23.02.1982
Sameinað þing: 56. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2599 í B-deild Alþingistíðinda. (2226)

186. mál, endurskoðun geðheilbrigðismála

Helgi Seljan:

Herra forseti. Það kemur mér ekki á óvart, miðað við hve viðamikill málaflokkur er hér á ferðinni, þó að nefndin hafi ekki lokið störfum. Skal það ekki átalið hér. Ég fagna því alveg sérstaklega ef þarna verða tekin út úr viss áhersluatriði sem Alþingi hefur sérstaklega tekið fyrir og fjallað um í sambandi við tillöguflutning áður hér í þinginu sem leiddi til þessarar samþykktar. Er vissulega ágætt ef þarna verður skilað skýrslu í áföngum samkv. þeim áhersluatriðum sem við, sem fluttum þessa tillögu á sínum tíma, lögðum sérstaklega mikið upp úr.

Ég vil leyfa mér, ef mögulegt væri, að beina viðbótarspurningum til hæstv. ráðh. í framhaldi af þessu. Það er spurt í fyrsta lagi hvort hæstv. ráðh. telji möguleika á því, að geðsjúkrahús og geðdeildir geti nú tekið upp þá neyðarþjónustu sem Geðhjálp hefur sérstaklega beðið um. Er þetta mögulegt nú, og mun ráðh. beita sér fyrir að þessari neyðarþjónustu verði komið í framkvæmd ef mögulegt er?

Í öðru lagi vil ég spyrja að því, ef hæstv. ráðh. gæti svarað því, hvort nefndin, sem um þessi mál fjallar, hefur tekið sér í lagi til meðferðar, hvernig eigi að haga flutningum geðsjúklinga á annan hátt en nú er, þ.e. með ákveðnum gæslumönnum í stað lögreglu eins og nú er.

Það hefur sérstaklega verið talað um ósakhæfa menn. Ég fer ekki nánar út í það og vonast til að frá nefndinni komi ákveðnar tillögur um það. En í þriðja lagi vil ég spyrja hvort nefndinni hafi verið falið sérstaklega - ég held að það sé nauðsynlegt — að kanna, hvort ákveðin aðstoð við geðsjúka og aðstandendur þeirra heima fyrir gæti komið í stað vistunar, og þá um leið, hvort ekki mætti létta verulega útgjöldum af heilbrigðisþjónustunni með því móti. Ég vildi fá álit hæstv. ráðh. á því máli sérstaklega.