanlega núna um helgina þannig að einhver von verði til að afgreiða málið fyrir jól. Af hálfu okkar í stjórnarandstöðu og sérstaklega Ed.-manna í fjh.- og viðskn. hefur verið gefin um það yfirlýsing, að við munum leitast við að greiða fyrir afgreiðslu málsins fyrir áramót, en auðvitað helst fyrir jólin, ef ráðherrarnir geta gefið sér tíma til að sitja hér með okkur stund og stund a. m. k. og taka við fyrirspurnum og reyna að svara þeim. En málið vinnst auðvitað seint og illa, ef t. d. sá háttur verður á hafður sem sýndur var frsm. minni hl. í morgun, að t. d. hæstv. forsrh. gat sáralítið setið inni til að hlusta á ræðu hans. Hefði þó engum verið nauðsynlegra að fá þær upplýsingar og greinargóðu yfirlit yfir málin en einmitt hæstv. forsrh. svo að einhver von væri til að hann botnaði eitthvað í þeim. En öll höfðum við gott af að heyra þá ágætu ræðu og ekki síður ræðu hv. þm. Kjartans Jóhannssonar. En ef ráðherrar geta hvorki sinnt þeirri þingskyldu sinni að sitja fundi í deildum né heldur nefndarfundi vinnast málin auðvitað seint og illa.

Ég vék hér að því, að jafnvel frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. þessarar hv. deildar hefði látið að því liggja, að erlendar lántökur væru orðnar mjög miklar. Ég efast ekki um að hann sé mér sammála um að það sé. Ég man ekki hvort hann sagði þetta beinum orðum, en hann sagði, held ég, orðrétt, að hann vildi fremur leyfa gjaldskrárhækkanir en erlendar lántökur til að standa undir útgjöldum fyrirtækis eins og Rafmagnsveitu Reykjavíkur. Um það er ég honum innilega sammála og það segir hann að sjálfsögðu vegna þess að hann telur erlendar lántökur einmitt í slíkum tilfellum, þ. e. til neyslu, vera orðnar a. m. k. nægilega miklar. Um þetta held ég að við ættum ekki að þurfa að deila. Það sjá auðvitað allir í hendi sér, að það getur ekki gengið til langframa að ætla að reka fyrirtæki eins og rafmagnsveitur og þjónustustofnanir með erlendum lántökum. Raunar gengur það ekki að reka slíkar stofnanir með lántökum. Þær verða auðvitað að borga sín daglegu rekstrargjöld af sínum töxtum. En sök sér er það ef hægt er að fá innlent fé til að reka þessar stofnanir. Það getur verið réttlætanlegt tímabundið að gera það að einhverju marki. En ég held að aldrei verði hægt að réttlæta það að gera það með erlendum lántökum, enda sjá allir að í óefni er komið eftir að nú um tveggja ára skeið, og þá einkum og sér í lagi á þessu ári, hefur verið farið í æ ríkara mæli inn á þá braut að reka allar ríkisstofnanir með bullandi halla og fjármagna þær með lántökum erlendis.

Þetta leiðir aftur hugann að því, sem ætti að vera kannske helst til umræðu um þessar mundir, að þessar innilokuðu hækkunarþarfir, ekki síst ríkisfyrirtækjanna og raunar einkafyrirtækja líka, eru þess valdandi, að verðbólgan er ekki 50% eins og Seðlabankinn nú telur hana vera, hún er í raun miklu meiri. Ég gæti trúað að verðbólguhraði á Íslandi væri núna þessa dagana meiri en nokkurn tíma áður í sögunni. Ég held að það sé nokkurn veginn öruggt, að ef allt væri talið sé verðbólgan nú meiri en nokkurn tíma áður hefur hent á þessu landi. Það er afraksturinn af niðurtalningunni og stjórnsemi þessarar hæstv. ríkisstj. Seðlabankinn segir að verðbólga sé nú 50%, og við vitum um allar þær innilokuðu hækkunarþarfir og allt það sem skríður fram hjá vísitölutalningu og þessum opinberu stofnunum sem reikna út. Því held ég að það væri óhætt að hækka þessa upphæð talsvert. Það veitti varla af því að 10% yrði bætt ofan á, að verðbólguhraðinn væri nú um 60%. T. d. bara sú rafmagnshækkun, sem þyrfti til þess að rafveiturnar væru reknar hallalaust og Landsvirkjun, og svo hækkun á símaþjónustu og öðru slíku gera æðimörg prósentustig þegar það er allt saman talið.

En þó að ég hafi ekki glöggar tölur og raunar enginn, því að enginn veit hvað erlendar lántökur verða miklar á næsta ári eða hver raunverulegur halli verður á fjárlögunum, þá held ég að það fari ekki á milli mála, að hvort tveggja verði a. m. k. um 20%, þ. e. að halli fjárlaga, þegar allt er fram talið á næsta ári, yrði ekki minni en 1/5 hluti allra samanlagðra fjárlaga og lánsfjárætlunar. Og erlendar lántökur hafa þrefaldast frá árinu 1977, hvorki meira né minna. Þess vegna er sannarlega vá fyrir dyrum í efnahagsmálunum. En í þessu sambandi er athyglisvert að nú er talað um að það þurfi nýjar efnahagsráðstafanir — og vafalaust þyrfti þær, en þær gætu naumast orðið nú með sama hætti og áður ef vel ætti að farnast. Hér segir í einu af þessum skjölum sem við fengum, það er dags. 9. nóv. 1981 og heitir „Framreikningur verðlagsþróunar næstu misserin, frá Þjóðhagsstofnun“ — Þar segir orðrétt, með leyfi forseta: „Hækkun kauptaxta milli áranna 1981 og 1982 er 49% að meðaltali og kaupmáttur kauptaxta yrði því 2.5% minni en á árinu 1981. “Það er sem sagt þegar komin fram 2.5% kaupmáttarskerðing á næsta ári með þeim aðgerðum sem gerðar hafa verið. En þegar þetta er nánar skoðað lítur dæmið svona út: Verkalýðsfélögin semja um 3.25% kauphækkun. Þegar í stað eru 2.5% af þessari kauphækkun tekin burt. Samningarnir hljóða sem sagt upp á 0.75%. Það er sú hækkun sem launþegar í raun réttri eru taldir hafa fengið. En raunar fengu þeir ekkert og miklu minna en það, því að það var búið að taka það allt af áður og kauphækkunarskriðan er nú í fullum gangi. Ég sé ekki satt að segja, hvernig unnt sé að skerða meira en orðið er kjör láglaunafólks. Ef niðurtalning á að byggjast á því einu að skerða ætíð kjör láglaunamanna, þá er það ekki björgin. Það er víst búið að skerða kjör núna á síðustu tveimur árum 10–12 sinnum með ýmsum hætti. Sá leikur gengur ekki. Það verður að brjóta í blað, það verður að taka upp gerbreytta efnahagsstefnu ef vel á að farnast. Og þá má raunar oft hafa stefnu núv. ríkisstj. til viðmiðunar og gera allt þveröfugt við það sem hún gerir. Þá held ég að mætti komast æðilangt. En ég vík nánar að því síðar í ræðu minni hvað ég tel að ætti að gera þveröfugt, ýmsu af því.

Það er eitt, sem hefur ekki verið rætt hér kannske nægilega enn þá, og það er 28. gr. frv. þar sem segir að fjmrh. f. h. ríkissjóðs sé heimilt að taka þessi og þessi lán árið 1982. Mér skilst, þó að ekki fáist um það glöggar upplýsingar fremur en annað, að þegar muni vera búið að taka meiri lán á árinu 1981 en heimildir eru fyrir. Ein af þeim spurningum, sem raunar hafa komið fram óbeint hjá hv. þm. Lárusi Jónssyni, en ég ber fram beint nú, er um það, hvað erlendu lántökurnar á þessu ári séu miklar. Það gleður mig að hæstv. fjmrh. gengur nú inn í salinn. (Fjmrh.: Ég hef heyrt mál hv. ræðumanns.) Gott. Ég spurði hverjar erlendu lántökurnar muni vera í heild á þessu ári og hvort sú upphæð, sem tilgreind er í 28. gr., nægi til þess að örugglega sé þó haldið við þá gömlu reglu, sem ég held að nokkurn veginn hafi verið ófrávíkjanleg, að slíkar lántökur væru samþykktar á Alþingi. Menn hafa þá heldur viljað horfast í augu við staðreyndir og samþykkja kannske hærri lántökuheimildir en að lán væru tekin ólöglega og fram hjá vilja Alþingis. Þetta er eitt af grundvallaratriðunum sem við þurfum að fá upplýst fyrir 3. umr. málsins, áður en við göngum sameiginlega í það að reyna að greiða okkur í gegnum frumskóginn og komast niður á jörðina um megintölur í allri þessari flækju.

Það hefur verið rætt nokkuð um að þetta væru neyslulán að mjög miklu leyti. Hv. þm. Kjartan Jóhannsson taldi að u. þ. b. þriðjungur erlendu lánanna muni verða bein neyslulán. Hann gat einnig um það, að tekin væru erlend lán til þess að borga útflutningsbætur á landbúnaðarafurðir. Ég er innilega sammála hv. ræðumanni um að það er illt að taka erlend neyslulán fyrir almenning á Íslandi. En það er þó hálfu alvarlegra að taka erlend neyslulán fyrir erlenda menn, fyrir útlendinga. Ég er ekki með þessu að segja að það þurfi ekki að greiða einhverjar útflutningsbætur. Við vitum að landbúnaðurinn hefur átt í miklum erfiðleikum og langmestum núna, þegar búið er að koma á hálfgerðu lénsskipulagi og í allri þeirri ofstjórn sem er að sliga bændur og einkum þó efnaminni bændurna, af því að það eru alltaf þeir sem verða fyrir barðinu á ofstjórnarmönnunum, hvort sem er á Íslandi eða annars staðar. Það er auðvitað stóralvarlegt. Við verðum að horfast í augu við það, að ef við erum að borga útflutningsbætur, þá eigum við að gera það af íslenskum fjármunum. Þar er ég hlynntur skattlagningu. Ef við ætlum að greiða slíka peninga á auðvitað að gera það með sköttum en hvorki innlendum né erlendum lánum. Það á að gera með sköttum. Menn verða þá bara að gera það upp við sig, hvort þeir vilji standa undir þessum útgjöldum, þó það kosti skatta, eða þeir vilji alls ekki sinna þessum útgjöldum. Hitt er auðvitað svo skaðvænlegt að það tekur ekki tali, að ætla sér að fjármagna þetta til langframa með erlendum lántökum og síðan aftur afborganir og vexti af þeim lánum með nýjum erlendum lánum. Þetta er slík svikamylla að það getur alls ekki gengið.

Eitt er það, sem mig langar að fá upplýst frá hæstv. ráðherrum. Það er hvað liði umræðum um aukna bindiskyldu í viðskiptabönkunum. Leyfi ég mér að beina því til hæstv. utanrr., að hann komi því á framfæri t. d. við viðskrh., sem ekki er hér staddur, hvort hann muni geta við 3. umr. upplýst okkur um þær viðræður, sem munu hafa farið fram milli ríkisstj. og viðskiptabanka og kannske Seðlabanka líka um aukna bindisskyldu til þess að standa undir fjármögnun ríkissjóðs að einhverju leyti. Ég þykist vita að þessar viðræður muni hafa farið fram í gær og jafnvel aftur í dag og jafnvel að þetta muni hafa verið rætt á ríkisstjórnarfundi í dag. Það veit ég þó auðvitað ekki, en mér finnst það ekki ótrúlegt. Þetta mun vera í tengslum við það, að ákveðið var að falla frá því að hækka skuldabréfakaup lífeyrissjóðanna úr 40% af ráðstöfunarfé í 45, það var hætt við að hækka það, og þá hafi komið upp sú hugmynd að reyna að bæta ríkissjóði þetta upp með því að auka bindiskyldu viðskiptabankanna. Þetta fæst væntanlega upplýst annaðhvort í þessari umr. eða við 3. umr. þegar hún fer fram.

Ég er þeirrar skoðunar, að þessi bindiskylda í Seðlabankanum sé til mikillar óþurftar og sé röng stefna. Seðlabankinn þarf auðvitað að hafa einhver stjórntæki. Hann þarf að geta ráðið vöxtum og kannske bundið einhverja prósentu við viðskiptabanka, mismunandi eftir tímabilum frá mánuði til mánaðar, einhvers konar sveigjanlega bindiskyldu eins og var tekin upp ofan á annað í sumar. En það á að vera mjög lítil prósenta af veltufé viðskiptabankanna. Ég held að það væri miklu heppilegra að afurðalán og yfirleitt almenn lánaviðskipti færu fram í gegnum viðskiptabankana, sem eru þó allmargir, og sparisjóðina, það væri a. m. k. að nafninu til einhver samkeppni á því sviði og menn gætu snúið sér til síns banka, heldur en ætla að binda þetta með þeim hætti sem gert hefur verið. Það er kannske nokkuð langt gengið að fara að tala um hagfræðikenningar í þessu efni. Við vitum að á verðbólgutímunum síðasta áratuginn — að vísu er verðbólga ekki bara hjá okkur, heldur annars staðar líka, þó hér hafi þetta allt keyrt um þverbak hefur þessi peningamálastefna af sumum hagfræðingum verið talin líklegust til þess að bjarga öllu. „Monitarismi“ er það víst kallað. Ég hef aldrei getað skilið þetta. Ég held að öll ofstjórn, hvort heldur er á sviði fjármála eða annarra viðskiptamála yfirleitt, leiði um síðir til skelfingar, eins og nú er að koma á daginn í lok ofstjórnartímabilsins á Íslandi. Vegna þess að ég held að nú sé komið að niðurlotum og komið að lokum þessa ofstjórnar- og upplausnaráratugar, það geti varla orðið æðilengi úr þessu sem unnt verði að halda áfram á þessari braut. Því væri áreiðanlega það besta, sem hæstv. ríkisstj. gæti gert, að snúa af þeirri braut eða þá að segja af sér, sem væri auðvitað langbest frá pólitísku sjónarmiði, flokkspólitísku alla vega. Þó hef ég ekkert á móti því að hún sitji nokkra mánuði í viðbót svo að menn almennt sjái til hvers ófarnaðar svona stjórnarstefna, óheilindi og sviksemi leiða, þannig að ekki verði til þess gripið aftur í náinni framtíð. Sem betur fer eru margir stjórnarstuðningsmenn þegar farnir að átta sig á þessu og eru lítt hrifnir af framhaldi slíkra vinnubragða.

Þeir ágætu frsm., sem hér töluðu áðan, véku, að mér fannst, of lítið að einu máli. Það voru allar umræðurnar í nefndunum um lífeyrissjóðina og þá aðför sem að þeim átti að gera, — aðför sem var gerð að vísu þó að henni væri hrundið. Þar birtist ofstjórnaræði og heimtufrekja ríkisvaldsins allsnakin fyrir stjórnum lífeyrissjóðanna og okkur í nefndinni. Ég held að ekki verði hjá því komist að gera nokkra grein fyrir upphaflegum tillögum meiri hl. fjh.- og viðskn. í þessu efni og lesa þá kannske nokkrar málsgreinar, með leyfi hæstv. forseta. Þetta skjal er með þeim hætti, að stjórnarmenn lífeyrissjóðanna brugðust mjög hart við. Þeir létu orð falla á þann veg, að þessi lög mundu verða ómerk og fengju ekki staðist, að það mundi verða leitað til réttra aðila í réttarkerfinu til að hrinda þessari ofsókn. Þeir mótmæltu því að taka með þessum hætti sjálfræði af sjóðunum. Og þegar þar var komið sýndi hæstv. forsrh. þá stjórnvisku þó að lýsa yfir, að heppilegra væri að fara samningaleið en að beita þvingunum, og óskaði eftir tillögum lífeyrissjóðanna, enda var þá í mikið óefni komið, sem ekki er furða og menn átta sig nú á, þegar ég les hér nokkrar málsgreinar í þessu plaggi. Þar segir t. d. að við upphaf hvers árs skuli lífeyrissjóðirnir skila fjmrh. áætlunum um heildarráðstöfunarfé sitt á árinu og hvernig það skiptist á einstaka mánuði ársins. Áætluninni skuli fylgja óskir lífeyrissjóða um það, hvaða aðilar óska eftir að kaupa skuldabréf til að fullnægja kaupskyldu sinni samkv. 1. mgr. Að því marki, sem óskir lífeyrissjóðanna í heild til að kaupa af einstökum aðilum samrýmast ekki lánsfjáráætlun, skal rn. leita samkomulags við sjóðina um aðra kauptilhögun og hefur úrskurðarvald um það efni ef ekki næst samkomulag.

Það á sem sagt að ræða góðlátlega við menn. Þarna var orðalagi breytt. Í staðinn fyrir að „leita samkomulags“ kom nú bara: eiga viðræður, en hefði síðan úrskurðarvald um kaup lífeyrissjóðanna. Síðar segir: „Engum fjárfestingarlánasjóði samkv. 1. mgr. er heimilt að selja lífeyrissjóðum skuldabréf umfram þá heildarfjárhæð sem lánsfjáráætlun gerir ráð fyrir.“ Það átti sem sagt að vera á valdi ráðh. — og náttúrlega Alþingis að því er lánsfjáráætlun varðar — að ákveða nákvæmlega af hvaða fjárfestingarlánasjóðum mætti kaupa. Lífeyrissjóðirnir skyldu sviptir öllum rétti til að ákveða eitt eða neitt um það sjálfir, taka átti af þeim öll ráð og síðan átti ráðh. að ákveða lánstíma og lánskjör. Það hefur raunar verið svo, sem er þó óeðlilegt. Og svo er klykkt út með því, að ráðh. geti með reglugerð kveðið nánar á um framkvæmd þessara greina, þ. á m. hvernig skilgreina skuli ráðstöfunarfé lífeyrissjóða. Það er sem sagt algerlega tekið af allt sjálfræði lífeyrissjóðanna. Ég fæ ekki skilið að það sé ekki stjórnarskrárbrot að ganga þannig fram. Raunar má kannske segja að strax í 1. mgr. stappi nærri því að um stjórnarskrárbrot sé að ræða þegar sagt er að sjóðunum skuli vera skylt að verja svo og svo miklu ráðstöfunarfjár síns til ríkisins og ríkisstofnana eða sjóða. En það er þó nokkuð annað, þó að það orðalag standi heldur en slíki alræðisvald sem þarna á að vera. Sjóðirnir hafa þó haft töluvert frjálsræði. Lífeyrissjóður verslunarmanna hefur getað keypt af verslunarlánasjóði, Lífeyrissjóður samvinnumanna af samvinnulánasjóðum og iðnaðarmanna af Iðnlánasjóði o. s. frv. Það hefur þó verið ákveðið frjálsræði þarna. En nú átti að fara inn á markvissari brautir, eins og formaður fjh.- og viðskn., hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson, komst að orði þegar hann kynnti þetta plagg. Þar voru sannarlega markvissari brautir. Og hann bætti því við, að í þessum áfanga yrði ekki gengið lengra en að taka 45% með þessu valdboði.

Nefndin vann mjög mikið einmitt að þessu máli með þessum árangri þó sem ég hér lýsti. Þeir komu á nokkra fundi, aðallega tvo fundi allir saman, helstu ráðamenn lífeyrissjóðanna og þar mjakaðist málið þannig fram, að það er nú komið í allt annan og heilbrigðari farveg. Skal ég ekki fara öllu lengra út í það að öðru leyti en því, að mig langar til að varpa þeirri spurningu fram við hæstv. fjmrh., sem hér er nú staddur, og vonast til að hann svari henni síðar í umr. eða þá við 3. umr. — helst við þessa umr., hvað valdi því, að nú stendur í brtt. að sjóðirnir, sem lífeyrissjóðirnir kaupa af, skuli viðurkenndir af fjmrn. og Seðlabanka Íslands. Í lögunum frá í fyrra er einungis: sem viðurkenndir eru af Seðlabanka Íslands. Hvað veldur því, að því er hér skotið inn í að það þurfi einnig að viðurkenna þessa sjóði af fjmrn? Ég hef ekki séð það í löggjöf áður. Þetta er nýtilkomið og okkur yfirsást það í umfjöllun nefndarinnar að þessu hafði verið skotið inn í. Þetta er í 1. mgr. þar sem segir: „til kaupa af ríkissjóði, Byggingarsjóði ríkisins, Byggingarsjóði verkamanna, Framkvæmdasjóði Íslands og fjárfestingarlánasjóðum, sem viðurkenndir eru af fjmrn. og Seðlabanka Íslands og heimild hafa til verðtryggingar, sbr. VII. kafla laga nr. 13 10. apríl 1979.“ Hér er skotið inn þessum orðum: „fjmrn. og “.

Ég veit ekki til þess að fjmrn. gefi sérstakar viðurkenningar til sjóða eins og t. d. Fiskveiðasjóðs, Iðnlánasjóðs, Iðnþróunarsjóðs og hvað þeir nú allir heita, Verslunarlánasjóðs o. s. frv., o. s. frv. Eru einhverjar sérstakar viðurkenningar af fjmrn. hálfu fyrir því, að þessir sjóðir megi starfa? Þetta kann að vera af kunnáttuleysi mínu, en það upplýsist þá hvað hér er á ferðinni. Er hugsanlegt að hér sé verið að sniðganga allt sem í öðrum mgr. er verið að fallast á við forustumenn þessara sjóða, að það þurfi ekkert annað en bara litla neitun fjmrn. á því að viðurkenna sjóðina, að hæstv. fjmrh. — og er ég þá ekkert að sneiða að núv. hæstv. fjmrh. — hver sem hann er, gæti bara sagt einn daginn: Ég viðurkenni ekki ykkar sjóð. — Samkv. Ólafslögum, sem eru gölluð — ég er ekki viss um að hæstv. utanrrh. hafi einn verið höfundur þeirra laga — er það á valdi Seðlabanka að veita slíka viðurkenningu. Það er alveg skýrt tekið fram í þeim lögum. En þar er fjmrn. mér vitanlega hvergi nefnt á nafn. Þetta þarf alveg nauðsynlega að fá skýrt.

Í annan stað vil ég gjarnan til öryggis benda á það, að í 3. mgr. brtt. þeirrar, sem nú hefur verið fram lögð, hefur verið skotið inn einu orði í lok mgr., þar sem segir: „Að því marki, sem áform lífeyrissjóðanna í heild um kaup af einstökum aðilum samrýmast ekki lánsfjáráætlun, skal ráðuneytið eiga viðræður við sjóðina í því skyni að ná samkomulagi um aðra kauptilhögun og ganga frá endanlegri áætlun“ — og síðan er bætt við: „sinni“, „áætlun sinni um kaup lífeyrissjóðanna að loknum þeim viðræðum.“ Þessi breyting var gerð að ósk forustumanna lífeyrissjóðanna og mér finnst rétt að undirstrika það hér í umr. til að festa það í þingtíðindunum, að með þessu er að sjálfsögðu átt við það, að þetta er áætlun rn., sem það eitt ber ábyrgð á, og hefur ekkert gildi annað en það, að rn. geri sína áætlun. Lífeyrissjóðirnir eru ekki bundnir í einu eða neinu tilliti af þessari áætlun rn. Þess vegna er fallist á að bæta inn þessu orði: áætlun „ sinni“. Áætlun rn. er lífeyrissjóðunum algerlega óviðkomandi að þessu leyti. Þeir eru ekki bundnir af þeirri áætlun að einu leyti eða neinu.

Nú er hæstv. forsrh. vikinn brott. Ég ætlaði að víkja nokkuð að honum en það getur beðið. Ég get þá vikið að öðru á meðan hann ekki er hér inni.

Það er kannski hægt að nota tímann til þess að fara yfir þær spurningar sem hér hafa beint og óbeint komið fram og ég hef sumar skrifað hjá mér, þar sem hæstv. fjmrh. er hér og mundi sjálfsagt leitast við að svara þeim. Þá er fyrst þetta, sem báðir frsm. hafa mikið rætt um: Verður dregið verulega úr orkuframkvæmdunum? Miðað við það, að brtt. hafi ekki náð fram að ganga og yfirlýsingar um það, að þetta verði leyst innan þess ramma sem þegar sé fyrir hendi, er útlit fyrir að verulega dragi úr orkuframkvæmdum. Að þessu spyr ég sérstaklega vegna þess að ég hygg að allir muni vera sammála um að reiknitalan, sem stuðst er við, 33% eða 27% meðalhækkun, muni alls ekki geta staðist. Menn getur greint á um það, hvort verðbólga verði á næsta ári 40, 50, 60, eða 70%, en þessi tala getur ekki staðist. Allar upphæðir í lánsfjáráætluninni eru í íslenskum krónum, þannig að þegar við bætist að ekki á að heimila frekari lántökur en voru í upphaflega frv., þá er spurningin þessi: Er útlit fyrir að verulega dragi úr framkvæmdum á sviði orkumála frá því sem áætlað var þegar áætlunin var framlögð? — Nú er hæstv. fjmrh. líka farinn. (Forseti: Ef vel stæði á í ræðu hv. þm. væri kannske tækifæri til þess að gera nú hlé. Það er fyrirhugað að veita hlé til þingflokksfunda kl. 4 til kl. 4.30 og fresta fundi í deildum til kl. 4.30. Þm hafa þá örstutta stund til þess að fá sér kaffisopa, smákaffihlé til kl. 4, þingflokksfundur kl. 4 til 4.30, síðan verður fundi fram haldið í deildum kl. 4.30.) — [Fundarhlé.]

Herra forseti. Áðan ræddi ég lítillega um, hver framvindan yrði á umræðum um þetta mál, og lagði þá til að stjórnarandstæðingar og stjórnarliðar reyndu að sameinast um það að vinna skipulega að málum. Forsendur þess taldi ég þá, að ráðherrar og stjórnarliðar mættu sæmilega hér í þingsölunum og hlustuðu á ábendingar og fyrirspurnir og reyndu að leggja lið við að afla upplýsinga og starfa þá á milli 2. og 3. umr., þannig að eitthvað greiddist úr hinum mörgu flækjum sem eru á þessu geysilega þýðingarmikla máli. Mér sýnist nú að misbrestur ætli að verða á því eins og fyrri daginn að stjórnarliðar, einkum og sér í lagi ráðherrar, verði við slíkum tilmælum. Þó vill nú svo til að hæstv. forsrh. er hér mættur. Mun ég nokkuð víkja orðum til hans að lítilli stundu liðinni.

Ég vil benda á það, að svo mikil upplausn er nú í öllum þessum málum að sama daginn og okkur er tilkynnt að allar þær beiðnir, sem fram hafa komið og greinargerðir í 30 erindum eða svo verði strikaðar út, eins og það var kallað, — sama daginn er þess óskað af hálfu fjmrn. að eitt af þessum málum, áreiðanlega það langvitlausasta, verði tekið inn. Það er lánsfé til byggingar borpramma sem á að kosta eftir áætlun 1.5 milljarð gkr., og verða sjálfsagt einir 3 milljarðar ef það fer eftir öðru hjá Vita- og hafnamálastofnuninni, og samkv. áætlun á reksturinn að kosta álíka og allar fjárveitingar í hafnir í mínu kjördæmi árlega. Þennan borpramma átti að strika út. En nú eru komin fyrirmæli til fjvn. um að fjárveiting eða lánsfjáröflun til hans verði tekin inn á heimildagrein fjárlaga. Þegar hún felst ekki inni í lánsfjáráætlun, þegar á að hindra frekari erlendar lántökur, að okkur er sagt, með því að strika allt þetta út og það fæst ekki einu sinni rætt í fjh.- og viðskn., þá gera menn sér lítið fyrir og fara inn um hinar dyrnar, hvort á að kalla þær bakdyr eða hvað, til að koma því inn á fjárlög. Þetta er allt á sömu bókina lært. Fjmrh., sem biður okkur að strika þetta allt saman út, ræða það ekki einu sinni, láta málið ekki koma hér fyrir, án þess að við höfum fengið þær upplýsingar sem við höfum beðið um, snýr sér til fjvn. með skriflega beiðni um að þessu verði potað þar inn í staðinn — og sjálfsagt vegna þess að þetta er áreiðanlega vitlausasta málið af öllum þeim sem til nefndarinnar haf komið, þá er sjálfsagt að taka það fram yfir orkuframkvæmdir og annað slíkt. Þetta er lítið dæmi um vinnubrögð í þessari hæstv. ríkisstj.

Af því að tveir hæstv. ráðh. ganga nú í salinn vil ég gjarnan láta þá heyra þetta, ef þeim skyldi ekki vera um það kunnugt, að sama daginn og okkur í fjh.- og viðskn. er tilkynnt að það eigi að strika út þær 30 beiðnir sem voru til okkar lagðar, að draga yfir þær strik, eins og það var orðað, þ. á m. vitlausasta málið, sem er borprammi sem er talinn munu kosta 1.5 milljarð gkr. til Vitamálaskrifstofunnar, en verða sjálfsagt 3 ef á málum er haldið þar eins og venjulega, og reksturinn á þessum pramma á að kosta árlega eins og allar fjárveitingar til hafna í mínu kjördæmi, þá er hann einn tekinn út úr og fjmrh. sendir skriflega beiðni til fjvn. um að þessi fjárveiting verði tekin inn á heimildargrein í fjárlögum, sama daginn og okkur er sagt að alls ekkert eigi að hugsa um þetta mál. Þetta er sem sagt allt á sömu bókina lært. Það er engu að treysta sem sagt er. Það er alltaf reynt að fara aftan að mönnum, svíkjast að mönnum: Það hefur svo sem verið til stjórnarinnar stofnað með þeim hætti og þá eðlilegt að framhaldið sé slíkt hið sama.

Og hér er annað mál komið á daginn. 16. des. skrifar iðnrh. Landsvirkjun í tilefni af því, að Landsvirkjun hefur skrifað iðnrh. þar sem segir: „Stjórn Landsvirkjunar hefur nú ákveðið að farið skuli í framkvæmdir við stíflugerð við Sultartanga miðað við að henni verði lokið 1983.“ Þá gerist það, þegar ákvörðun er tekin um að strika yfir ýmsar orkuframkvæmdir í lánsfjáráætlun, að hæstv. iðnrh. skrifar bréf til Landsvirkjunar, dags. 16. des. 1981, sem hefst á þessum orðum, með leyfi forseta:

„Vísað er til bréfs Landsvirkjunar, dags. 20. okt. 1981, þar sem óskað er eftir leyfi iðnrh. til að hefja framkvæmdir við Sultartangastíflu.“

Síðan eru bollaleggingar um hvort nauðsynlegt sé að fara svona fljótt í þetta o. s. frv. Og niðurlagið er svona orðrétt: „Ráðuneytið telur nauðsynlegt að tryggja sem best rekstraröryggi og raforkuframboð í landskerfinu á næstu árum og óskar eftir mati Landsvirkjunar um orkuþörf á árunum 1982–1984 í ljósi ofangreindra viðhorfa. Að því fengnu mun rn. taka afstöðu til beiðni Landsvirkjunar varðandi framkvæmdir við Sultartangastíflu.“

Þetta er kurteislegt orðalag að hætti hæstv. iðnrh., en þarna er verið að segja að nú komi til greina að fresta þessari framkvæmd. Og þá er sjálfsagt að nota þá peninga án þess að Alþingi fái um að fjalla hvernig þeim verði varið til þeirra millifærslna sem okkur var tjáð í hv. fjh.- og viðskn. að þyrfti að gera og mundu bjarga fjármálum iðnrn. Það voru nefndar millifærslur og tilfærslur á milli liða sem samþykktir eru. Engar upplýsingar voru gefnar um það, hvernig ætti að ráðstafa þessu fé, t. d. samkv. 4. og 5. gr. lánsfjárlaga, og eins fé til framkvæmda við hitaveitur, bæði í mínu kjördæmi og öðrum.

En úr því að hæstv. forsrh. er nú hér staddur langar mig að benda einnig á það, að uppi eru bollaleggingar um það — ef ég skil það rétt í ræðu sem hæstv. ráðh. flutti í Nd. í gær — að taka jafnvel upp mikið og víðtækt millifærslukerfi í sjávarútveginum eins og var hér í gamla daga. Þá yrðu ekki neinar smáupphæðir sem þyrfti að útvega að láni eða með einhverjum hætti til styrktar. — Nú gengur ráðh. úr salnum og þá verð ég víst að víkja að öðru. (Gripið fram í.) Já, það er beðið sérstaklega um ráðh. í annarri deild en hann á sæti í. Við skulum bíða og sjá til hvort hann kemur hér þótt síðar verði. Ég get þá rætt svolítið um atvinnumálin almennt á meðan. Til þess er vissulega fyllsta ástæða og ég þekki þau auðvitað best í mínu kjördæmi.

Það voru t. d. þingmenn á yfirreið í haust og töluðu við forustumenn atvinnufyrirtækja og kynntu sér reikninga og uppgjör þessara fyrirtækja. Því er haldið fram m. a. í þeirri ræðu forsrh., sem ég geri hér grein fyrir á eftir að honum viðstöddum, að eiginlega sé allt í stöku lagi hjá sjávarútveginum. Ég gat ekki betur séð en þau fyrirtæki, sem mest hafa umleikis, hefðu á þessu ári og hinu síðasta tapað um það bil fjórðungi til þriðjungs heildareignar sinnar. Tapið var svo geigvænlegt að þau voru öll komin í þrot. En þeim hefur verið fleytt áfram frá viku til viku eða mánuði til mánaðar með hengingarlánum og bráðabirgðalánum án þess að um nokkrar raunhæfar aðgerðir sé að ræða. Á þeim stöðum kemur því allt annað upp á teningnum en stjórnarsinnar og ráðamenn vilja vera láta. Þar blasir við hrun í atvinnumálum ef ekki verði gerðar varanlegar ráðstafanir til þess að tryggja rekstrargrundvöll. Það var orðið rekstrargrundvöllur sem allir útvegsmenn og sjómenn höfðu á vörunum þegar við vorum að ræða við þá, þó að þeir að sjálfsögðu væru því fegnir að reynt yrði að greiða fyrir með lánsútveganir til bráðabirgða. Þetta á við um svo til allan atvinnurekstur í þessu kjördæmi, og ég hygg að ekki sé verr að atvinnurekstri staðið þar en annars staðar á landinu. Þessi mynd blasir við. Og fleira heldur uggvænlegt blasir við einmitt í því kjördæmi. Það er t. d. með hvaða hætti haldið hefur verið á virkjunarmálum, þeim tvískinnungi og hálfvelgju, sem þar hefur verið ríkjandi, þar sem allir hafa fengið á tilfinninguna að ríkisstj. meinti ekki nokkurn skapaðan hlut með stórvirkjunum. Og raunar er það ekki furða þegar hliðsjón er höfð af ummælum hæstv. iðnrh. í því efni, þar sem hann vildi helst loka álverksmiðjunni og hafa engar framkvæmdir í sambandi við stórvirkjanir eða stóriðju. Síðasta staðfestingin á fyrirætlunum hans í þessu efni er það bréf sem ég vitnaði til áðan og hann ritaði Landsvirkjun í gær. Nú á nefnilega að nota lánsfé, sem hægt er að fá erlendis, til neyslu innanlands en ekki til stórvirkjana, eins og rakið var ítarlega áðan af framsögumanni.

Ég ætla nú á meðan ég bíð eftir hæstv. forsrh. að ítreka nokkrar fleiri spurningar, sem mundi líklega einna helst vera beint til hæstv. fjmrh. á meðan hann er hér inni með okkur, þannig að því sé þó í öllu falli aflokið. Ég þykist vita að hann muni verða við þeim tilmælum mínum að athuga af hvaða sökum orðið fjmrn. sé komið inn í greinina um lífeyrissjóðina. Ætla ég að ég hafi skýrt það svo vel að hann hafi skilið þá fyrirspurn mína og muni svara henni. Hún er kannske sú mikilvægasta á þessu stigi.

Þá vildi ég kannske ekki síst fá svör hans við því, hvort hugmyndin sé að loka eigi fyrir rafmagnið í Reykjavík eða hvort Rafmagnsveitu Reykjavíkur verði veitt veruleg hækkun — og mér skilst að hún þurfi að vera a. m. k. 100% á næsta ári að viðbættri þeirri verðbólgu sem þá yrði, ef hún ætti að geta staðið undir skuldbindingum sínum. Þetta eru munnlegar upplýsingar sem ég hef fengið og sel ekki dýrara en ég keypti. Verður það sem sagt leiðin til að bjarga Rafmagnsveitunni eða verða einhverjar ráðstafanir gerðar til þess að útvega innlent lán að einhverju leyti? Mér er tjáð að svo sé komið í viðskiptabanka fyrirtækisins, Landsbankanum, að bankastjórar sjái sér ekki fært að halda fyrirtækinu gangandi öllu lengur. Það eru einnig munnlegar upplýsingar sem ég hef, en ég hygg að þær hljóti að vera réttar, því að skuldirnar munu vera gífurlegar og vaxandi dag frá degi. Þetta eru sem sagt þessar tvær spurningar varðandi Rafmagnsveitu Reykjavíkur, ef hæstv. fjmrh. vildi svara þeim.

Þá er það þriðja spurningin, sem ég get einnig beint til hans og er í tilefni af því sem ég áðan gat um, bréfi iðnrh. Hún er á þennan veg: Verður mjög dregið úr orkuframkvæmdum frá því sem fyrirhugað hefur verið, miðað við það, að ekki fáist afgreiddar þær lánbeiðnir sem fyrir liggja, og miðað við þessa óbeinu ósk iðnrh. um frestun á framkvæmdum við Sultartanga? Mun fjárskortur valda því, að ekki verði unnt að standa við fyrirætlanir þær sem verið hafa um orkumál að því er varðar virkjanir og línulagnir og hitaveitur. (Fjmrh.: Óbein ósk?) Þessi óbeina ósk, já, hún er svohljóðandi í bréfi iðnrh. Í gær svarar hann bréfi Landsvirkjunar-ráðh. hefur kannske ekki verið hér inni þegar ég gat um það — bréfi Landsvirkjunar, sem er reyndar frá 20. okt. 1981, þar sem Landsvirkjun tilkynnir í alllöngu máli, en ég les aðeins aðalatriðin, orðrétt:

„Stjórn Landsvirkjunar hefur nú ákveðið að farið skuli í framkvæmdir við stíflugerðina,“ þ. e. Sultartangastíflu, „miðað við að henni verði lokið 1983 og hlutaðeigandi verk boðin út um næstu áramót.“ Mér skilst að útboðið sé þegar í gangi.

Síðan er bréf hæstv. iðnrh. sem er dags. í gær, 16. des. Upphafsorð þess eru svohljóðandi, — ég bið ráðh. afsökunar á því að hann var víst ekki inni þegar ég gat um þetta áðan, en ég endurtek það þess vegna: „Varðandi Sultartangastíflu“ er yfirskriftin:

„Vísað er til bréfs Landsvirkjunar, dags. 20. okt. 1981, þar sem óskað er eftir leyfi iðnrh. til að hefja framkvæmdir við Sultartangastíflu.“

En í niðurlagi bréfs Landsvirkjunar er óskað eftir þessu leyfi þar sem segir: „Er það von Landsvirkjunar, að þér, hæstv. iðnrh., getið fyrir hönd ríkisstj. fallist á umræddar framkvæmdir við Sultartangastíflu samkv. 1. gr. laga um raforkuver, nr. 60 frá 4. júní 1981.“

Og niðurlag bréfs iðnrn. er svo hljóðandi: „Ráðuneytið telur nauðsynlegt að tryggja sem best rekstraröryggi og raforkuframboð í landskerfinu á næstu árum og óskar eftir mati Landsvirkjunar um orkuþörf á árunum 1982–1984 í ljósi ofangreindra viðhorfa. Að því fengnu mun ráðuneytið taka afstöðu til beiðni Landsvirkjunar varðandi framkvæmdir við Sultartangastíflu.“

Ég tel mig vita að þetta bréf sé skrifað af því tilefni, að í fjh.- og viðsk.-nefndum var í gær ákveðið, eins og hæstv. ráðh. veit, að strika yfir, eins og það var nefnt, allar þær beiðnir sem hér lágu fyrir á 30 fylgiskjölum eða 40 eða hvað þau eru nú mörg orðin. Viðbrögð rn. eru þá þau að leita eftir því við Landsvirkjun, að framkvæmdum við Sultartanga verði frestað. Öðruvísi get ég ekki skilið þetta. Ef það er misskilningur væri það mjög ánægjulegt. Það mundi þá upplýsast í svari hæstv. fjmrh. Enginn yrði glaðari en ég ef það upplýstist að ekki væri meiningin að draga úr orkuframkvæmdum. En mér sýnist að því stefnt, kannske af neyð, það sé ekki hægt að auka erlendar lántökur þar sem mikið af þeim fer til neyslu, en ekki til varanlegra framkvæmda, og menn hafi komist að þeirri niðurstöðu, að við svo búið mætti ekki standa. Þá er að taka því og horfast í augu við það. En þá þarf það líka að liggja fyrir og þingheimur á heimtingu á því að fá að vita hvort það sé tilfellið að stjórnin hafi komist að þeirri niðurstöðu, hæstv. ríkisstj., að erlendar lántökur séu orðnar svo miklar að ekki sé á það hættandi að auka þær, jafnvel þó til svo nytsamlegra framkvæmda sé sem orkuframkvæmda.

Þá er spurningin hvernig hugmyndin sé að ráðstafa því fé sem getið er um í 4. og 5. gr. frv. til lánsfjárlaga, þ. e. fjármagni til Iðnrekstrarsjóðs, 10 millj., og til fyrirtækja með eignaraðild ríkisins, 15 millj. kr. lántökuheimild sem nú er raunar orðin 18 millj. Þessi fyrirspurn mun raunar hafa komið fram hjá frsm. líka, en ég ítreka hana þá hér með.

Þá er það ein spurning, sem ég vék raunar að efnislega í ræðu minni fyrr: Hve miklar eru erlendar lántökur orðnar á árinu 1981 og hverjar verða þær um áramót og hverjar eru lántökuheimildir? Eru heimildir í lögum fyrir þeim lántökum, sem eru fyrirhugaðar eða þegar hafa farið fram, og nægir þá heimildin í 28. gr. til þess að ekki séu heimildarlaust tekin erlend lán. Ég vona að þessi spurning sé líka skýr og við fáum þetta upplýst og sundur greint annaðhvort núna við umr. eða þá á milli umræðna.

Ég beindi svo spurningu til hæstv. viðskrh., sem hæstv. utanrrh. mun hafa komið á framfæri við hann, varðandi umræður um bindiskyldu bankanna um þessar mundir.

Þá er það spurning til hæstv. fjmrh., hvort það muni vera hugmyndin að ríkissjóður beini til Framkvæmdasjóðs og Byggingarsjóðs þeim peningum sem hann hefur fengið af fjármagni lífeyrissjóðanna. Ef ég hef skilið ráðuneytisstjóra fjmrn. rétt, þá mun það hafa verið tíðkað, að þegar einhverjir af þessum opinberu sjóðum höfðu fengið allt sitt í lántökum frá lífeyrissjóðunum, þá hafi þeir beint því, sem umfram hafi verið, til þeirra sjóða sem samkv. áætlun áttu að fá ákveðna hlutdeild. Hins vegar er kannske ekki jafnljóst, þegar ríkissjóður hefur tryggt sig algerlega en sjóðir atvinnuveganna og húsbyggjenda eru hins vegar mjög langt á eftir og hafa ekki fengið nándar nærri það fjármagn sem þeim var ætlað, hvort hugmyndin sé þá sú, að þegar upp verði staðið fyrir áramótin verði hlutfallið hið sama, sama hlutfall af áætluninni verði eftir í ríkissjóði og hjá hinum sjóðunum, eða hvort ríkissjóður hyggist hafa allt sitt á þurru en skilja hina sjóðina eftir í svelti. Vænti ég að hæstv. ráðh. muni geta svarað þessu, en eins og ég sagði skildi ég ráðuneytisstjórann þannig, að á fyrri árum hafi tíðkast, ef einhver sjóðurinn var búinn að fá meira eða átti kost á meiru en hinum hafði verið ætlað, að það væri látið ganga til annarra sem ekkert höfðu fengið samkvæmt áætlun.

Það voru raunar aðrar spurningar hér sem ég hafði helst viljað hafa hæstv. forsrh. viðstaddan við. (Gripið fram í.) Þá vildi ég beina því til forseta, hvort hann gæti beitt áhrifum sínum til þess. (Forseti: Já, það mun verða gerð tilraun til þess. Ég vil biðja hv. ræðumann að hinkra við á meðan. — ÓRG: Hv. þm. Matthías Bjarnason hafði óskað eftir forsrh. í Nd. — Forseti: Leggur hv. ræðumaður áherslu á að forsrh. komi? Hann mun vera bundinn eins og er í Nd. Við getum þá hinkrað við og frestað fundi.)

Þá gengur hæstv. forsrh. í salinn. Ástæðan til þess, að ég óskaði þess sérstaklega að hæstv. ráðh. væri hér viðstaddur, er sú, að ég hef borið hér fram nokkrar spurningar sem ég hef mestmegnis beint til hæstv. fjmrh. og hann mun örugglega leitast við að svara. En það er svo margt óljóst í lánsfjáráætlun og í afgreiðslu fjárlaga og lánsfjáráætlunar, sem raunar er kannske eitt og sama málið eða ætti að vera það, að við nm. erum að reyna — og höfum verið að því undanfarna sólarhringa — að gera okkur grein fyrir hinni raunverulegu stöðu. Og það eru alltaf að bætast við nýjar upplýsingar, eins og ég gat um áðan og ráðh. mun hafa heyrt að einhverju leyti.

Það voru mjög athyglisverðar upplýsingar, sem komu fram í ræðu hæstv. forsrh. í Nd. í gær, — ræðu sem vakti þar mikla athygli og mun vafalaust gera í þjóðfélaginu öllu um það er lýkur. Og þar sem hæstv. ráðh. á nú sæti hér í hv. Ed. finnst mér að sú góða deild eigi ekki að vera afskipt, að hún eigi að fá að vita um þær upplýsingar og skoðanir. Ég mun þess vegna taka að mér að koma þessum upplýsingum á framfæri og kannske lesa upp nokkrar málsgreinar í þessari stuttu og gagnmerku ræðu hæstv. forsrh., með leyfi forseta. En ástæðan til þess, að ég tel algerlega nauðsynlegt að ræða einmitt það mál, sem hann víkur þar að, við umfjöllun um lánsfjáráætlunina og lánsfjárlögin, er sú, að mér sýnist hann að nokkru leyti a. m. k. — hún er að vísu nokkur véfrétt, þessi ræða hans, en í öðru orðinu virðist mér hann gera ráð fyrir að komið geti til víðtæks uppbótakerfis í sjávarútvegi. Það þarf að styrkja ákveðnar greinar en aðrar ekki. Ef svo væri yrði náttúrlega um gífurlega fjármuni að ræða. Nú er verið frá viku til viku og mánuði til mánaðar að fjármagna atvinnufyrirtæki til að halda þeim gangandi, með miklum taprekstri að vísu, til þess að þau stöðvist ekki algerlega. Þar er um að ræða erlend lán mestmegnis, sem að vísu ganga í gegnum Byggðasjóð. En ef svo fer nú sem hæstv. forsrh. gerir skóna, í öðru orðinu a. m. k. í þessari merku ræðu, að tekið verði upp einhvers konar uppbótakerfi, þá sé ég ekki — miðað við allan þann fjárskort, sem er til framkvæmda samkv. lánsfjáráætlun, og allan þann niðurskurð, sem nú er boðaður og framkvæmdur, — að þessu verði við bjargað nema þá með því að stórauka enn töku neyslulána erlendis. Þess vegna þyrfti endilega að fá núna upplýst, eftir því sem hægt er, hve stórum fjárhæðum þetta mundi nema. Þær hljóta að verða gífurlegar ef bjarga á vanda útvegsins kannske að mestu leyti með slíkum lántökum. Það er útilokað að ljúka þessari 2. umr. án þess að fá svör hæstv. forsrh. í þessu efni og hans útlistingar á því, hvað hann á við með orðum sínum í þessari merku ræðu sem ég mun nú rekja nokkuð, en þar segir hæstv. ráðh., með leyfi forseta:

„Það hafa kannske ekki allir gert sér ljóst hversu góður stuðningsmaður hv. 1. þm. Vestf. væri atvinnulífinu í heild og ekki síst iðnaðinum, því að hann hefur verið mikið tengdur sjávarútvegi, sýnt þar brennandi áhuga, en hann undirstrikaði það nú í sinni ræðu, hvað iðnaðurinn er honum ofarlega í huga.

Í ræðu sinni hér í dag hefur hann gert í rauninni tvær tillögur. Önnur er sú, að gengi íslensku krónunnar verði stórlega lækkað, sem þýðir náttúrlega mjög aukna seðlaprentun, og í öðru lagi að um leið verði seðlaprentun flutt inn í landið.“

Hér skýt ég því nú inn, að ég held að það hafi verið hæstv. sjútvrh. Steingrímur Hermannsson sem — að vísu utan þings — boðaði stórfellda gengisfellingu um áramótin. Það voru ekki stjórnarandstæðingar sem það gerðu. Þótt við höfum að vísu á það bent, að gengisfelling sé orðin og enginn mannlegur máttur geti til langframa neitað þeirri staðreynd, þá höfum við hvorki staðið að gengisfellingum né boðað þær. Þetta skot hlýtur því að hafa átt að hitta hæstv. sjútvrh. þó því væri beint að nafninu til í aðra átt. Síðan segir áfram:

„En hv. þm. beindi til mín fsp. um það, hvernig við hugsum okkur að leysa vandamálin um áramót, þ. e. vandamál fiskverðs. vandamál útgerðar og fiskvinnslu. Hann tók fram sjálfur réttilega að hann ætlaðist auðvitað ekki til þess að fá svör varðandi prósentur um fiskverð það, sem helst væri í hugum manna eða helst til lausnar, né heldur skildist mér að hann ætlaðist beinlínis til svara um sjálfa gengisskráninguna. En ég held að þegar menn ræða um þetta mál sé nauðsynlegt að gera sér nokkru nánari grein og gleggri en oft kemur fram í umr. um málið af hálfu stjórnarandstæðinga og málgagna þeirra. Okkur er það auðvitað öllum ljóst, að við stöndum frammi fyrir miklum vanda í ýmsum mikilvægum greinum atvinnulífsins.“

Og síðan kemur: „Ef við tökum sjávarútveginn, þá er það nú þannig að útgerðin í heild stendur samkv. áætlun Þjóðhagsstofnunar og hefur staðið nú á þessu ári heldur skár en undanfarin 10 ár, þ. e. þegar afkoma hennar er metin. Þess vegna eru það náttúrlega órökstuddar staðhæfingar þegar talað er á þann veg, eins og stundum er gert, að útgerðin sé á heljarþröm, og m. a. kemur náttúrlega sú fáviska fram í hæðnishlátri ritara þessarar deildar.

Það er t. d. tekið skýrt fram og réttilega af hv. 1. þm. Vestf., að hluti útgerðarinnar sé vel settur, þ. e. bátaflotinn yfirleitt. Það er alveg rétt. að bátaflotinn hefur í heild haft allgóða afkomu. Hins vegar er það ljóst að togararnir og náttúrlega sumir nýrri bátarnir, sem hafa mikinn fjármagnskostnað, en fyrst og fremst togararnir, hinir nýrri, sem þurfa að greiða miklar fúlgur í vexti og afborganir og stynja þannig undir þungum fjármagnskostnaði, eiga við ákaflega mikla erfiðleika að etja. Þá náttúrlega kemur strax upp sú spurning í sambandi við fiskverðið: Þarf útgerðin í heild á mjög hækkuðu fiskverði að halda? Eftir þeim staðreyndum, sem fyrir liggja, og hv. 1. þm. Vestf. er mjög kunnugur þessum málum, ætti a. m. k. verulegur hluti bátaflotans ekki að þurfa á að halda verulegri fiskverðshækkun. Hins vegar er spurning um aðrar greinar útvegsins, þ. e. fyrst og fremst togarana, þó ekki alla, sem vafalaust mundu þurfa til þess að bera sig á mjög mikilli fiskverðshækkun að halda. En þá er spurningin: Eru hugsanlegar einhverjar aðrar leiðir til þess að greiða úr erfiðleikum togaranna, a. m. k. að einhverju leyti, þannig að fiskverðshækkun þyrfti þeirra vegna ekki að verða eins mikil? Þetta er mikið vandamál sem hefur verið kannað rækilega nú að undanförnu.“

Þá er komið að þessari brennandi spurningu: Að hverju hefur þessi könnun beinst og hver er niðurstaða þessarar könnunar? Er það hugmynd hæstv. ríkisstj. í samræmi við þessar bollaleggingar að greiða fyrir hluta bátaflotans og a. m. k. togaraflotans með einhvers konar styrkjum? Og hvernig kemur það heim og saman við tillögur hæstv. ráðh. Svavars Gestssonar um það, að nú væri eðlilegast að afnema bæði olíugjaldið og stofnfjárgjaldið. Mér þætti mjög vænt um að fá greinargóð og skýr svör, eins og vænta má af hæstv. forsrh., þannig að menn skilji hvernig þetta dæmi gengur upp, hvernig á að reikna það. Ef ekki er verið að tala um stórfelldar uppbætur, hvernig er þá dæmið reiknað, að hverju hafa þessar rannsóknir beinst og er ekki eðlilegt að Alþingi fái a. m. k. einhverja hugmynd um það, hvað í þessum víðtæku könnunum og rækilegu rannsóknum að undanförnu er fólgið? Ég efast ekki um að hæstv. forsrh. muni a. m. k. greina okkur hér í deildinni, sem hann á sæti í, frá þessu öllu saman síðar í umr., og munu menn áreiðanlega bíða með eftirvæntingu eftir að heyra þau greinargóðu svör sem vænta má frá honum. — En þá er haldið hér áfram:

„Ef við snúum okkur að fiskvinnslunni, þá er hún, eins og kunnugt er, þrjár greinar, þ. e. frysting, skreiðarframleiðsla og saltfisksframleiðsla. Það er auðvitað að saltfisksframleiðsla og skreiðarframleiðsla hafa á þessu ári gengið yfirleitt vel og skilað og skila enn hagnaði, báðar þessar greinar. Hins vegar er það um frystinguna, að hún stendur mjög höllum fæti og þar þarf verulegra aðgerða við á næstunni til þess að rétta sem best hennar hlut.“

Og þá er spurning aftur: Hverjar eru þessar aðgerðir sem eiga að rétta hlut fiskvinnslunnar, ef það er skoðun hæstv. forsrh. eins og formanns Alþb., að það eigi að fella niður olíugjaldið og stofnfjárgjaldið þannig að sjómenn gætu fengið — mig minnir að hann hafi nefnt 17% kauphækkun? Þá er varla mikið eftir hjá útgerðinni, og hvar á þá að taka peningana til að bæta hlut fiskvinnslunnar? Þetta hljóta þær rækilegu greinargerðir, sem unnið er að og ráðh. hér víkur að, að leiða í ljós, og bæði við hér í hv. deild bíðum eftir og þjóðin öll, ekki síst sjómennirnir sem hafa hugsað sér að sýna tiltrú sína á ríkisstj. núna um jólin, á jóladaginn með sérstæðum hætti. Eftir þessu bíður öll þjóðin, og við erum náttúrlega mjög heppnir hér í hv. Ed. að verða þeir fyrstu sem fá nú á eftir að vita þetta leyndarmál, í hverju það muni vera fólgið.

Svo heldur áfram: „Hins vegar er það þannig, að það er vafamál, hvort á jafnan við jafnþýðingarmiklar ákvarðanir og fiskverðsákvörðun að taka hverja grein fyrir sig og krefjast þess, að grundvöllur rekstrar hverrar einstakrar greinar sé þannig að fyllilega beri sig, eða hvort á að meta greinarnar í heild.

Nú er það ljóst, að allmörg fyrirtæki í landinu hafa fyrst og fremst frystingu, en lítið, sum ekkert af hinum tveim greinunum sem skilað hafa hagnaði. Þess vegna eiga þessi fyrirtæki auðvitað við mjög mikla erfiðleika að etja. Hins vegar er vitað að miklu fleiri fyrirtæki hér á landi og yfirleitt þau stærstu stunda allar þessar þrjár greinar. Þau hafa því haft hagnað af skreiðarframleiðslu og saltfisksframleiðslu. Er þá eðlilegt og sanngjarnt gagnvart þessum fyrirtækjum að krefjast þess, að ráðstafanir séu gerðar með verulegum gengislækkunum eða á annan veg til þess, að frystingin beri sig, og þar með um leið að stórauka hagnaðinn bæði af skreið og saltfiski? Vitanlega þýðir ekki að afgreiða svona mál með einhverjum fullyrðingum eins og oft hafa heyrst að undanförnu.“ — Kannske er þetta líka kveðja til sjútvrh.

„Þessi mál verður auðvitað að meta málefnalega, og það, sem m. a. gerir þennan vanda mjög erfiðan viðfangs, er einmitt þetta, að mörg fyrirtæki í landinu hafa allar þessar þrjár greinar, græða á tveim en tapa á einni, en aftur á móti önnur sem svo að segja eingöngu stunda frystinguna sem víðast hvar stendur sig illa.“

Þarna er véfrétt sem þarf að fá greitt úr. Það er að vísu svo, segir hæstv. ráðh., að tvær greinarnar stórgræða og þetta er allt í blómanum og sómanum, en þó á eitthvað að gera fyrir frystinguna.

„Þriðja atriðið í þessu, sem er auðvitað ákaflega mikilvægt, eru tekjur og afkoma sjómanna. Sjómenn telja að þeir eigi rétt á kjarabótum til jafns við launamenn í landi, að í samanburði við þá eigi þeir rétt á verulegum bótum nú. Þá kemur upp spurningin: Er eina leiðin til þess að rétta hlut sjómanna sú að hækka fiskverðið þannig að kjarabæturnar fáist eingöngu með hækkun þess, eða eru hugsanlegar aðrar leiðir til þess að rétta hlut sjómann án þess að fiskverðið í heild og þá til útgerðarinnar í heild um leið sé hækkað mjög verulega? Öll þessi atriði hafa verið til rækilegrar athugunar hjá ríkisstj.“ — Það kemur hér enn þá. Mér sýnist að í þessu felist það, að hæstv. forsrh. hallist nú heldur að kenningu formanns Alþb., halli sér á þá hliðina, en ekki skoðunum sjútvrh., sem þessi mál eiga samt að falla undir. En hvað sem því líður, þá er ekki nokkur lifandi leið að gera sér grein fyrir stöðu ríkissjóðs, hvort heldur er í fjári. eða lánsfjáráætlun, nema vita eitthvað um það, hvort víðtækt styrkjakerfi eigi að taka upp eða uppbótakerfi.

Ég skal nú fara að stytta þennan upplestur á ræðunni. Þetta er nú meginmál hennar. Ég vil aðeins mega bæta hér við smásetningu:

„Nú hafa samtök þessara aðila, sjómanna, útvegsmanna, fiskvinnslufyrirtækja, a. m. k. ýmis þeirra, boðað stöðvun útgerðarinnar um áramót ef nýtt fiskverð verði ekki komið. Það vill nú svo til að þetta eru einmitt sömu aðilar sem velja fulltrúa í Verðlagsráðið sem á samkv. lögum að ákveða fiskverð. Það er auðvitað ágætt að reka þannig á eftir sjálfum sér, það er gott að slá í hjá sjálfum sér og getur vafalaust verið gagnlegt.“

Eru svona sendingar til sjómanna, útvegsmanna og þeirra, sem standa fyrir fiskvinnslunni, af hálfu sjálfs forsrh. landsins líklegar til að vera gagnlegar við lausn þess gífurlega vanda sem fram undan er? Ég held að þær eigi eftir að gera mikið ógagn, því miður. Við stöndum frammi fyrir kannske mesta vanda, sem steðjað hefur að meginatvinnuvegi Íslendinga og raunar öllum íslenskum atvinnuvegum, einmitt nú um áramótin og þá kemur þessi kveðja frá hæstv. forsrh. til allra þeirra sem eru að berjast í þessum erfiðasta atvinnuvegi um þessar mundir. Efnislega er þetta svo sem ekkert annað en það, sem þessi hæstv. ráðh. hefur verið að segja alla sína ráðherratíð. Mér er nær þó að hafa annað forskeyti. En það hefur verið sagt af þessum ráðherrum að það sé Seðlabankinn sem ráði gengi og bindingu krónunnar og ráði vöxtum, ríkisstj. hafi svo sem ekkert með það að gera. Verðlagsráðið á að ákveða þetta. Það er ekki ríkisstj. að kenna hvernig verðlag er á þessu eða hinu. Ekki ber ríkisstj. ábyrgð á því, að verðbólgan æðir áfram. Þar eru önnur öfl alls staðar að verki.

Til hvers er þessi ríkisstj.? Á ekki ríkisstj. að reyna að marka einhverja forustu, að hafa einhver áhrif á löggjafarstörf og framkvæmd? Á alltaf að vera að skjóta sér á bak við einhverja aðra? Til hvers erum við þá að burðast við að hafa ríkisstj. ef það er embættiskerfið sem á að ráða ferðinni? Og þegar fulltrúar í Verðlagsráði hreinlega gefast upp af eðlilegum ástæðum og óska eftir leiðbeiningum af ríkisvaldsins hálfu, þá fá þeir ekkert nema dylgjur og skæting.

Áður en þetta mál verður afgreitt hljótum við að krefjast svara við því, hvað við sé átt með þeim ummælum sem hér eru á ferðinni. Það má gjarnan einnig benda á það hér, og vænti ég að hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson staldri hér við á meðan úr því að hann er hér inni, að í nýrri skýrslu Þjóðhagsstofnunar um framreiknaða verðlagsþróun næstu misserin stendur orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Hækkun kauptaxta milli áranna 1981 og 1982 er 49% að meðaltali og kaupmáttur kauptaxta yrði því 2.5% minni en á árinu 1982 en á árinu 1981.“

Ég leyfi mér að beina því til hæstv. forsrh., hvort hann og ríkisstj. ætli að láta sér nægja svona smámuni, kjaraskerðingu um bara 2.5%. Hún var 7% í fyrra. Á ekki að gera einhverjar ráðstafanir til að taka meira af verkalýðnum? Er það ekki helsta úrræðið alla tíð? Kauphækkanirnar núna voru 3.25%. Þegar þessi 2.5% eru dregin þar frá hafa þær sem sagt átt að vera 0.75, og var það þó allt farið nokkru áður. Það væri líka æskilegt að fá það skýrt og skorinort upplýst af hæstv. forsrh., hvort þessi kjaraskerðing eigi núna að nægja, hvort það eigi ekki að grípa til einhverra svolítið hressilegri aðgerða. Það var ekki svo lítið grobbað af aðgerðunum síðast, 7% kjaraskerðingunni, að manni finnst með ólíkindum að nú eigi bara að láta sér nægja 2.5%.

Það er óteljandi margt annað herra forseti, sem mig hefði langað til að víkja að hér, en ég er þegar orðinn of langorður. Ég ber ekki sök á því einn. Ég hef orðið að slíta í sundur ræðu mína vegna fjarveru ráðh. Ég ætlaði ekki að tala svona lengi, enda voru ræður frsm. með þeim ágætum að við þær út af fyrir sig var engu að bæta. En ef á að auðnast að hraða þessu máli er það auðvitað krafa okkar í stjórnarandstöðunni og væntanlega allra í fjh.- og viðskn.-nefndum, að við fáum svör við þeim spurningum, sem við berum fram, eftir því sem er á valdi hæstv. ráðh. að veita. Ég veit að þeir eru í miklum vanda vegna þess að embættiskerfið ræður ekki orðið við upplausnina og alla erfiðleikana. Þeir geta ekki upplýst okkur, einfaldlega vegna þess að þrátt fyrir allar tölvurnar og alla tæknina er ekki hægt að svara spurningunum mörgum hverjum, sem ráðherrar þurfa að fá úr leyst, vegna þess að stofnanirnar eru orðnar svo margar að hægri höndin veit ekki hvað sú vinstri gerir. En frumskilyrðið er að við finnum þó inn á það, að það sé vilji til þess af hálfu hæstv. ráðh. að greiða fyrir framgangi málsins og að upplýsa helstu atriði þess og reyna að komast að niðurstöðu um megindrætti í fjármálaþróuninni, þróun bæði fjárlaga og lánsfjárlaga. Ef þau vinnubrögð verða hér viðhöfð nú á eftir, þá skal ekki standa á okkur stjórnarandstæðingum að greiða fyrir því, að málið nái fram að ganga, en ella hljótum við að ítreka spurningar okkar.