02.02.1982
Sameinað þing: 45. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2145 í B-deild Alþingistíðinda. (1808)

179. mál, Þjóðskjalasafn Íslands

Fyrirspyrjandi (Sigurlaug Bjarnadóttir):

Herra forseti.

Ég ber hér fram fsp. til hæstv. menntmrh. um Þjóðskjalasafn Íslands á þskj. 283. Fsp. er í þremur liðum: „1. Hvað er að gerast í málum Þjóðskjalasafns Íslands?

2. Hver hafa orðið viðbrögð menntmrn. og ráðh. að fengnum niðurstöðum og tillögum skjalavörslunefndar, sem ráðuneytið skipaði í okt. 1980 til að gera tillögur um vörslu og grisjun embættisgagna er Þjóðskjalasafn á samkv. gildandi lögum að veita viðtöku?

3. Má vænta þess, að hreyfing komist á þessi mál á nýbyrjuðu ári, sem er 100 ára afmælisár Þjóðskjalasafns Íslands?“

Ég vil í upphafi þakka hæstv. menntmrh. fyrir það, hve skjótt hann bregst við til að svara því sem hér er um spurt varðandi mál Þjóðskjalasafns Íslands, og einnig hæstv. forseta fyrir að taka mig hér fram fyrir í röðinni vegna þess að ég mun ekki eiga langt eftir á þingi að þessu sinni.

Fsp. þessi er borin fram í samráði við þjóðskjalaverði og raunar að beiðni skjalavörslunefndar þeirrar sem um er getið í 2. lið hennar. Nefndin var skipuð þeim Aðalgeir Kristjánssyni skjalaverði í Þjóðskjalasafni, Gunnari Karlssyni prófessor og Jóni E. Böðvarssyni borgarskjalaverði. Þessir menn hafa greinilega tekið mjög alvarlega það verkefni, sem þeim var falið, og skiluðu af sér til ráðuneytisins að tæplega ári liðnu mjög ítarlegu álit og tillögum í formi lagafrv. og reglugerðar.

Þjóðskjalasafnið starfar nú eftir lögum frá 1969, en með þeim lögum hefur aldrei verið samin nein reglugerð svo að safnið starfar enn í dag eftir gamalli og úreltri reglugerð frá árinu 1916. Það er skemmst frá því að segja, að þessi mál, er snerta opinbera skjalavörslu hér á landi, eru nú komin í fullkomið öngþveiti, bæði að því er varðar skipulag og húsnæðismál. Með auknum umsvifum stofnana á vegum ríkis og sveitarfélaga er pappírsflóðið orðið gífurlegt. Allar embættisstofnanir fyllast af skjölum óðara en þær taka til starfa. Allt samræmi vantar í flokkun og röðun skjala í embætti sem hafa svipað verksvið, og má þar nefna t. d. sýslumanns- og bæjarfógetaembætti, sjúkrahús og heilsugæslustöðvar, skóla, prests- og prófastsembætti, banka o. fl.

Eitt allra brýnasta verkefnið að mati skjalavörslunefndarinnar er að tekin sé upp nú þegar skipuleg grisjun embættisgagna, því verði fleygt sem ekkert varðveislugildi hefur frá sögulegu eða menningarlegu sjónarmiði, hinu haldið til haga með sómasamlegum hætti. Þannig er t. d. bent á að verulegur hluti af skjölum borgardómarans í Reykjavík séu afsagðir víxlar, og ógrynni falla til af einskisverðum bókhaldsgögnum, m. a. frá ríkisendurskoðuninni og Tryggingastofnun ríkisins. Svona haugast þetta upp, ónýtt pappírsrusl, og innan um og saman við eru svo ýmis verðmæti sem oft og tíðum fara hreinlega í súginn við mjög svo léleg geymsluskilyrði, þar sem fúi, mygla og mýs fara sínu fram. Um leið eru þau náttúrlega algjörlega óaðgengileg þeim aðilum sem vildu eiga aðgang að þeim til heimildasöfnunar eða rannsókna.

Víða í hinum ýmsu embættum og stofnunum er verulegur misbrestur á flokkun skjala og skilum lögum samkv. til Þjóðskjalasafnsins. Munu ráðuneytin sjálf ekki hafa þar hreinan skjöld. Svo er hitt, að Þjóðskjalasafnið er komið í algjör þrot með húsnæði til að taka við skjölum. Því er ein af megintillögum skjalavörslunefndar að bætt verði úr húsnæðisþörf safnsins.

Gert hefur verð ráð fyrir að Þjóðskjalasafnið fái núverandi húsnæði Landsbókasafnsins, ef það flytur í hina nýju þjóðarbókhlöðu, sem nefndin telur að sé ekki skjót lausn. Hvenær verður þjóðarbókhlaðan okkar tilbúin? Hæstv. menntmrh. sagði við mig í gær, að sennilega yrðu það aldrei minna en 4–5 ár héðan í frá. En jafnvel þegar sú lausn kemur verður hún að mati þessara manna, sem best þekkja til, alls ófullnægjandi.

Það er bent á að hillurými beggja safnanna, þ. e. Landsbókasafns og Þjóðskjalasafns, sem eru til húsa í gamla safnahúsinu, sé um 15 þús. hillumetrar, en þannig er bókageymslan mæld á máli þeirra bókasafnsmanna, en til þess að taka við því magni skjala, sem orðin eru til fyrir árið 1980, en ekki hefur verið skilað samkv. lögunum til Þjóðskjalasafnsins, þurfi safnið á 25 þús. hillumetrum að halda. Þjóðskjalaverðir telja að við séum hér 20 ár á eftir tímanum, því sé það nauðsynlegt að Þjóðskjalasafni sé útvegað innan fimm ára 5 þús. fermetra húsnæði til viðbótar við það húsrými sem það hefur nú. Jafnframt hljóti að verða hugað að byggingu nýs húss til frambúðar.

Það er feiknalega mikill fróðleikur í þeim vandlega unnu gögnum sem skjalavörslunefndin skilaði af sér til menntmrn. í sept. s. l., og það hlýtur að teljast nokkuð undarlegt að hið háa ráðuneyti skuli ekki hafa virt nefndina svars við tilmælum hennar í bréfi, er gögnunum fylgdu, um að nefndinni gæfist kostur á að gera frekari grein fyrir tillögum sínum á fundi með ráðh. og ráðuneytisstjóra. Við verðum auðvitað að vera bjartsýn um að þetta standi til bóta. Við hljótum einnig að taka undir þau sjónarmið nefndarmanna, að það er ekki vansalaust að Íslendingar, sem njóta aðdáunar annarra þjóða fyrir geymd ritverk og sögu frá miðöldum, láti opinberar heimildir um sögu sinnar samtíðar glatast stjórnlaust og skipulagslaust.

Þessi skýrsla er, eins og ég sagði áðan, mjög viðamikil og fróðleg. Tímans vegna gefst mér að sjálfsögðu ekki tími til að fara út í hana frekar, en ég vona að svör hæstv. menntmrh. skilji eftir vonarglætu í hugum okkar alþm.