27.10.1981
Sameinað þing: 9. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 264 í B-deild Alþingistíðinda. (183)

25. mál, afkoma iðnfyrirtækja í eigu ríkisins

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég vísa til þeirrar fsp. sem hv. fyrirspyrjandi las í upphafi máls síns. Rn. hefur leitað til framkvæmdastjóra viðkomandi fyrirtækja eftir upplýsingum um áætlaða stöðu þeirra. Raunar eru ekki nema fjögur af þeim sex fyrirtækjum, sem tiltekin eru í fsp., undir iðnrn., þar eð fyrirtæki Álafoss hf. og Norðurstjarnan í Hafnarfirði eru í umsjá Framkvæmdasjóðs þótt ríkið eigi þar auðvitað hlut að máli.

Í svari Jóns Sigurðssonar framkvæmdastjóra Íslenska járnblendifélagsins segir:

„Lokaafkoma Járnblendifélagsins 1981 er enn óljós vegna nokkurrar óvissu um sölur á síðasta ársfjórðungi. Þess er þó að vænta, að tapið verði í námunda við 45 millj. kr. Afskriftir af því eru nálega 40 millj. kr., en afborganir hafa einungis verið 12 millj. kr. Því er greiðsluafkoma fyrirtækisins ekki eins slæm og rekstrarafkoman. Af því leyti sem greiðsluvandræði hafa orðið hjá fyrirtækinu eru þau á árinu 1981 leyst með hluthafalánum í samræmi við upphaflega fjármögnunaráætlun fyrirtækisins. Þess skal loks getið, að við uppgjör fyrirtækisins í árslok munu verðbreytingafærslur þurrka út hið bókhaldslega tap í íslenskum krónum mælt, þar eð innlend verðbreyting peningalegra eigna hefur orðið mun meiri en gengisbreyting langtímaskulda.“

Þetta er tilvitnun í svar Jóns Sigurðssonar framkvæmdastjóra, en þess má geta til viðbótar, að fyrirtækið hefur hagnýtt sér þau hluthafalán sem gert er ráð fyrir í lögum um fyrirtækið.

Í svari Péturs Eiríkssonar framkvæmdastjóra Álafoss hf. kemur fram eftirfarandi:

„Miklar og óvæntar efnahagssveiflur gera allar áætlanir óöruggar. Stjórnendur fyrirtækja á Íslandi vita ekki hvaða laun þeim ber að greiða starfsfólki sínu í næsta mánuði, hvað þá þar næsta. Þeir vita heldur ekki hvaða verð þeim verður gert að greiða fyrir hráefnið. Teknamegin eru innanlandstekjur háðar samþykktum verðlagsstjóra og útflutningstekjur gengisskráningu. Að síðustu bætast svo við nýjar reglur um uppgjör fyrirtækja í kjölfar nýrra skattalaga sem gera dæmið enn þyngra.

Með tilvísum til ofanritaðs er eingöngu unnt að gefa hugmynd um afkomu fyrirtækisins með því að áætla allar forsendur, bæði tekna- og gjaldamegin, óbreytt frá því sem nú er og til ársloka. Miðað við þessar forsendur má reikna með 2–3 millj. kr. tapi á rekstri fyrirtækisins í ár. Þessi halli yrði fjármagnaður með því að skerða eigið fé fyrirtækisins.“

Þetta var tilvitnun í svar Péturs Eiríkssonar framkvæmdastjóra Álafoss við fsp. frá rn, um afkomuhorfur Álafoss hf.

Í svari Hákonar Björnssonar framkvæmdastjóra Kísiliðjunnar hf. er áætlað að nettótap ársins verði 7 880 474 kr. Enn fremur segir orðrétt í svari Kísiliðjunnar:

„Taprekstur fyrirtækisins hefur verið fjármagnaður þannig:

a) Með frestum á greiðslum til lánardrottna vegna kaupa á vörum og þjónustu.

b) Með því að draga úr birgðahaldi eins og frekast er unnt.

c) Með frestun á greiðslu afborgana og vaxta af láni hjá Johns Manville Corporation.

d) Með láni úr lánsfjáröflun ríkissjóðs með milligöngu iðnrn. og Ríkisábyrgðasjóðs, 5 millj. 905 þús. kr.

e) Með bráðabirgðaláni úr ríkissjóði, 800 þús. kr.

f) Með yfirdráttarláni hjá Landsbanka Íslands.

Eins og rn. er kunnugt um standa nú yfir viðræður á milli iðnrn., fjmrn., Johns Manville Corporation og stjórnar Kísiliðjunnar hf. um hvernig hægt verði að mæta þeirri fjárvöntun, sem fram kann að koma á næstu mánuðum, svo og hvernig treysta megi rekstrargrundvöll fyrirtækisins svo að það fari að skila arði aftur eftir rekstrarerfiðleika tveggja síðustu ára.“

Þetta var svar frá Hákoni Björnssyni framkvæmdastjóra Kísiliðjunnar hf.

Í svari Gylfa Þórðarsonar framkvæmdastjóra Sementsverksmiðju ríkisins segir:

„Vegna fsp. á Alþingi frá Lárusi Jónssyni alþm. vill Sementsverksmiðja ríkisins upplýsa, að við núverandi aðstæður er rekstrarhalli verksmiðjunnar á þessu ári áætlaður um 8–9 millj. kr., en mestur hluti hans, er til kominn fyrri hluta ársins, enda voru verðlagsmál þá mjög óhagstæð fyrir verksmiðjuna, eins og kunnugt er. Sementsverksmiðjan hefur þegar með heimild ríkisstj. tekið erlent lán, jafnvirði 10 millj. kr., til að mæta greiðsluhalla sem myndast hefur frá hausti 1980.“

Þetta var úr svari framkvæmdastjóra Sementsverksmiðju ríkisins.

Í svari Pálma Vilhelmssonar, framkvæmdastjóra Siglósíldar segir:

„Verulegur taprekstur er fyrirsjáanlegur vegna skuldasöfnunar undanfarin ár, rekstrarstöðvunar vegna erfiðleika á sölu til Sovétríkjanna svo og versnandi stöðu rúblu gagnvart Bandaríkjadollar sem leiddi til um 6% verðlækkunar miðað við dollar á síðasta sölusamningi. Erfitt er á þessu stigi að áætla endanlegt rekstrartap á árinu vegna óvissu um framleiðslu tvo síðustu mánuði ársins, en gróflega áætlað mun heildartapið verða á bilinu 1.2–1.7 millj. kr.“

Þetta var úr svari Pálma Vilhelmssonar framkvæmdastjóra Siglósíldar, en fyrirsjáanlegum taprekstri þessa fyrirtækis hefur verið mætt með framlagi úr ríkissjóði samkv. fjárl. á yfirstandandi ári svo og lántöku samkv. lánsfjáráætlun.

Í svari Karls Bjarnasonar framkvæmdastjóra Norðurstjörnunnar hf. segir:

„Norðurstjarnan hf. er hlutafélag í eigu um það bil tíu hluthafa, þar á meðal ríkissjóðs og Framkvæmdasjóðs Íslands. Hluthöfum hefur ekki verið gerð grein fyrir rekstrarafkomu á þessu ári, enda eru nú í gildi nýjar reglur um uppgjör fyrirtækja þar sem tekið er tillit til verðlagsbreytinga. Erfitt er því að segja til um afkomu fyrirtækisins í ár, en hins vegar mun ljóst vera, ef litið er til eldri reikningsskilaaðferða, að nokkur halli hefur verið á rekstrinum í ár og gengur út yfir eigið fé fyrirtækisins.“

Þetta var orðrétt tilvitnun í svar Karls Bjarnasonar framkvæmdastjóra Norðurstjörnunnar hf.

Í svörum þeim, sem hér hafa verið rekin, kemur fram að öll fyrirtækin gera ráð fyrir rekstrarhalla, en mismunandi miklum, á þessu ári. Ástæður þess eru ekki raktar í einstökum atriðum. Sjálfsagt eru þær mismunandi hjá fyrirtækjunum, en óhagstæð gengisþróun fyrir iðnfyrirtæki, sem flytja út á Evrópumarkað í verulegum mæli eða meiri hluta, á mikinn þátt í erfiðleikum þessara iðnfyrirtæk ja margra hverra og ýmissa fleiri, sem kunnugt er, og er kannske Kísiliðjan dæmigerð um fyrirtæki sem hafa alveg verið háð þeirri óhagstæðu gengisþróun milli gjaldmiðla, miðað við hagsmuni þeirra sem flytja út á Evrópumarkað. Einnig er vitað um sölutregðu og lágt söluverð kísiljárns, sem er höfuðástæða bágrar afkomu járnblendiverksmiðjunnar nú eins og reyndar á undanförnum árum.

Fyrir nokkrum árum varð Kísiliðjan fyrir miklum áföllum vegna jarðhræringa við Mývatn. Hún þurfti þá að taka lán, m. a. til að gera nýja hráefnisþró. Lán þetta var tekið í dollurum, en aðalsölumarkaðurinn er, eins og ég gat um, í Evrópu og hefur þróunin á milli gjaldmiðla haft mjög slæm áhrif á afkomuna, einnig gagnvart þessu dollaraláni. Við jarðhræringarnar við Mývatn eyðilögðust aðalgufuholurnar í Bjarnarflagi, sem Kísiliðjan fékk sína orku frá, og tók nokkurn tíma að bora nýjar. Gat fyrirtækið ekki framleitt með fullum afköstum, sem að sjálfsögðu hafði áhrif á afkomu þess, en þar að auki tapaðist markaður sem stefnt er að að vinna upp á næstu árum.

Ástæðan fyrir slæmri afkomu Siglósíldar er m. a. einhæfni framleiðslu hjá fyrirtækinu, en framleiðslan er seld á Rússlandsmarkað og hefur gengið mjög erfiðlega að fá þar fram þær hækkanir sem nauðsynlegar eru til að tryggja jákvæða afkomu fyrirtækisins, eins og hv. fyrirspyrjanda mun vel kunnugt um þar sem hann kom lengi vel nálægt þeim málum í sambandi við sölu á niðurlögðum afurðum. Einnig urðu verulegir erfiðleikar hjá fyrirtækinu vegna truflana á þessum markaði, sérstaklega á árinu 1979, vegna gæðavandamála, sem ekki voru af völdum þessa fyrirtækis, en bitnuðu talsvert á afkomu þess.

Eins og hér hefur komið fram eru það framkvæmdastjórar viðkomandi fyrirtækja sem veitt hafa upplýsingar um afkomu þeirra. Er þar yfirleitt um lauslegar áætlanir að ræða þannig að ekki verður neitt fullyrt um endanlega afkomu á árinu fyrr en ársreikningar liggja fyrir. Ýmis þessara fyrirtækja eiga við verulegan vanda að glíma. Slíks gætir raunar hjá ýmsum fleiri fyrirtækjum nú eins og oft áður. Iðnrn. vinnur að athugun á vissum þáttum í málefnum þessara fyrirtækja, en ég ætla ekki að fara út í þá sálma frekar og tel mig hafa svarað þessari fsp. hv. fyrirspyrjanda.