29.03.1982
Neðri deild: 59. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3308 í B-deild Alþingistíðinda. (2936)

55. mál, lánsfjárlög 1982

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Við 2. umr. um frv. til lánsfjárlaga tók ég það fram, að ég mundi fjalla nánar um efni lánsfjáráætlunar og ríkisfjármálin almennt við 3. umr. málsins. Ég mun hér á eftir fjalla um fimm þætti þessara mála: í fyrsta lagi erlendar lántökur almennt, í öðru lagi um afkomu ríkissjóðs 1982, í þriðja lagi um skuld ríkissjóðs við Seðlabanka, í fjórða lagi um afkomu ríkissjóðs á tveimur fyrstu mánuðum þessa árs og í fimmta lagi um sparnaðaráform og lækkun ríkisútgjalda. En eins og kunnugt er vefjast þau mál mjög inn í afgreiðslu lánsfjáráætlunar með þeirri tillögugerð sem samþykkt var við 2. umr. málsins.

Fyrst eru það þá erlendu lántökurnar.

Það er í tísku um þessar mundir meðal stjórnarandstæðinga að saka ríkisstj. um óhóflegar erlendar lántökur. Ekki er auðvelt að festa hendur á þessari gagnrýni sem oftast er flutt með miklum ýkjubrag. Svo er að sjá, eftir að viðunandi jafnvægi komst á í rekstri ríkissjóðs og ekki reyndist lengur unnt að byggja gagnrýni stjórnarandstæðinga á hallarekstri ríkissjóðs, að stjórnarandstaðan hafi talið sér nauðsyn að flagga einhverju öðru neikvæðu framan í þjóðina. Og þá urðu erlendu lántökurnar fyrir valinu fremur en flest annað. Þó er það staðreynd, að erlendum lántökum er háttað með nákvæmlega hliðstæðum hætti og verið hefur um árabil. Ríkissjóður tekur ekki erlend lán í sínar þágu nú frekar en áður, enda þess ekki þörf. Hins vegar tekúr ríkissjóður innlend lán, einkum til vegagerðar. Jafnframt er það staðreynd, að afborganir af eldri lánum ríkissjóðs hafa numið talsvert hærri fjárhæðum en upphæð nýrra tekinna lána frá því að núv. ríkisstjórn var mynduð, enda hefur verið verulegur rekstrarafgangur hjá ríkissjóði þessi tvö ár.

Erlend lán eru fyrst og fremst tekin af ríkisstofnunum sem hafa sjálfstæðan fjárhag, af sameignarfyrirtækjum ríkis og sveitarfélaga, af fyrirtækjum sveitarfélaga, einkum hitaveitum, af Framkvæmdasjóði vegna stofnlánasjóða atvinnuveganna og af fjöldamörgum einkafyrirtækjum í landinu.

Erlend lán eru nær eingöngu tekin til fjárfestinga og til að greiða framkvæmdir sem skila munu lántakendum arði sem notaður verður til að endurgreiða lánin. Rúmlega 80% lána á vegum ríkis og sveitarfélaga ganga til orkumála. Vissulega eru til örfáar undantekningar frá því, að lán séu aðeins tekin til fjárfestinga. Slíkar undantekningar hafa átt sér stað um langt árabil, en dæmi þess hafa alltaf verið mjög fá.

Fjármagnskostnaður byggðalína og Kröfluvirkjunar er enn fjármagnaður með nýjum lánum eins og gert hefur verið um árabil meðan þessi mannvirki eru ekki komin á fastan fjárhagslegan grunn og skila því ekki tekjum. En vonandi verður breyting til batnaðar hvað þetta varðar með bæði þessi mannvirki innan tíðar. Ég vona að breyting verði á þessu hvað byggðalínurnar snertir á þessu ári.

Sementsverksmiðjan tekur nú einnig sérstakt rekstrarlán. Það er rétt, sem fram hefur komið hjá stjórnarandstöðunni, að heppilegra hefði verið að komast hjá þessu rekstrarláni verksmiðjunnar með því að hækka verð á sementi fyrr en gert var á s.l. ári, en að sjálfsögðu er þessi lántaka afar smávaxin þegar á heildina er litið og engin ástæða til að halda að verksmiðjan geti ekki endurgreitt lánið án aðstoðar ríkissjóðs.

Þegar litið er á heildarlántökur erlendra lána á þessu ári, kemur í ljós að þær vaxa talsvert miklu minna en nemur breytingum á verðgildi krónunnar. M.ö.o. þýðir þetta að erlendar lántökur minnka að magni til á þessu ári. Má vera að ekki geri sér allir grein fyrir þessari staðreynd eftir linnulausan áróður stjórnarandstöðunnar um hið gagnstæða.

Á lánsfjáráætlun, sem samþykkt var af Alþingi fyrir einu ári, var gert ráð fyrir erlendum lántökum sem námu í heild 1734 800 þús kr. Ef lánsfjárlög verða samþykkt óbreytt eins og þau liggja nú fyrir má gera ráð fyrir að heildarlántaka nemi um 2 270 730 þús.kr. Hækkunin milli ára er 30%. Vissulega fór það svo eins og oft áður að erlendar lántökur urðu heldur meiri á árinu 1981 en gert hafði verið ráð fyrir í lánsfjárlögum, fyrst og fremst vegna þess að verðbólga var meiri á liðnu ári en gert hafði verið ráð fyrir í reiknitölum fjárlaga og lánsfjáráætlunar. Hið sama gæti gerst nú, að lántökur yrðu meiri, sérstaklega í einkageiranum, sem erfiðara er að hafa taumhald á. Ég á ekki von á því að lántökur opinberra aðila muni verða svo mjög miklu meiri en hér er gert ráð fyrir, enda þótt líklegt megi telja að verðbólga verði meiri á milli ára nú en gert er ráð fyrir í reiknitölum fjárlaga og lánsfjáráætlunar. Að svo miklu leyti sem upphæðir duga þá ekki til verður það að sjálfsögðu að koma fram í nokkrum niðurskurði framkvæmda. En það er einkum og sér í lagi einkageirinn, og eins geta verið einstaka tilvik þar sem ekki er hægt að skera upphæðir þannig niður í reynd, og þá getur orðið þarna einhver hækkun eins og varð á seinasta ári. Ég hef hins vegar enga ástæðu til að ætla að það sé meiri munur á hugsanlegri útkomu ársins og núverandi lánsfjárlögum, sem við erum hér að fjalla um en þeim lögum sem samþykkt voru á seinasta ári. Og ljóst er að hækkunin milli ára, sú sem ég nefndi áðan, er ekki nema 30% enda þótt hér sé almennt miðað við talsvert miklu meiri verðhækkun milli ára samkvæmt forsendum fjárlaga.

Hverjar eru svo tillögur stjórnarandstöðunnar um minni erlendar lántökur? Það er von að spurt sé því að ég leita eftir þeim hér inni sem heyrt hefur um þær getið. Nei, þvert á móti er mjög kvartað yfir því í þessum umr., að þessar lántökur nægi ekki miðað við núverandi verðbólgustig og muni því verða um raunverulegan niðurskurð að ræða á framkvæmdum hjá opinberum aðilum, að svo miklu leyti sem verðbólga verður meiri en reiknitölur gera ráð fyrir. Ég spyr enn: Eru einhverjar tillögur uppi hjá stjórnarandstöðu um niðurskurð á framkvæmdum, sem fjármagnaðar eru með erlendu fé, umfram þann niðurskurð sem vænta má að leiði af því að verðbólga verði heldur meiri en reiknitölur gera ráð fyrir? Ekki þekki ég þær tillögur, enginn hefur heyrt þeirra getið í þessum sal. Hins vegar þekki ég kröfur stjórnarandstöðuþingmanna um stórauknar erlendar lántökur, einkum í þágu orku- og iðnaðarmála.

Hvað segja svo stjórnarandstæðingar um minni erlendar lántökur með aukinni þátttöku lífeyrissjóða í innlendri fjáröflun lánsfjáráætlunar? Þetta er þó sá möguleiki sem álitlegastur er til að draga úr erlendum lántökum. En allir, sem eru í þessum sal, vita að hv. stjórnarandstaða og málgögn hennar hafa barist með kjafti og klóm gegn því framlagi lífeyrissjóða til lánsfjáráætlunar sem nú er í lánsfjárlögum, eins og fram kom við atkvgr. hér í deildinni s.l. fimmtudag, hvað þá að stjórnarandstaðan sé reiðubúin að hækka lögbundin skuldabréfakaup úr 40% ráðstöfunarfé lífeyrissjóða upp í t.d. 45% eins og uppi voru áform um í haust. Í þessu máli er því slagorð stjórnarandstöðunnar í verki: meiri erlendar lántökur. Það er sú krafa sem glymur í þessum umræðum beint og óbeint, þó að menn svo hafi að yfirvarpi allt annan áróður, þ.e. að lántökur séu of miklar. Þegar til kastanna kemur eru þessir menn hvorki með tillögur um niðurskurð framkvæmda né niðurskurð á erlendum lántökum. Og þeir eru ekki heldur með neinar tillögur um aukna innlenda sparifjármyndun til þess að draga úr erlendum lántökum.

Ágætt dæmi um falskan og óheiðarlegan áróður af þessu tagi um erlendar lántökur var ræða kunns atvinnurekanda sem slegið var upp í Morgunblaðinu daginn eftir undir stórri fyrirsögn, þar sem fullyrt var að erlendar skuldir þjóðarinnar hefðu aukist á s.l. ári um 10 millj. kr. á dag og mest hefðu þetta að sjálfsögðu verið eyðslulán, eins og það var nefnt í ræðunni og fyrirsögninni. Fjarstæðukenndar fullyrðingar af þessu tagi eru að sjálfsögðu ekki svaraverðar. En ég get upplýst hér að samkvæmt greinargerð, sem unnin hefur verið af sérfræðingum Seðlabankans, mun láta nærri að nefnd upphæð, sem slegið var upp í Morgunblaðinu á sínum tíma, sé í raun fjórum sinnum lægri. Ýkjurnar voru nú ekki meiri en þetta, þær voru 400%.

Vissulega er það rétt sem bent hefur verið á, að greiðslubyrði erlendra lána fer vaxandi. Meginskýringin er sú, að verðbólga er óvenjulega mikil bæði austan hafs og vestan og vextir óvenjulega háir. Mikil alþjóðleg verðbólga með langtum hærri vöxtum en nokkru sinni hefur áður verið veldur því, að verðgildi lánanna rýrnar miklu örar en áður var. Skuldirnar smækka því ört í alþjóðlegri verðbólgu, en á hinn bóginn þarf mikið að greiða af lánum í formi hárra vaxta. Í raun er því verið að greiða þau lán, sem ekki eru á föstum vöxtum, örar niður en áður var. Þess vegna hækkar greiðslubyrðin óvenjulega mikið meðan þetta ástand varið á alþjóðlegum lánamörkuðum.

Ég hef hér undir höndum nýlegar upplýsingar frá Seðlabankanum um stöðu þjóðarbúsins út á við. Til þess að gera hv. þm. ljóst hvernig þetta dæmi stendur hef ég farið fram á það við þingverði, að þeir dreifi þessum gögnum til allra þm. Munu þessi gögn vera komin á borð þm., að því er mér sýnist.

Í þessari töflu er gerð grein fyrir löngum erlendum lánum á árabilinu 1970–1981 og síðan hver staða stuttra vörukaupalána hefur verið, hver staða ógreidds útflutnings hefur verið, hver gjaldeyrisstaða hefur verið. Út frá þessum upplýsingum hefur verið hægt að reikna hver hafi verið raunveruleg nettóstaða við útlönd þegar tekið hefur verið tillit til birgðanna og til gjaldeyristöðunnar. Þá sjáum við hver staða þjóðarinnar gagnvart öðrum löndum raunverulega er, reiknað í hlutfalli af vergri þjóðarframleiðslu. Eins og menn sjá á aftasta dálki í þessu töfluyfirliti hefur nettóstaðan verið 21.3% af vergri þjóðarframleiðslu í árslok 1970 og er á því svæði um nokkurra ára skeið. Síðan hækkar hún mjög verulega á árunum 1975 og 1976, upp í 37.7% og 35.3%, en lækkar síðan aftur. Eins og menn sjá er nettóstaða þjóðarbúsins út á við — þegar tekið hefur verið tillit til langra erlendra lána og einnig til gjaldeyrisstöðunnar og vörubirgðanna-nokkurn veginn sú sama árin 1978, 1979, 1980 og 1981. Hún hefur meira að segja lækkað. Staðan í árslok 1981 er lægri en hún var á árunum 1978 og 1979, eða 31.8%, og verulega miklu lægri en hún var á árunum 1975 og 1976. Sjá menn af þessu hvað upphrópanir um háskalega stöðu þjóðarbúsins út á við vegna erlendrar lántöku eru í raun innantómar og yfirborðskenndar þegar málið er skoðað í heild sinni.

Ég get hins vegar bætt því við, að ég tel að það sé höfuðnauðsyn að vera á varðbergi gagnvart of miklum erlendum lántökum. En ráðið til þess er auðvitað fyrst og fremst að efla innlendan sparnað. Það fé verðum við auðvitað fyrst og fremst að fá frá þeim aðilum í þjóðfélaginu sem ráða yfir verulegu sparifé. Þess vegna hafa verið uppi hugmyndir bæði um aukin framlög lífeyrissjóða og aukin framlög bankakerfisins til lánsfjáráætlunar, til sameiginlegra verkefna þjóðarinnar. Staðreyndin er auðvitað sú, að tal stjórnarandstöðunnar um erlendar lántökur getur verið góðra gjalda vert, ef ekki væri öllum ljóst að hún meinar ekki orð af því sem hún segir.

Ég ætla þá næst að víkja að afkomu ríkissjóðs á liðnu ári. Um það efni verður birt þskj. væntanlega síðar í þessari viku og er því ástæðulaust að fara mörgum orðum um þann þátt málsins. En samkvæmt þeim tölum, sem fyrir liggja um afkomu ríkissjóðs á árinu 1981 og byggðar eru á bráðabirgðauppgjöri ríkisbókhaldsins frá því í janúarmánuði s.l., má sjá eftirfarandi niðurstöðu. Skal þá tekið fram að þetta yfirlit er miðað við greiðslugrunn eins og fjárlögin. Þessar tölur eru hins vegar eitthvað frábrugðnar þeim tölum sem birtar verða í endanlegum ríkisreikningi þar sem hann er byggður á rekstrargrunni. Ég vænti þess, að allir hv. þm. geri sér grein fyrir þessum mismun, sem m.a. liggur í því, að söluskattur í desembermánuði er ekki kominn inn í greiðslugrunninn, þann grunn sem ég mun gera hér grein fyrir, en er aftur á móti kominn inn í rekstrargrunninn og veldur því yfirleitt að rekstrarafkoma ríkisreiknings er heldur hagstæðari en greiðsluafkoma í árslok, á þeim grunni sem hér skal lýst.

Samkvæmt bráðabirgðatölum ríkisbókhaldsins voru tekjur ríkissjóðs á árinu 1981 5996.9 millj. kr., en gjöld 5911.1 millj. kr. Tekjur umfram gjöld urðu því 85.8 millj. Þegar þessar tölur hafa verið leiðréttar með hliðsjón af lánahreyfingum upp á 0.2 millj. og með hliðsjón af breytingum á viðskiptareikningum upp á 13.5 millj. kemur í ljós að greiðsluafgangur liðins árs hefur numið 72.1 millj. kr. Þegar þessar reiknitölur er bornar saman við tölur fjárlaga kemur í ljós að útkoman er allmiklu hagstæðari en fjárlög höfðu gert ráð fyrir. Í fjárlögum var gert ráð fyrir að greiðsluafgangur yrði 27.7 millj., en hann varð 72.1 millj. Þegar þessar tölur eru að öðru leyti bornar saman við fjárlögin kemur að sjálfsögðu fram nokkurt frávik, sem m.a. stafar af því, að launataxtabreytingar frá upphafi til loka árs 1981 voru í fjárlögum áætlaðar um 33%, en urðu um 42% vegna meiri hækkunar verðbótavísitölu og launahækkunar sem ófyrirséð var. Svipuðu máli gegnir um almennar verðlagsbreytingar. Í fjárlögum 1981 var miðað við 42% verðbreytingu milli áranna 1980 og 1981, sem í raun varð 50%. Það eru því bæði árin sem koma þarna nokkuð við sögu. Niðurstaðan er sem sagt greiðsluafgangur að fjárhæð 72.1 millj. kr. sem mun síðan breytast, væntanlega heldur hækka, þegar niðurstöður væntanlegs ríkisreiknings fyrir árið 1981 liggja fyrir. En óhætt er að fullyrða hér og nú að útkoma ríkissjóðs á liðnu ári er sú hagstæðasta sem verið hefur um mjög langt skeið. Þarf að fara aftur til ársins 1970 til að fá sambærilega niðurstöðu.

Í þessu sambandi er rétt að vekja athygli á því, að skuld ríkissjóðs, A-hluta, við Seðlabankann hefur farið ört minnkandi að raungildi á seinustu árum. Þessi skuld varð fyrst og fremst til á árumun 1974, 1975, 1976, 1977 og 1978. Ef reiknað er á föstu gengi og föstu verðlagi og þessi skuld metin miðað við vísitölu byggingarkostnaðar 909 stig kemur í ljós að skuldin nam um 200 millj. árið 1974. Hún er komin upp í um 1000 millj. árið 1977 og fer síðan upp í 1200 millj. árið 1979, en hefur hrapað mjög ört á þeim tíma sem liðinn er síðan. Nú er þessi skuld á sama verðgildi komin niður í rétt um 200 millj. aftur og er því af mjög svipaðri stærðargráðu að raungildi og hún var á árinu 1974.

Um afkomu ríkissjóðs á tveimur fyrstu mánuðum þessa árs er ekki ástæða til að hafa mörg orð, enda segir sig sjálft að tveir mánuðir eru svo litill hluti af árinu að þeir ráða engum úrslitum. Þó er hægt að upplýsa það hér, og er eðlilegt að gera það í framhaldi af grg. um afkomu ríkissjóðs á liðnu ári, að á þessum tveimur fyrstu mánuðum er afkoma ríkissjóðs í mjög eðlilegu jafnvægi.

Í þessum fyrstu mánuðum ársins hefur oft verið mikill greiðsluhalli, eins og hv. þm. mun vafalaust kunnugt og eins og vill verða á fyrstu mánuðum hvers árs, allt fram á sumar. T.d. í fyrra, á því ágæta ári fyrir ríkissjóð, var samt greiðsluhalli í janúar og febrúar upp á 90 millj. kr. Nú er 14 millj. kr. tekjuafgangur á fyrstu tveimur mánuðum ársins og gætir þar að sjálfsögðu einkum tekna af sölugjaldi frá lokum seinasta árs.

Ég vil næst víkja nokkrum orðum að erlendum lántökum sem fyrirhugaðar eru eða staðið hefur verið að á þessu ári vegna lánsfjáráætlunar. Kannske hefði ég átt að víkja að þeim þætti málsins áður en ég ræddi um afkomu ríkissjóðs, en ekki skiptir öllu máli í hvaða röð þetta er fram sett. Ég vil minna á það, að hinn 26. febr. s.l. var undirritaður samningur um lán til íslenska ríkisins að fjárhæð 75 millj. dollara eða um það bil 723 millj. ísl. kr. Þetta lán er tekið í tengslum við lánsfjáráætlun ársins 1982. Lánið hefur hins vegar einungis verið staðfest með undirritun en ekki hefur verið dregið á það enn, og er beðið eftir afgreiðslu lánsfjáráætlunar að svo verði gert.

Lánveitendur voru 12 bankar í Bandaríkjunum, Kanada, Japan og Vestur-Evrópu, þeirra á meðal nokkrir stærstu og öflugustu bankar vestanhafs svo og tveir norrænir bankar. Milligöngu um öflun lánsfjárins hafði City Bank í London sem lánar 9 millj. af lánsfjárhæðinni, en aðrir bankar lána 6 millj. hver. Lánið er veitt til 10 ára og er afborgunarlaust fyrstu 5 árin. Vextir eru breytilegir og miðast við millibankavexti í London, en til viðbótar er greitt fast ofanálag sem er 3/8 úr prósentu fyrstu 5 árin en 1/2% eftir það. Lántökugjald er 1/2%. Þessi kjör eru með því besta sem nú þekkist á erlendum lánamörkuðum.

Þetta lán, sem tekið var í London í febrúarmánuði s.l., er því svokallað veltilán með breytilegum vöxtum og er miklu nær að líkja því við yfirdráttarheimild, því að lánið má greiða upp að fullu hvenær sem henta þykir og draga má lánið að nýju eftir þörfum. Einnig má skipta því yfir í aðra gjaldmiðla þegar heppilegt er talið. Sennilegt er að næsta meiri háttar lán verði með föstum vöxtum. Vafalaust er hyggilegast að blanda saman veltilánum og lánum með föstum vöxtum og jafnframt að dreifa áhættunni af hugsanlegum breytingum á verðgildi mynta með því að taka lán af ýmsu tagi og í ýmsum mismunandi myntum.

Mér var tjáð, þegar ég undirritaði þetta lán nú fyrir skemmstu í London, að frændur okkar Danir hefðu nýverið tekið sams konar lán í London, en kjörin hefðu verið áberandi lakari.

Satt best að segja er alveg ljóst að Íslendingar njóta mikils lánstrausts í öðrum löndum, en gott lánstraust endurspeglast í góðum lánskjörum. Erlendar lánastofnanir virðast keppast um að bjóða Íslendingum lán og oftast á betri kjörum en almennt gerist. Íslendingar hafa staðið ágætlega í skilum og virðast taldir líklegir til að gera það áfram. Gott lánstraust getur að sjálfsögðu stafað af mörgum ástæðum, en kannske er ein ástæðan sú, að staða ríkissjóðs er góð og hefur verið góð, ólíkt því sem er í mörgum nálægum löndum.

Stundum bjóðast lán frá lítt þekktum aðilum sem bjóða ótrúlega góð kjör miðað við það sem þekktar lánastofnanir bjóða. Slík tilboð eru athuguð vandlega, en þó er það meginregla, að menn verða að gera grein fyrir lánveitanda og hvernig sjóður sá er til kominn sem lán er boðið úr. Verður þá oft fátt um svör. Ýmis lánstilboð frá erlendum bankastofnunum eru nú til athugunar.

Ég vil síðan víkja örfáum orðum að fyrirhuguðum sparnaðaráformum ríkisstj. og áformum um lækkun ríkisútgjalda. Í skýrslu frá ríkisstj. um aðgerðir í efnahagsmálum, sem lögð var fyrir Alþingi hinn 28. jan. s.l., voru margháttaðar aðgerðir boðaðar í efnahagsmálum, m.a. niðurfærsla verðlags. Kostnaður ríkissjóðs við niðurfærslu verðlags á árinu 1982 er áætlaður 350–360 millj. kr. Er þar einkum um að ræða tollalækkanir og auknar niðurgreiðslur landbúnaðarvöruverðs. Þar af er reiknað með að aukning niðurgreiðslna 1. febr. s.l. hafi kostað ríkissjóð um 165 millj, kr. á árinu.

Fjármunir til niðurfærslu verðlags verða fengnir með ýmsum aðferðum í ríkisfjármálunum. Útgjöld fjárlaga fyrir árið 1982 eru lækkuð um 120 millj. kr. með sparnaðaraðgerðum og samdrætti í framkvæmdum. 180–190 millj. kr. eru fengnar af gjaldahlið fjárlaga með þeim hætti að verja áður óráðstöfuðum fjárhæðum til niðurgreiðslna. Það, sem á vantar, jafnast með sérstakri skattlagningu á banka, en frv. þess efnis hefur þegar verið lagt fram hér í þinginu.

Að undanförnu hefur verið unnið að sparnaðaraðgerðum í ríkisfjármálum í samræmi við samþykktir ríkisstj. Aðgerðir til lækkunar ríkisútgjalda eru þessar:

Í fyrsta lagi að lækka öll framlög til framkvæmda um 6%, en það lækkar útgjöld um 32 millj. kr. Hafa ber í huga þegar sá niðurskurður er nefndur á nafn að að sjálfsögðu skiptir mestu máli fyrir framkvæmdaaðila hvert verður verðbólgustigið á árinu. Ljóst er að þessar aðgerðir verða til þess að verðbólga verður 12–13% minni en ella hefði verið. (Gripið fram í: Miðar hæstv. ráðh. við fjárlög?) Ég miða við þær spár sem fyrir lágu nú um áramótin, en þá var gert ráð fyrir að verðbólga væri á nýjan leik á uppleið. (Gripið fram í: En af hverju miðar hæstv. ráðh. ekki við fjárlög?) Vegna þess að reiknitala fjárlaga var sett inn í fjárlagafrv. á s.l. sumri og kemur í raun og veru ekki þessu máli við að öðru leyti en því, að hún er sú viðmiðunartala sem fjárlögin miðast við. Því hefur ekki verið haldið fram, hvorki á s.l. sumri, þegar fjárlögin voru sett fram né síðar, að reiknitala fjárlaga fæli í sér spár eða endanleg fyrirheit um verðbólgu á þessu ári. Það var einmitt sérstaklega tekið fram í frv. til fjárlaga og margtuggið af stjórnarandstöðunni í umræðum um fjárlög, að þetta skyldi vera reiknitala og ekki spá um verðbólgu. Þegar af þeirri ástæðu er ljóst að reiknitala fjárlaga kemur þessu máli ekki beinlínis við.

En það, sem ég vildi sagt hafa, var að ef þessar efnahagsaðgerðir ríkisstj. verða til þess, að verðbólga hér á landi verði 12–13% minni en ella hefði orðið, sem vonir standa til og við höfum fyllstu ástæðu til að ætla, þá segir það sig nokkuð sjálft, að framkvæmdagildi fjárveitinga, sem skornar eru niður um 6%, verður eftir sem áður talsvert meira en verið hefði með óniðurskornar fjárveitingar. Þarf ekki að útskýra það frekar fyrir jafngáfuðum mönnum og hv. alþm. eru.

Ég nefndi hér að öll framlög til framkvæmda væru lækkuð um 6%. Því má bæta við, að dregið er úr framlögum til fjárfestingarlánasjóða um 6% til viðbótar við þá skerðingu sem þegar var ákveðin í fjárlögum fyrir árið 1982. Lækkun ríkisútgjaldanna þessu samfara nemur um 23 millj. kr. Framlög til jarðræktar og búfjárræktar eru einnig skert um 6% eða um 3 millj. kr. Lækkun framlaga til framkvæmda nemur því alls um 58 millj. kr. eða rétt um helmingi heildarniðurskurðar á fjárlagatölum.

Í öðru lagi er stefnt að sparnaði í útgjöldum Tryggingastofnunar ríkisins um 20 millj. kr. á árinu. Verið er að kanna hvaða leiðir eru færar í þessu efni, en eins og fram hefur komið að undanförnu er fyrirsjáanlegt að rekstrarafkoma sjúkrahúsa, sem njóta greiðslna frá Tryggingastofnun ríkisins, er mikið áhyggjuefni. Þetta atriði svo og önnur atriði tryggingamála þarf að skoða í tengslum við sparnað í útgjöldum.

Í þriðja lagi lækka framlög til rekstrar ríkisstofnana og hvers konar rekstrarstyrkir til aðila utan ríkiskerfisins. Með sparnaði í rekstri er alls áformað að lækka útgjöldin um 40 millj. kr. Í þessu tilliti kemur þrennt til. Flest framlög til rekstrar eru lækkuð um 4%, auk þess sem fagráðuneyti hafa gert tillögur um lækkun útgjalda hvert á sínu sviði. Áformað er að hækka sértekjur nokkurra stofnana sem afla tekna samkv. gjaldskrám. Ýmsar sparnaðaraðgerðir í rekstri ráðuneyta og stofnana, sem ætlað er að skila nokkrum árangri á árinu 1982, eru þó sennilega mikilvægastar þegar til lengri tíma er litið. Hér er um að ræða stóraukið eftirlit með utanlandsferðum og yfirvinnu opinberra starfsmanna. Athugun hefur leitt í ljós að yfirvinna í stofnunum ríkisins hefur aukist árlega um 6–8% að jafnaði á árunum 1979–1981. Leitað hefur verið samstarfs við öll ráðuneyti um að auka eftirlit og aðhald með þessum tveimur veigamiklu útgjaldaliðum. Er nú unnið að því að setja reglur um þessar aðhaldsaðgerðir.

Sundurliðuð áform um lækkun ríkisútgjalda liggja nú að mestu fyrir og verða m.a. kynnt fjvn. þingsins innan skamms.

Herra forseti. Ég hef hér gert grein fyrir nokkrum mikilvægum atriðum sem varða lánsfjáráætlun og ríkisfjármálin að öðru leyti. Vafalaust spinnast einhverjar umr. út frá þessari greinargerð. Er ekki nema gott um það að segja þar sem hér er um mikilvægt mál að ræða. En ég vil, áður en ég lýk máli mínu, gera hér grein fyrir brtt. sem ég flyt við frv. Sú brtt. á að koma í staðinn fyrir brtt. sem meiri hl. hv. fjh.- og viðskn. flutti við 2. umr. málsins en var dregin til baka til 3. umr. og fjallar um raðsmíði fiskiskipa. Ég hef látið yfirfara þessa till. betur og það hefur verið fjallað um hana ítarlega. Fullt samkomulag er um að flytja hana með þeirri breytingu, að um verði að ræða sjálfskuldarábyrgð, en ekki einfalda ábyrgð eins og till. gerði ráð fyrir. Kannske hefði verið eðlilegast að hv. fjh.- og viðskn. hefði flutt þessa till., en þar sem formaður nefndarinnar er veikur og tjáði mér í morgun að hann mundi ekki komast á þingfund í dag varð það að samkomulagi að ég flytti till. þannig að hún gæti komið til atkv. nú við 3. umr. Till. er svohljóðandi:

„Fjmrh. fyrir hönd ríkissjóðs er heimilt á árunum 1982–1985 að ábyrgjast, gegn þeim tryggingum sem hann metur gildar, með sjálfskuldarábyrgð lán til smíði á fiskiskipum innanlands sem nemi allt að 80% smíðaverðs samkv. mati Ríkisábyrgðasjóðs. Skip þessi mega vera allt að 35 metra löng með vélarafl allt að 1000 hestöfl. Heimild þessi nær til smíði fjögurra skipa í senn.

Ábyrgð þessi miðast við að skip sé óselt við veitingu ríkisábyrgðar og ríkisábyrgðin falli niður við sölu skips frá skipasmíðastöð.

Fjmrh. ákveður nánari framkvæmd þessa ákvæðis með reglugerð.“

Ég vil taka það fram, að ég var heldur tregur til að fallast á sjálfskuldarábyrgð í þessu sambandi. Ég hafði þá afstöðu lengst af að þetta yrði og ætti að vera einföld ábyrgð, eins og eðlilegast er í öllum slíkum tilvikum. Það var hins vegar vegna nokkurs einstrengingsháttar að minni hyggju af hálfu ríkisbankanna að þessi varð niðurstaðan, og verður við það að una. En útlit var fyrir að þessi raðsmíði mundi algjörlega detta upp fyrir ef ekki yrði um sjálfskuldarábyrgð að ræða.

Ég vil þó taka það fram, að að sjálfsögðu er gert ráð fyrir að þessi lán falli alls ekki á ríkissjóð. Og þar sem um er að ræða heimildarákvæði vil ég taka það skýrt fram um leið og ég flyt þessa till., að komi í ljós að þeir aðilar, sem hér standa að málum, láti lánin falla á ríkissjóð, þá mun verða tregt um afgreiðslu þeirra heimilda sem eftir verða, nema reynt sé að girða fyrir að slíkt eigi sér stað. Þetta er að sjálfsögðu formleg ábyrgð og verður að ganga út frá því að hér sé ekki um það að ræða að verið sé að velta þessum lánum yfir á ríkissjóð. Þessa aðvörun tel ég mér skylt að hafa uppi um leið og ég flyt þessa tillögu.

Herra forseti. Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta mál.