16.02.1982
Sameinað þing: 53. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2439 í B-deild Alþingistíðinda. (2065)

335. mál, rekstrar- og afurðalán landbúnaðarins

Fyrirspyrjandi (Eyjólfur Konráð Jónsson):

Herra forseti. Æðilangt er nú um liðið síðan fsp. þessi var fram borin, en það var mjög snemma á þinginu á liðnu hausti. Svör hafa ekki fengist við þessari fsp. fyrr, en ég á von á þeim nú. Ég hafði raunar skilið hæstv. viðskrh. svo, að hann mundi svara þessari fsp. fyrir 25. nóv., en þá voru afurðalán greidd út, en á síðasta degi þar á undan, 24. minnir mig að það hafi verið, átti ég sannarlega von á að fá fsp. svarað. Það brást og hefur brugðist fram að þessu, en nú er þó komið að því að einhver svör muni fást.

Það leiðir af orðalagi þessarar fsp. að seinni liðnum er ekki hægt að svara beint. Spurningin er sú, hvort lokið sé undirbúningi að framkvæmd ályktunar Alþingis frá 22. maí 1979, að hún komi til framkvæmda við veitingu afurðalána í nóv. n.k. Það var auðvitað átt við þann nóvember sem liðinn er á síðasta ári, en væntanlega verður þó hægt að fá svör við því hvað verða muni í framtíðinni.

Eins og menn minnast var því lengi borið við, að erfitt eða jafnvel ógjörlegt væri af tæknilegum ástæðum að láta bændur fá í hendur þá fjármuni, sem þeir eiga með réttu að fá, og bankar bornir fyrir því. Úr þessu vígi hefur sem betur fer verið hopað, og leyfi ég mér að vitna til umr. sem fram fóru 5. maí s.l. um þessi mál, en þar segir hæstv. viðskrh., með leyfi forseta:

„Ég vil aðeins endurtaka það sem ég sagði áður, að ég vinn að því, og mun áfram vinna að því að framkvæma þessa þál. þannig að tryggja megi að tilgangi hennar verði náð. Það vil ég endurtaka og undirstrika. Ég hef sagt hér áður að það hefur verið bent á leið til þess sem margir telja að sé fullkomlega fær og muni þýða framkvæmd till. í reynd. Og ég vil endurtaka þetta, að ég mun vinna þannig að þessu máli. Hv. þm. verður svo sennilega í þriðja sinn að spyrja, kannske á næsta þingi, hvernig hafi miðað í þessu máli.“

Það er einmitt það sem ég er nú að spyrja að, hvernig hafi miðað á því tæpa ári sem liðið er frá því að hæstv. viðskrh. viðurkenndi að mjög vel mætti framkvæma þessa till., gagnstætt því sem andstæðingar þess, að bændur fái sína fjármuni í hendur, hafa fram að þessu haldið fram. — En hæstv. ráðh. hafði áður talað og til þeirra orða vitnaði hann í því sem ég las nú síðast. Hann víkur þar að svari Seðlabankans og segir, með leyfi forseta:

„Vegna þess samhengis, sem er milli rekstrar- og afurðalána, verður að telja æskilegast að lántakandi sé í báðum tilfellum sá sami, og er þá komið að síðari leið sem bankarnir mæla með, að sláturleyfishafar eða umboðsmenn þeirra verði áfram lántakendur líkt og verið hefur. En andvirði lánanna mætti ráðstafa að fyrirmælum lántakanda á þann hátt sem áður er lýst um afurðalán. Með því móti telja fleiri að tryggja megi að tilgangi þál. verði náð, þ.e. að bændur fái í hendur þá fjármuni sem þeim eru ætlaðir um leið og lánin eru veitt.“ — Og hæstv. ráðh. heldur áfram: „Í þessu felst það álit Seðlabankans og fleiri, að með þessu sé hægt að ná tilgangi þál. Sennilega er erfitt að komast nær því að framkvæma hana. Og það hlýtur að vera aðalatriðið. Það er það sem ég hef verið að vinna að og mun vinna að, að þeim tilgangi, sem felst í þessari þál. Alþingis, verði náð.“

Þetta voru orð hæstv. ráðh., og vona ég nú að þeim fyrirslætti linni að ekki sé hægt að framkvæma þessa till. Ég vil vitna til ekki ómerkari manns en hæstv. landbrh., sem sagði 12. maí við umr. í Ed., með leyfi hæstv. forseta:

„Það er talið nauðsynlegt að lántakandi þessara lánaflokka beggja sé hinn sami vegna innbyrðis tengsla þeirra og vegna þess að rekstrarlánin eru endurgreidd af afurðalánum, sem veitast í nóvembermánuði, en rekstrarlánin veitast frá því í marsmánuði og þangað til í ágústmánuði. Síðan væri hægt annað tveggja með samkomulagi eða jafnvel með fyrirmælum að kveða á um það, að því fjármagni, sem rennur til fyrirtækjanna í gegnum rekstrar- og afurðalánin, verði ráðstafað á reikning viðkomandi lántaka, annað tveggja viðskiptareikning eða bankareikning eftir ósk hvers og eins.

Þetta er sú leið sem ég hef oft látið í ljós að ég telji að sé fær í þessu máli, — leið sem farin er hjá ýmsum afurðasölufyrirtækjum svo að um þá leið hefur skapast reynsla.“

Þannig hafa þessir tveir hæstv. ráðh. lýst yfir að till. sé mjög vel framkvæmanleg. Þess vegna vona ég að við heyrum ekki einu sinni enn fyrirslátt í þá átt, að það sé ekki hægt að koma fjármunum bænda til þeirra, þeir þurfi að staðnæmast annars staðar, og vænti nú jákvæðs svars frá hæstv. ráðh.