09.02.1982
Sameinað þing: 51. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2308 í B-deild Alþingistíðinda. (1949)

117. mál, lækningarmáttur jarðsjávar við Svartsengi

Flm. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Á þskj. 120 fluttum við þm. Reykn. ásamt tveimur hv. landsk. þm., 1. og 10. landsk. þm., till. um könnun á lækningamætti jarðsjávar við Svartsengi. Till. hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela heilbrmrh. að láta nú þegar fara fram könnun á lækningamætti jarðsjávar við Svartsengi.

Leiði könnun til jákvæðrar niðurstöðu verði þegar unnið að því að koma upp aðstöðu fyrir þá sjúklinga sem að læknisráði er talið rétt að noti jarðsjóinn til baða.

Við könnun þessa verði haft samráð við samtök lækna, samtök psoriasis- og exemsjúklinga svo og samtök annarra sjúklinga, sem not gætu haft af slíkum böðum.“

Það er öllum hv. alþm. kunnugt, að um nokkurt skeið hafa fjölmargir psoriasis- og exemsjúklingar farið utan til lækninga og fyrir þessa sjúklinga hefur það oft reynst fullkomin ástæða og nauðsynlegt að breyta um loftslag og njóta sólar og sjávarbaða í hlýjum sjó. Hér hefur að sjálfsögðu verið um mjög kostnaðarsama læknisaðgerð að ræða. Því var það, að með breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 50 30. maí 1979, var samþykkt að greiða ferðastyrk þessara sjúklinga sem að mati sérfræðinga var talið rétt að leituðu sér heilsubótar með þessum hætti erlendis.

Það var á s. l. ári sem ungur Suðurnesjamaður fékk þá hugmynd að leita sér lækninga, en hann er haldinn psoriasissjúkdómi, og nota til þess heitan sjó við Svartsengi. Hér er um að ræða mjög athyglisverða tilraun sem sýnst hefur gefa góða niðurstöðu, a. m. k. hefur þessi sjúklingur fengið töluverða bót á sínum meinum. Hér er um að ræða mjög athyglisverða tilraun, sem gæti gjörbreytt möguleikum þessara sjúklinga til að fá bót meina sinna án þess þó að þurfa að fara utan.

Hér er um að ræða málefni sem snertir eitthvað á annað hundrað sjúklinga, og þá er aðeins um að ræða psoriasis- og exemsjúklinga, en mjög vel getur átt sér stað að fleiri sjúklingar, t. d. liðagiktarsjúklingar, gætu notið þessa einnig.

Með þessari till. vilja flm. vekja athygli á þessu máli og beina því áskorun sinni til heilbrmrn. og gera ráð fyrir því, að við þessa athugun verði haft samráð við Samtök psoriasis- og exemsjúklinga svo og samtök annarra sjúklinga sem gætu haft not af slíkum böðum.

Ég tel ekki ástæðu til að fjölyrða um þessa till. Hér er verið að vekja athygli á þessu máli og fá Alþingi til að samþykkja þá till. sem flutt er á þskj. 120.

Ég legg svo til, herra forseti, að umr. verði frestað og till. vísað til hv. allshn.