02.02.1982
Sameinað þing: 45. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2154 í B-deild Alþingistíðinda. (1815)

339. mál, örbylgjustöðvar á Skaga og í Grímsey

Stefán Guðmundsson:

Forseti. Ég þakka svör samgrh. við þessari fsp. fyrirspyrjanda, Halldórs Blöndals, og ég vil einnig þakka honum hversu vel var unnið að þessu máli, þó svo að sjómenn á þessu svæði hefðu vissulega kosið að þetta hefði gerst fyrr. En það voru ýmis atvik sem þar komu til og urðu þess valdandi, að svo varð ekki.

Ég tek einnig undir það, að mér finnst sjálfsagt og eðlilegt að þessi stöð verði tengd og verði þjónað frá Siglufirði. Það er rétt, sem kom fram hjá hv. þm. Halldóri Blöndal, að mannskapur er á Siglufirði til að þjóna þessari stöð. Hins vegar legg ég ekki síður áherslu á að umfram allt verði gengið tryggilega frá að öryggið sé fyrst og fremst haft í fyrirrúmi.

Ég kem ekki síst hingað til að vekja athygli á því, vegna staðsetningar þessarar stöðvar á Vestur-Núpi rétt norðan við Tjörn á Skaga, að ég er ekki alveg grunlaus um að Skagafjörður geti farið illa út úr þessari staðsetningu og þess vegna þurfi að hugsa fyrir því. Mér þætti vænt um að fá að heyra það frá sjútvrh., ef hann hefði upplýsingar um það, hvort mælingar hefðu farið fram á því, hvort þessi stöð mundi þjóna Skagafirði eins og upphaflega var ætlast til og rætt var um þegar þessi mál voru hér til umr. fyrir rétt um ári. Ef svo væri ekki vil ég koma því hér á framfæri og treysti því, að það verði reynt að bæta þar úr þannig að sjómenn á Skagafirði njóti þess sjálfsagða öryggis sem hér er verið að koma á.