23.03.1982
Sameinað þing: 67. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3172 í B-deild Alþingistíðinda. (2781)

234. mál, bókasafn Landsbankans og Seðlabankans

Fyrirspyrjandi (Guðrún Helgadóttir):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að leggja fram fsp. til hæstv. viðskrh., en hún liggur frammi á þskj. 430. Fsp. varðar bókasafn Landsbankans og Seðlabankans að Einholti 4.

Það má öllum ljóst vera að nokkurn tíma tekur að setja sig inn í starfsemi hinna ýmsu fyrirtækja þjóðarinnar, og starfsdagur alþm. nægir þar ekki til nema starfsár verði nokkur. Við lestur hinna ýmsu gagna, sem okkur alþm. berast, rekumst við öðru hverju á þætti sem við þekkjum lítið til. Þannig fór fyrir mér við lestur ársskýrslu Seðlabankans fyrir árið 1980. Á bls 68 getur að líta skrá yfir fastafjármuni bankans og þar á meðal húseignina Einholt 4, sem ég vissi ekki hvað geymdi. Brunabótamat þessarar eignar var í árslok 1980 455 gamlar millj. Neðar á síðunni er getið um bóka- og myntsafn sem metið er til trygginga þá á 155 millj.

Við athugun kom í ljós að umrætt bóka- og myntsafn reyndist einmitt vera til húsa að Einholti 4. Í ljós kom að ekki var þessa stofnun að finna í símaskrá, en auðvelt að fá beint samband frá skiptiborði Seðlabankans. Ég fór því fram á að fá að skoða þetta safnahús og fékk til þess góðfúslegt leyfi forstöðumanns. Ekki fór þá á milli mála að þetta stóð mér aðeins til boða vegna stöðu minnar hér á Alþingi. Í mig hringdi síðan Baldvin Jónsson hrl. og bauð mér fylgd um safnið, sem ég vitanlega þáði, en sögu þess þekkir hann öðrum betur. Ég bauð síðan með mér borgarbókaverði Reykjavíkurborgar, Elfu Björk Gunnarsdóttur, sem mikillar virðingar nýtur sem afburða fagmaður í bókasafnsfræðum. Fyrir heimsóknina í safnið reyndi ég að finna bókaskrá og ársreikning safnsins, en hvorugt virtist á lausu fyrir almenning.

Því er ekki að leyna, að okkur rak báðar í rogastans að finna svo mikið og dýrmætt bókasafn og svo allt annars eðlis en gefið er til kynna í skrá yfir rannsóknar- og sérfræðibókasöfn opinberra stofnana og félagasamtaka í Reykjavík sem gefin er út 1977. Þar segir svo um efnissvið safnsins og safngögn og fleira, með leyfi forseta:

„Efnissvið: Hagfræði, viðskiptafræði, lögfræði, stjórnmál, íslenskir atvinnuvegir, saga sýslna og héraða, afmælisrit, ævisögur, yngri og eldri tímarit, fágætar bækur, bókfræðirit og almenn uppsláttarrit.“

„Safngögn,“ segir nokkru síðar: „Bækur, tímarit, skjöl, kort og ljósmyndir úr sögu bankanna (ekki vitað um fjölda safngagna, sennilega nokkur þúsund bindi), aðgangur að ljósritunarvél.“

Í þessu mikla og glæsilega safni getur að líta æðimiklu meira en það sem þarna er greint, auk þess sem safnið er vart til vinnu fyrir starfslið bankanna þar sem varla er stól eða borð að finna fyrir gesti, en að sögn eiga starfsmenn Landsbanka og Seðlabanka að eiga aðgang að safninu. Engin bók er lánuð út og ekki leyndi sér að safnvörðum er litið áhugamál að fólk noti safnið.

Þarna gat í stuttu máli að líta fegurstu bækur sem ég og ég held einnig borgarbókavörður — hef augum litið í svo miklu magni hér á landi. Nær hver einasta bók er bundin í fegursta skinnband og eiga starfsmenn bókbandsstofu safnsins mikinn heiður skilinn fyrir handbragð sitt. Sama má segja um annað starfsfólk sem augljóslega sinnir bókunum af mikilli alúð. Þarna er að finna mikið úrval fagurbókmennta af öllu tagi, auk hundraða sjaldgæfra bóka. Sumum hverjum á Landsbókasafn landsins ekki eintak af.

Engum getum þarf að því að leiða við skoðun slíks safns, að gífurlegt fjármagn liggur í því. Í ljós kom og að forstöðumaður hefur nær frjálsar hendur um kaup á bókum og hlýtur það að teljast til algerrar undantekningar í þeirri stétt.

Sem áhugamaður um bókasöfn landsins og starfsemi þeirra skal ég síst amast við safni fagurra bóka, en þegar almannafé er notað til slíkrar starfsemi hlýtur að teljast eðlilegt að leita eftir tilgangi og tilurð hennar.

Við lestur laga um Seðlabanka Íslands, nr. 10 frá 1961, er ekki að finna ákvæði um rekstur bókasafns né söfnun sjaldgæfra bókmenntalegra dýrgripa. Aðrar stofnanir hafa samkv. lögum það hlutverk. Fjárveitingar til þeirra eru miskunnarlaust skornar niður á ári hverju, en bókasafn Seðlabankans sýnist ekki skorta fé. Ég spurði þó nokkra alþm. um þetta safn eftir heimsóknina þangað, en enginn viðmælenda minna, sem voru ekki undir 10, hafði hugmynd um hvar það væri til húsa. (Forseti hringir.) Ég er rétt að verða búin, herra forseti. — Hvað skyldi þá þjóðin vita um það? Fsp. vakti enda nokkra athygli þegar hún var lögð fram og m.a. gerði blaðamaður Tímans heimsókn sína þangað og taldi sér ekki vel tekið.

Í viðtali við hv. þm. Halldór Ásgrímsson í Tímanum 11. mars s.l. kemur fram að keyptar voru bækur og tímarit árið 1980 fyrir um það bil 30 gamlar millj. kr. Það sama ár voru keyptar bækur og tímarit fyrir háskólabókasafn landsins fyrir 53 millj. kr., en það safn skal vera undirstaða fræða og vísinda í landinu. Þessar tölur sýna að hér er á ferðinni safn sem er meira en hálfdrættingur á við háskólabókasafn. Munurinn er einnig sá, að bókakaup þess safns eru samþykki af yfirvöldum, en erfitt er að sjá hver hefur samþykkt bókakaup Seðlabankans.

Ég mun reyna að stytta mál mitt, herra forseti, og áður en lengra er haldið vil ég því beina þeim spurningum, sem hér liggja fyrir á þskj. 430, til hæstv. viðskrh., en þær hljóða svo, með leyfi forseta:

1. Hvenær var umrætt bókasafn stofnað og hvert var upphaflega hlutverk þess? Hvenær flutti það í núverandi húsnæði og hve mikið rými er því ætlað.

2. Hver er heildarkostnaður við bókasafnið frá upphafi miðað við núvirði:

a) við húsnæði, innbú og tæki,

b) við launagreiðslur, — en við bókasafnið eitt vinna nú 5 manns,

c) við bókakaup,

d) við annan rekstrarkostnað.

3. Eru ársskýrsla safnsins og ársreikningur ásamt bókaskrá gefin út?

4. Hve margir starfsmenn vinna við safnið og við hvað? Starfar bókasafnsfræðingur við safnið?

5. Hvert er hlutverk safnsins nú, hverjir eiga aðgang að því og hve margir nýttu sér hann s.l. ár?

6. Hvaða aðili fer með yfirstjórn safnsins og hver ber á því fjárhagslega ábyrgð?

Almenningsbókasöfn landsins eru nú fjársvelt svo að mörg þeirra þjóna á engan hátt tilgangi þeim sem lög mæla fyrir um. Á því berum við alþm. fulla ábyrgð. Það hlýtur því að vera nokkurt undrunarefni að finna fyrir tilviljun glæsilegra bókasafn en flest almenningsbókasöfn eru, rekið af almannafé, án þess að nokkur maður viti um tilvist þess úti í þjóðfélaginu. Ég vænti því að hæstv. viðskrh. gefi okkur alþm. á því nokkra skýringu.