15.03.1982
Neðri deild: 51. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3062 í B-deild Alþingistíðinda. (2594)

207. mál, söluskattur

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég heyri að hv. 1. flm. þessa frv., Sverrir Hermannsson, hefur eindregið óskað eftir nærveru minni við umr. um þetta mál. Ég skil hann svo að hann vilji gjarnan að ég taki þátt í umr. um það, og það skal ég gjarnan gera.

Ég vil gjarnan eiga gott samstarf við hv. þm. Sverri Hermannsson um vaxandi framkvæmdir í vegamálum, og við höfum raunar átt ýmislegt samstarf á því sviði. En ef ég á að vera alveg hreinskilinn og segja álit mitt á þessu frv., þá er það ósköp einfaldlega að hér sé sýndartillaga á ferðinni og að hér sé sem sagt ekkert nýtt lagt til sem sköpum skiptir, heldur ósköp einfaldlega að ákveðin upphæð til viðbótar sé lögð fram úr ríkissjóði umfram það sem fjárlög gera ráð fyrir til vegamála. Það geta menn auðvitað alltaf gert till. um, en við höfum nú þegar afgreitt fjárlögin og þar er í raun og veru ekki gert ráð fyrir þessu fé, þannig að ég kalla það hálfgerða sýndartillögu að koma með uppástungu af þessu tagi.

Það er nefnilega mesti misskilningur að ekki hafi verið gert ráð fyrir þeim söluskattstekjum sem fólgnar eru í till. Þegar fjárlög eru samin er miðað við ákveðna verðhækkun á vörum milli ára, ákveðna meðalverðhækkun, þ. á m. á bensíni. Sú hækkun á bensíni, sem nýlega átti sér stað, var ekkert umfram aðrar verðhækkanir í landinu, bara ósköp einfaldlega í takt við þær verðhækkanir í landinu sem stafa af nýlegri gengisbreytingu. Það er ekkert annað sem þar var á ferðinni. Í raun og veru má segja að verð á bensíni hafi heldur farið lækkandi hlutfallslega miðað við annað verðlag. Bensín hefur í raun og veru hækkað minna en aðrar vörur vegna þess að um hefur verið að ræða verðlækkun í erlendum myntum. Þar af leiðandi er ljóst að tekjur ríkissjóðs af söluskatti af bensíni hafa, ef eitthvað er, heldur rýrnað miðað við það sem ráð var fyrir gert.

Það er því ekki um það að ræða, að þarna sé eitthvert fundið fé sem hægt sé að benda á þar sem sé þessi ákveðni söluskattur eða söluskattsviðbót vegna hækkunar á bensíni, heldur er þetta ósköp einfaldlega inni í öllum tekjutölum fjárlagafrv. og fjárlaga, að ákveðin hækkun eigi sér stað á árinu. Ég sé ekki að þessi hækkun sé þar neitt umfram.

Sá áróður hefur viðgengist hér í þjóðfélaginu um nokkurra ára skeið og kannske ekki verið andmælt sem skyldi, að ríkissjóður sé alltaf að taka til sín meira og meira af tekjum þeim sem umferðin skilar. Þá er fyrst og fremst verið að benda á að söluskattur sé lagður á bensín. En það er bara ósköp einfalt mál, að söluskattur hefur verið lagður á bensín um margra ára skeið og það hlutfall, sem ríkið tekur, hefur alls ekki hækkað. Það er ósköp einfaldlega sú hlutfallstala sem fólgin er í álagningu söluskattsins. Þar hefur engin breyting orðið.

Sumir hafa orðið til að benda á það, að bensín hafi hækkað eitthvað meira en aðrar vörur á árabilinu 1979–1980 og þar af leiðandi hljóti ríkissjóður að hafa hagnast á því. Þetta er hins vegar nokkur skammsýni vegna þess að það verður að lita á málið í víðara samhengi, eins og síðasti ræðumaður nefndi svo fagurlega hér áðan. Við verðum bara að gera okkur grein fyrir því, að það er ákveðið magn af vörum sem selst í þjóðfélaginu á hverju ári miðað við þann kaupmátt sem launamenn, fólkið í landinu ræður yfir. Ef ein vörutegund hækkar mikið umfram aðrar vörutegundir en hún er keypt eftir sem áður, þá má gera ráð fyrir að neysla dragist saman á einhverri annarri vörutegund í staðinn. Heildarveltan í þjóðfélaginu eykst m.ö.o. ekki eða breytist við það að t.d. ein vörutegund eins og bensín hækkar í verði. Ef fólk verður að greiða meira fyrir bensínið er líklegt að það kaupi eitthvað minna af einhverri annarri vörutegund sem það áður keypti, ef það ætlar að kaupa sama magn af bensíni og áður. Það hefur væntanlega verið söluskattur á þeirri vöru sem fólk hættir þá við að kaupa eða kaupir í minna magni en áður þannig að ríkið verður þá af söluskattstekjum á einu sviði um leið og það fær auknar söluskattstekjur á sviði bensínsölu.

Það er því ákaflega ólíklegt að ríkið hafi í raun og veru neinar nettótekjur eða nettóhagnað af því þó að ein vörutegund eins og bensín hækki verulega í verði umfram aðrar vörutegundir, vegna þess að það hlýtur að koma niður á veltunni eða á sölu einhverra annarra vörutegunda og draga úr söluskattstekjum þar á móti. Þetta er því mikil sýndarröksemd, sem veður þó uppi í fjölmiðlum og þjóðmálaumræðu þar sem hver étur upp eftir öðrum að ríkissjóður sé stöðugt að græða á bensínhækkunum og eigi að skila þessum tekjum til umferðarinnar. En auðvitað er þarna ekki um að ræða neinn nettóhagnað fyrir ríkissjóð, ef málið er skoðað í víðara samhengi, eins og stundum er nefnt í þessum ræðustól.

Þegar menn ræða um hlutdeild ríkissjóðs í vegaframkvæmdum held ég að menn verði að taka með í reikninginn ekki bara framlag ríkissjóðs til vegagerðar, heldur líka þau lán sem ríkissjóður tekur til vegagerðar og eru allveruleg og Vegasjóður stendur alls ekki undir, heldur greiðir ríkið allar afborganir og alla vexti af þessum lánum. Það má því segja að þau lán, sem tekin eru í þágu vegagerðarinnar, jafngildi algjörlega beinum framlögum frá ríkissjóði. Þar er enginn munur á fyrir vegagerðina í landinu og Vegasjóð. Þar af leiðir að til þess að meta hvort fjármagn er mikið eða lítið til vegagerðar þýðir ekkert að vera með reikningskúnstir af því tagi sem finna má í grg. þessa frv., heldur er ósköp einfalt að lita á magntölur um vegaframkvæmdir í landinu. Og ef við skoðum magntölur um vegaframkvæmdir í landinu fer það ekkert á milli mála, að vegaframkvæmdir hafa farið stórkostlega vaxandi á árunum 1980, 1981 og 1982. Við erum sem sagt í sókn á þessu sviði, mjög verulegri sókn. Ég tel að sú sókn hafi verið skipulögð og samþykkt af Alþingi í vegáætlun árið 1979 þegar ákveðnar voru framkvæmdir í vegamálum fyrir árin 1980, 1981 og 1982. Þessari sókn hefur núv. ríkisstj. fylgt eftir af fullum krafti, og það er sú staðreynd sem máli skiptir í þessu sambandi.

Ef við t.d. lítum á tölurnar í fskj. á bls. 2 í þessu frv., þar sem hv. þm. er að reyna að sanna að hlutfall bensíngjalds af opinberum gjöldum samkv. seinasta dálki hafi farið lækkandi, þá segir það, ef nánar er skoðað, í raun og veru ekkert annað en að bensíngjald hefur ekki hækkað í hlutfalli við verð á bensíni. Ef bensíngjaldið hefði verið hækkað í réttu hlutfalli við bensínverð í veröldinni hefði þetta hlutfall haldist eins hátt og það var í upphafi, milli 60 og 70%. Og vissulega má segja að þá hefði Vegasjóður orðið allmiklu ríkari. En þá hefði líka bensínverðið orðið enn þá hærra. Við höfum ekki hækkað bensíngjaldið nema í réttu hlutfalli við byggingarvísitölu meðan aftur á móti heimsmarkaðsverð á bensíni hefur hækkað miklu, miklu örar. Þar af leiðir að þessar prósentutölur hafa farið lækkandi. Í raun og veru segir þessi dálkur og þessa fskj. ekkert annað en þessa einföldu staðreynd.

Hvort við hefðum þá átt að hækka bensíngjaldið meira en við höfum gert er svo önnur saga. Það má velta því fyrir sér. Og kannske gæti við hv. þm. verið innilega sammála um að við hefðum átt að vera djarfari á því sviði og hækka bensíngjaldið meira en gert hefði verið, en hætt er við að þeir, sem kvarta mest yfir háu bensínverði, hefðu ekki verið mjög hrifnir af því.

Sem sagt, þó að ég sé hv. þm. innilega sammála um, að við þurfum að sækja enn frekar fram í vegagerðarmálum, og þó að ég fagni áhuga hans í vegagerðarmálum og ágætu samstarfi oft og tíðum í þessum málaflokki — því að í þessu máli erum við miklir samherjar og höfum báðir mikinn áhuga á að framfarir verði á þessu sviði — þá verð ég hins vegar að segja það, að frv. hans leysir lítinn vanda og ég lit svo á að það sé fyrst og fremst byggt á reikningskúnstum.