03.11.1981
Sameinað þing: 12. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 431 í B-deild Alþingistíðinda. (296)

1. mál, fjárlög 1982

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Hv. þm. vék hér að enn nýju atriði, þ. e. lántöku Framleiðsluráðs landbúnaðarins, og vildi reyna að nota það sem dæmi um að fjárlög væru sett upp með ýmsum hætti. Hv. þm. veit að allur þorri þm. samþykkti vorið 1980 að heimila ríkissjóði að ábyrgjast lán sem Framleiðsluráð landbúnaðarins tæki. Þessi lög voru samþykkt af öllum þorra þingmanna, en þó ekki þm. Alþfl. Þetta lán var í raun og veru tekið af Framleiðsluráði landbúnaðarins, en á ábyrgð tveggja aðila, þ. e. annars vegar á ábyrgð Byggðasjóðs og hins vegar á ábyrgð ríkissjóðs. Síðan var gert ráð fyrir að ríkissjóður byrjaði að greiða sinn part í þessu á fjárlagaárinu 1982 og þá er þessi greiðsla ríkissjóðs færð í A-hluta sem kostnaður ríkissjóðs, í A-hluta og hvergi annars staðar. Ég sé því ekki annað en að þetta sé fullkomlega rökrétt og eðlilegt og komi í raun og veru ekkert því við sem við vorum að ræða áðan um A-hluta og B-hluta. Þetta er að sjálfsögðu bókfært jafnóðum og það gjaldfellur í A-hlutann og er, eins og hann réttilega nefndi, rúmlega 2 milljarðar gkr. á næsta ári.

Svo vil ég að lokum þakka hv. þm. fyrir traustsyfirlýsinguna og fögur orð í minn garð og vil á móti óska honum alls hins besta í vandasömu hlutverki.