16.03.1982
Sameinað þing: 65. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3107 í B-deild Alþingistíðinda. (2648)

Umræður utan dagskrár

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Það er full ástæða til þess að hér sé rætt um valdmörk ráðherra í jafnþýðingarmiklu deilumáli og hér er til umr. utan dagskrár á hinu háa Alþingi. Í þessum umr. hafa talað fulltrúar allra stjórnmálaflokkanna, nú síðast fulltrúi Framsfl. Allir hafa lýst yfir þeirri skoðun sinni, að þeir styðji hæstv. utanrrh. í túlkun hans og aðgerðum. Það vekur því meiri athygli en ella, að enginn fulltrúi Alþb. tekur til máls. Þeir hafa kosið að tala digurbarkalega á síðum Þjóðviljans og brúka þar stór orð um samstarfsmenn sína í ríkisstj.

Nú er nýkominn til landsins kjarkmesti þm. Alþb., hv. 11. þm. Reykv., sem jafnan hefur verið fús til að segja sitt álit á málum eins og þessum. Það hefur verið upplýst í þessum umr., að samsæri þagnarinnar gildir hjá hæstv. ráðherrum úr röðum Alþb. Nú reynir á það, hvort hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson, sem er nefndarmaður í utanrmn. og formaður þingflokks Alþb., kemur í þennan ræðustól á hinu háa Alþingi og þorir að segja sitt álit á þessum málum eða hvort það er rétt, sem auðvitað flestir eru farnir að hallast að og hv. 1. þm. Reykv: sagði í ræðu sinni í dag, að upphlaup kommúnista í þessu máli sé sýndarmennskan einber og eingöngu til þess gerð að höfða til þess fylgis sem tekur þátt í störfum svokallaðra herstöðvaandstæðinga. Þetta er þá gert vegna þess að Alþb. er í þeirri stöðu nú, að fylgi landsmanna hverfur frá því, þeir eiga í erfiðleikum alls staðar þar sem þeir hafa þurft að efna til prófkjörs fyrir sveitarstjórnarkosningar. Færri og færri kaupa Þjóðviljann. Fleiri og fleiri ganga úr flokknum. Það er þess vegna sem forustan í Alþb. kýs við þessar aðstæður að skapa sér stöðu til þess að geta sagt sig úr ríkisstj. ef illa fer í sveitarstjórnarkosningum og ef kjarasamningar verða erfiðir og óþægilegir fyrir forustu Alþb. Það er við þessar aðstæður sem það gerist í dag á hinu háa Alþingi, að jafnvel hv. 11. þm. Reykv., Ólafur Ragnar Grímsson, þorir ekki að taka til máls og lýsa yfir skoðun sinni á þessu máli sem hefur verið stærsta mál á blöðum Þjóðviljans undanfarna daga, þar sem fimm dálka fyrirsagnir hafa birst dag eftir dag. Nú er þagað, einfaldlega vegna þess að þetta upphlaup var upphlaup í Þjóðviljanum, upphlaup í Alþb., eingöngu gert í sýndarmennskuskyni til að styrkja stöðu þeirra ef svo kynni að fara að þeir þyrftu lafhræddir að hverfa úr núv. ríkisstj.

Það er þetta sem verður eftirminnilegast við þessar umr. í dag.