23.02.1982
Sameinað þing: 56. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2597 í B-deild Alþingistíðinda. (2224)

186. mál, endurskoðun geðheilbrigðismála

Fyrirspyrjandi (Salome Þorkelsdóttir):

Herra forseti. Á þskj. 311 hef ég leyft mér að bera fram fsp. til hæstv. heilbrmrh. um störf þeirrar nefndar sem skipuð var til að vinna að gagngerðri endurskoðun geðheilbrigðismála. Spurt er: Hverjir voru skipaðir í nefndina, hefur nefndin lokið störfum, og ef svo er, hverjar voru niðurstöður nefndarinnar?

Á síðasta þingi var flutt þáltill. um geðheilbrigðismál, skipulag og úrbætur. 1. flm. þeirrar till. var hv. þm. Helgi Seljan, og ásamt honum voru flm. hv. þm. Davíð Aðalsteinsson, Karl Steinar Guðnason, Stefán Jónsson, Jóhanna Sigurðardóttir, Jón Helgason, Egill Jónsson og sú sem hér talar. Till. þessi var þá flutt öðru sinni. Efnislega fjallaði hún um að skora á ríkisstj. að taka öll geðheilbrigðismál hér á landi til algerrar endurskoðunar með tilliti til þess, að byggt verði upp nýtt skipulag þessara mála með því að skipa nefnd til undirbúnings málinu þar sem m.a. aðstandendur geðsjúkra ættu fulla aðild. Nefnd þessi átti að ljúka störfum um seinustu áramót. Allshn. Sþ. hafði þetta mál til umfjöllunar og var málið afgreitt hér í Sþ. með brtt. frá nefndinni.

Það hefur margsinnis komið fram í fjölmiðlum, að brýn þörf er á að gera úttekt á þessum málum bæði varðandi skipulag og úrbætur. Fáir þættir heilbrigðismála hafa fengið jafnmikla umfjöllun í fjölmiðlum og geðheilbrigðismál, og blandast varla nokkrum manni hugur um hversu brýnt er að finna lausn á þeim þáttum sem mest brennur á hvað varðar skipulag og úrbætur. Þar sem nú eru liðnir nærri tveir mánuðir frá því að nefndin átti að ljúka störfum er þessi fsp. borin fram.