27.10.1981
Sameinað þing: 9. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 268 í B-deild Alþingistíðinda. (187)

25. mál, afkoma iðnfyrirtækja í eigu ríkisins

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Ég ætla að halda áfram þeirri viðleitni minni að aðstoða hv. þm. Eyjólf Konráð Jónsson við að átta sig á veruleikanum. Við höfðum það sem verkefni í fyrra í Ed. og miðaði nokkuð í áttina og þurfum nauðsynlega að halda því áfram í vetur.

Hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson boðaði í Ed. í gær og nú hér í dag að einkafyrirtækin í landinu og jafnvel ríkisfyrirtækin líka séu svo illa stödd að þau séu bókstaflega öll að fara á hausinn. Ég ætla að taka hér eitt dæmi. Það er dæmi sem Morgunblaðið hefur valið fyrir okkur.

Fyrir nokkrum mánuðum gaf Morgunblaðið út sérstakt aukablað helgað einu fyrirtæki á Íslandi. Í þessu aukablaði kom fram sú afstaða Morgunblaðsins, að þetta fyrirtæki væri burðarásinn í einkaframtaki á Íslandi. Þetta fyrirtæki er hér í Reykjavík. Þetta fyrirtæki er Ísbjörninn. Þetta fyrirtæki er svo vel statt að það hefur ákveðið að kaupa togara til landsins án þess að fá eina einustu krónu að láni hjá þeim innlendum aðilum sem fjármagna kaup á togurum hér í landinu. Þetta einkafyrirtæki, sem Morgunblaðið helgaði sérstakt aukablað, er svo vel statt að þessa dagana hefur það ákveðið að kaupa heilan togara til landsins án þess að fá eina einustu krónu að láni. Ef það er að standa sig illa veit ég ekki hvað þau orð merkja.

Það er hins vegar alveg rétt hjá hv. þm. Eyjólfi Konráð Jónssyni, að staða slíkra einkafyrirtækja kann að vera umhugsunarefni fyrir okkur Alþb.-menn. En að einkafyrirtækin hér í landinu séu að fara á hausinn er slík fjarstæða að ekki tekur nokkru tali, eins og nýjustu togarakaup þessa sérstaka heiðursfyrirtækis Morgunblaðsins sanna glæsilega.