16.03.1982
Sameinað þing: 64. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3081 í B-deild Alþingistíðinda. (2621)

324. mál, opinber stefna í áfengismálum

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Mér finnst að það, hvernig hæstv. félmrh. hagar sér við þessar umr., sé kannske ljósasta merkið um það, hversu veikburða málstaðurinn er. Hæstv. ráðh. kvartar undan því hér, að hann skuli ekki hafa fengið að tala nema fjórum sinnum. Hæstv. ráðh. er búinn að tala fjórum sinnum í þessari umr, og kemur hér upp og biður um orð um þingsköp. Hvað sýnir betur hversu veikburða málstaður er hér á ferðinni sem hæstv. félmrh. er að reyna að verja? Við skulum líta á það aðeins frekar.

Ég hef hér í höndunum alveg nýjar upplýsingar frá Alþýðusambandi Íslands sem útbýtt var nú rétt fyrir helgina. Samkvæmt þeim upplýsingum kemur í ljós að kaupmáttur verkamanna miðað við framfærslukostnað var í febr. 1978 — við skulum halda áfram að miða við þann tíma þegar hæstv. félmrh. kallaði „Alþingi götunnar“ til liðs við sig — í febr. 1978 var hann 109.4 stig. Kaupmáttur verkamanna miðað við framfærsluvísitölu var í febr. 1982 106.7 stig, — 109.4 stig 1978, 106.7 stig 1982. Hvað þýðir þetta, hæstv. félmrh.? Þýðir þetta, sýnir þetta fram á að forustusveit Alþb. hinni pólitísku hafi tekist að bæta kjör verkamanna frá því að hún beitti sér fyrir „Alþingi götunnar“ 1978? Nei, það sýnir einmitt að vegna stjórnaraðildar Alþb. hafa lífskjör versnað. Kaupmáttur verkakvenna á þessu sama tímabili miðað við framfærslukostnað var í febr. 1978 1 14.6 stig en er í febr. 1982 1 10.7 stig.

Þetta eru upplýsingar sem Alþýðusamband Íslands hefur látið vinna og dreifa á 72 manna nefndarfundi s.l. föstudag. Hæstv. félmrh. ætti að fá að koma hér upp til þess að segja af eða á hvort hann rengi þetta eða ekki. (Félmrh.: Ég geri það ekki, ég rengi ekki þessar tölur.)