26.10.1981
Efri deild: 6. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 217 í B-deild Alþingistíðinda. (156)

42. mál, ráðstafanir vegna breytingar á gengi íslenskrar krónu

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Herra forseti. Eins og frsm. gat um er hér um staðfestingu brbl. að ræða og þau eru frá 28. ágúst 1981. Þá var, eins og frsm. raunar gat um, ákveðið af ríkisstj. að fella gengi krónunnar nokkuð og átti það að vera til þess að bjarga fiskiðnaðinum og sérstaklega frystiiðnaði. Því var ákveðið í 1. gr. þessara laga að 2.286% af gengismun rynnu til frystideildar Verðjöfnunarsjóðs til að gera honum kleift að standa undir skuldbindingum sínum, eins og hæstv. forsrh. greindi hér frá. Hann gat þess einnig beint og óbeint að síðan hefði komið í ljós að þetta hefði ekki nægt. Það vita raunar allir að út í sandinn er runnið og því er nú lögð á borð þm. brtt. Hún er í sjálfu sér kannske ekki merkilegri en frv. sjálft og brbl., en hins vegar hafa þm. ekki haft tækifæri til þess að sjá þá brtt. fyrr en nú. Hún er raunar ljós. Það á nú annaðhvort beint eða óbeint með lántökum — að vísu er kallað að það eigi að nota gengisuppfærslu á endurkeyptum afurða- og rekstrarlánum til þess — að setja á ný fé í Verðjöfnunarsjóðinn, en eins og frsm. gat um var þetta allt saman, sem upphaflega var vist lagt í sjóðinn, endurgreitt framleiðendunum. Þetta entist sem sagt í nokkrar vikur eða var talið endast í nokkrar vikur, en var síðan endurgreitt.

Þetta er svo sem ekkert nýtt. Þetta er ein af fálmtillögum og fálmúrræðum hæstv. ríkisstj. Hún vill aldrei gera sér grein fyrir vanda atvinnuveganna, fyrir vandamálunum eins og þau liggja fyrir, heldur reynir stanslausar skottulækningar sem auðvitað misheppnast allar. Það verður auðvitað jafnt með þessar 26 millj. nýjar sem nú er talað um að muni geta bætt hag sjávarútvegsins.

Við vitum að mörg frystihús eru þegar stöðvuð. T. d. er Hraðfrystihús Keflavíkur stöðvað og tveir togarar þar með. Skjöldur á Patreksfirði hefur verið stöðvaður í nokkurn tíma. Ég get gjarnan greint frá því hér, vegna þess að hérna nær það kannske eyrum hæstv. ráðh., að við þm. Norðurl. v. vorum að heimsækja sveitarstjórnir og atvinnufyrirtæki þar nú um helgina og ástand t. d. í Skagafirði í öllum fiskvinnslustöðvunum þar og hjá Útgerðarfélagi Skagfirðinga er með slíkum — ja, ég vil segja: hörmungum að manni hrýs hugur við. Tapið er svo stórfellt að öllu lengur verður ekki nokkur lifandi leið að halda þessum fyrirtækjum gangandi. Ég skal ekki rekja hér þessar tölur, þær eiga áreiðanlega eftir að sjá dagsins ljós, en þær eru gífurlega háar, beint tap á síðustu tveim árum og þó keyrir um þverbak nú.

Það verður auðvitað að gera bráðabirgðaráðstafanir til að halda þessum fyrirtækjum gangandi, eins og formaður Alþfl. sagði, fram yfir landsfund Sjálfstfl. þannig að hægt sé þá að gera einhverjar ráðstafanir sem ekki er talið tímabært að gera nákvæmlega þessa daga. En það er alveg ljóst að hér er enn ein fálmtillagan í farvatninu, þessi brtt.

Mér þætti mjög vænt um ef hæstv. sjútvrh. skýrði þetta mál fyrir okkur hér í hv. Ed. nú á eftir, vandamál sjávarútvegsins, í heillegri mynd en spegilmynd hæstv. forsrh. er. Ég á ekki von á að forsrh. skýri málin neitt ofan í kjölinn fremur en hann er vanur, sá góði maður. En ég á von á að hæstv. sjútvrh. sé orðinn uggandi um hag þessarar meginatvinnugreinar landsmanna, sjávarútvegsins, sem allt okkar líf byggist nú á, og hann virði þessa deild Alþingis svo mikils að hann muni hér á eftir gera okkur nokkra grein fyrir þeim vandamálum, sem sjávarútvegurinn á nú við að etja, og með hvaða hætti ríkisstj. hyggst reyna að leysa vanda sjávarútvegsins til einhverrar frambúðar. Það er alveg ljóst að þó að nú verði settir talsverðir fjármunir frá Byggðasjóði, með láni frá Seðlabanka eða erlendu láni, til þess að bjarga sjávarútveginum næstu vikurnar er það í rauninni engin björgun og engin bót. Það er aðeins stutt frestun á vandanum. Tapið mun sjálfsagt aukast þær vikur sem verið er að eyða þessum peningum, og þá er komið að því að gera verði raunhæfar ráðstafanir.

Það eru sem sagt tilmæli mín til hæstv. sjútvrh. að hann geri okkur hér og nú í stuttu eða löngu máli grein fyrir því, hvernig málin standa í heild, en ekki að það sé einungis fjallað um þetta litla frv. — skulum við segja og þessa allstóru brtt. sem nú er hér útbýtt. — Raunar eiga þm. heimtingu á því að fá á henni nokkrar skýringar, því að hún er nú fyrst á borðum manna og enginn hafði um hana hugmynd fyrr en um það leyti sem fundur var settur.

Ég veit að hæstv. sjútvrh. ætlast ekki til að þessari umr. í þd. ljúki svo að hann skýri ekki a. m. k. brtt., hvað í henni felst og hver vandinn er, því að ekkert var að græða á ræðu hæstv. forsrh.