29.03.1982
Efri deild: 61. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3293 í B-deild Alþingistíðinda. (2918)

131. mál, útflutningsgjald af grásleppuafurðum

Frsm. (Stefán Guðmundsson):

Herra forseti. Það er eins með þetta frv., 131. mál, og með það frv. sem ég talaði fyrir rétt áðan, 130. mál, en þetta er frv, um útflutningsgjald af grásleppuafurðum. Nefndin hefur lagt töluvert mikla vinnu í þetta frv. og eins og með hið fyrra fengið fjöldann allan af umsögnum og menn til skrafs og ráðagerða. Niðurstaðan af þeirri vinnu varð sú, að nefndin varð öll sammála um afgreiðslu málsins.

Þær breytingar, sem nefndin leggur til að gerðar verði á þessu frv., eru að við 1. gr. bætist ný mgr. er verði 3. mgr. og hljóði svo: „Verð umbúða skal dragast frá þegar útflutningsgjald er lagt á unnar afurðir.“

Á 2. gr. verði sú breyting gerð, að í stað 3.5% útflutningsgjalds af fob-verðmæti útflutnings komi 3.2%.

3. gr. breytist þannig, að í stað 38% komi 41%, í stað 18% komi 20%, í stað 22% komi 24% og í stað 22% komi 15%. Meginbreytingin í þessu og reyndar sú eina er að gjaldið til Samtaka grásleppuhrognaframleiðenda er það sem mismunurinn er gerður á í krónutölu. Með þessum breytingum, sem nefndin leggur til, er gjaldið til samtakanna sjálfra verulega lækkuð.

Við 5. gr.: Aftan við 1. málsl. bætist nýr málsliður: „sbr. þó 3. mgr. í 1. gr.“ — Það er tilvísun í breytinguna á 1. gr.

E.t.v. mundu margir vilja álykta að veigamesta breytingin hér væri sú. að við leggjum til að ákvæði til bráðabirgða falli brott úr þessu frv., en það er ákvæðið um að heimilt skuli að leggja á gjald til viðbótar við útflutningsgjaldið, sem áætlað var 2.5%, til að byggja aðstöðuhús hér í Reykjavík fyrir grásleppuafurðirnar. Nefndin er sammála um að leggja til að þetta ákvæði falli brott. Hins vegar er okkur nefndarmönnum ljóst, að forsvarsmenn Samtaka grásleppuhrognaframleiðenda hafa gengið á fund viðkomandi ráðh. og fengið þar góðar undirtektir um að þeir fengju aðstoð við að koma þessu húsi upp og þá með eðlilegum hætti. Okkur finnst líka eðlilegast að það sé gert á þann hátt og þeir, sem koma til með að nýta þetta hús, borgi visst geymslugjald sem standi undir rekstri slíkra skemma.

Undir þetta nál. rita Stefán Guðmundsson, Geir Gunnarsson, Guðmundur Bjarnason, Kjartan Jóhannsson, Gunnar Thoroddsen, Guðmundur Karlsson og Egill Jónsson. Allir nm. eru sammála um að mæla með þessum breytingum.