24.02.1982
Neðri deild: 46. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2643 í B-deild Alþingistíðinda. (2270)

205. mál, tekjuöflun vegna ráðstafana í efnahagsmálum

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Það er mjög áberandi hjá hæstv. ríkisstj., sem nú situr, að þegar koma frá henni mál og þau koma fyrir þingið er eins og stjórnarliðið sé á samri stundu allt í spreng. Það verður að koma málum fram með óskapahraða og það er eiginlega djöfullega séð að stjórnarandstaðan sé að biðja um upplýsingar og yfirleitt erfitt að fá þær. Það verður helst að nota tangarsókn til að fá þær og það er mjög takmarkað sem fæst.

Frv., sem hér liggur fyrir, er bandormur. Þeir hafa svo sem gengið fyrr á þingi, en þegar tekin er, eins og hefur komið fram í fyrri umr. um þetta mál, sérstakur lagakafli og honum öllum gjörbreytt, eins og launaskattinum, á slíkt auðvitað ekkert erindi í frv. um bandorm, heldur átti að leggja fram sjálfstætt frv. um launaskatt þar sem það mál fengi vandlega meðferð.

Ef við lítum aftur á l. kaflann, sem mætir hér mestri andstöðu, tollafgreiðslugjaldið, er engin furða þó að menn séu orðnir þreyttir á einum aukagjöldunum enn í tolli. Hefði ekki verið betra og skynsamlegra að hugsa málið frá einhverju öðru sjónarmiði og vera ekki að gera tollútreikninga sífellt flóknari, eins og raun ber vitni? Þau eru orðin æðimörg aukagjöldin sem eru lögð á í tolli, eru hátt á annan tug. Við þm. erum almennt orðnir mjög þreyttir á því, að þessi vinnubrögð séu viðhöfð.

Ríkisstj. er langan tíma að bögglast með mál og á í miklum erfiðleikum með þau, eins og gerist og gengur, og eitthvað er nú talað í stjórnarflokkunum tveimur um málið, þó að aldrei heyrist talað um að ráðh. þeir sem sitja í núv. ríkisstj. og telja sig vera í sjálfstfl. ræði mál. Það er aldrei um það getið. Það er eins og þeir tali aldrei um mál og hafi ekki neitt um mál að segja. Það er alltaf sagt í fréttum að þingflokkur Alþb. og þingflokkur Framsfl. hafi fjallað um málið.

Ég hélt að hv. 12. þm. Reykv. Guðmundur G. Þórarinsson væri í Framsfl. og ætti sæti í þeim þingflokki. A.m.k. hef ég átt því að venjast allan þann tíma sem ég hef verið á þingi, hvort sem minn flokkur hefur átt aðild að ríkisstj. eða verið í stjórnarandstöðu, að við ræddum mál fyrst innan okkar þingflokks og afstöðuna til þess og reyndum þar eftir fremsta megni að samræma skoðanir okkar. Ég hélt því að það hefði verið mjög auðvelt fyrir hv. þm. að koma skoðunum sínum þar á framfæri. Ef hann hefði verið trúr málstað iðnaðarins, eins og hann segist vera, og ekki fengið sínu framgengt í Framsfl. eða við hinn stjórnarflokkinn og þá væntanlega viðbótina sem á vantar svo ríkisstj. sé fullskipuð, þá hefði ég skilið að hann hefði flutt till. sem hann flutti. En ef það er aðeins ætlunin að sýnast vera eitthvað betri en allir hinir er það líka skiljanlegt hjá sumum, en alls ekki hjá öllum, því að flestir þm. og í flestum flokkum kunna ekki að meta það.

Hv. þm. Birgir Ísl. Gunnarsson lýsti, hvernig 12. þm. Reykv. væri frábær maður í andlegri leikfimi, og sagði að hann hefði við slíkan tillöguflutning sinn bæði fyrr og nú komið nokkurn veginn standandi niður. Auðheyrilega líkaði hv. 12. þm. Reykv. þetta mjög vel því að hann bætti því við hér í ræðustólnum að hann væri ekki síðri í líkamlegri leikfimi. Þessi stóll er ekki stór eða mikill svo að hann gat ekki sýnt þm. hæfni sína í þeirri grein leikfiminnar. En vonandi gefst þm. kostur á að sjá þá hæfni síðar og þá við aðrar kringumstæður.

Hann var líka mjög ánægður með þennan tillöguflutning sinn og úrslit. Hann þakkaði Birgi Ísl. Gunnarssyni alveg sérstaklega — og ég fann að það þakklæti kom beint frá hjartanu — að Birgir Ísleifur skyldi minna á að hann hafi fengið skattinn á gosdrykki og öl lækkaðan á s.l. ári. En hann minntist ekki á að þessi skattur á öl og gosdrykki var lagður á fyrir hans atbeina. Ef hann hefði greitt atkv. á móti þeirri skattlagningu hefði hún aldrei orðið að veruleika. Þá hefðu þau mótmæli, sem starfsfólk í gosdrykkjaiðnaði sýndi vikum saman aldrei þurft að verða. Enginn bar meiri ábyrgð á þessu gjaldi en einmitt hv. 12. þm. Reykv. En varð hann fyrst að koma skattinum fram til að geta aftur sýnt sína frábæru andlegu leikfimi nokkrum mánuðum síðar, til þess að fá að lækka hann? Er þetta samboðið virðingu Alþingis og virðingu hv. þm. sem og annarra þm.? Ég held ekki.

Það hefur komið oft fram, sérstaklega af hálfu Landssambands iðnaðarmanna, að það eigi að jafna skattlagningu á milli atvinnuveganna. Það telur að umbætur í ýmsum aðstöðumálum hafi oft oltið á því, hvort iðngreinin teldist það sem kallað er útflutnings- eða samkeppnisiðnaður. Hagsmunir greina, sem ekki hafa fallið undir þessa skilgreiningu, t.d. byggingariðnaðar og þjónustuiðnaðar, ásamt ýmiss konar verktakastarfsemi, hafa því orðið þar út undan. Landssamband iðnaðarmanna hefur margoft vakið athygli á því, að forsenda árangursríkrar iðnþróunarstefnu sé að stjórnvöld beiti sér fyrir úrbótum í aðbúnaðarmálum alls iðnaðar, hvort sem hann er í beinni samkeppni eða óbeinni. Allur iðnaður er í samkeppni og allar atvinnugreinar. Sú víðtæka iðnþróunarstefna, sem síðasta þing Landssambands iðnaðarmanna markaði og hefur markað í raun og veru fyrir löngu, hefur oft átt takmörkuðum skilningi að mæta, en að undanförnu virðist þó aðskilningur annarra á þessum samþykktum hafi heldur verið að aukast. Má sem dæmi nefna breytingu á tollskrárlögum sem Alþingi samþ. síðast á liðnu ári, þegar heimilað var að leggja jöfnunarálag á tollverð innfluttra mannvirkja og mannvirkjahluta. Jöfnunarálagið átti að miða við hlutdeild uppsafnaðra aðflutningsgjalda í verksmiðjuverði eða byggingarkostnaði sambærilegra mannvirkja eða mannvirkjahluta sem framleiddir eru hérlendis. Það er því eðlilegt að þetta sjónarmið hafi verið endurnýjað af þessum samtökum í bréfi til þm. og í dagblöðum að undanförnu. Það er því eðlilegt að þessi samtök hafi haldið því fram, að nú ætti að stiga þetta skref og jafna þennan aðstöðumun.

Ég gat þess fyrr í dag, að ég teldi að það væri full ástæða til að reyna að stemma stigu eins og hægt væri við hækkun byggingarkostnaðar. Ég bjóst nú við að fá töluverðan liðsstyrk frá Alþb., sem hafði alveg sérstakan áhuga á að lækka byggingarkostnað og setti sér þar mjög göfugt markmið fyrir kosningarnar 1978, þegar byggingarkostnaður á meðalíbúð, afborgun og vextir af slíkri íbúð, átti ekki að vera meiri en 20% af tekjum manna í lægstu launaflokkum innan ASÍ. En það var fyrir kosningar. Það var áður en Alþb. fór í ríkisstjórn. Núna hrökkva ekki öll launin til að standa undir afborgunum og vöxtum og þó meiri væru. Þannig hefur þetta stefnumarkmið Alþb. reynst, en það hefur verið í stjórn síðan að undanskildum eitthvað þremur mánuðum. Það er því ekki mikið að marka þann flokk. Hann hefur algjörlega gleymt sinni upprunalegu stefnu og er sífellt að færast í þá áttina að lifa mjög borgaralegu hóglífi og sitja í fínum stólum og keyra í dýrum bílum og drekka dýrar veigar. Hann er alveg búinn að gleyma baráttunni fyrir verkalýðinn — baráttunni fyrir þá sem minnst mega sín í þjóðfélaginu. Þegar verið er að ræða hagsmunamál fólksins í landinu og það sem mestu máli skiptir virðast þeir vera bæði heyrnarlausir og mállausir, þessir forustumenn Alþb.

Það er sjáanlegt af öllu, að þegar ríkisstj. segist ætla að lækka einhvern hlut er hún að blekkja. Það er hægt að lækka landbúnaðarafurðir til að hafa af fólki verðbætur á laun. Síðan má hækka þær aftur eftir einn mánuð því að þá er enn þá tveggja mánaða frestur til að leika nýjan fölsunarleik. Það er lagt fram frv. eins og þetta sem kemur inn á, eins og á 6. síðu frv., að tollafgreiðslugjald eigi að gefa 54 millj., ríkið tapi 30 millj. í launaskatti, 20 millj. á lækkun og niðurfellingu stimpilgjalds, en auki tekjur sínar af innflutningi á sælgæti um 8 millj. Þeir neyðast til að viðurkenna að með því að halda áfram vísitölufalsinu ætla þeir samt að ná 12 millj. meira í ríkissjóð en þeir gefa eftir. En hér er um blekkingu að ræða. Þetta er miklu hærri upphæð. Það er breytt greiðslufyrirkomulaginu. Hingað til hafa verið 12 mánuðir í árinu, en þegar Alþb. fer með fjármál er innheimtur launaskattur 13 mánuði. Það er innheimt fyrir 3 mánuði á s.l. ári og síðan á að innheimta fyrir októbermánuð á þessu ári þannig að mánuðirnir eru orðnir 13. Þessi breyting á tekjum og gjöldum ríkissjóðs er miðuð við heilt ár. Þetta er á þessu ári. Hér er um að ræða stórfellda skattlagningu, eina nýja skattlagningu enn frá hendi núv. ríkisstj. Ráðh. þekkja ekki annað en nýjar skattlagningar og eru alltaf að auka útgjöldin. Þetta er vísasti vegurinn til að halda verðbólgunni áfram. Svo segja þessir menn og setja upp sakleysissvip: Við erum að vinna gegn verðbólgunni. Við höfum sett okkur mark að halda verðbólgunni í ákveðnu prósentustigi frá byrjun til loka árs. — Á s.l. ári fölsuðu þeir vísitöluna allt árið, héldu genginu föstu, bökuðu útflutningsatvinnuvegunum stórskaða, sem þeir eru ekki komnir út úr enn þá, og eru svo alveg undrandi á að þessar atvinnugreinar skuli ekki geta staðið sig. En þegar ríkið vantar eitthvað er brennivínið hækkað eða aðrir skattar og tollar. Það er bara farið eftir því hvað þarf hverju sinni. Eyðslan heldur áfram. Það er ekki neitt eftirlit með neinu á vegum ríkisins. Það er ekki einu sinni hægt að fá upplýsingar um stórfelld útgjöld ríkisins. Ein fsp., sem ég flyt er um það. Það er kominn núna hálfur fjórði mánuður og ekki fæst svar við henni. Það var hægt að fá svar við slíkri fsp. á þeim dögum sem Sjálfstfl. átti sæti í ríkisstj. þegar þm. Alþb. spurði. Af hverju má ekki svara núna? Hvað er verið að fela? Svo er talað um heiðarleika og sparnað í ríkisrekstri hjá þessum afglöpum!

Eins og fyrri daginn er hér ekki um neina stefnu að ræða. Það er verið að koma frá sér með miklum erfiðismunum frv. um tiltekin atriði. Annað er látið bíða. Ég furða mig á því, hvað langlundargeð nokkurra þm. stjórnarliðsins er mikið að láta bjóða sér þetta. Langlundargeð Alþingis í heild er líka mikið. Ýmsir stjórnarsinnar, sem sjá og viðurkenna að ekki er heil brú í stefnu þessarar ríkisstj., geta látið bjóða sér að bíða og biða. Það er haft á þann veg að viðkomandi mönnum er haldið í klemmu: Við tökum ekki ákvörðun í þeim málum sem eru baráttumál þessara manna, sem þeir af heilum hug vinna fyrir, því að við þurfum að nota atkv. þeirra til að velta þessari vitleysu áfram í nokkrar vikur í senn. — Það er m.a. ákvarðanaleysi núv. iðnrh. að finna. Það er ekki af slóðaskap eða leti að engar ákvarðanir eru teknar. Þetta er allt gert með ráðnum hug. Og það er engin furða þó að menn bæði innan hans flokks og annarra séu orðnir leiðir. En iðnrh. er enginn kjáni. Hann veit í hvaða klemmu hann á að hafa suma. Honum er það ekkert heilagt þó hann dragi 1–2 ár að taka mikilsverðar ákvarðanir sem átti fyrir löngu að vera búið að taka, af því að það þarf að halda áfram að reyna að láta þessa stjórnarómynd sitja eitthvað enn þá öllum til sárra vonbrigða og leiðinda.