23.02.1982
Sameinað þing: 56. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2598 í B-deild Alþingistíðinda. (2225)

186. mál, endurskoðun geðheilbrigðismála

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Það var 7. maí s.l. sem Alþingi samþykkti þál. um geðheilbrigðismál, skipulag og úrbætur. Samkv. ályktuninni var heilbrmrh. falið að skipa nefnd til að gera áætlanir um skipulagningu og úrbætur í þessum málum, og átti nefndin að skila áliti fyrir árslok 1981.

Með bréfi 15. júlí 1981 skipaði ég þessa nefnd og er hún þannig skipuð: Ingvar Kristjánsson læknir er formaður nefndarinnar. Högni Óskarsson er ritari hennar. Margrét Hróbjartsdóttir hjúkrunarfræðingur, Hulda Guðmundsdóttir félagsráðgjafi, Ásgeir Karlsson læknir, Oddur Bjarnason læknir og Sigríður Þorsteinsdóttir hjúkrunarfræðingur eiga að auki sæti í nefndinni. Í skipunarbréfi var gert ráð fyrir að nefndin skilaði áliti fyrir árslok 1981.

Hinn 30. des. s.l. komu fjórir nm. til viðtals við heilbrrh. og gerðu grein fyrir því, að nefndin hefði ekki lokið störfum. Hins vegar hefði hún lagt vinnu í mjög marga þætti geðheilbrigðismála og könnun á þeim og óskaði eftir að fá að starfa áfram þrátt fyrir ákvæði þál. Ég óskaði eftir að nefndin ritaði bréf til rn. og skýrði formlega frá því, hvernig starfið stæði, og barst það bréf til rn. 30. jan. s.l. Í þessu bréfi kemur fram að nefndin hefur starfað mjög ötullega síðan í byrjun septembermánaðar, að hún hóf störf, hefur haldið fundi að jafnaði einu sinni í viku, auk þess sem nm. hafa starfað í smærri hópum. Nefndin hefur fjallað um geðheilbrigðismál á mjög breiðu sviði. Þeir málaflokkar, sem hún hefur rætt um, eru þessir:

1. Bráðaþjónusta við geðsjúklinga. 2. Þjónusta við ósakhæfa og aðra afbrotamenn. 3. Fyrirbyggjandi aðgerðir. 4. Hugsanleg svæðaskipting þjónustu við geðsjúka. 5. Geðvandamál barna og unglinga. 6. Þá hefur hún undirbúið kostnaðardreifingu. 7. Fjallað um elligeðlækningar. 8. Um málefni þroskaheftra. 9. Um ávana- og fíkniefnaneytendur. 10. Heildarskipulag þjónustunnar. 11. Fræðslustarf á sviði geðheilbrigðismála. 12. Rannsóknir.

Í þessu bréfi fór nefndin fram á að umboð hennar yrði framlengt um eitt ár, þ.e. út árið 1982. Þá fór nefndin fram á að hún fái að ráða sér ritara í hlutastarf og að hún fái að skila áliti í áföngum um þá málaflokka sem voru nefndir hér á undan. Þá óskaði nefndin eftir því, að dr. Eiríkur Örn Arnarson sálfræðingur, sem starfað hefur í nefndinni sem varamaður, verði skipaður aðalmaður í nefndina.

Ég hafði hugsað mér að afgreiða afstöðu rn. til nefndarinnar og starfs hennar eftir að umr. hefði farið fram hér á Alþingi um fsp. þessa. Ég vil láta það koma fram sem mína skoðun, að mér þykir einboðið að nefndin starfi áfram með þeim hætti sem hún hefur farið fram á og að hún skili áliti í áföngum. Mér er kunnugt um að hún mun nú alveg næstu daga geta skilað áliti um þjónustu við ósakhæfa og aðra afbrotamenn. Þá mundi í framhaldi af því fylgja álit um bráðaþjónustu við geðsjúklinga. Og ég geri ráð fyrir að á árinu 1982 geti nefndin skilað skýrslum um þá málaflokka sem nefndir voru áður í svari við fsp. þeirri sem hér er á dagskrá.

Þessi fsp., sem hér er fram komin, gefur mér kærkomið tækifæri til að kanna viðhorf alþm. í þessu máli, því að eins og áður sagði gerði þál. ráð fyrir að nefndin skilaði af sér um s.l. áramót. Hún starfaði í eina fimm mánuði á síðasta ári og komst ekki til botns í málinu, sem kannske er ekki von vegna þess að hér er um að ræða viðamikið og flókið verkefni og öllu máli skiptir að um vandaðar niðurstöður sé að ræða.

Ég hef lagt á það áherslu við formann nefndarinnar, 1ngvar Kristjánsson, að reynt verði að skila áliti með skýrum tillögum um málin fremur en almennum greinargerðum, sem hætt er við að lítið skilji eftir og rykfalli í skúffum ráðuneyta eða annarra stjórnarstofnana.

Ég vænti þess, herra forseti, að ég hafi svarað fsp. hv. þm..