26.01.1982
Sameinað þing: 43. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1985 í B-deild Alþingistíðinda. (1705)

140. mál, iðnaðarstefna

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um iðnaðarstefnu sem ríkisstj. leggur fyrir hv. Alþingi. Slík stefnumarkandi tillaga um málefni iðnaðar var fyrst lögð fram hér á Alþingi af mér sem iðnrh. í ríkisstjórn Ólafs Jóhannessonar vorið 1979 í framhaldi af setningu laga nr. 13/1979, um stjórn efnahagsmála, þar sem segir m. a. í kafla um atvinnumál, 22. gr.:

„Ráðuneyti einstakra atvinnuvega skulu hafa forgöngu um gerð atvinnuvegaáætlana hvert á sínu sviði.“ — Og nánar í 24. gr.: „Ríkisstj. leggur atvinnuvegaáætlanir fyrir Alþingi sem þáltill. eða lagafrv., eftir því sem við á.“

Till., sem þá var flutt, var endurflutt haustið 1979, en komst þá ekki til umr. vegna þess að þingstörf stóðu aðeins í nokkra daga áður en þing var rofið. Í fyrravetur var till. svo endurflutt og þá rædd hér í þinginu og komst til nefndar.

Að baki þáltill., eins og hún var flutt í upphafi, lá mikil vinna á vegum samstarfsnefndar um iðnþróun sem rn. skipaði haustið 1978 til þess m. a. að undirbúa drög að iðnaðarstefnu, og var álit nefndarinnar þar að lútandi frá maí 1979 lagt fram sem fskj. með þáltill. með heitinu Iðnaðarstefna. Í stjórnarsáttmála núv. ríkisstj. er gert ráð fyrir að mörkuð verði langtímastefna um iðnþróun. Í samræmi við það var farið yfir stefnumörkunina frá 1979 og þáltill. flutt með breytingum á síðasta þingi á vegum ríkisstj. Eftir fyrri umr. komst hún til nefndar, en hlaut þar ekki afgreiðslu. Við flutning till. nú hafa verið gerðar á henni nokkrar breytingar með tilliti til atriða, sem fram komu á síðasta þingi í umr. og umsögnum til atvmn. Sþ., og með tilliti til aðgerða og þróunar sem átt hefur sér stað fyrir forgöngu stjórnvalda og samtaka iðnaðarins. Ég vænti þess, að um málið geti tekist góð samstaða, og legg áherslu á að till. fái þinglega meðferð og afgreiðslu á þessu þingi.

Ræða hv. talsmanns sjálfstæðismanna í stjórnarandstöðu um iðnaðarstefnu, sem þeir hafa flutt í formi þáttill. sem hann mælti fyrir áðan, vekur vonir um að þetta mál geti tekist breið og góð samstaða þótt ágreiningur sé um nokkur atriði. Sá áhugi á iðnaðarmálum, sem virðist þannig ríkja raunar í öllum þingflokkum, vekur vonir um að unnt eigi að vera að ná saman um víðtæka stefnumörkun í málefnum iðnaðarins, eins og hér er lagt til. Ég tel rétt, herra forseti, að vitna hér til till. að því er varðar markmið sem þar eru sett fram um iðnþróun. Þar segir í upphafi:

„Með tilliti til líklegra breytinga í atvinnulífi landsmanna á næstu árum og vaxandi hlutdeildar iðnaðar í atvinnuöryggi og lífskjörum þjóðarinnar ályktar Alþingi að stuðla beri að framkvæmd iðnaðarstefnu sem hafi eftirfarandi meginmarkmið:

1. Að skapa iðnaðinum almenn skilyrði fyrir heilbrigðan rekstur fyrirtækja og að ýta undir frumkvæði til nýrra átaka og nýjunga í framleiðstu.

2. Að örva framleiðni í íslenskum iðnaði þannig að framleiðnistig hans verði sambærilegt við það, sem gerist í helstu viðskiptalöndum, og skilyrði skapist fyrir bætt lífskjör.

3. Að stuðla að hagkvæmri fjárfestingu til að fjölga störfum í iðnaði og tryggja fulla atvinnu með hliðsjón af aðstæðum í öðrum atvinnugreinum og áætlunum um fjölda fólks á vinnumarkaði.

4. Að leggja sérstaka áherslu á að efla iðnað á þeim sviðum, þar sem innlendir samkeppnisyfirburðir geta nýst til arðbærrar framleiðslu á vörum og þjónustu, jafnt fyrir heimamarkað sem til útflutnings.

5. Að nýta sem best þá möguleika til iðnaðarframleiðslu, sem felast í innlendum orkulindum, og efla innlenda aðila til forustu á því sviði. Orkufrekur iðnaður verði þáttur í eðlilegri iðnþróun í landinu og jafnframt verði lögð áhersla á úrvinnsluiðnað í tengslum við hann.

6. Að bæta starfsskilyrði og auka áhrif starfsfólks á vinnustöðum og koma í veg fyrir skaðleg áhrif af völdum iðnvæðingar á náttúru landsins og umhverfi.

7. Að tryggja forræði landsmanna yfir íslensku atvinnulífi og auðlindum og stuðla að æskilegri dreifingu iðnaðar og jafnvægi í þróun byggðar í landinu.“

Í þessum markmiðskafla þáltill. hefur verið bætt við töluliðum 1 og 5 til frekari áherslu á að skapa þurfi iðnaði almenn skilyrði til vaxtar og efla nýjungar í framleiðslu, m. a. með hagnýtingu innlendra orkulinda.

Í II. kafla till. er gerð grein fyrir helstu leiðum til að ná umræddum markmiðum. Eru þar 20 tölusettir liðir og verður vikið að nokkrum þeirra síðar.

Í grg. með till. er m. a. rætt um horfur í atvinnumálum og stöðu iðnaðar í því samhengi. Þar segir m. a.: „Margt bendir til að Íslendingar séu á tímamótum í atvinnumálum þar sem hagnýta þurfi mun fjölþættari kosti en hingað til. Þannig verði auk öflugs sjávarútvegs og fiskiðnaðar að koma til fjölbreyttur iðnaður, sem m. a. byggi á og vaxi upp af þeirri þekkingu og reynslu sem við höfum öðlast í hefðbundnum atvinnugreinum hingað til. Af öðrum þáttum, sem rennt geta stoðum undir öfluga innlenda iðnþróun, má nefna ýmsar hráefnaauðlindir og innienda orku, svo og ýmis önnur náttúruskilyrði og hugvit, til að framleiða samkeppnishæfar iðnaðarvörur til heimanota og útflutnings.

Þessu nýja hlutverki sínu fær iðnaðurinn ekki valdið nema til komi breytt viðhorf gagnvart málefnum hans og að honum verði markvisst sköpuð skilyrði til vaxtar.“

Þá er vitnað til mats byggðadeildar Framkvæmdastofnunar ríkisins varðandi breytingu sem fram undan geti verið í þróun atvinnulífs og skiptingu vinnuafls í landinu eftir atvinnugreinum. Kjarni þess máls er sá, að nauðsynlegt sé að efla og byggja upp arðvænlegan iðnað með mikilli framleiðni til að skapa viðfangsefni fyrir þúsundir manna á næstu árum því að ella sé hætt við atvinnuleysi og auknum brottflutningi fólks úr landinu. Rakin er viðleitni stjórnvalda til stefnumótunar í iðnaðarmálum á síðasta áratug, en þrátt fyrir hana hafi vantað samræmda iðnaðarstefnu af hálfu hins opinbera.

Frá árinu 1970 hefur iðnaðurinn mætt vaxandi samkeppni af völdum innflutnings eftir afnám tolla og minnkandi innflutningshöft. Þótt aðeins hafi í undantekningartilvikum orðið verulegur samdráttur í framleiðslu af völdum innflutnings hefur aðstaða innlendra framleiðenda þrengst á markaðnum og ekki orðið framleiðsluaukning hjá mörgum þeirra. Aðlögunartíminn í kjölfar EFTA-aðildar nýttist ekki sem skyldi, m. a. vegna ófullnægjandi aðgerða til stuðnings iðnaði, örrar verðbólguþróunar og atþjóðlegra efnahagserfiðleika í kjölfar olíuverðshækkana svo og vegna þess að iðnfyrirtæki voru illa í stakk búin til að taka þátt í þeirri endurskipulagningu framleiðslu sem EFTA-aðild kallaði á.

Nauðsynlegt er að menn líti fordómalaust á þann sérstaka vanda sem leiðir af sambýli iðnaðar við sjávarútveg. Þar eð sjávarútvegurinn hefur haft alla yfirburði sem aðalútflutningsatvinnuvegur landsmanna og í reynd verið burðarásinn í hagvexti hérlendis fram á síðustu ár hafa ákvarðanir um meginatriði í efnahagsmálum ráðist mjög af hagsmunum og aðstæðum hans. Þannig ræðst gengi íslensku krónunnar og þar með afurðaverð útflutningsiðnaðar og samkeppnisverð á innfluttum iðnaðarvörum fyrst og fremst af afkomu og viðskiptakjörum sjávarútvegsins. Eftir afnám verndartolla og innflutningshafta skiptir þetta atriði sköpum fyrir iðnaðinn.

Þetta sambýli iðnaðar og sjávarútvegs hefur haft meiri áhrif á þróunarmöguleika iðnaðar en margir gera sér grein fyrir og að líkindum reynst afdrifaríkara en breytingar af völdum erlendrar samkeppni á heildina litið. Eitt af grundvallaratriðum fyrir árangursríkari iðnþróun er því að komið verði á jafnræði með þessum atvinnuvegum á þeim sviðum er máli skipta til að skapa vaxtarforsendur fyrir iðnað.

Eftirfarandi meginviðhorf til iðnþróunar liggja að baki tillögum þeim sem fram koma í þáltill.:

1. Að vinna þurfi að iðnþróun með samhæfðu átaki fyrirtækja, samtaka og stofnana iðnaðarins og opinberra aðila.

2. Að leggja verði mikla áherslu á þróun iðnaðar á næstu árum með sérstöku tilliti til aukins útflutnings iðnaðarvara.

3. Að búa þurfi iðnaðinum hagstæð vaxtarskilyrði með því að jafna aðstöðu hans og annarra atvinnuvega. Þegar teknar eru ákvarðanir um aðalatriði efnahagsmála verði sérstaklega gætt að áhrifum þeirra á iðnaðinn.

4. Að skapa þurfi þannig jarðveg fyrir iðnþróun að frumkvæði sem flestra fái notið sín við margbreytileg viðfangsefni og horft sé til sem flestra kosta, en ekki eingöngu byggt á afmörkuðum sviðum iðnaðar.

5. Að lögð verði áhersla á að efla sérstaklega þær greinar og fyrirtæki, sem hafa góð vaxtarskilyrði og geta tryggt varanlega samkeppnisyfirburði. Iðnaður með háa framleiðni getur að jafnaði greitt góð laun og þannig valdið miklum margföldunaráhrifum, sem svo eru kölluð, á atvinnu í þjónustugreinum. Endurmeta þarf stöðu greina, sem fara halloka í samkeppni, en gjalda varhug við óraunhæfri aðstoð eða verndaraðgerðum.

6. Að kanna sérstaklega með hvaða hætti verði unnt að nýta orkulindir landsins þannig að landsmenn haldi forræði í þeirri uppbyggingu og að hún samrýmist að öðru leyti þjóðfélagslegum markmiðum sem víðtæk samstaða getur tekist um.

7. Að stuðla að aðlögun og nýsköpun í iðnaði með því að hvetja til vöruþróunar, markaðsleitar og rannsókna- og þróunarstarfsemi í fyrirtækjum. Slíkar aðgerðir séu örvaðar, m. a. með fjárhagslegri aðstoð hins opinbera, tæknilegum stuðningi frá stofnunum iðnaðarins og aðgerðum í skattamálum.

8. Að auðvelda iðnaðinum að takast á við stærri verkefni en hingað til og styðja sveitarfélög til að greiða fyrir iðnþróunaraðgerðum í landshlutum, t. d. með ráðningu sérhæfðra starfsmanna og byggingu iðngarða.

9. Að stuðla að nýsköpun í iðnaði, m. a. með því að ríkið eitt sér eða í samvinnu við aðra aðila taki þátt í stofnun meiri háttar nýiðnaðarfyrirtækja. Stjórn ríkisins á eigin atvinnurekstri þarf að samræma og gera hana markvissari. Athuga ber það form að setja eignarforræði yfir helstu fyrirtækjum í ríkiseign á eina hendi. Gera þarf auknar arðsemiskröfur til ríkisfyrirtækja og ráðstafa mætti arði af slíkum fyrirtækjum til þróunar og uppbyggingar nýiðnaðar.

10. Að auka áhrif starfsfólks á eigin vinnuumhverfi og efla skilning þess á daglegum viðfangsefnum og stöðu sinni í framleiðslunni. Þessi viðleitni getur stuðlað að bættum rekstrarárangri fyrirtækja og jafnframt vakið starfsfólk til umhugsunar um félagslegt inntak vinnunnar.

11. Að forðast að vaxandi iðnaður leiði til óæskilegrar röskunar á náttúru landsins og félagslegu umhverfi. Iðnvæðing og aukin framleiðsla má ekki verða á kostnað heilbrigðs umhverfis eða skynsamlegrar nýtingar auðlinda.

12. Að tryggja að breytingar á atvinnuháttum stuðli að sem bestu jafnvægi í þróun byggðar í landinu og ekki skapist misvægi sem leiði til verulegrar byggðaröskunar. Sérstaklega þarf að huga að iðnaði sem treyst geti búsetu í sveitum, strjálbýli, og smáum byggðakjörnum og aukið fjölbreytni í atvinnuframboði.

Það er afar mikilvægt fyrir okkur Íslendinga að átta okkur á inn á hvaða brautir sé vænlegast að leggja í atvinnumálum varðandi nýtingu auðlinda innan íslenskrar lögsögu. Örar tækniframfarir og vaxandi alþjóðleg verkaskipting samfara harðri samkeppni í alþjóðaviðskiptum knýja þá þjóð, sem vill tryggja efnahag sinn til frambúðar, til að ganga skipulega til verka. Þar skiptir fjölbreytni í atvinnulífi og sveigjanleiki og aðlögunarhæfni miklu máli. Sú alþjóðlega efnahagskreppa, sem við erum vitni að síðustu ár með miklu atvinnuleysi í mörgum iðnríkjum, minnkandi hagvöxt og vaxandi verðbólgu, þarf að verða þjóð okkar hvatning til að skyggnast fram í tímann í atvinnumálum og búa þar sem tryggast um hnútana.

Við höfum að undanförnu sloppið vel frá vofu atvinnuleysis og hérlendis hefur á síðasta áratug verið meiri hagvöxtur en í flestum öðrum ríkjum Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD. Að undanförnu hefur hins vegar dregið verulega úr hagvexti og horfur varðandi þjóðartekjur og þjóðarframleiðslu á nýbyrjuðu ári eru því miður engan veginn bjartar. Við megum því ekki fremur en aðrar þjóðir treysta á guð og lukkuna í atvinnumálum. Eitt er að tryggja fulla atvinnu í bráð og annað að tryggja atvinnuöryggi til lengri tíma. Engin ástæða er hins vegar til svartsýni, því að þótt við finnum oft fyrir því að búa á norðurslóð ræður þjóðin yfir miklum og endurnýjanlegum auðlindum sem geta tryggt hér blómlega efnahagsstarfsemi og góð lífskjör um langa framtíð ef við náum tökum á að hagnýta náttúruskilyrði og þróa hér verkmenningu, vísindi og tækni í samræmi við aðstæður.

Hagkvæm og hófleg nýting auðlinda og framsýn stefna á sviði vísinda og tækni er nú mikið á dagskrá víða um lönd og við þessi atriði eru bundnar vonir um úrbætur á sviði efnahagsmála og félagsmála á komandi árum.

Ég átti þess kost ásamt fleiri íslenskum fulltrúum að sækja ráðherrafund OECD um vísinda- og tæknimál í mars s. l., en sá fundur var undirbúinn af vísindanefnd Efnahags- og framfarastofnunarinnar. Á dagskrá var stefnumótun á sviði vísinda og tækni og leit að nýjungum í þágu atvinnulífsins á 9. áratugnum. Rædd voru alþjóðleg viðhorf og viðhorf einstakra landa og kom fram mikill áhugi aðildarríkja OECD á að leggja meiri áherslu á rannsóknir og þróunarstarfsemi en verið hefur á síðustu árum. Mörg ríki hafa nú einsett sér að auka verulega framlög á þessu sviði, Kanadamenn t. d. úr um 1% af þjóðarframleiðslu í 1.5% fyrir árið 1985 og Frakkar úr 1,8% í 2,3% af þjóðarframleiðslu á fimm árum. Hérlendis er þetta hlutfall aðeins um 0,75% af þjóðarframleiðslu og er það langlægst af því sem gerist á Norðurlöndum.

Við þurfum að gefa þessum málum sérstakan gaum nú og á næstunni með það að markmiði að auka starfsemi á þessu sviði, bæði grundvallarrannsóknir og svonefndar hagnýtar rannsóknir er tengjast með beinum hætti þróun atvinnulífs. Á því sviði hefur sitthvað vel tekist til hérlendis, m. a. í tengslum við sjávarútveg og landbúnað. Nú er sérstök ástæða til að huga að rannsóknum á orkusviðinu, ekki síst að því er varðar orkunýtingu, þ. e. iðnaðaruppbyggingu í tengslum við hagnýtingu innlendra orkulinda. Svipuðu máli gegnir um hagnýtingu og aðlögun atvinnulífsins að nýrri tækni er byggir á örtölvum, og þar þurfa félagsvísindi og félagsleg áhrif til langs tíma að vera gildur þáttur í mati á leiðum.

Í því nýsköpunarstarfi, sem mikil nauðsyn er á í atvinnulífinu og þá ekki síst á sviði iðnaðar, þurfum við að gæta þess sem best að tengja saman atvinnustarfsemi í landinu þannig að sem mest af framleiðslu og þjónustu, sem unnt er að veita innan marka eðlilegrar samkeppni, falli í hlut innlendra aðila. Til þess að svo megi verða þurfa menn hins vegar bæði að hafa vilja og vinna vel fram fyrir sig í skipulagningu og áætlanagerð. Dæmi um slík tækifæri er m. a. að finna á orkusviðinu, þar sem er uppbygging orkuvera og iðnfyrirtækja. Iðnrn. hefur beitt sér fyrir sérstakri úttekt á þeim framleiðslumöguleikum innanlands á sviði rafiðnaðar og málmiðnaðar, er tengst gæti þeirri miklu fjárfestingu sem fyrirhuguð er á orkusviðinu, og þar bíður tækifæri í almennri iðnþróun sem við megum ekki láta okkur úr greipum ganga.

Herra forseti. Í störfum stjórnvalda að iðnþróun undanfarin ár hefur vissulega verið tekið mið af þeirri stefnu sem í þessari þáltill. felst, og sú vinna, sem að baki þessari till. liggur, hefur þannig þegar haft veruleg áhrif. Að þessu má færa mörg rök með hliðsjón af þeim leiðum sem bent er á í II. kafla till. Tímans vegna læt ég hins vegar nægja að nefna fáein dæmi um það sem áunnist hefur og að er unnið í iðnaði í anda tillögunnar, þá fyrst varðandi iðnþróunaraðgerðir og aukna framleiðni í iðnaði.

Verulegu fjármagni hefur verið varið til iðnþróunaraðgerða í mörgum greinum iðnaðar að undanförnu. Hafa þar lagst á eitt fyrirtæki, samtök iðnaðarins og stjórnvöld sem stutt hafa slíkar aðgerðir með fjármagni af aðlögunargjaldinu. Inni í þessari mynd hafa einkum verið málm- og rafiðnaður, skipaiðnaður, fata- og ullariðnaður, húsgagna- og innréttingaiðnaður og sælgætisiðnaður. Hagræðingar- og þróunaraðgerðir, sumpart samfara tímabundinni tollvernd, hafa skilað verulegum árangri í aukinni framleiðni í fyrirtækjunum og auknum hlut til starfsmanna í mörgum þeirra með afkastahvetjandi launakerfum, sem þó eru vissulega umdeild. Samkv. mati tæknideildar Fétags ísl. iðnrekenda var meðaltalsframleiðniaukning í fataiðnaði á tveggja ára tímabili 1979–1981 yfir 50% og verulegur árangur varð í öðrum greinum. Kemur þar m. a. til aukin áhersla á vöruþróun og markaðsaðgerðir í húsgagna- og sælgætisiðnaði. Áhrif af mörgum þessara aðgerða munu hins vegar koma fram á lengri tíma, t. d. af nýju skráningar- og flokkunarkerfi og markaðsátaki á vegum Sambands málm- og skipasmiðja, en það varðar fjölda fyrirtækja um land allt og kemur ekki síst skipaiðnaðinum til góða. Fyrir rafiðnað eru hliðstæðar aðgerðir í undirbúningi.

Þá vil ég nefna endurkaupalán og sjóði iðnaðarins. Iðnrn. hefur frá ársbyrjun 1981 átt nokkrar viðræður við Seðlabankann um að iðnfyrirtækjum yrði veittur greiðari aðgangur að endurlánakerfi bankans, en það atriði var sérstaklega áréttað í efnahagsáætlun ríkisstj. um áramótin 1980–1981. Jafnframt gerði Iðnaðarbankinn sérstakt átak til að kynna iðnfyrirtækjum víða á landinu rekstrarlánamöguleika í gegnum endurkaupalánakerfið. Þessi viðleitni og jákvæðu viðbrögð af hálfu Seðlabankans hafa leitt til þess, að endurkaupalán hans af iðnfyrirtækjum hafa aukist verulega. Hlutfall iðnfyrirtækja í endurkaupalánum var í des. s. l. komið í tæp 14% af heildarendurkaupum, en var ári fyrr aðeins 10.7%. Er hlutfallsleg aukning mest í rekstrarlánum sem hafa nær þrefaldast í krónum talið á árinu 1981.

Vorið 1980 var samþykkt breyting um Iðnrekstrarsjóð sem ætlað er að stuðla að margvíslegu nýsköpunar- og umbótastarfi í iðnaði. Sjóðurinn fékk til ráðstöfunar á árunum 1980–1981 umtalsvert fjármagn af aðlögunargjaldi, og hliðstæð fjárhæð, um 10 millj. kr., er ætlað sjóðnum með framlagi úr ríkissjóði samkv. fjárlögum. Er þannig tryggt að sjóðurinn geti á næstu árum rækt hlutverk sitt með öðrum og betri hætti en áður. Lánasjóðir iðnaðarins, Iðnlánasjóður og Iðnþróunarsjóður, hafa sterka eiginfjárstöðu og hefur heildarráðstöfunarfé þeirra farið stöðugt vaxandi. Framboð á fjármagni til fjárfestingar í iðnaði er ekki lengur jafntakmarkandi þáttur og áður, en sjóðina þarf að efla enn frekar rýmka heimildir þeirra til lántöku innan ramma lánsfjáráætlana hverju sinni þannig að þeim verði gert kleift að takast á við stærri verkefni og þeir geti aukið verulega þátttöku sína í fjármögnun á umbótum og nýsköpun í iðnaði. Þess má geta, að nú er unnið að endurskoðun á útflutningslánakerfinu, útflutningslánum og útflutningstryggingum, með hliðsjón af samsvarandi starfsemi í helstu viðskiptalöndum okkar. Verða tillögur þar að lútandi væntanlega brátt lagðar fram hér á Alþingi.

Ég vil þá víkja að orkunýtingu. Þáltill. felur í sér það markmið að nýta sem best þá möguleika til iðnaðarframleiðslu, sem felast í innlendum orkulindum, og að efla beri innlenda aðila til forustu á því sviði. Slíkur iðnaður lúti virku íslensku forræði og taki mið af æskilegri atvinnu- og byggðaþróun og umhverfisvernd. Orkufrekur iðnaður þarf að verða þáttur í eðlilegri iðnþróun í landinu, m. a. með því að komið verði upp úrvinnsluiðnaði í tengslum við hann og að innlendur málm- og rafiðnaður fái sem stærstan hlut í uppbyggingu orku- og iðjuvera. Þótt ekki blási byrlega fyrir þungaiðnaði í þeirri efnahagskreppu, sem nú gengur yfir, er eftir sem áður líklegt að Íslendingar hafi góða samkeppnisstöðu í ýmsum greinum orkufreks iðnaðar í krafti orkulinda sinna, og æskilegt er að þróa hér tækni til úrvinnslu úr íslenskum hráefnum, svo sem magnesíumvinnslu og steinefnaiðnaði, með svonefndri silikat-tækni. Núv. ríkisstj. hefur beitt sér fyrir víðtækri könnun á möguleikum okkar á sviði orkufreks iðnaðar og hagnýtingar innlendra orkulinda í stað innfluttrar orku. Á öðru þskj., sem hér er ekki til umr. nú, er að finna greinargerð um stöðu þeirra mála og munu þau væntanlega koma til umr. hér í þinginu í öðru samhengi. Jafnframt fer fram vönduð úttekt á því, hvar æskilegt geti talist að setja niður meiri háttar iðnfyrirtæki út frá landfræðilegum og félagslegum forsendum, en dreifing slíks iðnaðar á mismunandi landshluta verður að teljast skynsamleg af ýmsum ástæðum.

Ég vil þá víkja að starfsskilyrðum atvinnuveganna nokkrum orðum. Eitt fyrsta atriðið meðal leiða til að ná fram markmiðum þáltill. er að bætt verði aðstaða til iðnrekstrar með því að búa iðnaði sömu starfsskilyrði og öðrum höfuðatvinnuvegum. Í því skyni verði álagning opinberra gjalda samræmd milli atvinnuvega og iðnfyrirtækja tryggt jafnræði varðandi aðgang að rekstrar- og framleiðslulánum, eins og það er orðað í þáltill. Að síðast talda atriðinu hef ég þegar vikið, en rétt er að geta um þá miklu vinnu sem nú er lokið á vegum svonefndrar starfsskilyrðanefndar. Hv. alþm. fengu fyrir jól áfangaskýrslu frá nefndinni, en um síðustu helgi lauk hún störfum og mun lokaálit hennar væntanlega liggja fyrir fjölritað fljótlega. Með vinnu starfsskilyrðanefndar er fengið vandað yfirlit um þau starfsskilyrði sem atvinnuvegunum eru búin af opinberri hálfu með afskiptum eða afskiptaleysi. Aðalfengur nefndarstarfsins er sá, að þeir, sem ráðuneytin tilnefndu og í nefndinni störfuðu, urðu sammála um efnisatriðin. Síðan er eftir að finna pólitíska lausn á því, hvernig eðlilegast sé að starfsskilyrðin séu jöfnuð á þjóðhagslega farsælan hátt.

Talsmenn iðnrekenda hafa leitt að því rök, að iðnaðurinn fari verulega halloka í þeim samanburði og m. a. leiði mismunun í skattlagningu á atvinnuvegina til óhagræðis fyrir útflutnings- og samkeppnisiðnað gagnvart gengisskráningu og endurspeglist þar með í lakari afkomu. Þetta hefur blasað við í sambandi við launaskatt og aðstöðugjald að flestra mati, en margir fleiri þættir koma hér við sögu og eru þeir ekki allir iðnaðinum mótdrægir. Starfshópur ráðuneyta fjallar nú um álit starfsskilyrðanefndarinnar til að undirbúa tillögur um jöfnun starfsskilyrðanna á grundvelli þeirrar greiningar sem fram kemur í áliti nefndarinnar og samkomulag tekst um að færa til betri vegar. Rætt hefur verið um og raunar fyrirhugað að lækka launaskatt á .almennum iðnaði og fiskiðnaði á næstunni, en ljóst er að verulega mismunun er eftir sem áður þar sem fiskveiðar og landbúnaður greiða engan slíkan skatt til hins opinbera.

Atvinnulýðræði og bætt starfsskilyrði: Í II. kafla tillögunnar undir lið 16 og 20 segir: „Stuðlað verði að aukinni samvinnu stjórnenda og starfsfólks fyrirtækja í samráði við samtök launafólks og atvinnurekenda í iðnaði. Leitað verði rekstrarforma, sem miði að auknum réttindum og ábyrgð starfsfólks á vinnustað í þeim tilgangi að efla lýðræði í atvinnurekstri og ná betri árangri í framleiðslu. — Rík áhersla verði lögð á bætt starfsumhverfi og að koma í veg fyrir óæskilega röskun umhverfis af völdum iðnrekstrar. Samstarf stjórnvalda og aðila í iðnaði verði aukið til að ná því markmiði svo og til að tryggja nauðsynlegar mengunarvarnir.“

Hér er vikið að afar þýðingarmiklum atriðum sem varða stöðu starfsmanna innan fyrirtækja og áhrif þeirra á starfsumhverfi sitt. Hugmyndir um aukinn hlut og ábyrgð starfsmanna í stjórnun og rekstri fyrirtækja eru nú mikið ræddar í flestum löndum Vestur-Evrópu og voru eitt fremsta baráttumáf Solidarnosc-hreyfingarinnar í Póllandi áður en herinn batt enda á starfsemi verkalýðssamtakanna þar 13. des. s. l. Tilraunir Júgóslava með sjálfstjórn verkamanna vöktu á sínum tíma verulega athygli, enda mjög í andstöðu við miðstýringu í efnahagskerfi Austur-Evrópulanda. Víða í Vestur-Evrópu, t. d. í Vestur-Þýskalandi, hafa um skeið verið í gildi allvíðtæk lög um fulltrúaaðild starfsmanna í stjórnum fyrirtæk ja og fleiri réttindamál, og sjálfsstjórnarhugmyndir starfsmanna hafa tekið fjörkipp í Frakklandi eftir stórsigur sósíalista þar á síðasta sumri. Í Svíþjóð tefla verkalýðshreyfingin og þeir flokkar, er einkum sækja til hennar fylgi, fram tillögum um launamannasjóði er tryggja eiga starfsmönnum eignarhlut í fyrirtækjum í áföngum.

Hér á landi hafa þessi mál ekki verið eins mikið til umræðu í samtökum launafólks eða á stjórnmálavettvangi og hefði mátt vænta, en áhugi er þó vaxandi, m. a. í röðum opinberra starfsmanna. Þannig var um það samið í kjarasamningi Bandalags starfsmanna ríkis og bæja og fjmrh. á árinu 1980 að heimila myndun starfsmannaráða í ríkisstofnunum með 15 starfsmenn eða fleiri, og í undirbúningi er reglugerð um verkefni þessara ráða sem eru sumpart ákvarðandi og sumpart ráðgefandi. Beiðnir um slík starfsmannaráð þurfa að koma frá starfsfólkinu sjálfu, og hlýtur það einnig að gilda sem meginregla um samvinnu stjórnenda og starfsmanna í atvinnufyrirtækjum almennt.

Náskyld þessum atriðum eru fræðslumál og réttindi er þeim tengjast. Aukin réttindi og ábyrgð starfsmanna á vinnustað, bæði varðandi starfsumhverfi og rekstur, eru að mínu mati afar mikilvæg fyrir hag starfsmanna og árangur í rekstri, ekki síst til langs tíma litið. Varðar þetta m. a. hvers konar hagræðingu og beitingu tækninýjunga.

Herra forseti. Undirstaðan í stefnumótun í iðnaði er að við gerum okkur á hverjum tíma sem gleggsta grein fyrir hvaða framleiðsla og þjónusta eigi hér lífvænlega möguleika. Leggja þarf megináherslu á þær greinar þar sem við höfum umtalsverða yfirburði gagnvart þeim þjóðum sem við erum í samkeppni við. Þessir yfirburðir geta verið af ýmsum toga. Nærtækt er að nefna iðnað sem byggir á innlendum hráefnum og orkulindum, eins og hér hefur verið gert á undan, en við eigum líka og ekki síður að geta haft yfirburði í iðnaði sem byggir á íslensku hugviti og tækni- og verkkunnáttu. Ég vil í þessu sambandi leggja áherslu á, að til langframa stoðar lítt fyrir okkar Íslendinga að fást við framleiðslu á iðnvarningi sem aðrar þjóðir geta framleitt með mun ódýrari hætti. Í vissum þáttum þjónustu skapar fjarlægðin milli landa okkur ákveðna vernd, en hún sýnist þó fara þverrandi með hverju árinu sem liður. Nærtækt dæmi er prentiðnaður og raunar einnig byggingariðnaðurinn sem farinn er að finna fyrir samkeppni í nokkrum mæli.

Þegar á heildina er litið þurfum við vegna breyttra samkeppnisaðstæðna að geta leyft okkur að hverfa frá óarðbærum rekstri. Þetta getur í vissum tilvikum þýtt umtalsverðan samdrátt og fækkun starfa í viðkomandi grein. Slíkum breytingum fylgja að sjálfsögðu margháttuð vandamál, ekki síst félagsleg, og við verðum að mæta slíku með viðlíka aðgerðum og þegar nýja tækni ber að garði, þ. e. með endurmenntun og starfsþjálfun svo og nýjum vaxtarsprotum til að tryggja atvinnu. Ef við neitum að horfast í augu við slíkar breytingar og bregðumst ekki við þeim á réttan hátt bitnar það fyrst og síðast á launafólki. Sérstaklega þurfum við að efla þann iðnað, sem hérlendir aðilar eiga þátt í að þróa, og gæða íslenskum sérkennum. Auk þess að vanda val á viðfangsefnum í iðnaði okkar skiptir hitt ekki síður máli, að við stuðlum að þeirri gerð fyrirtækja sem best fellur að hérlendum aðstæðum. Eins og nú háttar til eru yfir 70% af íslenskum iðnfyrirtækjum með 1–5 starfsmenn í ársverkum talið. Ég er þeirrar skoðunar, að í vissum greinum framleiðslu- og þjónustuiðnaðar eigum við að leggja áherslu á að efla minni og meðalstór fyrirtæki. Lítil fyrirtæki fela í sér meiri sveigjanleika gagnvart breyttum aðstæðum, m. a. varðandi markað og tæknibreytingar, en þau sem smærri eru. Við þurfum að geta tryggt smáiðnaði eðlilegt sambýli og góða vaxtarmöguleika við hlið stærri fyrirtækja. Þetta er ekki síst nauðsynlegt að hafa í huga nú þegar við erum að huga að uppbyggingu orkufreks iðnaðar, þar sem tiltölulega stórar rekstrareiningar eru nauðsynlegar til að tryggja hagkvæmni í rekstri. Þess þarf að gæta, að sú tækni, sem bygging og rekstur stórfyrirtækja hefur í för með sér, tengist annarri iðnþróun og komi smærri fyrirtækjum að gagni. Í þessu efni verðum við að vera vel á verði og reyna að tryggja að íslenskt hugvit og verkkunnátta njóti góðs af þeim verkefnum sem fylgja rekstri stórfyrirtækja. Sé þessa gætt ætti fjölskrúðugur smáiðnaður að geta vaxið og dafnað við hlið stórfyrirtækja.

Skortur á samhæfingu á störfum og stefnu hinna fjölmörgu aðila, sem í reynd hafa áhrif á gang mála á sviði iðnaðar, er sá þáttur sem öðrum fremur hefur staðið í vegi fyrir æskilegri þróun iðnaðar hérlendis. Í fámennu og tiltölulega fjármagnsvana þjóðfélagi ber brýna nauðsyn til sameiginlegs átaks margra aðila til að koma umbótum í framkvæmd. Á sviði iðnþróunar hefur vöntun á stefnumörkun haft í för með sér sundurvirkni í störfum opinberra stofnana sem iðnaðinum þjóna, lánasjóða iðnaðarins og samtaka hans með þeim afleiðingum að ekki hefur tekist að koma ýmsum nauðsynjamálum fram. Að fenginni afstöðu Alþingis til þeirra stefnumiða, sem sett eru fram í þessari þáltill., þurfa stjórnvöld og samtök iðnaðarins og aðrir aðilar, er málið varðar, að samstilla krafta sína og hindra þeim aðgerðum í framkvæmd sem tillagan felur í sér, m. a. með breytingu á löggjöf, aðgerðum í einstökum iðngreinum og fyrirtækjum. Í framhaldi af mótun iðnaðarstefnu skiptir miklu að skapa sem víðtækasta samstöðu um framkvæmd hennar og tryggja að einstök mál verði farsællega til lykta leidd.

Herra forseti. Ég vænti, að um afgreiðslu þessa máls geti tekist góð samstaða hér á hv. Alþingi, og treysti því, að það nái fram að ganga fyrir lok þessa þings. Ég legg til að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til hv. atvmn.