17.12.1981
Neðri deild: 26. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1749 í B-deild Alþingistíðinda. (1400)

136. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Mér finnst svörin frá tveimur hæstv. ráðh. vera ákaflega loðin. Í málefnasamningi ríkisstj., sem er næstum tveggja ára gamall, 8. febr. á næsta ári er hann orðinn tveggja ára, er sagt: „Unnið verði að verðjöfnun á orku, ekki síst á sviði húshitunar.“ Forsrh. segir núna: Þetta er mikið vandamál.— Þetta var líka vandamál þegar stjórnarsáttmálinn var gerður, og eitthvað hefur verið rætt um það, hvernig eigi að leysa þetta vandamál, hvernig og með hvaða hætti eigi að vinna að verðjöfnun á orku. Ef það hefur ekki verið gert ítarlega þá, við myndun ríkisstj., hefur þá ekkert verið gert síðan? Er þetta sama óleysta vandamálið og sama óvissan og hefur verið? Til hvers er verið að semja um slíkt við myndun stjórnar ef það á aðeins að vera í málefnasamningi og ekkert meira?

Vitaskuld er um margar aðferðir að ræða. Verðjöfnun á orku verður auðvitað ekki gerð nema með því að allir greiði sama verð fyrir orku eða farið verði inn á þá braut að greiða úr ríkissjóði. Ég hélt að fyrra atriðið hefði verið það sem um var rætt, en kannske eru menn að guggna á því. En það er líka annað sem kemur til með að auka sífellt þennan ójöfnuð. Það er að annars vegar er orkuverðinu haldið niðri á þeim stöðum þar sem það er lægst vegna þess að vísitölufjölskyldan býr í Reykjavík Þar er stigið á bremsuna, bæði hvað snertir rafmagnsverð og hitaveitu, til þess að geta falsað vísitöluna. Þetta vita allir menn. En svo má aftur fara upp með það hjá öðrum. Þetta bil er því sífellt að verða meira og meira.

Árið 1980 var orkujöfnunargjaldið 130 millj., en í fjárlagafrv: fyrir 1982 er það áætlað 190 millj. Bein fjárveiting Orkusjóðs að frádregnu verðjöfnunargjaldi til hans var 47 millj. 520 þús. á árinu 1981, en er 45 millj. 100 þús. 1982. Olíustyrkirnir eru reiknaðir 30 millj. af þessari upphæð til niðurgreiðslu á olíuverði. Hér er verið að taka í ríkara mæli inn í ríkissjóðinn af orkujöfnunargjaldinu. Orkujöfnunargjaldið var sett á á sínum tíma með það fyrir augum að jafna þennan kostnað, en ekki til að vera skattur í sjálfan ríkissjóð. Afgangurinn af orkujöfnunargjaldinu á árinu 1981 var 3 millj. 380 þús., en í fjárlagafrv. fyrir árið 1982 á að taka í ríkiskassann 103 millj. 600 þús. M. ö. o.: ríkið ætlar að taka 100 millj. af orkujöfnunargjaldinu. Þetta er stefna ríkisstj. í því að jafna orkuverðið í landinu. Það er lagður á þessi skattur, orkujöfnunargjald, sem hefur verið innheimtur nú í nokkur ár, og eftir því sem lengra líður á starfstíma núv. ríkisstj. er þetta gjald notað í æ ríkara mæli til þess að fá peninga í ríkissjóð á fölskum forsendum.

Alþingi afgreiddi þessi mál á sínum tíma, um orkujöfnunargjaldið. En nú er farið að leika sér að þessu á annan hátt og svíkja þau fyrirheit sem voru gefin. Svo kemur forsrh. landsins og segir: Þetta er mikið vandamál. — Hann segir ekki: Ég samdi um það með stjórnarsáttmálanum frá 8. febr. 1980 við þá hina að stefna að jöfnuði í þessu. — Nei, í staðinn er stefnt að því að taka þetta gjald inn í ríkissjóðinn með þessum hætti. Svo er annað mál hvort þm., sem eru kjörnir af því fólki sem verður að búa við þennan ójöfnuð, gera sér þetta að góðu, hvort þessir þm. ætla að vera svo sálarlitlir eða sálarlausir að láta bjóða sér þetta. Það sjáum við við afgreiðslu fjárlaga nú innan eins eða tveggja daga.