31.03.1982
Sameinað þing: 72. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3383 í B-deild Alþingistíðinda. (2976)

256. mál, samningar við Færeyjar og Noreg um veiðar á kolmunna

Utanrrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Tildrög þeirra samninga, sem hér liggja fyrir um gagnkvæmar heimildir til veiða á kolmunna, eru rakin í aths. við þáltill. Með bréfi, dags 25. febr. s.l., óskaði sjútvrn. eftir því við utanrrn. að leitað yrði efir samkomulagi við landsstjórn Færeyja um gagnkvæmar heimildir til veiða á 20 þús. lestum af kolmunna í fiskveiðilögsögu Færeyja og í efnahagslögsögu Íslands á árinu 1982. Sams konar samningar voru gerðir við Færeyjar í ársbyrjun 1980 og aftur 1981.

Utanrrn. lagði til við landsstjórn Færeyja að gert yrði samkomulag milli aðila í samræmi við framangreint og féllst færeyska landsstjórnin á það. Gengið var frá samkomulaginu með bréfi utanrrh. til Pauli Ellefsen lögmanns, dags. 10. mars, og svarbréfi Pauli Ellefsen sama dag. Bréfin eru birt sem fskj. með þessari þáltill.

Í bréfunum er vitnað í niðurstöður viðræðna frá 10. jan. 1979 og er þar m.a. átt við tilkynningarskyldu skipanna og skyldu til að hlíta reglum um lágmarksstærð og friðunarsvæði.

Á fundi í íslensk-norsku fiskveiðinefndinni, sem haldinn var hinn 3. mars í Reykjavík, fór fulltrúi Noregs fram á að aðilar sameinuðust um að beina þeim tilmælum til ríkisstjórna sinna að gerður yrði samningur milli Íslands og Noregs um gagnkvæmar heimildir til veiða á 20 þús. tonnum af kolmunna í efnahagslögsögu Íslands og efnahagslögsögu Noregs á árinu 1982. Samþykkti fulltrúi Íslands að standa að þessum tilmælum að því tilskildu að veiðiheimildir Íslendinga væru innan efnahagslögsögu undan ströndum meginlands Noregs.

Ríkisstjórnir Íslands og Noregs féllust á að gera með sér samning í samræmi við framangreint. Gengið var frá samkomulaginu í bréfi sendiherra Noregs til utanrrh., dags. 23. mars 1982, og svarbréfi utanrrh. sama dag. Bréfin eru birt sem fskj. með þessari þáltill. og þar er að finna sams konar ákvæði og ég gat um áðan varðandi samkomulagið við Færeyjar.

Rétt er að undirstrika það, að veiðar þessar taka aðeins til lögsögu undan ströndum Noregs, eða eins og segir í norska bréfinu, „innenfor Norge fastlands okonomiske sone,“ þ.e. að svæðið við Jan Mayen er alveg utan við þetta.

Því er verr að Íslendingum hefur tekist heldur illa að komast upp á það að veiða kolmunna. En auðvitað verður að vænta þess, að þeir læri þær veiðar eins og aðrir og geti farið að stunda þær í auknum mæli. Með það fyrir augum eru þessir samningar gerðir.

En annað kemur einnig til og það er að ekki er ólíklegt að í framtíðinni verði það svo, að tekin verði upp kvótaskipting á kolmunna, og þá er það atriði sem eflaust hefur mikið að segja, hvað menn hafa veitt af kolmunna áður eða hvaða heimildir menn hafa áður haft til veiða á kolmunna. Það gæti því hugsast og að því er stefnt líka með þessum samningum, að þessar veiðiheimildir gætu orðið grundvöllur undir kvótaskiptingu og skapað þá Íslandi rétt í þessu sambandi.

Nótuskiptin fylgja hér með og eru birt sem fskj. með þáltill.

Ég sé ekki, herra forseti, ástæðu til að fara um þetta fleiri orðum, en legg til að þáltill. verði að þessari umr. lokinni vísað til utanrmn.