23.03.1982
Sameinað þing: 68. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3197 í B-deild Alþingistíðinda. (2811)

Umræður utan dagskrár

Utanrrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Ég tel mig knúinn til að leggja nokkur orð í belg, þó að mér sé það að sjálfsögðu ekkert fagnaðarefni að standa í deilum við samráðh. minn. En ég verð því miður að segja að vinnubrögð hans í þessu máli hafa verið undarleg, vægast sagt. 10. mars gefur hann Orkustofnun fyrirmæli um að hún skuli hætta við að efna skriflegan verksamning sem gerður hafði verið. Það þýðir ekki fyrir hæstv. iðnrh. að vera að halda því fram, að þarna hafi aðeins verið um góðlátleg tilmæli til Orkustofnunar að ræða. Það eru næg vitni að því, að þetta voru fyrirskipanir frá iðnrh., enda má nærri geta hvort Orkustofnun, sem var búin að skrifa undir verksamninga og er ekki kunn að því að rifta því sem hún hafi skrifað undir og standa ekki við sín heit, hefði horfið að því ráði að hætta ef það hefðu bara verið góðlátleg tilmæli frá orkumálaráðh. Nei, það voru fyrirskipanir. Ég hef sagt um þetta atferli að það sé einstætt. Ég held að það sé það. Mér eru, a.m.k. á þessu augnabliki, ekki tiltæk dæmi úr íslenskri stjórnarfarssögu sem setjandi séu á bekk með þessu, að ráðh. grípi inn í mál stofnunar sem að vísu heyrir undir hann, en hefur þó að nafninu til a.m.k. sérstaka stjórn, og segi henni að hætta við að fullnægja skuldbindingum sem hún hefur gengist undir, hvort sem er munnlega eða skriflega. Það var skriflega í þessu dæmi. Ég leyfi mér að efast um að það finnist nokkurt fordæmi fyrir slíku í íslenskri stjórnarfarssögu. Ef einhver hér skyldi þekkja slík fordæmi væri mér þökk á að hann vildi nefna þau og koma fram með þau. Sem betur fer held ég að þetta sé óþekkt og falli ekki saman við þær réttarhugmyndir sem Íslendingar háfa gert sér.

Þetta er mjög alvarlegt mál — alvarlegt vegna þess að þarna er um að ræða eða gæti verið um að ræða fordæmi. Það er auðlærð ill danska. Það gæti verið að einhverjir ráðherrar, sem fyndu til valds síns, tækju upp á því síðar að beita svipuðum aðferðum og þessum. Þess vegna er þetta alvarlegt mál. Nú bíð ég eftir að hæstv. iðnrh., sem hefur athugað þetta og sjálfsagt látið aðra gera það, bendi mér á fordæmi fyrir svona starfsháttum hér á landi. Þeir kunna að vera þekktir erlendis, en hér eru þeir það ekki.

Það er ágreiningur uppi um það málefni sem hér er um að ræða. Við hæstv. félmrh. höfum deilt um það og getum haldið áfram að deila um það, en það er allt annars eðlis. Það er deilt um málefnið sjálft. Auðvitað fellst ég ekki á hans sjónarmið eða hans túlkun eða útlistun, og hann gerir sjálfsagt einhverjar aths. við minn málflutning varðandi málið. En það er allt í lagi að menn hafi skiptar skoðanir á málefni. Þetta, sem hér er um að tefla, er allt annars eðlis.

Ég leyfi mér að halda því fram, að það sé enginn lagalegur grundvöllur fyrir þessari ákvörðun iðnrh., hvort sem það er valdníðsla eða valdþurrð, nema hvort tveggja sé. En ég tek það fram, að ég nota ekki orðið valdníðsla í þeirri merkingu sem hér er títt að gera í fjölmiðlum lon og don. Ég nota það í lagatæknilegri merkingu. Það er ákveðið hugtak í lögfræði og það er í þeirri merkingu sem ég nota það.

Hæstv. iðnrh. bjóst við því hálfpartinn að hann mundi ekki geta gert hv. fyrirspyrjanda úrlausn í málinu. Ég efast stórlega um að hann geti gert nokkrum manni úrlausn í þessu máli, að hann geti skýrt vinnubrögð sín fyrir nokkrum manni. Eins og ég sagði áðan vantar lagalega grundvöllinn. Nú hefur hæstv. iðnrh. sjálfsagt sér til aðstoðar einhverja lögfræðinga í sínu rn. Nú væri gaman að heyra hvort þeir hefðu verið spurðir ráða um þetta, hvort þeir hefðu kannske ráðlagt svona vinnubrögð eða haldið að þau gætu gengið. Ég hefði gaman af að heyra rödd þeirra lögfræðinga.

Ég ætla ekki á þessum stað og þessari stundu að fara langt út í þetta mál. Þetta vildi ég þó láta koma fram hér, að það er enginn lagalegur grundvöllur undir þessari ákvörðun iðnrh. og hún er einstæð og hún er hættuleg hættuleg sem fordæmi í íslenskum rétti. Hæstv. iðnrh. stendur í stórræðum. Hann leggur senn út í mikilvægar viðræður við álfélag. Ég segi bara að ég vona að í því máli hafi verið lagður sterkari lagalegur grundvöllur en er undir þessari ákvörðun hæstv. iðnrh. Annars hjálpi okkur allir heilagir.

Hæstv. iðnrh. las hér upp þá fréttatilkynningu sem fór frá iðnrn. í gær. Jú, hann gat þess, að það hefði við athugun á málinu komið í ljós að annmarkar væru á samningunum, það væri ólögmætt ákvæði í þeim, greiðsla fyrir verkið væri ákveðin í dollurum, en ekki í íslenskum krónum. Nú er þetta samningur við erlendan aðila í raun og veru. Það skiptir engu máli þó að Almenna verkfræðistofan hafi þarna milligöngu. Það vita allir. Mér er sagt að ósk um að ákveða þetta í dollurum hafi komið frá Orkustofnun, orkumálastjóra. Ég verð að segja að það finnst mér ekki óskynsamleg ákvörðun og ekki óskynsamleg tilmæli þegar litið er á hvernig þróun í gjaldeyrismálum hefur verið á undangengnum mánuðum varðandi íslenskar krónur og dollara. En það átti aldeilis að láta höggið ríða að gagni því að þetta ákvæði um að miða við dollara í staðinn fyrir krónur var andstætt lögum um verðlag, svonefndum Ólafslögum, nr. 13/1979. Nú þætti mér gaman að hæstv. iðnrh. léti þingsvein ná fyrir sig í þessi margumtöluðu lög, lög nr. 13/1979, sem heita ekki verðlagslög, heldur lög um stjórn efnahagsmála o.fl., og fletti upp í þeim og sýndi mér hvar í þessum lögum nr. 13/1979 væri að finna ákvæði sem þetta varðaði. Þar er hvergi að finna neitt ákvæði sem lýtur að þessu. Það kann að vera að það sé í einhverjum öðrum lögum. Þetta sýnir þau flumbrulegu vinnubrögð sem við hafa verið höfð í þessu sambandi í iðnrn., að geta ekki einu sinni nefnt rétt lagaákvæði í þessu sambandi, heldur grípa til þess ráðs að ætla að fara að segja að þetta sé í lögum sem stundum hafa verið kölluð Ólafslög. Þetta er sem sagt hrein vitleysa. Það er ekkert ákvæði í þessum lögum sem varðar þetta. Ef annað er eftir þessu geta menn rétt ímyndað sér hversu athugun á þessu hefur verið vönduð.

Ég skal ekkert segja um það á þessari stundu, hvort Orkustofnun fær þennan samning þrátt fyrir allt sem á undan er gengið. Það er ekki í mínum höndum. Það er í höndum bandaríska sjóhersins og þess aðalverktaka sem vinnur á hans vegum. Það hafði verið settur ákveðinn tímafrestur af þessum aðilum, að ef ekki væri búið að svara fyrir kl. 4 á föstudag væri þessi samningur við Orkustofnun úr sögunni. Ég hef haldið að það væri hægt að byggja á því sem þessir aðilar segðu. Ég tók þetta trúanlegt, að þar með væru þessir samningar úr sögunni og Orkustofnun fengi þetta ekki, heldur tæki sjóherinn það í sínar hendur. En vera má að hæstv. iðnrh. viti betur um þetta en ég, og vera má að þrátt fyrir þau undarlegu vinnubrögð, sem hér hafa verið viðhöfð, fái Orkustofnun þetta verk allt að einu. Ég skal á þessu stigi ekkert um það segja. En söm er gerð hæstv. iðnrh. Hann hefur óneitanlega með þessum ráðstöfunum sínum stofnað þessum samningum Orkustofnunar, sem ég hefði haldið að gætu verið fundið fé fyrir hana á þessum tíma, í hættu og kannske — ég veit það ekki enn — þannig að þetta verði tekið úr höndum Orkustofnunar. Það getur nefnilega vel verið að þeim.detti það í hug fyrir vestan að það geti vel komið til þess síðar á samningstímanum að valdamanni hér detti í hug að segja stopp. Það er ekki víst að þeir vilji treysta á það, þó að hann segi nú að þetta sé í lagi, nú megi Orkustofnun fara að byrja, að vísu að fullnægðum ýmsum skilyrðum sem eru þó ekki neitt nema eintóm málamyndaskilyrði.

Ég sagði áðan að lagalegi grundvöllurinn undir þessu væri enginn. En þá heilbrigða skynsemin! Hvað ætli almenningur hér á landi segi um þá heilbrigðu skynsemi að taka greiðsluandvirði fyrir þetta verk í íslenskum krónum í staðinn fyrir dollara? Ætli menn telji það heilbrigða skynsemi? Ég efast um það. Það er þetta sem á að verða. Það er ekki líklegt að það standi á þeim fyrir vestan að verða við þeirri málaleitan. En svo eru það ýmis önnur atriði sem ég skal ekkert segja um.

Það hefur verið dálítil deila á milli okkar félmrh. undir hvorn okkar skipulagsmál á þessum slóðum heyrðu. Mér hefði þótt alveg nóg að við deildum um það. En nú ríður hæstv. iðnrh. fram á völlinn, og eftir þessari fréttatilkynningu að dæma er eins og hann ætli að láta sig skipulagsmál þarna varða. Það er engu líkara. Ég veit ekki til þess, að hann hafi nokkurt skipulagsvald. Mér virðist hann því vera farinn að sækja nokkuð á starfsbróður sinn, hæstv. félmrh.

Hann segist fela Orkustofnun að athuga þarna ýmislegt: mengun, vatnsrennsli o.fl., o.fl. Hann skipar ekki Orkustofnun að gera þetta á varnarsvæðum, það er alveg hreint og klárt. Þau heyra ekki undir hann. Það er þá ræman í Keflavík sem um er að tefla. Og mér finnst hann ganga nokkuð nærri hæstv. heilbrmrh., því að satt að segja hefði ég haldið að þessi mál, sem nefnd eru þarna, lægju nær verksviði heilbrmrh. en iðnrh. og orkuráðh.

(Félmrh.: Er utanrrh. á móti því að láta athuga þetta á varnarsvæðum?) Nei, nei, ég læt athuga það allt miklu betur en hæstv. iðnrh. gerir og jafnvel félmrh. til jafns. Við gerum það hvor á sínum stað, þar sem við höfum valdið, ég og þú.

Eins og ég sagði í upphafi ætla ég ekki að gera neina almenna úttekt á þessum málum. Það er vissulega ekkert ánægjuefni, eins og ég sagði, að þurfa að standa í deilum um þetta við samstarfsráðherra sinn. En ég vildi taka þessi atriði fram, staðreyndir í málinu sem sýna að það hefur verið unnið að því á óvandaðan hátt, eins og t.d. að geta ekki vitnað í rétt lög o.s.frv. Ég hef viljað gefa hæstv. iðnrh. kost á að nefna við hvaða fordæmi hann styðst í þessu efni. Og ég hef viljað vekja athygli á þessu af því að ég tel alvarlegt mál ef á að fara inn á þessar brautir í framtíðinni, að einhver valdsmaður, ráðh., geti eftir geðþótta farið að fella niður skriflega samninga sem stofnun sem undir hann heyrir hefur gert. Slíkt stjórnarfar má ekki innleiða hér á landi. Þess vegna eiga þessi vinnubrögð hæstv. iðnrh. að verða víti til varnaðar — lýsandi víti til varnaðar um alla framtíð.