31.03.1982
Sameinað þing: 72. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3472 í B-deild Alþingistíðinda. (3010)

243. mál, steinullarverksmiðja í Þorlákshöfn

Stefán Guðmundsson:

Herra forseti. Þetta eru ekki beint skemmtilegar umræður. Ég vil taka það fram til þess að fyrirbyggja misskilning, að ég ætla ekki að fara í einhvern barning og togstreitu um það, hvar er malbikað og hvar er ekki malbikað, hverjir eiga íþróttahús, hverjir eiga ekki íþróttahús, hverjir eiga 50 metra sundlaug og hverjir eiga 12.5 metra laug. Þetta finnst mér allt á heldur lágu plani. En ég skal taka skýrt fram og ætla að lesa það hér upp sem ég sagði áðan í sambandi við stór-Reykjavíkursvæðið. Ég dæmi ekki Suðurlandið inn á stór-Reykjavíkursvæðið. Það sem ég sagði, hv. þm. Garðar Sigurðsson, var þetta: Það eru vandfundin atvinnufyrirtæki í iðnaði sem er rekstrarlega hagstætt að reisa og reka utan stór-Reykjavíkursvæðisins. Hér hefur þó tekist að finna slíkan atvinnukost.

Þetta var það sem ég sagði um stór-Reykjavíkursvæðið. Hins vegar get ég endurtekið — og það er ekki fundið upp hjá okkur, hvorki mér né hv. þm. Ingólfi Guðnasyni — þá atvinnukosti sem Sunnlendingar hafa verið að athuga undanfarin ár. Ég held að menn sem tala hér af vandlætingu og fyrirlitningu, að mér finnst, um stóran og öflugan atvinnukost, sykurverksmiðju í Hveragerði, ættu að setjast niður og ræða við upphafsmanninn að þessu máli, samþingismann þeirra, Þórarin Sigurjónsson, sem á heiður skilið fyrir að hafa í gegnum árin barist fyrir þessum atvinnutækifærum og þessu fyrirtæki og talar oftast nær fyrir daufum eyrum. Svo koma samþingsmenn hans og tala hér af einhverri vandlætingu og hálfgerðri fyrirlitningu um slíkt fyrirtæki. Þetta fyrirtæki er þó töluvert miklu stærra hvað mannafla varðar heldur en steinullarverksmiðjan.

Ég er ekki að finna það upp hjá mér að tala um að hugmyndir séu uppi um að Stálfélagið setji sig niður í Þorlákshöfn. Ég las það í blöðunum í viðtölum við ágætismenn sem þar eiga hagsmuna að gæta. (Gripið fram í: Er ekki byrjað á grunninum annars staðar?) Nei, það er ekki byrjað á grunninum. (Gripið fram í: Það er líka í blöðunum.) Nei, það var ekki í blöðunum. Það, sem stóð í blöðunum, var að það var verið að jafna lóð til þess að þeir gætu fengið að geyma það hráefni sem þeir ætla að vinna. Þeir bíða sjálfsagt eftir aðalfundi til þess að taka frekari ákvarðanir í þessu máli.

Menn tala hér af fyllstu vandlætingu um ylræktarver, þm. þessa kjördæmis. Mér er sem ég sæi kjósendur okkar á Norðurlandi vestra ef við töluðum svona um þá möguleika sem væru e.t.v. að skapast í atvinnumálum. Ég skil þetta ekki. Ég þekki sem betur fer margt ágætisfólk á Suðurlandi og vil una því alls hins besta. En í þessu máli fór svo með þennan atvinnukost, að iðnrh. leggur til að sú verksmiðja, sem um er talað, verði reist á Sauðárkróki vegna þess að það er talinn hagkvæmari kostur. (GS: Hvar kemur það fram?) Það kemur fram í niðurstöðum nákvæmlega og ég þarf ekki að fara að lesa það upp. Það kom fram í ágætri og greinargóðri ræðu iðnrh. sjálfs áðan þegar hann fór yfir þau gögn og þær niðurstöður sem nefndin skilaði af sér. Það fer ekkert á milli mála og það hljóta menn að geta lesið ef þeir vilja lesa rétt. Það eru niðurstöður þeirrar nefndar sem um þetta mál fjallaði.

Menn hafa verið að tala um það, hverjir hafi átt upptökin í sambandi við verksmiðjuna. Ég ætla ekki að fara að metast um það, hverjir byrjuðu á þessu, og hef ekki aðstöðu til að fara í gamlar fundargerðabækur til þess að lesa mér til um það. En staðreyndin í málinu er þessi, að Steinullarfélagið á Sauðárkróki byrjaði að fást við byggingu á stórri verksmiðju. Það hefur komið hér fram, það er staðreynd og það veit ég að menn vita. En að mjög vel athuguðu máli sannfærðumst við um að það var óhagkvæmur kostur. Sunnlendingar héldu hins vegar áfram og börðust hart um og töldu að það væri eini kosturinn sem arðbær væri og vit væri að fara í. En svo þegar í ljós kemur að það er ekki, hvað skeður þá? Menn segja að við norðanmenn höfum tekið einhverjar hugmyndir frá Sunnlendingum. Nei, þá eru það Sunnlendingar sem svissa yfir og fara yfir í að reisa litla verksmiðju. (Gripið fram í.) Hvað með franska fyrirtækið? Ég skal svara fyrrv. ráðh. um franska fyrirtækið.

Steinullarfélagið á Sauðárkróki ræddi frá upphafi vega, eða fulltrúar þess, við þessa aðila, bæði Elkem og Jungers, og þeir ræddu við fleiri en þá. Þeir ræddu a.m.k. við sex aðra aðila í þessari grein til þess að kynna sér málið sem best. Síðan kom þessi kostur til skoðunar, þetta franska fyrirtæki St. Gobain, sem menn eru að tala hér um að sé bara eitthvert rugl út í loftið. Það er ekkert rugl út í loftið. (Gripið fram í.) Það er fyrirtæki fyrir því. Og ég vil bæta því við í sambandi við þetta mál, að það er fásinna að halda að það sé undirbúningsfélags að steinullarverksmiðju á Sauðárkróki eða Jarðefnaiðnaðar hf. á Suðurlandi að taka ákvörðun um þann vélakost sem velja á í fyrirtækið. Það er fráleitt. Það á fyrirtæki að gera sem er löglega til stofnað. Það er löglega kjörin stjórn þess fyrirtækis sem á að velja þann búnað sem í fyrirtækið fer, en ekki eitthvert undirbúningsfélag, hvort sem það er staðsett á Sauðárkróki eða í Þorlákshöfn.