28.10.1981
Neðri deild: 7. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 318 í B-deild Alþingistíðinda. (240)

Umræður utan dagskrár

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Það er rétt hjá hæstv. sjútvrh., að ákvörðun fiskverðs gengur oft seint. Oft eru liðnir nokkrir dagar og jafnvel vikur af næsta verðtímabili áður en fiskverðsákvörðun liggur fyrir. Nú má segja að það sé meira en þriðjungur liðinn af tímanum því að fiskveiðar eru eiginlega engar síðasta hálfa mánuðinn af árinu. Það er að verða föst óregla að ákvarða fiskverð mánuði seinna en á að gera. Og þá spyrja menn: Hver er ástæðan fyrir því að þetta er að farið muni fylgja a. m. k. 5% lækkun á gengi? verða eins og raun ber vitni? Ástæðan er sú sem allir vita, að kostnaðurinn við öflun og vinnslu framleiðslunnar vex margfalt meira en tekjurnar sem hún hefur á erlendum mörkuðum. Þetta er ástæðan.

Þegar núv. hæstv. ríkisstj. tók við var dollarinn í 400.70 kr., en þegar vinstri stjórnin tók við í sept. 1978 var gengið á dollaranum 260.40 kr. Um s. l. áramót var dollarinn kominn í 614.70 kr. M. ö. o.: frá því að ríkisstj., sem nú situr, tók við hafði orðið gengisfelling um rúmlega 50%. Í árslok sögðu talsmenn ríkisstj. að þessar gengisfellingar hefðu verið óhjákvæmilegar vegna kostnaðarhækkana innanlands til þess að halda útflutningsatvinnuvegunum gangandi. Nú liggur það alveg ljóst fyrir, að kostnaðarhækkun við framleiðslu er 50–60% á þessu ári eða jafnvel meiri í sumum greinum. Útflutningstekjurnar hafa ekki hækkað nema sem nemur gengisbreytingu tvisvar sinnum á árinu um 9%.

Hæstv. sjútvrh. hefur ekki við að lýsa því yfir, hvað sér finnist gengislækkanir vera mikið óyndisúrræði. Það hefur aldrei í þessu landi verið gripið til gengisbreytingar fyrr en gengisbreyting hefur orðið og verið búin að vera um langan tíma. Ástæðan fyrir því, að sjútvrh. getur yfirleitt ekki komið saman fiskverði fyrr en í ótíma, er þessi staða, að það er rangt atvinnuhlutfall á milli kostnaðar innanlands og tekna í þessari atvinnugrein. Þetta er það sem liggur ljóst fyrir. Það þarf enginn að óska eftir gengislækkun. Gengislækkun er þegar orðin og hún er bölvaldur. Og forsenda þess, að gengislækkun verður, er hin innienda verðbólga. Þar er að leita ástæðunnar fyrir þessu ástandi. Og það er auðvitað hrein ósvífni hjá ríkisstj. að koma hér fram fyrir skömmu og flytja stefnuræðu þar sem brugðið er upp glansmynd af öllu í þjóðfélaginu og litið er fram hjá öllum þeim miklu erfiðleikum sem þar eru. Atvinnureksturinn er víðast hvar að stöðvast. En á aðeins að taka þá út úr, sem eru stöðvaðir, og moka í þá hundruðum millj. gkr. og láta hina veslast upp? Á ekki að gera nokkurn skapaðan hlut fyrr en allir eru komnir á hausinn, fyrr en búið er að löggilda alla aumingja? Þetta er stefna þessarar ríkisstj. í atvinnumálum. Það má enginn eiga neitt. Það skal taka allt af honum. Ekki er það betra í sambandi við sjómenn. Það er gengið á rétt sjómanna hvað eftir annað og við ákvörðun loðnuverðs falla forsvarsmenn sjómanna m. a. s. frá þeirri kröfu, að sjómenn eigi að fá hliðstæðar hækkanir og aðrir.

Ég er alveg sammála hæstv. sjútvrh. um að það er ekki möguleiki til grunnkaupshækkana nú í landinu. En það er möguleiki til þess að auka kaupmátt launa og það verður ekki gert með því að sprikla eins og þessi ríkisstj. gerir í auknum umsvifum ríkisrekstrarins á kostnað atvinnustéttanna í landinu og launafólks. (GJG: Vill hv. þm. endurtaka þetta með grunnkaupið?) Er móttakarinn á formanni Verkamannasambandsins ekki í lagi? Ef hann er ekki í lagi, þá skal ég endurtaka það, en ef hann er í lagi, þá hlýtur hann að hafa heyrt og skilið hvað ég var að segja.

Alþb. segir að ríkisvaldinu beri á hverjum tíma að tryggja að þau kjör og hlunnindi bjóðist sjómönnum sem ávallt geri starf þeirra verulega eftirsóknarvert. Það tekur þátt í öllum takmörkunum á hendur sjómönnum og sættir sig við þær, og sjútvrh. á í harðri baráttu við forsvarsmenn verkalýðshreyfingarinnar, Alþb.-menn í ríkisstj., sem vilja ekki hækka fiskverð til sjómanna neitt. Þeir eru mestu dragbítar þar eins og allir vita. Þegar þeir ráða má traðka á launþegum. En svo þegar þeir eru utan stjórnar, þá er um að gera að nota hvert tækifæri til þess að splundra og eyðileggja allt samkomulag á vinnumarkaðinum og eyðileggja framleiðsluhætti þjóðfélagsins. Þetta er flokkur sem er þess virði að vera kallaður til ábyrgðar. Þetta er flokkur sem nokkrir sjálfstæðismenn og framsóknarmenn hafa leitt til vegs og virðingar í þjóðfélaginu til að koma þessum ásetningi sínum fram. Hafi þeir skömm fyrir.

Það liggur alveg ljóst fyrir, hæstv. sjútvrh., að gengisfelling er orðin. Það liggur bara ljóst fyrir enn þá, að núv. ríkisstj. þorir ekki að játa staðreyndir. Ráðh. leggja kollhúfur þessa síðustu daga og vikur og ástæðan er, segja samstarfsmenn sjálfstæðismanna í ríkisstj., landsfundur Sjálfstfl. Það er verið að bíða fram yfir hann. Atvinnulífið má stöðvast og einkaframtakið, það má tröllríða því alveg þessa dagana, en að þeir finni til meðvitundar, þessir þrír, það verður enginn maður var við. (Gripið fram í.) Komist til meðvitundar, þeir eru algerlega meðvitundarlausir og hafa verið það lengi.

Ég segi fyrir mitt leyti að sjútvrh., sem getur ekki viku eftir viku fengið því ráðið í sinni ríkisstj. að fiskverð sé ákveðið, hlýtur að taka ákvörðun um það, hvort hann á að sitja innan um slíka samstarfsmenn eða hvort hann ætlar að segja: Verið þið sælir, þið skuluð láta annan taka við til þess að liggja á undirstöðuatvinnuvegi landsmanna.

Til viðbótar fsp. Sighvats Björgvinssonar, hv. 3. þm. Vestf., langar mig að spyrja hæstv. sjútvrh. að því, hvort ætlunin sé að banna eða takmarka loðnuveiðar frekar en gert hefur verið og hvort það standi til að svipta skip þeim kvóta sem þau eiga óveiddan af loðnu. Við vitum að það hefur ekki orðið neitt verðfall á loðnuafurðum, eins og látið er í veðri vaka. Það hefur ekki orðið. Það, sem hefur gerst, er að gengið hefur raskast. Tilkostnaðurinn innanlands vex, en þær þjóðir, sem kaupa af okkur í Evrópu og kaupa í dollurum, reikna auðvitað út frá eigin mynt. Þar hefur verðfallið orðið vegna þess hve gengið er rangt núna. Það er höfuðástæðan fyrir því, hvernig komið er. Hins vegar má segja að það hefur ekki orðið verðhækkun í þessum löndum, ekki til jafns við þá verðhækkun sem hér á sér stað.

Ég vona að hæstv. sjútvrh. taki nú loks á honum stóra sínum við þá hina í ríkisstj. og sýni þeim fram á það, að ekki sé hægt hvað eftir annað að ganga á rétt sjómanna og útgerðar og fiskvinnslu í landinu. Það gengur út yfir aðrar greinar þjóðfélagsins ef svo heldur áfram sem hefur gerst að undanförnu.