22.02.1982
Neðri deild: 43. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2569 í B-deild Alþingistíðinda. (2193)

211. mál, verðlag og samkeppnishömlur

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Sá málaflokkur, sem hér er um að ræða, snertir hvert einasta heimili á þessu landi. Hve oft hafa menn ekki upplifað það, að árangur af langri og strangri kjarabaráttu hefur orðið að engu á nokkrum dögum sökum þess að skollið hefur yfir mikil verðhækkunarbylgja? Verðlagsmálin eru því ásamt kjaramálunum þeir tveir málaflokkar sem skipta almenning og verkalýðshreyfinguna í þessu landi mestu og ráða öllu um afkomu hvers einasta manns. Það var því eðlilegt, herra forseti, að þegar lögin um stjórn efnahagsmála voru sett á sínum tíma skyldi sérstakur kafli í þessum lögum vera helgaður skyldu ríkisvaldsins til að hafa samráð við aðila vinnumarkaðarins um mál sem sérstaklega snerta afkomu launáfólks.

Þessi kafli í lögunum um stjórn efnahagsmál er II. kafli laganna og fjallar um skyldu hæstv. ríkisstj. til að hafa samráð við samtök launafólks, sjómanna, bænda og atvinnurekenda. Í 5. gr. þessara laga er sérstaklega talið upp hvaða mál ríkisstj. sé skylt að ræða við þessa aðila áður en hún ráði ráðum sínum. Í 5. gr. segir að verkefni samráðsins eigi m.a.að vera, auk þess að ræða meginþætti í efnahagsmálum, að fjalla um verðlagseftirlit af opinberri hálfu. M.ö.o.: í þessum lögum er hæstv. ríkisstj. gert skylt að hafa samráð við samtök launafólks, sjómanna, bænda og atvinnurekenda um allar aðgerðir á sviði verðlagsmála, svo ekkí sé talað um ef til stendur af hálfu hæstv. ríkisstj. að gera breytingu á þeim reglum og lögum sem gilda í landinu um verðlagseftirlit.

Nú sakna ég þess, herra forseti, að ríkisstj. láti þess getið í grg. með þessu frv. hverjar voru niðurstöður þessa samráðs. Ég lit svo til að það sé skylda félmrh., sem á öðrum fremur að sjá um framkvæmd þessara laga, en hann er jafnframt form. Alþb., að sjá um að hæstv. ríkisstj. virði afdráttarlausa lagaskyldu sína í þessum efnum við samtök launafólks, sjómanna og bænda, ekki síst þegar það er bókstaflega tekið fram í lögunum að samráðið eigi undantekningarlaust að ná til aðgerða á sviði verðlagsmála. Hvernig stendur á því, að þess er ekki getið í grg., að um slíkt samráð hafi verið að ræða? Getur verið að hæstv. ríkisstj. hafi svikist um að hafa þetta samráð, það hafi ekki verið við launþegasamtökin rætt um breytingar á reglum um verðlagseftirlit þó svo að íslensk lög skyldi hæstv. ríkisstj. til þess?

Nú sá ég á borði hæstv. forseta að næstur á eftir mér upp í ræðustól á að koma hæstv. félmrh., formaður Alþb. Ég hlýt að biðja hann nánari skýringa. Ég hlýt að óska eftir svörum við því, hvernig á því standi og hvort rétt geti verið — við skulum ekki fullyrða of mikið að þetta lögskipaða samráð hafi ekki verið haft. Ef svo er, hvernig stendur á því, að hann hefur brugðist ráðherraskyldum sínum um að sjá svo til að samráð sé haft við aðila vinnumarkaðarins um mál af þessu tagi sem varða landslýð meira en 2–3% kauphækkun sem menn hafa verið að tala um nú mánuðum saman og nokkur hópur launþega hefur fengið?

Einhver skaut því að mér áðan, að það mætti ekki búast við því af minnsta flokknum í landinu að hann réði öllu í sambandi við slík mál. Alþb. hlýtur þó að geta gætt þess þegar Alþb. hefur félmrh., sem á að stýra samráði við launafólk, sjómenn og bændur, og þegar flokkurinn hefur jafnframt í höndum lög sem skylda ríkisstj., sem flokkurinn á aðild að, til að standa að slíku samráði. Ég fæ ekki séð hvernig hægt er að standa í vegi fyrir kröfum um að samráð sé haft áður en svona frv. er samið hafi þær kröfur komið fram innan ríkisstj.

Ég get hins vegar, herra forseti, verið atveg sammála þeim mönnum, sem hér hafa talað á undan mér, um að reynslan hefur sýnt okkur að það er mjög nauðsynlegt að gera verulegar breytingar á þeim reglum sem gilda hér um verðlagseftirlit og verðákvarðanir. Eins og þær reglur eru nú má segja að það eina, sem reglurnar geti nokkurn veginn tryggt, sé að verðlag á vöru sé vísitölutryggt. M.ö.o.: reglurnar eins og þær eru og eins og þær eru framkvæmdar eru þannig að ef hægt er að sýna fram á kostnaðarhækkanir, af hvaða völdum sem kostnaðarhækkanirnar verða, gera reglurnar það nánast skylt að kostnaðarhækkanirnar skuli hækka verðlagið. Þetta þýðir auðvitað það, að eins og reglunum er varið vísitölutryggja þær verðlagið. Þær tryggja ekki launafólkinu lægsta verð. Þær tryggja það eitt að sölu- og þjónustuaðilar geta með tilvísun til reglnanna gert kröfur um að allar kostnaðarhækkanir sem verða, þ. á m. launahækkanir, komi fram í verðlaginu. Hins vegar hafa ríkisstjórnir með ýmsum ráðum reynt annaðhvort að fresta því eða koma í veg fyrir að þessar hækkanir nái fram að ganga, en það breytir að sjálfsögðu ekki eðli þessara reglna. M.a. vegna þessa hafa ríkisstjórnir í sívaxandi mæli gerst nokkurs konar verðlagsyfirvöld, vegna þess að reglurnar hafa tryggt að allar kostnaðarhækkanir komi fram í verðlaginu. Ríkisstj. hefur hins vegar viljað stemma stigu við því, að þær næðu fram að ganga. Hæstv. ríkisstj. hefur meira og meira tekið í eigin hendur úrslitaáhrifin um verðlag í landinu og ríkisstjórnarfundir fjalla um það, á hvað eigi að setja heita vatnið frá Hitaveitu Reykjavíkur, á hvaða verði eigi að selja smjörlíki í landinu, hvað skófatnaður eigi að kosta o.s.frv. Þegar ríkisstjórnarfundir hafa með þessum hætti breyst í verðákvörðunarfundi, þar sem jafnvel eru dæmi þess, að atkv. séu látin ganga um eitthvert tiltekið verð á vöru eða þjónustu, segir sig sjálft að fyrir slíka ríkisstj. verður litill tími aflögu til annars.

Ríkisstjórnir hafa aldrei átt að vera, hvorki í okkar landi né annars staðar, slík verðlagsyfirvöld. Þær hafa miklu þarfari störfum að sinna en sitja á ríkisstjórnarfundum og ákveða verð á ýmsum vörum og þjónustu, allt frá því stærsta og niður til hins smæsta. Þetta er ástand sem ávallt hefur verið túlkað sem bráðabirgðaástand, en það hefur reynst vera varanlegt ástand, og auðvitað ber brýna nauðsyn til að reyna að breyta því og koma á eðlilegri starfsháttum.

Þessi aðferð hefur líka gefist neytendum illa. Hún hefur ekki getað tryggt sanngjarnt vöruverð, hún hefur ekki getað tryggt eðlilega samkeppni og hún hefur síst af öllu getað skapað atmenningi það verðskyn sem fólk þarf að hafa til þess að samkeppni um vöruverð og þjónustu skili einhverjum árangri. Því miður er það orðið svo í okkar samfélagi, að verðskyn almennings á algengustu neysluvörum er orðið litið sem ekki neitt.

Í margendurteknum könnunum fjölmiðla hefur komið í ljós að fjöldinn allur af fólki veit ekki verðið á atgengustu neysluvörum og allt og margir landsmanna hafa raunverulega ekki lengur mikinn áhuga á að reyna að fylgjast með vöruverði því að fólk telur það næsta til gangslitið. Það eru sennilega einhverjar verstu afleiðingar þess kerfis, sem við búum við, í senn verðbólgunnar og verðlagseftirlitskerfisins, að það hefur átt þátt í að eyðileggja verðskyn hins almenna borgara. Við skulum ekki fela þá staðreynd fyrir okkur, að enda þótt verðlagseftirlit og strangt verðlagsaðhald geti við ákveðnar aðstæður verið meira en réttlætanlegt, geti raunar verið nauðsynlegt, er slíkt kerfi, þegar það er búið að standa jafnlengi og hér hefur orðið á Íslandi, orðið með þeim hætti að það á þátt í að eyðileggja verðskyn almennings og hamla gegn eðlilegri samkeppni um sem lægst vöruverð. Ég er því alveg sammála þeim sem áður hafa hér talað um nauðsyn þess að breyta því kerfi, enda hefur svo oft og svo mikið verið rætt um þá nauðsyn að ástæðulaust ætti að vera fyrir mig að fara fleiri orðum um það mál hér.

Hæstv. núv. ríkisstj. hefur hins vegar haft ein afskipti til breytinga af verðlagsmálum. Núv. ríkisstj. heimilaði fyrir nokkrum mánuðum það, sem ekki hefur áður verið heimilt um langan aldur í okkar landi, að söluaðilar fengju að hækka verð á eldri birgðum sínum um leið og ný sending kæmi með eitthvað hærra verði. Hingað til hefur þetta ekki verið leyft. Verslanir, sem fengu nýja vörusendingu á nýju og hærra verði, t.d. vegna gengisbreytingar, urðu að selja gömlu birgðirnar upp á gamla verðinu áður en þær gátu hafið sölu á hinni nýju sendingu. Allir vita hversu oft og mikið almenningur rak sig á að búið væri að breyta vöruverði með óleyfilegum hætti á gömlum birgðum til hækkunar. Það var nánast eina verðskynið sem almenningur hafði þó enn, þegar menn ráku sig á það í verslunum að búið væri að hækka vöruverð á gömlum birgðum vegna nýrra sendinga. Kvartanir þær, sem verðlagsyfirvöld fengu frá almenningi, voru yfirleitt á þá lund, að búið væri að hækka vöruverð með óleyfilegum hætti á gömlum birgðum vegna nýrra sendinga. Þetta var það, sem fólk vakti hvað mest athygli á, og var það litla sem enn var óbrenglað af verðskyni í landinu. Núv. hæstv. ríkisstj. tók hins vegar þá ákvörðun að breyta þessum reglum þannig að söluaðila væri heimilt að hækka útsöluverð á öllum gömlum birgðum í verslunum sínum um leið og ný sending bærist til landsins. Ég er hræddur um að einhvern tíma hefði verið rekið upp ramakvein af sumum aðilum sem í núv. hæstv. ríkisstj. sitja ef aðrar ríkisstjórnir, sem ekki höfðu þá innanborðs, hefðu tekið slíkar ákvarðanir. En það er nokkuð lærdómsríkt um þær breytingar á afstöðu manna og flokka, sem núv. hæstv. ríkisstj. hefur áorkað, að engir af þeim aðilum, sem í henni sitja, töldu nokkra ástæðu til svo mikils sem að vekja athygli á þessari breytingu.

Ég vil leyfa mér að benda mönnum á eitt í þessu sambandi til umhugsunar. Á undanförnum mánuðum höfum við svo til hvarvetna í þjóðfélaginu fengið að heyra ramakvein um slæma stöðu atvinnulífs og atvinnurekstrar. Við höfum heyrt kvartanir frá iðnrekendum, við höfum heyrt kvartanir frá útgerðarmönnum, við höfum heyrt kvartanir frá fiskverkendum, við höfum að sjálfsögðu heyrt kvartanir frá launþegum, en það er einn hópur, sem oft hefur látið í sér heyra í þjóðfélaginu, sem ég minnist ekki að hafa heyrt margar kvartanir á síðustu dögum og það er verslunin. Nú ber svo við, hvað sem því veldur, að verslunaraðilar telja sig ekki þurfa að hafa í frammi sömu kvartanir og jafnháværar kvartanir og þeir hafa oft áður haft. Skyldi valda því sú ákvörðun ríkisstjórnar Alþb., Framsfl. og hluta Sjálfstfl. að heimila þessum aðilum að setja sínar gömlu birgða ávallt á nýtt og hærra verð í hvert skipti sem ný vörusending hefur komið til þeirra? Skyldi það ef til vill vera ein ástæða af mörgum fyrir því, að þessir aðilar telja nú ekki ástæðu til að hafa jafnhátt um slæman hag sinn og þeir hafa oft áður gert? Spyr sá sem ekki veit. En þetta eru sem sé einu afskipti hæstv. ríkisstj. af breytingum á reglum um verðlag og verðlagseftirlit og verðútreikninga þangað til nú, að hún leggur fram og mælir fyrir þessu frv.

Herra forseti. Eitt er nauðsynlegt um leið og hvatt er til aukinnar samkeppni um verð og þjónustu og til breytinga á reglum um verðlag og verðlagseftirlit, sem ekki er í þessu frv., ef slíkt á að skila árangri, eins og ég tel nauðsynlegt að slík breyting geri. Ég er fylgjandi því, að reynt sé að leita nýrra leiða í verðlagsmálum til að ýta undir eðlilega samkeppni og lægra vöruverð. En ef slíkar breytingar eiga að geta skilað árangri við núverandi aðstæður okkar með yfir 50% verðbólgu á ári þarf eitt að fylgja sem ekki er að finna í þessu frv. Þá þarf að stórefla alla neytendavernd í landinu og neytendasamtök, vegna þess að fólkið sjálft og samtök þess verða þá að taka við því hlutverki sem verðlagsyfirvöld hafa átt að gegna, en ekki gegnt. Um það er ekki stafkrók að finna í þessu frv. Það er ekkert gert í frv. til að auka rétt íslenskra neytenda, sem ég leyfi mér þó að fullyrða að sé minni en neytendaréttur í nokkru sambærilegu landi.

Íslenski neytandinn hefur í samfélagi okkar nánast engan rétt og enga aðstöðu til að fylgja kröfum sínum eftir. Það eru mörg ár síðan samin voru í viðskrn. drög að frv. um neytendavernd. Á mínum fyrstu árum á Alþingi lagði ég ítrekað fram fsp. til þáv. viðskrh. um hvað hann hygðist gera til að fylgja því máli fram og til að undirbúa löggjöf um neytendavernd til að leggja fram hér á hinu háa Alþingi. Þeir viðskrh., sem setið hafa á undanförnum árum, hafa því miður ekki sýnt því máli nægilegan áhuga, því hafa enn engin lög um neytendavernd verið sett á Íslandi sem sambærileg séu við sams konar lög sem í gildi eru t.d. hjá öllum öðrum Norðurlandaþjóðum. Auðvitað er alveg ljóst, um leið og núverandi reglum um verðákvarðanir og verðlagseftirlit er gjörbreytt og reynt að gera þær reglur eðlilegri og líkari því sem gerist í nágrannalöndunum, að á sama tíma verður að gera stórátak til þess annars vegar að efla frjáls neytendasamtök í landinu til að geta gætt hagsmuna neytenda og í öðru lagi að stórauka lagalegan rétt neytenda á Íslandi, en það er til skammar hvað litið hefur verið gert til að tryggja neytendum þau mannréttindi sem sjálfsögð eru talin fyrir þá í nútímaþjóðfélögum. Því miður er ekkert af því í frv. þessu.

Mér finnst sjálfsagt og eðlilegt, herra forseti, að þetta frv. verði skoðað mjög vandlega í þeirri nefnd sem væntanlega fær það til meðferðar. Ég lýsi fylgi mínu við þær grundvallarbreytingar sem hæstv. viðskrh. ræddi um að gera þyrfti varðandi verðgæslu og verðlagseftirlit í landi okkar, en þó er ekki að finna í þessu frv. Ég mun beita mér fyrir því, þar sem ég á sæti í nefndinni sem frv. þetta fær, að sérstaklega verði leitað til aðila vinnumarkaðarins, hafi hæstv. ríkisstj. ekki sinnt sinni lagalegu skyldu um að gæta samráðs. Ég mun enn fremur óska sérstaklega eftir því við form. nefndarinnar og meðnefndarmenn mína, að nefndin, væntanlega fjh.- og viðskn. þessarar hv. deildar, leitist við að bæta inn í þetta frv. þeim mikilvægu köflum sem í það vantar, hvort sem það verður gert með sérstöku þingmáli eða breytingum á þessu frv., þ.e. að bæta úr þeim stóru ágöllum að það vantar í íslenska löggjöf og íslenskt réttarfar ákvæði um stóraukna neytendavernd, stóraukinn neytendarétt og stóraukinn stuðning við almenn og frjáls neytendasamtök í landinu.