15.02.1982
Efri deild: 43. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2424 í B-deild Alþingistíðinda. (2042)

177. mál, orlof

Flm. (Karl Steinar Guðnason):

Herra forseti. Á þskj. 281 flyt ég ásamt hv. 5. þm. Vesturl., Eiði Guðnasyni, frv. til l. um breyt. á lögum nr. 87 frá 24. des. 1971, um orlof.

Frv. þetta fjallar um réttlætismál sem mjög brennur á félögum í verkalýðshreyfingunni. Á síðasta þingi var þetta frv. flutt af Gunnari Má Kristóferssyni og mér. Frv. varð ekki útrætt, en ég vona að á þessu þingi megi ljúka afgreiðslu þess. A.m.k. vona ég að viðkomandi nefnd afgreiði það frá sér svo að unnt verði að fá úr því skorið, hvort hv. þm. vilja stuðla að þeirri réttarbót sem hér er um að ræða.

Sú breyting, sem hér er lögð til, er að við orlofstöku verði laugardagar taldir frídagar. Breytingin er sú, að næstsíðasta mgr. 3. gr. laganna verði þannig: „Laugardagar, sunnudagar og aðrir helgidagar teljast ekki orlofsdagar.“ Að öðru leyti er greinin óbreytt.

Í grg. frv. eru dregin fram rök fyrir þessari breytingu, en þau eru svohljóðandi, með leyfi forseta:

Þegar orlofslög voru sett á Alþingi á árinu 1942 var lagt til grundvallar að hver sá sem lögin tóku til skyldi fá jafnmarga virka daga í orlofi og hann hafði unnið marga almanaksmánuði næsta orlofsár á undan. Samkv. gildandi lögum um orlof er aðalreglan sú, að orlof er 2 dagar fyrir hvern unninn mánuð.

Við setningu laganna 1942 var vinnuvika verkafólks yfirleitt 48 klst. í dagvinnu, unnin á 6 virkum dögum, mánudegi til og með laugardegi. Á þeim tíma var því næsta eðlilegt, miðað við regluna um einn orlofsdag fyrir hvern unninn mánuð, að allir virkir dagar vinnuvikunnar teldust til orlofsdaga. Frídagar, sem til falla á orlofstímabili, og helgidagar hafa ávallt verið utan orlofs.

Almenn vinnuvika verkafólks hefur verið stytt í áföngum frá 1942 og er nú 40 klukkustundir í dagvinnu, sbr. lög nr. 88 24. des. 1971, með síðari breytingum.

Í 2. mgr. 2. gr. nefndra laga er sú meginstefna mörkuð að vinna skuli 8 dagvinnustundir á degi hverjum frá mánudegi til og með föstudegi, og í 4. mgr. sömu greinar er ákveðið að næturvinna taki við strax eftir dagvinnulok á föstudögum, þ.e. þegar lokið er lögbundinni vinnuviku. Fimm daga vinnuvika er því staðreynd hjá meginþorra verkafólks, unnin á mánudegi til og með föstudegi. Laugardagar eru þannig í reynd frídagar hjá öllu verkafólki öðru en því sem vinnur afbrigðilegan vinnutíma, en það fólk fær þá jafnan annan vikudag sem frídag í stað laugardagsins.

Í samræmi við þá þróun, sem hér hefur verið rakin, hlýtur það að teljast réttlætismál, að til orlofsdaga teljist einvörðungu þeir fimm vinnudagar í viku hverri sem dagvinnuskylda fellur á, þ.e. mánudagar til og með föstudegi, en hvorki laugardagur, sunnudagur né aðrir frí- eða helgidagar sem til falla á orlofstímabilinu.

Þessi eðlilega og sjálfsagða leiðrétting hefur þó ekki átt sér stað, því samkv. gildandi lögum um orlof eru laugardagar taldir til orlofsdaga gagnstætt öðrum viðteknum frídögum. Í nokkrum tilfellum hafa þó stéttarfélög fengið fram leiðréttingu í þessum efnum með því að taka upp í kjarasamninga sína ákvæði um að laugardagar skuli ekki teljast með orlofi frekar en aðrir frídagar.

Þessi mismunandi tilhögun um ákvörðun orlofsdaga skapar óviðunandi misrétti milli starfshópa, jafnvel á einum og sama vinnustað. Úrelt lagaákvæði, sem ekki eru í samræmi við þá þróun vinnutímans sem átt hefur sér stað, mega ekki standa í vegi fyrir því, að jafnrétti komist á hvað lengd orlofstímans snertir.

Orlofslögin voru á sínum tíma sett til að tryggja verkafólki lágmarkshvíld frá störfum og þá höfð í huga vinnuverndarsjónarmið. Á þeim tæplega 40 árum, sem lögin hafa verið í gildi, hefur lágmarksorlof lengst úr tveimur í fjórar vikur, en er nú mun styttra hér á landi en víðast í nálægum löndum þar sem almennt orlof er 5–6 vikur eða 25–30 vinnudagar á ári.

Enda þótt flm. þessa frv. telji fyllilega tímabært að lengja lágmarksorlof hér á landi til samræmis við þá þróun sem átt hefur sér stað og að var vikið hér að framan, er ekki í þessu frv. gerð tillaga um slíkt, m.a. vegna þess að það er skoðun flm. að áður þurfi að ráða bót á misrétti, sem nú á sér stað, svo og finna leiðir til að auka orlofsgreiðslur sem nú eru að dómi flm. of lágar hér á landi og tryggja engan veginn efnahagslegt öryggi verkafólks á orlofstímanum.

Með þessu frv. er einungis leitast við að leiðrétta augljóst ranglæti og samræma orlofsrétt verkafólks þeirri þróun vinnuvikunnar, sem almennt hefur átt sér stað á þeim tíma sem liðinn er frá því að gildandi lagaregla var upp tekin, jafnframt því sem leiðrétt verði það misrétti sem nú viðgengst milli starfsstétta hvað lengd orlofsins snertir.

Fram hafa komið þær fullyrðingar, að hér sé hreyft máli sem í eðli sínu sé samningamál aðila vinnumarkaðarins. Þau rök komu frá Vinnuveitendasambandinu í umsögn er barst hv. félmn. á síðasta þingi. Vinnumálasambandið lét sömu skoðun í ljós.

Skömmu eftir að frv. þetta var flutt á síðasta þingi var Alþýðusambandsþing haldið, þ.e. í nóv. 1980. Á þinginu stóð verkafólk víðs vegar að af landinu að því að flytja till. sem var svohljóðandi, með leyfi forseta:

„34. þing ASÍ hvetur Alþingi til að samþykkja frv. til l. um breyt. á lögum um orlof, þar sem lagt er til að laugardagar teljist frídagar við orlofstöku.“

1 atkvgr. um till. varð sú ánægjulega niðurstaða, að allir þingfulltrúar, um 400 að tölu, greiddu till. atkv. Má af þeim úrslitum marka að verkafólk leggur þunga áherslu á að þetta frv. verði samþykkt. Þykir fólki reyndar að hér sé um leiðréttingu að ræða sem vissulega felur í sér mikilvæga réttarbót.

Eins og ég sagði áðan er lengd orlofs mjög mismunandi hjá hinum ýmsu samningsaðilum. Sums staðar í kjarasamningum er gert ráð fyrir 5 vikna orlofi, en almennt er orlofið 4 vikur. Þá eru greiðslur í orlofi mjög mismunandi. Sums staðar er nú í sumum tilvikum greidd sérstök orlofsuppbót, sem auðvitað markast af því, að oft og tíðum er orlofstíminn dýrasti tími ársins, ef svo mætti segja. Alls staðar á Norðurlöndum er orlof lengra en hér á landi og í öllum tilvikum hefur löggjafinn átt verulegan þátt í meðferð þeirra mála. Löggjafarþing viðkomandi landa hafa beinlínis samþykkt hvert skuli vera lágmarksorlof launþega.

Það er rétt að það komi fram og menn viti að það er víðar en á Norðurlöndum sem löggjafinn hefur haft með orlof að gera. Má í því sambandi minnast þess, að í kosningabaráttu Mitterands Frakklandsforseta var það eitt af helstu kosningaloforðum hans að lengja orlof í 5 vikur. Það loforð hefur hann nú þegar efnt.

Það sést á þessu, sem ég hef hér talið upp, að þessir aðilar allir, Norðurlöndin og þeir í Frakklandi, tel ja þetta löggjafaratriði, og ég er þeirrar skoðunar einnig. Hér á landi hefur lágmarksorlof verið lögskipað alveg frá árinu 1942, og árið 1971 var samþykkt hér á Alþingi að lengja orlof í 4 vikur. Má af þessu vera ljóst að fullyrðingar vinnuveitenda um, að hér sé alfarið um samningamál að ræða, standast ekki. Samtök vinnuveitenda hafa ætíð spyrnt við fótum þegar réttindamál verkafólks eru annars vegar, svo að mótmæli samtaka þeirra eða andstaða við þetta frv. eru hefðbundin án gildra raka að mati okkar flm. Í kjarasamningum segir að orlof skuli vera 24 virkir dagar. Það er augljóst að nú þegar laugardagar eru ekki lengur unnir er fjarstæða að telja þá til orlofsdaga. Þeir eru reyndar ekki virkir dagar í hugum fólks. Hér er því verið að leggja til að breytt verði til raunveruleikans.

Herra forseti. Ég legg til að þegar umr. lýkur verði frv. vísað til hv. félmn.