30.03.1982
Sameinað þing: 71. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3374 í B-deild Alþingistíðinda. (2973)

149. mál, virkjunarframkvæmdir og orkunýting

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Hæstv. iðnrh. talaði um það áðan að hann myndi ekki eftir því, að með till. Alþfl. frá því í fyrra hefði verið gert ráð fyrir röðun á virkjunaráföngum. Ég sé sérstaka ástæðu til að ítreka enn einu sinni ályktun þingflokks Alþfl. um þetta mál, svo að hæstv. iðnrh. þurfi ekki að vaða í villu um það efni. En hitt var rétt hjá hæstv. ráðh., að það var hluti af stefnumörkun Alþfl. að samningar um sölu á raforku til orkufreks iðnaðar yrðu teknir úr höndum hæstv. iðnrh. og þeir settir í hendur sérstakrar nefndar sem Alþingi kysi. Við töldum að fullsannað væri að hæstv. iðnrh. og ríkisstj. hefðu sannað ónýti sitt í því að undirbúa orkunýtinguna og orkufrekan iðnað og þess vegna væri fyllsta ástæða til þess, að Alþingi tæki í taumana og tæki þessi mál að sér. Við lítum svo á, að nefnd af þessu tagi sé af allt öðrum toga en þær nefndir sem hafa verið að semja skýrslur uppi í iðnrn., og ég er sannfærður um að hefði verið farið að þessum till. stæðum við mun betur í dag.

Ályktun okkar Alþfl.-manna um þetta efni hófst á því að minna á að án uppbyggingar í orkufrekum iðnaði væri allt tal um virkjunaráform innantómt hjal. Við getum því ekki séð annað en að við stöndum einmitt enn í þeim sporunum. Hér fer fram mikil umr. um virkjunaráform, en grundvöllinn sjálfan vantar, þ.e. hvaða iðjuver á að reisa og hvar til að nýta þessa orku til að skapa ný atvinnutækifæri. Við ítrekuðum þetta með því að segja: Sé ekki ætlunin að reisa og reka iðjuver, sem byggja framleiðslu sína fyrst og fremst á stórnotkun raforku, er engin ástæða til stórfelldra virkjunarframkvæmda. Umræður um röðun eru þá líka harla tilgangslausar. Í annan stað ályktuðum við að virkjun orkunnar til að nýta orkufrek iðnaðartækifæri væri álitlegasti valkosturinn sem Íslendingar eiga til að treysta lífskjörin í landinu og fjölga atvinnutækifærum. Og þá sagði: Verði ekki þegar snúið á þá braut má búast við vaxandi landflótta og stöðvun í efnahagsmálum.

Það hefur ítrekað komið fram í málflutningi okkar Alþfl.-manna, að við teljum brýna nauðsyn bera til að það verði gjörsamlega skipt um stefnu í atvinnumálum þjóðarinnar. Við höfum lagt áherslu á það, að varið yrði miklu fjármagni í uppbyggingu á orkufrekum iðnaði og í virkjunarframkvæmdir, en hins vegar yrði dregið úr því fjármagni sem fer nú og hefur farið í miklum mæli hjá núv. ríkisstj. í stækkun skipastólsins. Eins höfum við talið og teljum að ástæða sé til að draga úr fjárfestingu í landbúnaði. Sannleikurinn er sá, að þessi misvísun fjárfestingarinnar í landinu er eins konar lífskjararýrnunarstefna sem fylgt er af hálfu stjórnvalda. Af þeirri braut verðum við vitaskuld að snúa.

Við ályktuðum enn fremur: Alþfl. telur brýnt að þegar í stað verði teknar ákvarðanir um slíka stefnumörkun í stað þess úrræðaleysis sem ríkir. Alþfl. telur að slík stefna eigi að fela í sér eftirfarandi meginþætti:

1. Samningagerð um sölu raforku til orkufreks iðnaðar verði falin sérstakri orkusölunefnd sem Alþingi kjósi, enda hafa iðnrh. og ríkisstj. þegar sannað ónýti sitt í þessum málum. Orkusölunefndin miði störf sín við að sala til orkufreks iðnaðar a.m.k. fjórfaldist á næstu tveimur áratugum. Sérstaklega verði unnið að því, að fljótlega rísi eitt nýtt iðjuver á Austurlandi, eitt á Norðurlandi og eitt á Suður- eða Suðvesturlandi, auk stækkana á þeim orkuverum sem fyrir eru.

Það er innihald þessa hluta ályktunarinnar, að menn setji sér ákveðin markmið, bæði að því er varðar framkvæmdir og tíma, og að það sé unnið að uppbyggingu í þessari grein, bæði að því er varðar hinn orkufreka iðnað og virkjanirnar, í samræmi við slíka áætlun þannig að menn hafi ákveðna stefnu til langs tíma. Það er mjög mikilvægt vegna þess að í þessum efnum þarf að taka ákvarðanir í góðan tíma.

2. liður ályktunarinnar var þannig: Virkjanaundirbúningur og framkvæmdir eiga að vera á hendi eins aðila, Landsvirkjunar, sem öllum sveitarfélögum landsins sé gert kleift að gerast aðilar að eftir því sem þau óska. — Þetta held ég að ætti að vera öllum ljóst hvað þýðir. Hér er hugmyndin sú, að Landsvirkjun rísi virkilega undir nafni og öll sveitarfélög landsins fái tækifæri til þess að gerast eignaraðilar að henni, öll sveitarfélög landsins og þar með að allir íbúar landsins sitji við sama borð í þessum efnum.

3. liður ályktunarinnar svo svofelldur: Til þess að geta nýtt þau tækifæri, sem bjóðast, og tryggja samfelldar virkjunarframkvæmdir verði ávallt kappkostað að á hverjum tíma séu fyrir hendi fullkannaðir virkjunarvalkostir sem svara til a.m.k. 300 mw. umfram þær virkjanir sem unnið er að á hverjum tíma. — Í þessu felst að þessi hluti efnahagslífsins sé reiðubúinn á hverjum tíma að fara í framkvæmdir þegar tækifæri gefast, að menn standi ekki uppi klumsa og hafi ekki tilbúna virkjunarvalkosti þegar góð tækifæri bjóðast.

4. þáttur ályktunarinnar er svofelldur: Landsvirkjun verði þegar heimilað að reisa og reka eftirtalin orkuver til viðbótar þeim sem þegar eru fyrir hendi: Í fyrsta lagi nýjar virkjanir eða viðbætur við eldri orkuver á Tungnaár- og Þjórsársvæðinu með allt að 220 mw. uppsettu afli. Í annan stað Blönduvirkjun með allt að 180 mw. uppsettu afli. Og í þriðja lagi Fljótsdalsvirkjun með allt að 330 mw. uppsettu afli. Þá er Landsvirkjun og heimilt að gera stíflu við Sultartanga og gera þær ráðstafanir aðrar á vatnasvæðum ofan virkjananna sem nauðsynlegar þykja til að tryggja rekstur þeirra.

Með þessari stefnumörkun er það tryggt, að undirbúnar séu og menn séu reiðubúnir að hefja framkvæmdir við allar þessar þrjár virkjanir þannig að á því standi ekki, Alþingi hafi gengið frá því, að virkjanir geti haldið áfram með samfelldum hætti á Suðurlandi og þar þurfi ekki að koma til atvinnuröskunar vegna þess að skrykkjótt gangi og út gangi boð eða bönn frá Alþingi eða ríkisstj., og í annan stað, að þær tvær virkjanir aðrar, sem lengst eru komnar í hönnunarundirbúningi, verði heimilað að reisa og reka.

Síðan kemur 5. liður þessarar ályktunar, sem er um það bil árs gömul, og hann er svona: Við þær framkvæmdir, sem þannig verði þegar heimilað að ráðast í, verði við það miðað að:

1) Uppsett vélaafl á Þjórsár- og Tungnaársvæðinu geti hafið raforkuframleiðslu á árunum 1983–1985 í áföngum. 2) Blönduvirkjun geti hafið orkuframleiðslu 1986. 3) Fljótsdalsvirkjunaráfangar hefji orkuframleiðslu á árunum 1987–1989. — Hér er um tímasetta ákveðna röð að ræða um það, á hvaða tíma virkjanirnar eiga að koma inn á kerfið. Það er í samræmi við þann hluta þessarar ályktunar sem ég rakti hér fyrr, að menn setji sér ákveðin tímamörk til að vinna eftir um öflun valkosta í orkufrekum iðnaði.

6. liður ályktunarinnar er þannig: Ef ekki nást samningar við landeigendur um virkjun Blöndu samkv. tilhögun I eða jafnhagkvæmri tilhögun fyrir 1. júlí 1981 verði Blönduvirkjun frestað, en Fljótsdalsvirkjun flýtt að sama skapi.

7. liður er þannig: Einungis verði vikið frá ofangreindri virkjunarstefnu ef ekki nást samningar um hagkvæma orkusölu í samræmi við hana.

Hér er afdráttarlaus stefna mörkuð og ef þessi stefna hefði verið samþykkt fyrir áti hefðu allir aðilar mátt vita glöggt hvar þeir stæðu og hver væri meining ríkisstj. og Alþingis að því er öll þessi atriði varðar. Ég er sannfærður um að þá hefði gengið betur að undirbúa virkjanir, þá hefði betur miðað í því að velja og finna og ganga frá valkostum í orkufrekum iðnaði, þá hefði gengið betur að standa að málum að því er varðar samninga um Blönduvirkjun.

Nú er það auðvitað mála sannast að vegna þess að ákvörðun hefur dregist svo mjög sem raun ber vitni mundi ekki vera unnt að standa við þessi ártöl núna og yrði að flytja þau til um það ár sem liðið er, það ár sem tapað er. En við stöndum í raun og sannleika í því sem næst sömu sporum og fyrir ári. Þó hlýtur það að vekja ugg, að nú þegar svo á að heita að ákvörðun hafi verið tekin um Blönduvirkjun, samningur að vísu undirritaður með fyrirvara um samþykki ríkisstj., skuli svo hafa til tekist að þar sé ekki um samkomulag að ræða, eins og var t.d. forsenda þess að hún yrði næsta virkjun utan þeirrar virkjanaraðar sem í gangi ætti að vera á Suðurlandi, og þessi ákvörðun skuli hafa gerst með þeim endemum að allt eins líklegt verður að telja að ekki sé hald í henni og jafnvel þó að eigi að heita ákvörðun muni ekki reynast verða virkjað samkv. þessari ákvörðun. Það er búið að stilla upp slíku stríði við heimamenn að ég tel að það sé allsendis óvíst að þessi ákvörðun, þó að hún eigi að heita tekin nú, reynist hafa nokkurt hald. Þetta mun vitanlega koma í ljós, en þennan ugg setur að manni.

Um þá þáltill., sem hér liggur fyrir, hlýt ég að segja og ítreka það sem ég hef áður sagt, að í henni felast ekki eiginleg stefnumörkun og engin ákvörðun. Undirstöðuna sjálfa vantar þar sem er ákvörðunartakan um orkufrek iðnaðartækifæri. Það þýðir lítið að veifa þeim verksmiðjum sem hefur verið veifað að undanförnu, eins og steinullar- eða stálverksmiðju eða verksmiðjum af þessu tagi, því að orkunotkun þeirra er hverfandi miðað við þau tækifæri til orkubeislunar sem við höfum verið að ræða hér — ekki bara í dag, heldur á undanförnum árum. Og þá er vitaskuld sárt að ekki skuli miða betur en raun ber vitni, ekki síst þegar við vitum að ekki er vaxtar að vænta í þjóðarbúinu í landbúnaðargeiranum, ekki er vaxtar að vænta í sjávarútvegi sem neinu nemi, heldur bendir allt til þess, að þær auðlindir sú fullnýttar og vel það og yfirfjárfesting hafi átt sér stað í vissum hlutum þeirrar greinar, nefnilega í skipastólnum.

Mönnum er auðvitað farið að leiðast þetta gauf, að ekki skuli miða betur, og allt bitnar þetta á þjóðinni. Mér finnst eins og þau upphlaup, sem hafa átt sér stað undanfarna daga og eiga að flokkast undir ákvarðanatöku, séu með allt of miklum sýndarbrag. Það er hlaupið til og skrifað undir samning um Blöndu með slíku fyrirvaraleysi að jafnvel hinir ráðherrarnir í ríkisstj. vita ekki hvort þeir vissu af því að það ætti að skrifa undir eða ekki. Það eru teknar ákvarðanir, skilst manni, annan hvern dag, kísilmálmverksmiðja, sykurverksmiðja og þar fram eftir götunum, en við höfum séð svona uppröðun áður og komist að raun um að þó að þetta eigi að heita ákvarðanir er sýndaryfirbragð á því og heldur lítið hald í.

Mönnum er auðvitað líka farið að leiðast að hvorki gengur né rekur hjá hæstv. iðnrh. í fleiri málum, eins og t.d. samskiptum við Alusuisse og að knýja fram hærra raforkuverð. Ég trúi að það séu 14–15 mánuðir síðan það mál hófst með upplýsingum um það sem nefnt var „hækkun í hafi.“ Nú er það vitaskuld svo, að þær kröfur, sem Íslendingar eiga vegna þessarar svokölluðu hækkunar í hafi, kunna að reynast vafasamar. Ég skal ekkert um það fullyrða, en upphæð þeirra krafna, sem Íslendingar hafa lagt fram í þeim efnum, er vitaskuld hverfandi í samanburði við þá hækkun sem við hljótum að gera kröfu til varðandi raforkuverðið. Þess vegna er hver mánuður sem líður mjög dýr.

Mér hefur virst að sú krafa, og ég held að það sé rétt hjá mér, sem Íslendingar hafa uppi vegna svonefndrar hækkunar í hafi sé af stærðinni 1.4 millj. dollarar. Mér sýnist að þær kröfur, sem við hljótum að gera vegna þess hverja nauðsyn ber til að hækka raforkuverðið, séu af stærðinni 700 þús. til 1200 þús. dollarar á mánuði. Krafan vegna þessarar hækkunar í hafi svarar sem sagt til kröfu um raforkuverðshækkun á við skulum segja tveimur mánuðum eða einhverju slíku. Ég nefni þetta bara til þess, að menn átti sig vel á hvað brýnt er að takist að leiða þessi mál skjótlega til lykta, og með hliðsjón af því, hver feiknadráttur hefur orðið á að niðurstaða fengist í þessu máli.

Flokksstjórn Alþfl. ályktaði einmitt nýlega um þetta mál. Í þeirri ályktun var lögð áhersla á tvennt: í fyrsta lagi hversu áríðandi væri að ganga frá yfirstandandi deilumáli milli Alusuisse og ríkisstj. um skattamál og þess háttar svo að samningar um meginatriði drægjust ekki á langinn, og í annan stað að árétta það meginatriði að ná fram endurskoðun á samningunum, einkum varðandi raforkuverð og skattaákvæði.

Nú geta menn haft mismunandi skoðanir á því, hvernig þessi samningur var á sínum tíma. En ég held að það sé augljóst af þeim gögnum, sem tiltæk eru um þetta mál, að raforkuverðið, sem samið var um á sínum tíma, var fyllilega sambærilegt við það sem gerðist í tilsvarandi sölum annars staðar í heiminum. Á seinustu þremur til fimm árum hefur aftur á móti hallað mjög undan fæti, og nú er það alls ekki sambærilegt. Á sama hátt og Alusuisse féllst á það 1975 að breyta raforkuverðinu tel ég að það hljóti nú að fallast á breytingu á raforkuverðinu sem taki tillit til þeirrar þróunar sem hefur orðið síðan. Það tókst að fá það til að taka tillit til þróunarinnar árin fyrir 1975. Á þetta eigum við að leggja megináherslu. (Gripið fram í: Hvaða atriði í upprunalegum samningi?) Ég veit ekki hvort ég skil hv. þm., en það, sem ég vil benda á, er að einu sinni áður hefur tekist að fá þetta raforkuverð hækkað þegar aðstæður höfðu breyst frá upprunalegum samningi. Á sama hátt hafa aðstæður gerbreyst nú frá 1975 og mér finnst standa Alusuisse næst að taka tillit til aðstæðna núna með sama hætti og gert var 1975. Vitaskuld er krafa okkar að raforkuverðið sé í samræmi við það sem eðlilegt getur talist á hverjum tíma. Það var krafa okkar og þeirri kröfu náðum við fram þegar samningarnir voru gerðir. Það var auðvitað krafa 1975, og það hlýtur að vera krafa núna.

Ég gat ekki látið hjá líða að fara fáeinum orðum um þetta atriði, svo mikilvægt sem það er og vegna þess að þetta hefur verið í umr. að undanförnu. Ég treysti því, að iðnrh. beiti sér af alefli til að ná fram þessu mikla hagsmunamáli þjóðarinnar og einbeiti sér að því að ná fram hækkun á raforkuverðinu með öllum þeim ráðum sem skynsamleg geta talist.

Ég ætla ekki, herra forseti, að fjölyrða öllu frekar um þessi mál á þessari stundu. Vitaskuld er margt sem væri ástæða til að ræða í þessu sambandi, en um þáltill. sjálfa sé ég í rauninni enga ástæðu til að hafa mörg orð. Til þess gefur hún ekkert tilefni.