25.03.1982
Neðri deild: 58. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3261 í B-deild Alþingistíðinda. (2899)

55. mál, lánsfjárlög 1982

Steinþór Gestsson:

Herra forseti. Fyrir allmörgum árum flutti ég hér á hv. Alþingi till. til þál. um að gerð yrði könnun á því, hvort hagkvæmt reyndist að stofna til útflutnings á gróðurhúsaframleiðslu í svokölluðum ylræktarverum, eins og fjallað er um í þeirri brtt. sem við greiðum atkv. um nú. Síðan hef ég reynt að fylgjast með því, hvernig sú könnun hefur gengið. Ég veit að tvívegis hefur verið skilað nál. um þetta og í bæði skiptin hefur skort nokkuð á að talið væri fært að leggja í þessa framkvæmd. Ég hafði haldið, þangað til ég heyrði annað núna frá hæstv. fjmrh., að þetta mál væri gleymt og grafið í einhverju ráðuneytanna, eins og það hefur verið að undanförnu. Ég verð að segja að á meðan ekki kemur neitt opinberlega fram um hvar og hvernig þessu ylræktarveri verður komið fyrir eða frá málum þess gengið, þá þykir mér það vera gráglettni örlaganna, að á sama tíma og meiri hl. er að skerða lögmæt framlög til sjóða atvinnuveganna skuli menn gera því skóna að fella niður gjöld af fyrirtæki sem ekki er nein von um að verði reist á þessu ári. Vegna þess að mér er sárt um þetta mál vil ég ekki að það sé verið með það í slíkum skollaleik, og ég segi nei.